8.11.03

Þarf að hanga í vinnunni í dag. Skjaladagur á neðri hæðinni og Dísa bað mig að lesa upp einhverja vitleysu og við Rannveig ákváðum að hafa opið á okkar hæð líka. Svosem alltílagi. (Reyndar koma örugglega færri en enginn...)
Bara verst að mig langar eiginlega miklu meira að vera heima að prjóna og/eða lesa Harry Potter 5 í annað skipti. Ef ég væri heima ætti ég hinsvegar að vera að lesa yfir greinar í Gletting og/eða skrifa ritgerð. Því nenni ég allsalls ekki.

Er semsagt þungt haldin af kvíðaröskun (leti) og þarf nauðsynlega að "gera eitthvað fyrir sjálfa mig" *lesist í yfirdrifið tilgerðarlegum Fólkmeðsirrý tón* (semsagt gera ekkert)

Þegar ég verð stór ætla ég aldrei að:
- gera neitt sem mér þykir leiðinlegt.
- taka ábyrgð á neinu
- vera neitt eða í einu sem inniheldur orðhlutann "stjór" (sbr. ritstjóri, sýningarstjóri eða í stjórn neins)

Fara annars ekki alveg að koma jól? Eftir á að hyggja, ég væri til í að vera jólastjóri. Myndi hafa þau svona þrisvar á ári.

7.11.03

Kominn föstudagur og allt.
Búin að ryðja umfjöllun um eina málverkasýningu í útvarpið og er að reyna að komast að því hvernig mál standa með frumsýnningu á Fáskrúðsfirði. Henni er haldið svo vandlega leyndri að ég þarf líklega að reyna að hringja í leikstjórann til að komast að því hvort það er frumsýning um helgina eður ei. Annars eru víst einhver flóð og skriðuföll á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar þannig að spurning hvort lífi og limum er hættandi fyrir menninguna

Annars, helgin fer trúlega í að vinna Gletting og reyna að komast eitthvað í ritgerðina. Næsta sýning á Gaukshreiðrinu er á sunnudaginn. Þar á bæ gengur allt þokkalega, um 50 manns á sýningu í gærkvöldi og menn fleygðu sér fram af sviðinu af tómri leikgleði. Sótt hefur verið um að koma til greina sem áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins, hvað sem hver segir.

Vil hvetja alla sem tök hafa á að heimsækja Leikfélag Hafnarfjarðar um helgina, þar á að sýna slatta af örleikritum, m.a. eitt eftir Jón Guðmundsson, súrrealískan penna frá Hallormsstað. Er sjálf fullkomlega miður mín að missa af þessu. Það þyrfti að minnka Ísland þannig að allt sé í þægilegu ökufæri. Nú missi ég t.d. trúlega af öllu sem verður um að vera á suðvestur horninu fram að áramótum, vegna vegalengda og okurs Flugfélags Íslands. Hmpfh. Gat maður ekki aulast til að búa eitthvað aðeins nær? Á Akranesi, t.d.?

5.11.03

Best að blogga smá, svona fyrst internetið vill tala við mig.
Aldrei hélt ég að ég mundi lenda svo rækilega aftur á steinöld að ég þyrfti að búa við innhringimódem bæði heima hjá mér og í vinnunni, og þurfa þar að auki stanslaust að deila tölvunum með öðru fólki. Svo er allt draslið búið að vera þrælóþægt síðan um helgi, ég er með þá kenningu að það hafi orðið ófært á internetinu vegna veðurs.

Allavega, það lítur ekki út fyrir að Leikfélag Fljótsdalshéraðs fái "nema" um 300 manns á Gaukshreiðrið. Fólki í voru félagi finnst það fyrir neðan allar hellur að ekki skuli nema 10% íbúa á stór-Eiðaþinghár svæðinu hafa sama áhugamál og við og vera til í að borga 2000 kall til að sjá það.
Þessar aðsóknartölur jafngilda þó því að fá um 15.000 manns á sýningu á höfuðborgarsvæðinu, og ég held það myndu nú ekki margir kvarta yfir því.

Svo heyrði ég nýja samsæriskenningu um samkeppnina um áhugaverðustu áhugaleiksýningu ársins. Við ætlum sumsé að sækja um en þegar við vorum að ræða það heyrðist einhver segja fýlulega úti í horni: "Það yrði þá í fyrsta skipti sem einhver ynni með DRAMATÍSKT verk..." Menn ætla sem sagt ekkert að þreytast á samsæris- og flokkadráttakenningum um þessa keppni, þó svo að höfuðborgar/landsbyggðar krísan virðist vera af baki dottin.
Svo sagði annar: "Þýðir eitthvað að sækja um? VIÐ vinnum hvortsemer aldrei..." Eins og það sé skýlaust merki um það að valnefd Þjóðleikhússins hafi eitthvað persónulega á móti Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Að sama skapu hef ég heyrt "Það hlýtur nú bara að fara að KOMA AÐ okkur..."

Ef þessi heiður ætti að skiptast jafnt á milli félaga þá væri þetta ekki keppni um áhugaverðustu áhugaleiksýningu ÁRSINS. Mér finnst nefndin hafa staðið sig vel í að velja nákvæmilega þannig. Ef þeim finnst Freyvangur vera með áhugaverðustu sýninguna tvö ár í röð, þá vinnur hann tvö ár í röð. Ef sömu félögin eru nefnd meðal þeirra sem koma sterklega til greina mörg ár í röð þá er það bara þannig. Það sama á við um tegundir sýninga, ef svo vill til að dramatískar sýningar hafa ekki unnið undanfarin 7-8 ár þá er það bara svoleiðis. Mér þykja þessar samsæriskenningar ýkt hallærislegar, og er nokkuð viss um að ef valnefndin hefði heyrt þær allar þá væri Þjóðleikhúsið hætt að standa í þessu.

Jæja, þá er ég búin að ausa úr mér. Ætla að reyna að skrönglast á Seyðisfjörð og sjá myndlistarsýningu seinnipartinn, til að gagnrýnast um í þessari viku, skilst reyndar að það sé fljúgandi hálka á heiðinni. Ætla að reyna að fara á Fáskrúðsfjörð um helgina að sjá einþáttungasýningu hjá Veru, í sama tilgangi. Á síðan von á 30 stykkjum af 6 ára brjálæðingum hingað á safnið á hverri stundu. Gaman að því.