28.6.08

Aftur gengin

Hafinn hefur verið búskapur á Selási 9 - 12. Sem gengur ágætlega. Eini gallinn er sá að í húsinu á milli (Selási 10) býr hundur. Þess vegna getur verið erfitt að koma ákveðnum fjölskyldumeðlimum þangað sem þeir eiga að vera að fara. Og það er ekki vegna þess að þeir séu hræddir við hunda.

Fjölskyldan og frænkan brugðu sér annars á Stöðvarfjörð í dag til að eltast við hina víðförlu Soffíu mús. Á meðan aðrir nutu listanna fórum við Hraðbátur í langan göngutúr um plássið. Út um bílglugga störðu á okkur nokkur forviða andlit. Greinilega ekki á hverjum degi sem Stöðvarfjarðarbær upplifir gangandi vegfarendur. Enda fannst mér ég svolítið afturgengin. Búin að gleyma því að einu sinni þekkti ég þetta pláss nú bara alveg dável og fór í tilefni þess í labbitúr bara langt uppeftir og rifjaði upp nokkra drauga. Mikið skelfing er maður nú orðinn gamall og marglifaður.

Leitaði annars lengi að Heljarþröminni sem öll sjávarpláss án stóriðju eiga jú öll að standa á en fann hvergi. Á Stöðvarfirði var sól þó á Héraði rigndi og menn virtust una glaðir við sitt, löguðu bílana sína og dunduðu í görðunum sínum og virtust alveg kæra sig kollótta um að ekkert væri nú lengur kauffélagið í plássinu. Í blíðunni raxt ég á Steinasafn Petru, eitt gallerí og haug af flottum húsum, umkringdum fallegum görðum og villtu lífríki með lækjarhvömmum inni á milli og fór að huxa eitthvað á þá leið að ef til vill væri nú bara ekkert allt fengið með hausafjölda og háum launum. Alveg væri ég allavega til í að fækka hausafjöldanum þar sem ég bý um alla þá ljótu og leiðinlegu og launahæð hefur aldrei verið á neinum óskalistum hjá mér. Best að byrja strax að safna flöskum fyrir húsi á Stövðarfirði. Þar er síðan hægt að lifa af rentunum á því sem fæst fyrir íbúðarholuna í Vesturbænum, sennilega um langa hríð.

25.6.08

Glettingur er tímarit

um austfirsk málefni. Eina ritstjórnarstefna þess er að fjalla um austfirsk málefni. Flest sem í það er skrifað er alveg kolfræðilegt, gjarnan um gömludagana, lífríkið, mannríkið eða annað minna spennandi fyrir þá sem vilja fá sér afþreyingu. En hentar vel þeim sem hafa virkilega mikinn áhuga á einhverju furðulegu eða vilja bara láta sér leiðast ótrúlega mikið. Og allar nánari upplýsingar má finna á glettingur.is. 

Þetta var svar spurningu síra Odds úr kommenti í þarsíðustu færslu. 

Best að ég spurji til baka, verða Hálfvitarnir hinir Ljótu einhversstaðar í næsta nágrenni Egilsstaða eða Akureyrar einhverntíma í sumar? Og þá meina ég aðallega í júlí? Og líka meina ég þá, í svo nánu nágrenni að mæður með brjóstmylkinga geti afgreitt eins og eina tónleika án þess að bregða sér lengur af bæ heldur en á milli mjalta?

Fékk annars að bregða mér í kjallarann til að vinna að ritstjórn áðurnefnds Glettings á meðan ungarnir mínir sváfu hádegislúrinn. Skemmst frá að segja að ég datt inn í fundargerð aðalfundar Bandalaxins og er ekki einu sinni búin að opna Glettinxmöppuna. Og fundur á morgun. Skammbara. Best að hengslast til að gera eitthvað pínu, en halda svo áfram í sólbaðinu.

(Btw, norðaustan skíturinn sem veðurfræðingarnir þykjast vera að sjá hér um slóðir er hreinn uppspuni og heldur sig alfarið fyrir norðan hús.)

23.6.08

Nýjustu fréttir úr austrinu

Mér til mikils léttis sé ég á stuttri yfirferð um bloggheima að fleiri eru í bloggletikasti en ég. Þetta er reyndar engin leti, heldur annríki í bland við undarlega staðsetningu á interneti heimilis foreldra minna sem býr, sem fyrr, í kjallaraholunni. En þar hef ég einmitt huxað mér að hefja ritstjórnarstörf á mánudeginum komanda og ættu þá birtingar á þessum fjölmiðli að komast í nokkurn veginn eðlilegt horf.

Helst er það í fréttum að um miðjan eftirmiðdaginn áskotnaðist mér þessi líka forkunnarfína barnapía og síðan hún kom er ég búin að, m.a., afreka að fara í bað og afhára á mér lappirnar. En eins og grasekkjur vita er þetta allt annað en sjálfsagður lúxus nema kannski svona tvisvar á ári.

Rannsóknarskip er í Reykjavíkinni að jafna sig eftir hálsskurðinn og ég má til að birta smessið sem hann sendi mér í fyrradag:

Kyngi stórborgum.
Slefa eins og andskotinn á efsta degi.
Þrumugnýr í eyrum.
Endalaust orðbragð á dofinni tungu.
Í dag er ég feginn að vera einn í helvíti.

Eins og sést er Rannsóknarskip skáldmæltur í þjáningum sínum en er farið að líða skár núna. Gat meira að segja talað aðeins við dóttur sína í morgun. Og ætlar að koma til okkar á föstudaginn. Og miklir djöfuls svakalegir fagnaðarfundir verða það nú, ég ætla að sofa fram að hádegi, minnst, á laugardaginn. 

Á morgun stefnum við Sissú hins vegar í sund með Freigátuna, en Bára frænka ætlar að passa Hraðbátinn á meðan. Og Smábáturinn á afmæli, við ætlum að hringja og syngja. Hann verður tólf ára. HANN VERÐUR TÓLF ÁRA! Dísuss. Þetta verður allt farið að heiman áður en maður getur snúið sér við.

Meira í síðasta lagi eftir svona viku.