Og áður en karl faðir minn yfirgaf skerið lét hann mömmu eyða öllu íslensku lausafé sem hún átti. Hann var nefnilega ekkert viss um að enn yrði sami gjaldmiðill þegar þau kæmu til baka. Þangað til í dag hélt ég að hlutirnir myndu nú ekki gerast svo hratt.
Í Silfrinu í dag komst ég síðan að því að það er hægt að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Og að allar þessari grilljónir sem við erum að fá lánaðar hjá Útlöndum eru til þess að bjarga gengi krónunnar frá því að hrapa restina af leiðinni til helvítis, sem verður líklegra með hverjum deginum að hún geri hvort sem er. Og þá eigum við gjaldmiðil sem gæti farið í gengi eins og... tja... 5000 kall evran OG 6 milljarða Bandaríkjadala í skuld við hina og þessa, ónýtt þjóðarmannorð og alls enga leið út úr neinu.
Meðan Rannsóknarskip og Hraðbátur voru á læknavaktinni í gær gengum við Freigátan um búðina Pier. Hún er riiiiisastór og full af allskyns blínblíng. Freigátan skemmti sér hið besta við að klappa öllum fílum og gíröffum sem hún sá. Í þessari búð eru til fílar og gíraffar til að fullnægja þörfum allra heimila á Vestfjörðum og í Vestur-Húnavatnssýslu. Spurningin er bara, hve mörg heimili á Íslandi telja sig bráðvanta fíla og gíraffa.
Eru þetta kannski vörurnar sem okkur vantar svo ógurlega að við þurfum að taka 6 milljarða Bandaríkjadala lán til að geta haldið áfram að flytja þær inn? Hversu mikið ætli við gætum sparað á því að skera innflutning niður við trog og finna fólkinu sem vinnur við að selja hvert öðru óþarfa eitthvað þarflegra að gera?
Eða er þetta lán einungis og eingöngu til þess að við getum haldið áfram að spila rússneska rússíbanarúllettu með íslensku krónunni? Nú er talað um að kreppan sem Ísland er að lenda í sé verri en sú sem var í Finnlandi. Þar sultu börn alveg heilmikið. Ég get ekki af því gert að ég hef minnstar áhyggjur af því hvort ég get horft áfram á ókeypis sjónvarpsstöð. Eða einhverja sjónvarpsstöð. Eða haft aðgengi að búð sem ég get keypt gíraffastyttu á hæð við tveggja ára barn.
Varríus startaði trendi um að menn játuðu góðærissyndir sínir. Ég drýgði reyndar bara eina en hún er nokkuð stór. Við fjárfestum í íbúð þegar við misstum leiguíbúð 1 fyrir akkúrat tveimur árum síðan. Við hefðu getað (og í ljósi nýjust frétta, hefðum átt) að leigja lengur og safna í útborgun til að sleppa með minna lán. Ef við værum enn í leiguhúsnæði værum við á grænni grein. Hélt ég þangað til í dag.
Fyrir um hálfum mánuði dreymdi mig að við værum á ís. Þar sem ég var, var ísinn ennþá svartur. En einhversstaðar hinumegin var hann farinn að bráðna og komið var í ljós að eldgígur var undir öllu saman. Mín megin var fólk að vonast til að sleppa. En innst inni vissu allir að allur ísinn myndi bráðna og allir myndu hrapa niður í glóandi hraunið. Ég held ekki lengur að neinn sleppi. Ég er skíthrædd við hvað gerist þegar menn kasta krónunni aftur á flot. Og vona að Bretar og Hollendingar haldi áfram að standa sig í því að koma í veg fyrir að við fáum helvítis IMF lánið. Ef hrunið mikla ætti að kenna okkur eitthvað er það að lántökur leysa engan vanda.
Jón Baldvin kemst skemmtilega að orði þessa dagana. Kallar Sjálfstæðismennina í forsvari "offitusjúklinga" og "merarhjörtu". Skemmtilegt. Sérstaklega þar sem hann kom þeim offitusjúklingum og merarhjörtum til valda með einhverju fylleríissamkomulagi úti í Viðey árið 1991 eftir frægan kosningasigur í sitjandi þriggjaflokkastjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki. Spurning hvað gæti gerst ef hægt væri að brúka Dallas-leið Baggalútsmanna og "vakna" árið 1991 þegar Steingrímur Hermannsson er enn forsætisráðherra. Og kippa Jóni Bala úr umferð.
Yngri Bjólfurinn vildi meina að bruðl almúgans ætti jafnmikla sök á kreppunni og hann sjálfur. Munurinn er bara sá að Bjólfarnir og hinir víkingarnir eru ekki gjaldþrota. Verða ekki gjaldþrota. Eru búnir að hreinsa upp allar sínar skuldir með einum eða öðrum hætti. Munurinn á almúganum sem fengu lánaða lúftpeninga og toppunum sem stálu alvörupeningunum er alveg skýr. Bjólfarnir, Bónusarnir og allir hinir eru ekki að fara að svelta. Þeir eru með alla milljarðana þjófstolnu einhversstaðar í útlöndum og geta haldið áfram á sínu offitufylleríi. Og þeir skila þeim ALDREI! (Enda var eitthvað af þeim stolið frá Rússlandi, Hollandi og Bretlandi til að byrja með.)
Ég er að byrja að sjá að maður hefði betur skuldsett sig rækilega í "góðærinu." Notið lúftpeninganna á meðan blekkingarinnar um þá naut við. Líklega erum við öll að fara að éta saman það sem úti frýs. Allt venjulegt fólk er að fara að gjalda fyrir góðærissyndir sínar margfalt og óaflátanlega. Og svo þurfum við að borga einkaþotur Bjólfanna, snekkjur Jónásgeiranna og alla hina peningana sem eru farnir í vitleysu og til útlanda.
Erum við öll á sama báti? Nei. Björgunarbátarnir eru farnir og þeir sem sigldu á ísjakann sitja í þeim. Einn í hverjum. Þeir vilja hafa pláss fyrir ístrurnar og góssið. Og þjóðarskútan sekkur, farið að flæða yfir afturdekkið og rafmagnið er alveg að fara.