15.11.08

!

Skrópaði í mótmælin (einu sinni enn) og skutlaðist þess í stað í Bókhlöðuna til að klára að gera leiðréttingalistann í Glettinginn. Og kláraði dæmið á klukkutíma. Er búin að senda hann! Það þýðir að blaðið er alllllveg að koma út!

Get vart hamið hamingju mína!

Fór annars í afmæli til hans Gumma Erlinx í gær. Hann bauð upp á bjór. Sem maður varð fullur af. Svo fóru menn að ræða efnahagsástandið og þá fékk ég nú bara í magann og þurfti að fara heim. Held ég sé komin með ofnæmi fyrir efnahagsástandinu.

Mar gæti svo sem skroppið ofan á Austurvöll og hent nokkrum eggjum.
Verst hvað þau eru dýr.

14.11.08

Ýmislegt sem mig langar meira

að gera í dag heldur en að lesa Maríu Stúart og klára að gera leiðréttingalista úr próförk Glettinx:

1. Vera á gólfinu að leika við Hraðbát og fylgjast með aðdáun með öllu sem hann er að læra þessa dagana.

2. Taka geðveikt vel til.

3. Skipta um föt og fara í eitthvað fagurt sem mjókkar mig og er hvorki með hori, gubbi, slefi né subbi í áður en ég fer í skólann.

4. Hanga á Fésbókinni og njósna um alla 267 Fésbókarvini mína.

5. Hanga á veraldarvefnum og lesa allskonar vitleysu sem allir eru að skrifa um ástandið, og annað.

6. Skipuleggja ferðir í leikhús og á aðra mannfagnaði mánuð fram í tímann.

7. Leyfa Hraðbát að skrifa á tölvuna: uifue8udiliokllkklllllllrol.g

8. Fara og spóka mig í Kringlunni og kaupa loxins afmælisgjöf handa Rannsóknarskipinu.

9. Leggja mig með Hraðbátnum svo ég verði í stuði í afmælinu í kvöld.

10. Skrifa lista yfir allt sem mig langar meira að gera í dag heldur en að lesa Maríu Stúart og klára að gera leiðréttingalista úr próförk Glettinx.


Vott ðe fokk?

Ég held ég geri eins og konan og hætti að pæla í þessum bankamálum og bíða eftir úttektinni sem kemur út 2025. Eða bíði jafnvel lengur og horfi bara á heimildamyndina. Einhver er örugglega að ljúga. Kannski allir. En þar sem þrautseigja einbeitingar minnar endist ekki mikið lengur en 40 mínúntna sjónvarpsþátt, eins og annarra af kynslóð X, þeirri sem setti þjóðina á hausinn, er ég alveg að missa áhugann.
Enda berast nú fréttir af ógeðslegu stríði í Kongó, sem snýst um demanta og að Ísraelar séu að svelta alla íbúa Gaza-borgar með því að hleypa hvorki vistum né olíu inn í borgina. Ég nenni ekki að væla yfir verðbólgu og gjaldþrotum þegar svona fréttir heyrast utan út heimi. Við meikum það einhvern veginn út úr þessari kreppu og hún fer aldrei ver en illa. Miðað við meirihluta heimsbyggðar eigum við ekki rassgat bágt.

Talaði við ömmu mína á Vestfjörðunum í gærkveldi. Við spekúleruðum í ferðum foreldra minna. Þau eru einhversstaðar í Víetnam. Þeirri gömlu þótti líklegt að þau fengju ekkert nema froskarassgöt að éta.

Annars er Svarfaðardalurinn í flutningi Karlakórs Dalvíkur í Óskastundinni hennar Gerðar G. í útvarpinu og þá er nú bara allt í lagi.

13.11.08

Framtíðarlandið

Það er svo margt að lesa þessa dagana.

Nei er tvímælalaust dagblað kreppunnar. Talar tæpitungulaust um ástandið.

Ljóðið sem Halla fór með á borgarafundinum síðasta laugardag er dásamlegt.
Og borgarafundirnir eiga líka sitt heimili á veraldarvefnum.

