20.1.07

Getraun

Á frumsýningu hjá hvaða leikfélagi var ég á í gær ef ég er með lag á heilanum sem endar á:

"...ég er eins og jólatré, því ég er í hreppsnefndinni."

?

18.1.07

Gangandi íkorni

Þetta er ekki lengi að gerast. Þann 10., miðvikudag í síðustu viku, gekk Freigátan í fyrsta skipti, að einhverju ráði. (Áður var hún búin að taka eitt og eitt skref, en ekkert sem taldist almennilega með.)

Þegar ég vaknaði á sunnudagsmorguninn, voru feðgar algjörlega frá sér af hamingju, þar sem hún hafði labbað ein átta skref.

Og núna ferðast hún svona til helminga á tveimur og fjórum jafnfljótum. Það voru vandræði að ná mynd af henni áður en hún hlypi á myndavélina:


17.1.07

Feitt er fallegt

Sagði hún Fríða einu sinni í einþáttungi.
Ég vona að það sé satt.

Þannig var nefnilega í síðustu viku að ég gat lítið labbað sökum snúnings á löpp. Og það var eins og við manninn mælt. Á miðvikudegi heyrðist "flabb" og fram spratt jólaspikið í keppum á ýmsum stöðum. Hamborgarhryggurinn á rassinum, konfektskeppir allt í kringum mittið, og ýstran stóð allt í einu út úr öllum meðalstórum buxum. Og ég er ekki einu sinni orðin ólétt! Gerði þau mistök að vigta mig, og síðast þegar ég var svona þung var ég komin heilmarga mánuði á leið. (Vísbending, Jólævintýrið var orðið 70 blaðsíður.)

Hólí fokkíng krapp.
Ég hef reyndar einu sinni orðið alveg fokfeit. Þá var ég líka hrrroðalega þunglynd. Veit svosem ekki hvað var orsök og hvað afleiðing. En þegar maður er að plana barneignir og er með stoðkerfi sem varla er aftur farið að standa undir sjálfu sér eftir þá síðustu, kann þetta hreint ekki góðri lukku að stýra.

Sem betur fer er ég farin að geta labbað í vinnuna aftur, sjúkk. Er líka búin að taka að mér leikstjórn á langstærsta verkefninu mínu hingað til (fyrir febrúardagskrá Hugleix í Þjóðleikhúskjallaranum, sem mun heita Þjóðlegt stöff, svo maður plöggi) og missi vonandi einhver kíló í stressi og taugaveiklun. Ef ekki þá lítur út fyrir að ég fari í þriggja stafa tölu á árinu, ef plön ganga eftir.

Dem.

16.1.07

Næstum hamfarir

Þegar maður stendur fyrir framan vaskinn á baðinu, með skrúfað frá krananum, og verður allt í einu blautur í tærnar, þá er það sjaldan góðs viti. Þetta kom einmitt fyrir mig á aðfangadag. Ég kaldsvitnaði, sá fyrir mér sprungnar pípur, rakaskemmdir niður í kjallara, uppbrotið baðherbergisgólf og síðast en ekki síst himinháa reikninga frá ótal óprúttnum iðnaðarmönnum.

Við vorum búin að reyna að hunsa ástandið og vona að það hyrfi, eins og maður gerir. Þangað til Rannsóknarskip fór loxins á fjóra fætur, í gær eða fyrradag, og gáði undir baðinnréttinguna. Þar reyndist vera niðurfall sem búið var að kítta í, samt ekkert sérlega vel. Það með var mörgum tonnum af okkur létt. Engin sprunga í neinu, alltsaman stífla á einhverjum eðlilegum stað. Sjúkkett.

Rannsóknarskip fór í niðurfallsköfun í dag og dró upp heilan helling af þvílíku ógeði. Það var ekki nóg.

