14.7.05

Ég veit ekki

hvað kom yfir menn í Reykjavík meðan ég var í burtu. Maður er nú bara hræddur. Hringbrautin komin eitthvurt annað og lítur út eins og hún sé í útlöndum. Ég er óskaplega fegin að vera ekki lengur á bíl. Það er nú samt heldur ekki hlaupið að því að vera gangandi. Í gær átti ég erindi yfir í hinu megin. Komst að því að sennilega á maður bara að halda sig þeim megin Miklubrautar sem maður býr, eða hafa verra af. Var þetta mikil svaðilför, ég villtist þrisvar, bara á leiðinni yfir götuna, og var næstum dottin ofan í mjög stóra holu.

Og talandi um holur. Stóra holan við hliðina á skrifstofunni minni er bara alls engin hola lengur! Þeir eru allt í einu bara alveg búnir að fylla hana af bílageymslum og eru alveg að fara að byggja ofan á. (Svo ætla þeir auðvitað að setja framtíðarhúsnæðið mitt, penthás með þakgarði, ofan á allt saman.) En ég var eiginlega alveg búin að venjast því að hafa þessa holu þarna. Og sprengingarnar og loftborahljóðin úr henni.

Hvað verðurða næst? Jah, maður spyr sig...

Í Önundarfjörð!

Þá er ferðatilhögun mín sem vesturfara loxins komin á hreint. Er að fara vestur á firði til að vera vitni að sameiningu herra og frúr Ringsted. Flýg til Ísafjarðar áður en ég vakna í fyrramálið og tilbaka á sama tíma á sunnudaxmorgun. Í millitíðinni mun ég sitja brullaup mikið við áttugasta mann.

Mjög spennandi, hef bara einu sinni komið á Ísafjörð, skammarlega lítið ferðast um norðurhluta Vestfjarða þó ég þekki suðurhlutann eins og nefið á mér, og man ekki til þess að hafa nokkurn tíma gerst svo fræg að koma í Önundarfjörð. Þetta verður útilega hin mesta, ég fæ reyndar að liggja inni þar sem ástand mitt veldur símigu og banni við söngvatni því sem jafnan tryggir góðan og heilbrigðan nætursvefn við hvaða aðstæður sem séu. Er fegin að hin verðandi frú Ringsted taldi mig af því að hætta við að mæta í uppgefinskasti á miðri Leiklistarhátíð. Hef mikla trú á gamni þessu, hvað sem veðurspáin segir.

Það er líka eitthvað við það að vera úr GSM sambandi. Einshvern tíma ætla ég að setja familíuna og tjaldið í bílinn Rannsóknarskips og þvælast svo um Vestfirði þvera og endilanga vikum saman. Jæjah, best að fara að athuga hvort einhver sé til í að þrusa af stað eldeldsnemma á sunnudaxmorgun til að koma okkur Hrund í flug.
Hmmm. Hver drekkur nú minnst?

13.7.05

Örlagaegg?

Örlagaeggin í Borgarleikhúsinu er ein fyrsti sumarsöngleikurinn sem mig langar að sjá. Og langar meira að segja mjög mikið og er alveg að fara að. En um daginn rak ég augun í dáldið sem gerði mig huxi og það var ekki fyrr en núna að það kviknaði endanlega á perunni varðandi hvað þetta þýddi.

Sýningin var einhvers staðar sögð vera á vegum Leikskólans og Reykvíska listaleikhússins. Þetta eru bæði tvö áhugaleikfélög innan vébanda Bandlags íslenskra leikfélaga.

Sem samkvæmt öllum kreddum gerir sýninguna að áhugasýningu. Sem er gaman.

En sá böggull fylgir skammrifi að þar með kemur hún ekki til álita í neinu vali fyrir næstu Grímu. Sem er áhugavert. Spurningin er, hvað gera menn? Hleypa áhugasýningum inn? Eða halda þessari úti? Eða finna einhverja glufu framhjá öllu saman? Er hægt að segja að sýningin sé í samstarfi við Borgarleikhúsið og þar með inni í Grímunni? Getur þá Leikfélag Fljótsdalshéraðs svindlað sér inn með því að segjast vera í samstarfi við Óperustúdíó Austurlands, sem er atvinnubatterí? Eða leikfélag Hafnarfjarðar ef þeir taka upp sýndarsamstarf við Hafnarfjarðarleikhúsið? Eða er þetta kannski bara útpæld leið hjá Eggjamönnum vegna þess að þeir vilja ekki vera með í Grímunni og finnst hún kjánaleg?

