5.9.08

Fyrir daglátum

Í nótt dreymdi mig að ég kæmist í gallabuxur. Svo sem ekki í frásögur færandi. Nema þetta voru alveg ákveðnar buxur sem ekki höfðu passað síðan einhvern tíma fyrir seinni óléttu. Ekkert meira með það.

Í morgun þegar ég var í svefnþokunni að leita að fötunum mínum rifjaðist upp fyrir mér að Hraðbátur lét það víst verða sitt síðasta verk í gærkveldi að gubba í allt sem ég var í. Ákvað ég þá að gá hvort buxudruslurnar úr draumnum pössuðu kannski. En var mjög efins.

En, viti menn. Þær passa! Sem er nokkuð vel af sér vikið þar sem þetta er hreint ekki ein af þessu eftirgefanlegu eða fyrirgefandi flíkum. Hreyfiátakið er sem sagt farið að skila árangri. (Enda eins gott. Eyddi öllum peningunum mínum í að borga hreyfitengt í gærkvöldi.)Er reyndar ekki farin að sjá kílóafækkun en eitthvað er ég greinilega farin að breyta um lögun.

Frekar skemmtilegt. Held ég verði alveg jólafær eftir fimm kíló. Ef mér text að losna við 10 verð ég Ofurpæja.

Annars er runninn upp fyrsti skóladagurinn minn. Þegar Rannsóknarskip streymir heim til sín seinnipartinn ætla ég að þrusa út í Háskóla (sæki ókeypis strætókortið mitt) og sit fyrsta tímann í málstofu sem heitir Dauði harmleixins (og ég veit ekkert um hvað snýst. Passaði bara við stundatöflu Rannsóknaskips.) 

Er að reyna að taka soldið til. Skipta á rúmum og svona. Stefni á einhver þrif um helgina og heilmikla ritstjórnarvinna. Smábátur ætlar að passa ömmu sína og ég þarf að vera dugleg að senda Rannsóknarskip út af örkinni með þau litlu svo ég geti tekið skurk. Það er nefnilega ekki fallegt til afspurnar, en nú strandar blaðið aðallega á greinum og verkefnum sem ritstjórinn sjálfur þarf að haska sér í að klára. Það er nú skemmtilegra þegar maður getur setið og urrað yfir slóðaskap annarra. ;-)

4.9.08

Sjö mánaða!

Friðrik varð sjö mánaða gamall í gær. Í tilefni dagsins gerði hann svo sem ekkert. En Freigátan fór í fyrsta tímann á sundnámskeiðinu sínu. Hún var nú svolítið smeik. En reyndi samt mikið að hughreysta móðurskipið og segja að þetta væri nú allt í lagi. En hún vildi ekki gera allar æfingarnar. Sundkennarinn sagði að það væri allt í lagi, hún myndi ná þessu á nokkrum tímum. Svo sprengdi hún sjálfsagt nokkrar hljóðhimnur með mótmælum þegar átti að fara uppúr. Verð að muna að hafa mútur í farteskinu í næsta tíma.

Svo fengu bæði börnin að koma með í mömmujóga í morgun. Freigátan á undanþágu. Hún var óskaplega dugleg að leika við öll litlu börnin og rétta þeim dót. Það var nú talsvert mikil fyrirferð á henni, og ég vona að ég þurfi ekki að gera þetta aftur en Móðurskipið fékk aðeins að teygja úr sér. Alveg ótrúlegt hvað maður verður krumpaður af barnaburði, þvottum, tiltekt og uppvaski.

Eftir hádegi kom svo Ingamma og passaði Freigátun á meðan Hraðbáturinn fór í fyrsta tímann á sínu sundnámskeiði. Það var sko ekkert smá stuð. Hann brosti út að eyrum allan tímann og sullaði með höndunum og fótunum. Og þótti allar æfingarnar Æði.

Hraðbátur er annars ekki enn farinn að skríða en er orðinn fljótur að ferðast með því að rúlla sér. Hann situr líka mjög stöðugur og er eiginlega alveg hættur að velta um. Og hann er kominn með fimm tennur, neðri framtennur, eftir hliðartennur og eina neðri hliðartönn. Þar með er hann kominn með tvær tennur sem standast á og þeim gnístir hann iðulega með miklum og ískrandi hávaða. Hann er voðalega rólegur og kátur og heldur mikið upp á DVD diska. 
Semsagt, alveg eins og pabbi sinn. 
Samt með augun hennar mömmu sinnar. 
Eins og Harry Potter

3.9.08

*Andvarp*

Þetta er einn af þessum dögum. Hinn verðandi leikskóli Freigátunnar getur ekki lofað neinu fyrr en um næstu mánaðamót. Þá verðum við Hraðbátur búin að missa af hálfu mömmujóganámskeiði. Er að senda kvabb-pósta í allar áttir, reyna að fá að taka Freigátuna með mér tvisvar í mömmujóga og hafa hana jafnoft í "heimsókn" á leikskólanum sínum, þá kemst ég af með að skrópa bara í einn tíma í viku í september og það finnst mér "hægt."

