24.11.06

Gæti gubbað

ætla samt ekki að gera það.

Freigátan fékk fyrstu "alvöru" gubbupestina sína í gærkvöldi. Í dag þarf að þvo mikið. Og það er gubbulykt af öllu sem við eigum. Svo er ég sybbin. Þess vegna ætla ég bara að skrifa eina illa orta hækju sem mér flaug í hug undir fögrum flautu- og gítartónum á tónleikum í gærkveldi:

Meðvirkni

Stundum
Heyri ég ekki í sjálfri mér
Fyrir hugsunum annarra


Hann Hjörvar skrifar nebblega stundum ljóð á bloggið sitt.
Mér þykja ljóð kúl, nú orðið.
Svo ég ætla líka að gera það.

23.11.06

Ástandið

á heimilinu er þannig, að það er alveg sama hvað maður pakkar mikið í gamla húsinu, það er alltaf jafnmikið eftir. Þannig að það er eins gott að nýja húsið er þeim töfrum gætt að það virðist endalaust komast meira í það. Það er allt einhvern veginn stærra en ég hélt.

Svo er Hugleikur að fara að klára að brasa í Hullhúsinu á sunnudag. Ef mönnum leiðist...

Svo er ég að brúka gamlahús til að æfa leikritið "Jólasveinar eru líka kynverur." Vilji menn skoða það nánar, þá verður það sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum, með öðru jólastöffi hjá Hugleik, þá 5. og 7. desember. Skemmtan sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Í nýjahúsi búa haugarnir. Ég hef ekki mikið mátt vera að því að skipuleggja í skápa og bókahillur. En það verður nú örugglega komið fyrir jól. Og aðventan byrjar seint í ár þannig að það er ekki orðið of seint að byggja aðventukransinn! Jeij!

Og nú langar mig ekki að gera neitt að viti, heldur bara skoða gluggatjöld á internetinu.

22.11.06

Vika hugleixrar tungu

Þar sem ég er með ritstíflu sökum annríkis vil ég benda mönnum eindregið á Viku hugleixkrar tungu sem nú er í gangi á Varríusi. Gott stöff.

Sjitt, hvað

er mikið að gera.
Oj.

20.11.06

Grettistök

Aldeilis dandalaskemmtileg helgi.

Byrjaði á stjórnarfundi hér í vinnunni í gærkvöldi. Alltaf stuð. (Sem þýðir að nú liggur fyrir að hreinvinna eina fundargerð. Kannski ekki alveg jafnmikið stuð...) Eftir fundinn fór ég við fimmta stjórnarmann aðeina út á... ja, ég veit ekki alveg hvort hægt er að kalla það pöbb... sem heitir Kaffisetrið. Svakalega spes staður þar sem veit ekki alveg hvað hann er. Algjörlega dásamlega vírd.
Svo var námskeið í stjórnun leikfélaga í frosthörkunum á laugardag. Fór það nú alltsaman vel og skikkanlega fram og ég held það hafi skilað mér alveg talsverðu í vinnunni sem við erum núna, samning handbókar sem á að gera það að verkum að algjörlega hver sem er eigi að gera stjórnað leikfélagi hvert sem er, ef hann bara hefur þetta uppflettirit í höndunum.

Á sunnudag fengum við síðan hraustlegt lið manna og kvenna til að flytja okkur í hin nýju híbýli vor á Ránargötu. Þar vöknuðu allir hamingjusamir í morgun og enginn þurfti að fara niður neinn stiga. Hins vegar fundu kannski ekki alveg allir föt á sig svo auðveldlega. Stóra Freigátan ætlar að vera hjá okkur þessa viku, og segja mér hvernig ég eigi nú að hafa allt heima hjá mér. Ég ætla samt að reyna að ráða því sjálf. Sálfræðingurinn minn segir sjálfsagt að það sé hollt.

Í gærkvöldi, eftir flutninga, reif ég mig úr skítagallanum, vígði nýja baðið, gróf upp skárri leppana og skrapp mér í tungupartí út í Hugleikhús. (Smá freyðivín til að fagna því að við fengum viðurkenningu á degi íslenskrar tungu.) Það var nú aldeilis ekkert smá ljómandi gaman. Skemmtilegt að sjá hvernig mönnum hefði unnist í tiltektinni um daginn og svona. Að því loknu var haldið á Rósenberg og horft á Ljótu hálfvitana og Ripp, Rapp og Garfunkel. (Já, þessar hljómsveitir heita þetta í alvöru.) Það var hrrrroðalega skemmtilegt. Rannsóknarskipið bættist í hópinn þar og var það mikil gleði, enda ár og öld síðan við hjónin höfum eitthvað lyft okkur upp... (Skrifaði hún og mundi síðan að við vorum bara tvö í frumsýningarpartíi um síðustu helgi... Ókei. Við erum ALLTAF á djamminu!)
Allavega. Þetta voru hreint æðislegir tónleikar. Obbslega skemmtilegar hljómsveitir.

Og í seinnipartinn ætla ég að freista þess að ná saman æfingu á hinum þrrrælskemmtilega einþáttungi Jólasveinar eru líka fólk, eftir Nínu Björk Jónsdóttur, sem frumsýndur verður á jólaprógramminu í Þjollanum þann 5. desember. Held ég.
Jólasveinarnir mínir virðast reyndar ekkert kunna á tölvupóst, sem er kannski eðlilegt, svo ég veit eiginlega ekkert hvort þeir mæta, en einhverntíma í dag ætla ég að gá hvort þeir kunna að svara í gsm-síma.

Og verkefni dagsins er að kryfja þynnkuþunglynduna niður í ekkert, láti hún á sér kræla. Jibbúl.