Þetta varð til þess að ég var orðin 10 ára þegar ég þurfti fyrst að fara að vakna á ókristinlegum tíma á morgnana. Þá fékk ég vekjaraklukku. Ég og pabbi og Hugga vöknuðum um miðja nótt, borðuðum morgunmat og fórum í vinnu og skóla. Yfirleitt án þess að nokkur segði orð. Mamma og litlu krakkarnir sváfu lengur. Þetta var fínt.
Mér varð svona hugsa til þessara dásemdartíma í morgun þegar við þurftum að rífa öll börnin upp á afturendunum fyrir 8. Öll dragúldin eftir júróvísjónruglið, og demba þeim í skólana sína, hvort sem þeim líkaði betur eða ver. (Þeim yngsta líkaði það sérstaklega ver. Hann þarf svo að fara að komast í sumarfrí og geta verið heima hjá sér og hagað hlutunum eins og hann vill.)
Erum við kannski bara í ruglinu með þetta? Mig langar allavega í svona tveggja ára leyfi. Dingla mér ógurlega. Sofa eins og ég þarf. Og hanga.
Ég hef annars enduruppgötvað sjálfa mig sem morgunhana. Ég held það hafi gerst í Frakklandi. Þar fór ég að vakna klukkan 7. Fara í göngutúr og fá mér baneitrað franskt expressó einhversstaðar og fara svo heim og skrifa ritgerð, læra og eitthvað. Svona fram til 10 eða 11. Einhvern tíma að deginum var tekin rækileg síesta og heilmikill tími fór í að hanga með vinum sínum. Tekið skal fram að síðan ég bjó í Frakklandi hef ég verið laus við heilmikið af stresskvillum sem ég var haldin áður en ég fór þangað.
En ég er samt farin að finna fyrir þessu aftur. Ef allt gerist ekki á RÉTTUM TÍMA þá FERST HEIMURINN!
Þegar ég er á Egilsstöðum er allt rólegra. Þá erum við líka vitaskuld alltaf í fríi. Enginn þarf að fara á leikskólann. Þar er líka alltaf ein amma til tax svo verkin dreifast meira. Og svo er svo stutt í allt. Yfirleitt er bílnum lagt þegar við komum austur og hann ekki snertur nema þegar þarf að fara út í sveit eða niður á firði.
Og af hverju þessar vangaveltur?
Ég er alltaf eins og kýrnar á vorin. Þarf að komast út. Þegar vorhori sleppir (sem kemur ævinlega um viku eftir að hlýnar, sérstaklega ef það gerist snögglega) þá fer mig að langa óstjórnlega mikið úr samhengi. Út á land, til útlanda... það er mjög heppilegt að ég er alla jafna í skólakerfinu þannig að lífið skiptir alltaf um gír á þessum tíma. Yfirleitt er nú samt einhver bið á að maður sleppi úr samhenginu. Spurning um að fara að skipuleggja utanlands eða út á lands ferðir seinnipartinn í maí?
Svo fæ ég líka gjarnan tónlistaræði. Fæ nokkur lög á heilann sem ég verð að kenna sjálfri mér að syngja og spila.
En nú er víst ekkert rugl í boði. Bilað að gera á öllum sviðum lífsins, framvinduskýrsla að fæðast, þarf að fara til leiðbeinanda, svo ég fái námslán, fyrirlestur á hádegisfundi hinn daginn, sjúkrapróf á leiðinni til yfirferðar, og einhverjar ritgerðir.... og þá taka sumarverkefnin við. Lokahönd á textann í bókina um hana Soffíu mús og svo þýðing... og lestur 11 leikrita fyrir leikstjórnarnámskeið.
Sko! Það er nákvæmilega þetta sem ég meina! Svona hagaði ég mér aldrei í Frakklandi!
Þarf, geðheilsunnar vegna, að fara að tímasetja útflutning.