Svo hringdi tónlistarskóli Smábáts. Þar rext allt hvað á annað. Allt tómstundastarf sem hann stundar virðist ætla að hlaðast hvert ofan á annað á sömu dögunum í vetur.

Og ég sem hélt að veturinn yrði svo vel skipulagður hjá mér...

Er annars einhver alveg laflaus og til í Freigátupössun einhvern þriðjudax- eða fimmtudaxmorguninn, ca. 10 - 11.30?

Annars eru börnin sæt og góð. Hraðbátur er orðinn mjög ræðinn. Heldur langar ræður og sönglar Hann er líka duglegur að veltast um á gólfinu og text oftar en ekki að koma sér í ógöngur. (Eða toga í hárið á systur sinni, sem er mikið sport.)
Freigátan er ógurlega þreytt þessa dagana. Sefur lengi á hverjum degi og ætlar svo aldrei að sofna á kvöldin. Núna er hún búin að sofa í tvo tíma, en ég leyfi það í dag svo hún verði hress á sundnámskeiðinu á eftir.
Smábátur fór á fótboltaleik um daginn. Okkur til talsverðrar undrunar. Knattleixáhorf hefur ekki einu sinni komist á topp 20 yfir eftirlætistómstundaiðju drenx, hingað til.

Svo er bara sól.

2.9.08

Í staðinn fyrir ípottinn

tók ég Freigátuna með í líkamsrækt kvöldsins. Hún söng hástöfum í barnastólnum alveg lengst suður með sjó. Það þurfti að þreyta hana, hún svaf í tvo tíma í dag. En ég hjólaði sömu leið og í gær, nema bara miklu lengra, með 13 og hálft kíló til viðbótar á hjólinu, og varð miklu minna þreytt. Hef greinilega komist heilmikið í form, bara síðan í gær!

Kannski vegna þess að ég tók Kringluna með áhlaupi í dag. Keypti m.a. sundbol handa Freigátunni en hún er að byrja á sundnámskeiði í sundskólanum á Hrafnistu á morgun. Það verður nú illa gaman.

Snemma beygist krókurinn...

Í gær skipaði Freigátan í hlutverk. Hraðbátur var "Búddígæ", Móðurskipið var "Baddígæ" og hún sjálf var "Búddígagæ." Upphófst síðan mikill spunaleikur sem leikstýrt var jafnóðum af Freigátu. Erfiðast var að aðalpersónan, sem ljóslega var "Búddigæ", var heldur tregur til að hafa textann sinn réttan eða gera eins og fyrir hann var lagt. Eftir nokkra búningavinnu, leikmyndasmíð og stutta æfingu gafst leikstjóri því upp á verkefninu, með þeim orðum að aðalleikarinn væri "órólegur" og "erfiður".

Spurning hvort framhald verður á síðar.

1.9.08

Lengi, lengi

Hafa 8 hefur gmeillinn minn saxt innihalda 8 óopnaða pósta. 
8. 
Þegar þeir voru 9 hafði ég fengið nýjan póst.

Óþolandi!

Sérstaklega þar sem þessir 8 óopnuðu póstar innihéldu ýmislegt mikilvægt varðandi ritstjórnarverkefnið sem ég hef ekki komist í að vinna neitt í síðan ég kom aftur. 
8 óopnaðir póstar. 
∞ samviskubit.

Í dag var ég að því komin að bresta undan álaginu og tóxt með gríðarlegri skipulagningu að fá eina tvo klukkutíma næstum alveg alein heima til að taka innihald þessara átta óþolandi pósta, og hreinlega díla við þá. Fór líka aðeins í gegnum efni blaðsins að öðru leyti. Fékk allavega hálfa yfirsýn. Og þetta er alls ekki jafn ógerlegt og ég var farin að halda.

Held ég hafi svei mér þá misst nokkur kíló við það. Allavega er nokkuð þungu fargi af mér létt. Náði líka að skrifa nokkur mikilvæg ímeil í viðbót.