Doktor Gunni er skyldulesning.

Baggalútur fer óvenjumikið á kostum.

Litli bróðir er líka mjög spakur og reynir að útskýra hagkerfið og ruglið á mannamáli.

Í dag þegar ég var að labba löngu leiðina upp á Hrafnistu og var að horfa á hálfbyggðu turnana og Kaupþingshöllina á leiðinni fór ég að raula dáldið. Legg til að menn prófi að smakka á textanum við Maístjörnuna. Jafnvel Nallanum. Báðir hafa þessir kveðskepir verið lengi lummó en nú er allt í einu af þeim allt annað bragð.

Skal þó ekki fara að predika mikinn um kommúnismann... alveg strax.



Útivist og þvergirðingsbjánar

Ekkert heyrist nú frá geðbólgufræðingum. Sennilega er maður mjög heppinn ef maður kemst að fyrir jól í þessu árferði. Holl hreyfing og útivist er hins vegar að gera sitt gagn í baráttunni. Og einmitt best að hafa bara nógu andskoti mikið af henni. Þrátt fyrir nepju og norðangarra. Í fyrradag ferðuðumst við Hraðbátur barnavagnandi alla leið upp á Bandalagið. Í gær fórum við í búð út á granda og svo fór ég með Freigátuna á langþráð sundnámskeið í fyrsta sinn eftir veikindi.
Í dag ætlum við Hraðbátur að leggja land undir barnavagnshjól og ganga alla leið á Hrafnistu í Reykjavík þar sem ungbarnasund skal stundað, í fyrsta sinn eftir eyrnabólgu.

Já, það er víst mikilvægast að taka sér tíma í að fara út og hreyfa sig. Það verður þá bara að hafa það þótt inniverkefnin bíði á meðan. Annars er ég komin á bls. 34 í próförkinni af hinum illræmda Glettingi (af 52) og búin að sinna því sem þurfti algjörrar endurhönnunar við. Aukinheldur búin að rífa stólpakjaft við formann félagsins og höfund burðargreinanna í blaðinu mínu þar sem þeir eru eina fólkið sem hefur verið iðið við að vera til hreinna og helberra vandræða í samstarfi. Er að öðru leyti fyrirmunað að vera sammála hvor öðrum. Auðvitað hefði ég átt að vera búin að skamma þá og skella hurðum fyrir löngu. Það er nú bara einhvern veginn þannig að gamlir kallar þurfa að ganga skratti langt til að ég hætti að bera virðingu fyrir þeim. En á síðustu metrunum er ég búin að missa þolinmæðina og segja báðum tveimur nokkuð til syndanna. Urðu þeir nokkuð klumsa og hvumsa og bera stórum meiri virðingu fyrir mér eftir og ég huxa að þeir eigi meiraðsegja eftir að brúka mannasiðina, bara. 
Spes hvernig svona gamlir austfirskir þvergirðingsbjánar virka. Ég er greinilega komin úr þjálfun að fást við þá. Líklega búin að vera of lengi í siðmenningunni.

Og þó...

Hugsunarhátturinn: "Ég hef rétt fyrir mér þó alheimurinn sé á öðru máli" virðist vera óskaplega mikið í gangi hjá íslenskum stjórnvöldum þessa dagana. Alheimurinn og þjóðin er ósammála, en stjórnvöld hins gjaldþrota Íslands þykjast samt hafa rétt fyrir sér um alla hluti og segja sig bara frá dómstólum sem voga sér að halda öðru fram. Ekki vissi ég að Geir H. Haarde og félagar ættu svona þvergirðingsbjánaskap til. Ætli þeir séu ættaðir að austan?

Svo bíður mín líka hið bráðskemmtilega verkefni að lesa Maríu Stúart eftir Schiller fyrir morgundaginn. Úff. Hef grun um að allar kúkableyjur dagsins verði meira spennandi...

