3.6.05

Annars getur líka verið

að heimurinn sé bara hreinlega að farast. Það virðast allir stressaðir í dag. Menn spítast hér inn og út á ljóshraða og vantar undarlegustu hluti STRAX. Ég er til dæmis búin að vera að velta fyrir mér hvaða huxanlega röð atburða geti legið til þess að menn vanti allt í einu handrit að Sköllóttu söngkonunni, innan 10 mínútna...

Þetta þykir mér óneitanlega bera merki þess að heimsendir verði um helgina. Huxanlega bara eftir hádegi.

Góða skemmtun.

Pirrrrr...

Það er gjörsamlega óþolandi þegar allt er einhvern veginn öðruvísi en það ætti að vera. Ókunnugt fólk þvælist fyrir manni í vinnunni, ekkert gerist nógu hratt eða rétt fyrir manns smekk, sérstaklega ekki það sem mar ætlar að gera sjálfur, og ef mann vantar eitthvað þá er það einhvers staðar langt í burtu úti á Seltjarnarnesi og.... grrrr...

Já, sennilega er langur göngutúr út á Seltjarnarnes alls ekki úr vegi, til að gá hvort geðvonskan er til í að fjúka aðeins.

Tekið skal fram að þetta er ástæðulaust pirr, en samt sem áður er ákveðin sprengiætta á ferðum sökum minnar genetísku geðvonsku þessa dagana. Mæli ég með því að menn stigi varlega til jarðar nálægt mér nú um stundir, reyni jafnvel að forðast að þurfa að stíga nálægt mér yfirhöfuð.

1.6.05

JÚNÍÍÍÍÍ!

Og tölvan mín í vinnunni föst í einhverju þróunarstarfi og endurhæfingu og því lítið um blogg í gær.

Og vitiði hvað? Það eru engin bárujárnshús við Bergþórugötu. Reynar er eitt og eitt nýlega bárujárnsklætt hús, en ég leyfi mér að stórefast um að það hafi verið það þegar utanríkisráðherra þykist hafa verið að bera inn fyrstu mubblurnar sínar, eins og segir í laginu. Hins vegar eru bárujárnshjallar hver um annan þveran við Njálsgötuna. En:

Í bárujárnshús við Njahahálsgötuna...

Stuðlar engan veginn.

Því þykir mér sýnt að þarna hafi nú utanríkisráðherra hagrætt sannleikanum örlítið. Þó finnst mér bragfræði náttúrulega vera ein besta ástæða sem maður getur fundið fyrir því að kríta örlítið liðugt.

Þetta var vangavelta daxins um ósannsögli ráðamanna...

30.5.05

Borg Óttans

Það er svo skrítið hvernig maður teygist og togast.

Ég fæ oft Austurlöngun. Langar heim í Egilsstaði, borða kleinur hjá mömmu minni, heimsækja ömmu mína og fleiri kellingar, fara í kuffélagið, á bókasafnið, Seyðisfjörð, og bara allskonar.

Svo les ég blogg systur minnar þar sem hún bölsótast yfir því að vera þar og vill komast aftur í bæinn. Ég öfunda hana stundum pínu að vera fyrir austan, í aðra röndina, en skil hana alveg, í hina.

En ég fæ mjög reglulega austþrá og fannst mjög ljómandi að búa þar um árið. Hafði reyndar hálfgerðar áhyggjur af því að ég hefði það allt of gott hjá foreldrum mínum við ýmsa þjónustu og viðurgjörning hinn mesta og myndi enda á því að búa í foreldrahúsum til æviloka, þeim til ama og leiðinda.

Stundum fannst mér samt ég vera alveg að drukkna. Ekki úr menningarleysi eða vöntun á félaxskap. Þvert á móti úr ofgnótt viðburða sem maður kunni ekki við að skrópa á sökum smæðar hins menningarlega samfélax. Og svo líka úr skoðunum. Á Egilsstöðum fæ ég gífurlega pólitískar tilhneygingar og er yfirleitt alveg að farast úr skoðunum á öllum sköpuðum hlutum um stjórnun samfélagsins.

Ég hefði mjög gaman af því að geta búið á Egilsstöðum, einhverntíma. En stundum er líka mjög þægilegt að búa bara í Reykjavík. Ekki út af framboði á afþreyingu, heldur þvert á móti vegna þess að hér getur maður skrópað á hvað sem manni sýnist. Það er nefnilega nóg af fólki hérna. Og manni getur líka verið jafnhjartanlega sama um stjórnun samfélaxins. Og þar býr líka Hugleikur og Bandlagið. Ég get ekki að því gert að það þykir mér mikilvægt.

Væri samt alveg til í að Egilsstaðir væru aðeins nær. Svona allavega þannig að maður gæti skroppið um helgar.

Í dag er ég allavega voða blú og langar heim til mömmu. Það er kannski vegna þess að Árni er farinn norður og nú verð ég ein í Borg Óttans og enginn passar mig fyrr en einhvern tíma seinnnt í júní. Mér finnst nefnilega þægilegt að láta passa mig. Þó ég eigi að heita fullorðin og næstum miðaldra.
Jæjah,
nú er ég búin að...

...sjá Sambýlingana hjá Leikfélagi Húsavíkur. Mikil aldeilis ljómandi gargandi snilld. Í engu oflofað. Ég fór með hæsta væntingarstig í botni og varð í engu fyrir vonbrigðum. Mikið flott vinna á öllum póstum. Og ég sá lokasýningu þannig að þeir sem af misstu verða bara að bíta í það súra.

...láta kjósa mig í stjórn Hugleix. Nokkuð sem ég ætlaði alllldrei að gera aftur, að vera í stjórn leikfélax. Og má vel vera að einhvern tíma eigi ég eftir að naga mig í handarbök. En félaxskapurinn þar er jú hið mesta abbraggð og vissulega er soldið skemmtilegt að þykjast stundum ráða einhverju, þó því fylgi vissulega stundum bæði taugadrulla, geðbólgur og kvíðaröskun.

...frumsýna mitt alfyrsta leikstjórnarverkefni. Og var gerður nokkuð góður rómur að, höfundur hótaði mér allavega ekki lífláti og enginn henti eggjum. Reyndar finnst mér ég nú eiginlega hafa svindlað. Tók fyrir skotheldan þátt með ýkt fínum leikurum þannig að ég þurfti nú voða lítið að gera. Þetta leikstýrði sér sjálft.

Ekki alveg tíðindalaus helgi það.