Spennandi.

Held þetta gæti alveg orðið dáldið gaman.

Pampers eða Libero?

Er spurning sem skal algjörlega látið vera að svara að svo stöddu. Hins vegar vakti athugasemd Huldu hér nokkrum póstum neðar forvitni mína varðandi stjörnumerkjalega samsetningu Afkomandans. Auðvitað er ekki alveg hægt að staðsetja stjörnukortin nákvæmlega eins og stendur, en þó má finna ýmislegt út, verði þetta alltsaman eins og lítur út fyrir. Og nú skal aldeilis velta sér uppúr gerfivísindunum.

Eins og Hulda benti réttilega á verður hann/hún/það steingeit. Eins og Bára syss og Heiða Skúla og Berglind og ótrúlega margir fleiri sem ég þekki. Mér sýnist þetta koma í sama stað niður þó maður brúki undarlegu stjörnumerkin með naðurvaldanum. Þar með bætist jarðarmerki í flóru heimilisins sem þegar inniheldur eitt eldmerki og tvö vatns. (Hrút, sporðdreka og lítinn krabba.) Ætti að vera ágætt að fá jarðtengingu inní þetta alltsaman.

Samkvæmt kínverskri stjörnuspeki eigum við von á hana. (Núna er ár hanans og því lýkur ekki fyrr en um kínversk áramót sem eru í febrúar.) Hanar eru algengir í minni fjölskyldu, bæði mamma, Hugrún syss og Sigurvinn litlibróðir eru þannig. Var að lesa mér til um þessa tegund, en þetta ku vera sviðsljóssjúkir snyrtipinnar. (Soldið væld, en samt þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi...) Þeir vilja helst hafa alla athyglina á sér en að sama skapi hafa allt hornrétt.

Þannig að, þessi afkomandi á semsagt eftir að slást stanslaust við móður sína um athyglina og kemur ennfremur til með að una sér fremur illa innan um óreiðuna á heimilinu. Herbergi hans/hennar/þess verður ævinlega hið snyrtilegasta í húsinu en líklegt er að erfingi þessi tolli ekki lengi í óreiðunni í foreldrahúsum heldur stingi af með snyrtilegri meyju fljótlega uppúr unglingsárunum. Saman munu þau svo stunda nám í hag- og viðskiptafræði og jafnan starfa við bókhald auk þess sem erfinginn verður líklega í áhugaleikfélagi til að finna athyglisþörfinni farveg. Honum mun þó líka illa að leika með foreldrum sínum þar sem þau eru svo óskipulögð, en koma vel saman við Rúnar Lund og líklega stundum vera gjaldkeri. Hann/hún/það mun líka eiga sitthvað sameiginlegt með öllum fjölskyldumeðlimum móðurfjölskyldu sinnar, utan móður sinnar, þar sem það gengi samanstendur af hornréttum ferköntum og hönum.

Þar með er framtíð Heiðlaugs litla Svan algjörlega opin bók.

PS. Svandís og Heiða, bæðevei, það er ekki fokkíng glæta að þetta nafn komi til álita nema sem vinnuheiti í flimtingum. Hef ekki huxað mér að fórna afkomendum mínum á altari eineltis áður en þeir fæðast. Bara svona til að hafa það alveg á hreinu. ;-)

Það hressir

bandalaxkaffið. Fljótlega uppúr fyrsta sopanum er búið að redda öllu sem setið hefur á hakanum vikum saman með 2-3 símtölum. Eins gott þar sem tekin hefur verið pólitísk ákvörðun um að ekki verði fleira að gert í einu né neinu fyrr en eftir Vestfjarðareisu helgarinnar.

