27.12.07

Jólað og jólapestað

Þá erum við búin að jóla í góðu yfirlæti. Allir voru hinir ánægðustu með jólagjafaheimtur. Ég fékk allskyns og er byrjuð að lesa Harðskafa, Rannsóknarskip var sérlega ánægður með jólabókarflóðið sitt og er farinn að lesa Böðvar Guðmundsson. Freigátan fékk allan heiminn, m.a. tvær dúkkur, teiknidót og slatta af bókum, og það er til dæmis búið að þurfa að lesa bókina "Ég vil fisk!" um 50 sinnum á dag, að staðaldri.

Við heyrðum í Smábáti á aðfangadaxkvöld og lét hann vel af sér í útlöndunum. En það var enn svo snemma kvölds hjá honum að hann var ekkert farinn að vita hvað hann hefði fengið í jólagjafir. Við heyrum aftur í honum um áramótin.

Heilsubrestirnir eltu okkur annars í jólafríið. Eftir að Freigátan hafði hóstað og frísað alla jólanóttina var læknir ræstur út á jóladag, og hún reyndist vera langt komin með að koma sér upp lungnabólgu. Fékk pensilín. Rannsóknarskip var líka eitthvað að lasnast í gær og nú er hann kominn með 40 stiga hita. Vonandi ekki með lungnabólgu.

Móðurskipið er aðallega búið að vera í því að þverbrjóta allar meðgöngureglurnar. Hef raðað í mig salt- og sætmeti, varla drukkið dropa af vatni nema þá í gosformi og ekki hreyft mig meira en algjörlega nauðsynlegt er. Er líka alveg að súpa seyðið af því í brjóstsviða, bjúg og bakverk, en það verður bara farið að vinna í því á ári komanda. Í augnablikinu er það bara alveg þess virði. Reyndar þarf nú svolítið að snúast við sjúklingana, þannig að hreyfingarleysið er ekki alveg jafn algjört og gott væri.

Freigátan er annars að verða ágæt í heilsunni og kannski verður eitthvað hægt að fara með hana út að skoða snjóinn á morgun. Annars var planið að fara norðurum á morgun, en það verður að fara eftir heilsu húsbóndans hvort það skipulag gengur upp. Hann liggur allavega eins og Þolláxmessuskata í dag.

24.12.07

Gleðileg jól!

Og við höldum jólin hátíðleg og við höldumokkursaman öllsem eitt.
(Úr hvaða leikriti...?)

Til allra ættingja og kunningja, vina og velunnara, nær og fjær og allt þar á milli:

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Takk fyrir það gamla.

Bestu jólakveðjur frá:
Siggu Láru, Árna, Róberti Steindóri, Gyðu og Ofurlitlu Duggunni

ps. Þetta er myndin sem við hefðum sett á jólakort, hefðum við nennt og náð að láta gera þau. Þetta eru sumsé Smábátur og Freigáta í flæðarmáli í Frakklandi síðastliðið sumar.
pps. Hérna áttu líka að koma nokkrar jólalegar myndir af héraði, en myndavélsnúran varð óvart eftir í siðmenningunni. Aldrei að vita nema þær birtist á ári komanda.

23.12.07

Þolláxmessa

og skötulyktin engu lík... og það er sko hverju orði sannara.

Við erum búin að ferðast norðurum og austurum. Byrjuðum á að skilja Smábátinn eftir í Grafarvoginum, en hann heldur utan til Flórída með afa sínum og ömmu. Við heyrðum í honum áðan og eitthvað er nú spenningurinn að stríða honum í maganum, en það jafnar sig vonandi þegar komið verður á leiðarenda. Auðvitað verður skrítið að halda jólin án stráksins okkar, en bót í máli að vita að hann á vafalaust eftir að skemmta sér alveg fantavel, í Disneivörldinu og öllur þessu þarna, hvaððanúheitir. 

Við dvöldum í góðu yfirlæti á ættaróðali Rannsóknarskips í fyrrinótt þar sem Freigátan náði mjög góðu sambandi við pínulítinn kött. Það var vegna þess að hann var ekki nógu fljótur að forða sér. Hún burðaðist með hann um allt, sneri honum á alla kanta, og ég er farin að hafa áhyggjur af hvort hann lifir af þess 5 daga sem við verðum í nágrenni við hann um áramótin.

Nú erum við komin austur, þar sem internetið býr aðeins í kjallaranum og kvöl og pína að reyna að nenna þangað til að blogga alltaf. Að mér heilli og lifandi skal ég nú samt koma jólakveðjunni á sinn stað á morgun, þar sem við klikkuðum á jólakortunum, eins og venjulega.

Hér er búið að éta skötu, eins og lög gera ráð fyrir, og fyrirliggjandi er að elda hangiket til að útrýma lyktinni með. Öll systkini mín eru heima, svo það er býsna glatt á hjalla. Eina barnabarnið nýtur athyglinnar í botn, en er reyndar búið að fá sér smá hor og hita, í tilefni jólanna. Ég stefni á að nenna í kaupfélagið í dag, en það er skylda, hvort sem mann vantar eitthvað eða ekki. Mamma og Bára ætla líka þangað með lannnnngan lista af mat sem "vantar". Héðan fer enginn eftir jólin undir 100 kílóum.

Ferðalagið er annars búið að vera hreinasta snilld, veðurfarslega séð. Við náðum alla leið heim í sumarfærð og stundum svakalega flottu tunglsljósi. Æðislega gaman að skoða landið í því, og gaman að sjá sveitabæi sem menn hafa nennt að skreyta vel. Það er svo flott að sjá það svona langt að. Allavega, sumarfærðin hélst alveg hingað, en í morgun var síðan jólasnjórinn kominn, eins og eftir pöntun. Aldrei að vita nema maður nái nokkrum jólalegum myndum, núna á þessum mínútum sem dagsbirtan er.

Jæja, best að skríða upp úr kjallaranum og taka þátt í mannlegu samfélagi.
Meira á morgun.