Við Smábátur og Freigáta gerðum út leiðangur og fórum í BYKO með þá síðarnefndu á snjóþotu. Það þótti bæði henni og Smábát ekki neitt smá spennandi skemmtan. Greinilega vel hægt að senda þau saman út að skemmta sér í snjónum, hvað úr hverju. Allavega ég verslaði mesta baneitur sem ég fann í BYKO. Það var í svartri flösku með hauskúpum og átti að éta sig í gegnum hvað sem fyrir yrði.

Þegar heim kom var hroðanum hellt í niðurfallið og baðherbergið yfirlýst bannsvæði öllum lífverum. Eftir smástund heyrðist "ZVÚBB" og enginn verður framar blautur í tærnar við að bursta tennurnar heima hjá okkur. Nema hann sé akkúrat í fótabaði á sama tíma. Og við þurftum ekki einu sinni stíflumann. Ég er ekkert smá fegin.

Ég er með þá kenningu að þetta hafi verið rotta.

15.1.07

Gufan og hvíthyskið

Systir mín sálinn hefur stundum misst sig í hneyxlan þegar hún hefur heimsótt okkur að degi til. Þá bregður nefnilega stundum (ja, næstum alltaf) þannig við að það er kveikt á sjónvarpinu. Ég held hún hafi verið komin á fremsta hlunn með að kæra okkur fyrir barnaverndaryfirvöldum fyrir að vera hvíthyski.

Og gallinn er sá að ég er að vissu leyti sammála henni. Mér finnst óttalega hyskilegt að hanga fyrir framan imbann á daginn. Þannig voru hins vegar aðstæður á Tryggvagötunni að það hú stendur allt í einhvers konar "útvarpsskugga" þannig að þar næst ekki nokkur hlutur almennilega með loftneti. Þannig að sjónvarpið, gegnum ADSL gegndi stundum hlutverki útvarps, þar sem ég nennti sjaldan að dídjeija mig í gegnum daginn. Svo var ég líka með gegnumgangandi áhorf á Friends og fleira uppbbyggilegt við brjóstagjafir og Dr. Phil og allskyns. Nú er þessu öllu aflokið, en samt komið upp í vana að hafa imbann á öllum stundum. Einnig þar sem á Skjánum má fá ókeypis barnaefni eftir pöntun, og stundum er hægt að láta Freigátuna sitja kjurra, stund og stund, yfir Brúðubílnum. (Já, það er svolítið hrollvekjandi.)

En þetta er ófremdarástand. Sérstaklega þar sem í gangi eru aðgerðir til að fá Smábátinn frá skjátækjunum stund og stund, en hann er af kynslóðinni sem færi aldrei út tölvunni ef hann þyrfti ekki í skólann. Allavega, það er orðið erfitt að predika um ofgláp á skjátækin án þess að vera góð fyrirmynd.

Þessvegna hef ég verið að reyna að breyta munstrinu á seinnipörtunum, stíga hin örlagaríku skref að slökkva á sjónvarpinu og kveikja á Ríkisútvarpinu, Rás 1. Það er algjörlega að virka. Ég er orðin húkkt á miðdegissögunni, og hinum ýmsustu dagskrárliðum. Og svo er bara eitthvað við það að sitja og prjóna með klassík og menningarefni í útvarpinu. Mér líður hálfpartinn eins og ég sé amma mín. Og það er nú ekki leiðum að líkjast.

Í gær komst ég síðan að því hvað ég er höfundaglögg. Þegar ég kveikti á útvarpinu var sakamálaleikrit. Ég hlustaði með öðru. Fannst ég nú kannast við tóninn, auk þess sem efni og persónur bentu mér mjög ákveðið á ákveðinn höfund. Leikritið var þar að auki alveg þrælspennandi og hélt mér við efnið alveg fram að afkynningu. Og, viti menn, höfundur Ingibjörg Hjartardóttir. Reyndar kannski ekki svo erfitt að giska. Persónur voru jarðskjálftafræðingar sem voru að berjast gegn álversframkvæmdum...