Nú er eiginmaðurinn í bíói með bróður sínum, sem kom óvænt í bæinn og ég er grútsyfjuð að bíða eftir að Smábáturinn komi af fótboltaleik, sem var framlengdur. Kann ekki við að láta blessað barnið koma heim í sofandi hús. ("Neyðist" þessvegna til að hanga á feisbúkk og blogga. Dem!)

Og gleðilegan Harry Potter dag! 
Mér er alveg sama þó allar bækurnar séu búnar og allir farnir að gleyma þeim. Ég er samt handviss um að Hogwarts-lestin fór í gær og í dag hefst kennsla samkvæmt stundatöflu.

31.8.08

Sólbraut 10

Er í óða önn að reyna að ganga/hlaupa/hjóla af mér einhver 10 kíló sem vantar uppá að ég verði Aðalpæja. Kría mér þess vegna út útivistarleyfi í einhvern klukkutíma á kvöldi. Gekk í kvöld út á nesið Seltjarnar. Þegar ég var komin á móts við Torg Eiðis fékk ég örlítinn hugbjarma og ákvað að leggja lykkju á leið mína og berja augum slóðir fornar.

Ég man þegar ég sá Húsið í fyrsta skipti. Kom með tveimur skólasystrum mínum á Akureyri í borg óttans og þær óku mér fúslega á staðinn hvar ég myndi hitta Berglindina mína og aðra vini og ætti að eiga samastað á meðan á dvöl stæði. Þegar í götuna var komið efaðist ég stórlega um að við værum á réttum stað. Umhirðuleg einbílishús með jeppum fyrir framan... leit ekki líklega út. Þangað til ég sá ómálaða húsið með illa hirta garðinn í kring og allar druslurnar standandi í malarbílastæðinu. Það þótti mér huxanlega geta verið leigubústaður nokkurra háskólanema.

Ekki grunaði mig að nokkrum mánuðum síðar myndi ég flytjast til höfuðstaðarins og þangað inn. (Nánar tiltekið í bílskúrinn.) Aðeins til að flytja út viku síðar. (Komst inn á Stúdentagarða.) En vera engu að síður þarna með annan fótinn allan veturinn.

Þegar ég lít til baka sé ég slóð eyðileggingarinnar liggja um þennan vetur. Leirtau, húsgögn, hjörtu, sálir, menntavegir, vináttubönd, geðheilsur. Fárviðri þessa heilsvetrar dramakasts eirði engu. Mesta furða hvað lifir eftir af geðheilsu allra hlutaðeigandi. (Eftir því sem ég best veit.) 

En dramatík þessa skammtíma var ekki alveg öll af neikvæða taginu. Þetta var nú líka veturinn sem ég byrjaði í Hugleik og við Rannsóknarskip klúðruðum inntökuprófum í Skóla Leiklistarinnar. Í fyrsta skiptið. Og það var nú skemmtilegt. Ég sá líka Hárið (Baltasars Kormáx) þrisvar. Borgaði morðfjár fyrir og tók alltaf sömu andköfin af hrifningu.

Húsið hefur ekki farið varhluta af góðærinu. Nú er það allt málað og viðgert og óðalsteinar allt um kring. Garðurinn í umhirðu og í honum trampólín, barnakofi, dót. Það eina sem minnir á ljóta húsið í gamla daga er hóllinn sem laxinn var leikinn á, forðum.

Eins gott að ég er að hætta að þýða

Feisbúkk er alveg eitt hlutastarf.

Fitaði heimilisfólk í morgun með amrískum pönnukökum. Það er ágætisleið til að koma mönnum á lappir á sæmilega skikkanlegum tíma. Þá er ekki alveg jafnþjáningafullt að rífa unglinginn á lappir á mánudaxmorgninum. Útpælt.

Tjúllaðist í Kringluna og keypti mér pæjujakka. Eyddi ekki næstum jafnmiklum peningum og ég ætlaði. Ætla síðan út að labba reglulega hratt á eftir svo ég verði mjórri. Ætla að vera orðin pæja undir vorið. Svo ætla ég að þrífa ruslageymsluna. Annaðhvort fyrir eða eftir.

Geðveikt stuð.

Börnin eru annars orðin horlaus. Ég fann splunkunýja tönn á Hraðbátnum í dag. Rannsóknarskip fór á einþáttungasamlestur leikstjóra í dag.

Og á morgun verður vafalaust gaman.