12.11.08

Geðbil

Hunzkaðist lox til læknis í gær. Verð verri á geðinu með hverri vikunni. Helvítis góðærið. Ég kenni manneklu á leikskólum um að eyðileggja fínu fyrirbyggjandi aðgerðirnar sem ég var búin að skipuleggja í haust. Lifi kreppan. Þá er bara reyna að koma sér aftur í lag.

Núna þarf ég helst að vera búin að öllum verkum og verkefnum áður en ég byrja á þeim. Og gera þau fullkomlega. Annars er ég algjörlega misheppnuð sem einstaklingur. Sem ég er hvort sem er vegna þess að allt sem ég geri, seint og illa, er glatað. En þetta er auðvitað kolvitlaus raunveruleikaskynjun. Ég er að standa mig hreint ágætlega í öllu sem ég er að gera, svona í alvörunni. Enda hef ég, undir venjulegum kringumstæðum, gaman af því langflestu. Því fúlla að vera ekki að njóta þess almennilega. 

Læknirinn ætlar að redda mér viðtölum einhversstaðar. Reyndar örugglega brjálað að gera hjá sálfræðingum við að tala við fólk með Kreppu. Sá sem hittir á mig verður heppinn að fá tilbreytinguna að tala við einhvern sem er enn með Góðæri. Læknirinn sagði líka að ég væri duglegur þunglyndissjúklingur. Vel meðvituð um sjúkdóminn sem skipti miklu máli upp á líðan og bata.

Það er reyndar frekar fyndið en það er einmitt eitt af sjúkdómseinkennum mínum. Ég lext nefnilega ekki í rúmið í mínu þunglyndi. Allavega ekki lengur. Þvert á móti fæ ég endalausa þörf fyrir að leysa allt algjörlega fullkomlega í lífinu. Og ef ég þarf að vera þunglyndissjúklingur þá þarf ég líka að vera Hinn Fullkomni Sjúklingur. Full af meðvitund og baráttuanda. Alltaf að hreyfa mig og vera úti. Fresta aldrei neinu og held öllu í jafnvel fullkomnara lagi en venjulega. Breytir ekki því að allt þarf að vera eins og ég ákveð, annars Ferst Heimurinn!

Og djöfull er maður nú leiðinlegur þegar maður lætur svona. Vona að læknirinn finni fljótt fyrir mig fræðing. Þá get ég farið að athuga hvort stýrð hugarleikfimi dugar í þetta skipti eða hvort ég þarf kannski pillur.

11.11.08

Stórasta? Litlasta?

Unglingurinn minn er ánægður með að eldast. Með hverju árinu slaknar aðeins á reglunum. Um daginn fóru hann og vinir hans aaaaaleinir á frumsýningu á James Bond mynd. (Reyndar bara á hálfsex sýningu með ströngum fyrirmælum um að koma beint heim á eftir, en samt mikið sport.)
Já, hann er orðinn heilmikið stór og er hamingjusamur og upp með sér yfir því. Oftast.

Um daginn var reyndar matur sem honum líkaði ekki. Honum var nú tjáð að fullorðið fólk þyrfti alltaf að borða það sem væri í matinn. Heyrðist þá hljóð úr horni með dramatískum tilþrifum: "Já, en ég er BARN!" Það þótti nú óknittinu henni fósturmóður hans einkar fyndið.

Svona finnst mér líka Íslenskir ráðamenn tala svolítið núna. Áður en hún Dorritt fann upp langefstastigið og kallaði Ísland stórasta land í heimi voru menn búnir að haga sér einmitt þannig. Allir tilbúnir í að kenna Dönum að versla og Bretum að banka. Þeir sem töluðu um hringamyndun og ofvöxt voru nú bara plebbar. Og litlir fyrir stórasta land í heimi.

En núna, þegar búið að er að skíta á sig og leita þarf ásjár annarra landa erum við allt í einu lítið land. Smáþjóð. Lítilmagnaður litli bróðir og stóru þjóðirnar (sem við reyndar rændum) eru fantar og hrekkjusvín að vilja ekki lána okkur ennþá meiri peninga alveg án þess að við ætlum neitt að reyna að borga þeim aftur það sem við skuldum.