Og ég er ekki búin að tjá mig um eitt. Íslenski Battsjelorinnn! Mikið ógurlega ætla ég að horfa á það. Býst annars alveg eins við því að kjánahrollurinn beri mann ofurliði fljótlega, það er einhvern veginn auðveldara að horfa uppá Kanann gera sig að fífli heldur en heimamenn. En mikið óskaplega skal ég reyna!

Annars er hálfgerð veruleikafirring í sjónvarpsáhorfinu mínu núna. Ekki nenni ég að fylgjast með hver boxar best. The Swan rext á við Desperate Housewifes og pirrar mig þar að auki óstjórnlega. (Mér finnst hreinlega ekki fallega gert að taka og murka persónuleikann úr andlitum fólks þannig að það verði í framan eins og það hafi verið strekkt uppá þvottasnúru á eyrunum.) Hins vegar sé ég stundum megrunarþættina "The biggest looser" og þykja þeir snjallir og viðeigandi á þessum síðustu og verstu tímum. Svo eru keppendur náttlega misskemmtilegir og fá dramaköst í tíma og ótíma og það er auðvitað það sem gerir veruleikasjónvarpið svona líka dandalaskemmtilegt. Hins vegar er það að flatna og ganga úr sér og ég huxa að það verði búið eftir nokkur ár.

Las Heljarslóðarorrustu í sumarfríinu. Hún stendur ævinlega fyrir sínu. Hann Benedikt minn Gröndal var náttlega æði. Ég er til dæmis hérumbil viss um að hefðum við Benedikt verið samtíða, fyrir svona 10 árum síðan, þá hefði með okkur tekist mikill vinskapur. Enda átti fátt betur upp á pallborðið hjá mér á mínum yngri og heimskari árum heldur en iðju- og auðnuleysingjar sem ekkert voru nema kjafturinn. Svo hefur það elst af, eins og annað skemmtilegt.

12.7.05

Mikið ógurlega er ljómandi

að vera bara komin aftur í vinnuna. Komst að því að heimilishald á heimili móður minnar er flóknara en það sýnist. Þó maður sé þar bara aleinn.

En ekki skrifaði ég leikrit í þessu sumarfríi, eins og ég ætlaði. Fékk hins vegar Rannsóknarskipið og hálfan flotann í heimsókn um helgina og sýndi þeim dáldið af Héraði og flottasta fjörðinn. Ákveðinn hluti hafði þó mestan áhuga á golfvellinum. En þetta var allt hið skemmtilegasta og risu upp mikil plön um að gera þetta að árlegum viðburði, sammenkomst Brekkubarna, heima hjá mér. Svo var ákveðið að hafa systkini mín með í pakkanum eftir að í ljós kom að tveir einhleypir verðandi mágar mínir eru einmitt á réttum aldri fyrir hinar forpipruðu systur mínar. Höfðum við í flimtingum að þrefalt systkinabrúðkaup myndi sennilega komast í DV.

En þá er ég snúin aftur til höfuðborgarinnar og næsta mál á daxkrá eru nú bara flutningar. Við fáum víst nýju íbúðina 1. ágúst í stað 1. sept, sem er eins gott þar sem við erum bæði búin að selja undan okkur og eigum að skila um miðjan ágúst. Ég er sem sagt að undirbúa mína 18. flutninga síðan ég flutti úr föðurhúsum fyrir einum 12 árum síðan. Spennandi... eða þannig.

Svo vil ég náttlega þakka öllum hlý orð og fagrar spár um verðandi afkomanda. Hvers tilvist ég er eiginlega farin að véfengja þar sem mig hrjá öngvir þeir kvillar sem verðandi mæður ku eiga að vera undirlagðar af. Ég er ekki einu sinni lengur með feituna. Svo maður minnist nú ekki á öll þau hugboð um allan skrattan sem maður á víst að vera í samfelldu móðursýkiskasti yfir, samkvæmt heimskulegu mæðrunarbókunum. (Líklega rétt hjá Ylfu að reyna bara að brúka brjóstvitið, þó mitt sé vissulega af skornari skammti en hennar.)

Og talandi um frú Ringsted, ég er ekki enn búin að fá far vestur á firði um helgina. Andskotans!