Í fréttunum í gær sagði forsætisráðherra, með tárin í augunum, að hann tryði því ekki að Bretar og Hollendingar ætluðu að fara svona með "litla þjóð."

Ég get ekki að því gert. Í hvert skipti sem menn byrja á litluþjóðarvælinu skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur og hrunið í heild sinni vera gott á okkur eftir stórasta hrokakast í heimi.

10.11.08

Eins og ekkert c...

Ég fer að halda að hraðbátur sé búinn að vera lengur með í eyrunum en mig grunaði. Hann hefur um nokkurt skeið verið óttalega svefntruflaður þó hann sé þessi rólegheitadrengur að öðru leyti. Í nótt svaf hann síðan nonnstopp í einhverja 10 tíma. Rumskaði aðeins einu sinni við að vera á hvolfi en hann er með hátt undir höfðalaginu út af eyrnabólgunni og var því kominn með hausinn alvarlega niður brekku. Eftir þennan svakalega nætursvefn hélt ég að hann myndi nú ekki sofa mikið í dag. En hann svaf einnoghálfan tíma fyrir hádegi og virðist ætla að sofa annað eins nú síðdegis. Ég er sumsé búin að endurheimta litla sofandabarnið mitt. Frekar skemmtilegt.

Er líka að leggja lokahönd á lokapróförk af Glettingnum.
Erfitt að nenna að einbeita sér að einhverju jafn hundhrútleiðinlegu og leiðréttingalista þegar maður sér í ritgerð um tragískar hetjur alveg rétt hinumegin við hornið. Djuss bókmenntafræðingur er maður nú orðinn... og hefur gaman af því!

9.11.08

Á niðurleið

Og áður en karl faðir minn yfirgaf skerið lét hann mömmu eyða öllu íslensku lausafé sem hún átti. Hann var nefnilega ekkert viss um að enn yrði sami gjaldmiðill þegar þau kæmu til baka. Þangað til í dag hélt ég að hlutirnir myndu nú ekki gerast svo hratt.

Í Silfrinu í dag komst ég síðan að því að það er hægt að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Og að allar þessari grilljónir sem við erum að fá lánaðar hjá Útlöndum eru til þess að bjarga gengi krónunnar frá því að hrapa restina af leiðinni til helvítis, sem verður líklegra með hverjum deginum að hún geri hvort sem er. Og þá eigum við gjaldmiðil sem gæti farið í gengi eins og... tja... 5000 kall evran OG 6 milljarða Bandaríkjadala í skuld við hina og þessa, ónýtt þjóðarmannorð og alls enga leið út úr neinu.

Meðan Rannsóknarskip og Hraðbátur voru á læknavaktinni í gær gengum við Freigátan um búðina Pier. Hún er riiiiisastór og full af allskyns blínblíng. Freigátan skemmti sér hið besta við að klappa öllum fílum og gíröffum sem hún sá. Í þessari búð eru til fílar og gíraffar til að fullnægja þörfum allra heimila á Vestfjörðum og í Vestur-Húnavatnssýslu. Spurningin er bara, hve mörg heimili á Íslandi telja sig bráðvanta fíla og gíraffa.

Eru þetta kannski vörurnar sem okkur vantar svo ógurlega að við þurfum að taka 6 milljarða Bandaríkjadala lán til að geta haldið áfram að flytja þær inn? Hversu mikið ætli við gætum sparað á því að skera innflutning niður við trog og finna fólkinu sem vinnur við að selja hvert öðru óþarfa eitthvað þarflegra að gera?

Eða er þetta lán einungis og eingöngu til þess að við getum haldið áfram að spila rússneska rússíbanarúllettu með íslensku krónunni? Nú er talað um að kreppan sem Ísland er að lenda í sé verri en sú sem var í Finnlandi. Þar sultu börn alveg heilmikið. Ég get ekki af því gert að ég hef minnstar áhyggjur af því hvort ég get horft áfram á ókeypis sjónvarpsstöð. Eða einhverja sjónvarpsstöð. Eða haft aðgengi að búð sem ég get keypt gíraffastyttu á hæð við tveggja ára barn.

Varríus startaði trendi um að menn játuðu góðærissyndir sínir. Ég drýgði reyndar bara eina en hún er nokkuð stór. Við fjárfestum í íbúð þegar við misstum leiguíbúð 1 fyrir akkúrat tveimur árum síðan. Við hefðu getað (og í ljósi nýjust frétta, hefðum átt) að leigja lengur og safna í útborgun til að sleppa með minna lán. Ef við værum enn í leiguhúsnæði værum við á grænni grein. Hélt ég þangað til í dag.

Fyrir um hálfum mánuði dreymdi mig að við værum á ís. Þar sem ég var, var ísinn ennþá svartur. En einhversstaðar hinumegin var hann farinn að bráðna og komið var í ljós að eldgígur var undir öllu saman. Mín megin var fólk að vonast til að sleppa. En innst inni vissu allir að allur ísinn myndi bráðna og allir myndu hrapa niður í glóandi hraunið. Ég held ekki lengur að neinn sleppi. Ég er skíthrædd við hvað gerist þegar menn kasta krónunni aftur á flot. Og vona að Bretar og Hollendingar haldi áfram að standa sig í því að koma í veg fyrir að við fáum helvítis IMF lánið. Ef hrunið mikla ætti að kenna okkur eitthvað er það að lántökur leysa engan vanda. 

Jón Baldvin kemst skemmtilega að orði þessa dagana. Kallar Sjálfstæðismennina í forsvari "offitusjúklinga" og "merarhjörtu". Skemmtilegt. Sérstaklega þar sem hann kom þeim offitusjúklingum og merarhjörtum til valda með einhverju fylleríissamkomulagi úti í Viðey árið 1991 eftir frægan kosningasigur í sitjandi þriggjaflokkastjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki. Spurning hvað gæti gerst ef hægt væri að brúka Dallas-leið Baggalútsmanna og "vakna" árið 1991 þegar Steingrímur Hermannsson er enn forsætisráðherra. Og kippa Jóni Bala úr umferð.

Yngri Bjólfurinn vildi meina að bruðl almúgans ætti jafnmikla sök á kreppunni og hann sjálfur. Munurinn er bara sá að Bjólfarnir og hinir víkingarnir eru ekki gjaldþrota. Verða ekki gjaldþrota. Eru búnir að hreinsa upp allar sínar skuldir með einum eða öðrum hætti. Munurinn á almúganum sem fengu lánaða  lúftpeninga og toppunum sem stálu alvörupeningunum er alveg skýr. Bjólfarnir, Bónusarnir og allir hinir eru ekki að fara að svelta. Þeir eru með alla milljarðana þjófstolnu einhversstaðar í útlöndum og geta haldið áfram á sínu offitufylleríi. Og þeir skila þeim ALDREI! (Enda var eitthvað af þeim stolið frá Rússlandi, Hollandi og Bretlandi til að byrja með.) 

Ég er að byrja að sjá að maður hefði betur skuldsett sig rækilega í "góðærinu." Notið lúftpeninganna á meðan blekkingarinnar um þá naut við. Líklega erum við öll að fara að éta saman það sem úti frýs. Allt venjulegt fólk er að fara að gjalda fyrir góðærissyndir sínar margfalt og óaflátanlega. Og svo þurfum við að borga einkaþotur Bjólfanna, snekkjur Jónásgeiranna og alla hina peningana sem eru farnir í vitleysu og til útlanda.

Erum við öll á sama báti? Nei. Björgunarbátarnir eru farnir og þeir sem sigldu á ísjakann sitja í þeim. Einn í hverjum. Þeir vilja hafa pláss fyrir ístrurnar og góssið. Og þjóðarskútan sekkur, farið að flæða yfir afturdekkið og rafmagnið er alveg að fara.