15.4.11

Órólega deildin

Það er að verða til nýr þingflokkur á Alþingi. Éld það væri heppilegast að hann yrði kallaður Órólega deildin. Þangað gætu allir komið sem þyrftu samvisku sinnar vegna að segja skilið við þingflokk sinn, til lengri eða skemmri tíma.

Órólega deildin hefði engan þingflokksformann og þeim sem sætu í henni væri uppálagt að styðjast við eigin samvisku, betri vitund og skynsemi þegar kæmi að því að taka afstöðu til mála.

Þegar allir þingmenn verða komnir í órólegu deildina fer Alþingi að geta sinnt sínu hlutverki sem löggjafarsamkunda þjóðkjörinna fulltrúa almúgans.

14.4.11

Hullinn og svona

Til hamingju, leikfélagið Hugleikur, með 27 ára afmælið! Aldurinn sem mestu rokkararnir deyja á!
Fór á generalprufu á Einkamál.is. leikritinu sem sá gamli frumsýnir á morgun. Óttalega skemmtilegt paunk í gangi þar.

Í tilefni dagsins gerði ég heiðarlega tilraun til að hlaupa 7 kílómetra. Lagði af stað í sól. Svo kom rok. Svo fór sólin. Svo kom snjókoma. Þá haglél.... og nú er aftur komin sól. Labbaði alveg helling af leiðinni og kom með þeim allra síðustu í mark. Aftur komin á þann stað að lappirnar geta hlaupið lengra en lungun. Þarf að fara að gera eitthvað í þessu, nenni ekki aftur á hjartadeildina í sumar.

Annars er þetta búin að vera svakaleg törn. Einhverntíma þarf ég að leggja mig. Eða fara snemma að sofa. Ætlaði að gera það í kvöld... en mundi svo að það er ferlega gott í sjónvarpinu, aðallega seint. Helgin fer síðan í endalausa menningarneyslu og vinafagnaði. Sem standa líklegast frameftir. Vonandi er það rétt sem sagt er að maður geti sofið þegar mar er dauður. Eða kannski bara um páskana!

Ef það væri ekki einhver dauðand haugur af fólki að skoða íbúðina þar sem ég bý myndi ég sko fara heim og leggja mig NÚNA!

13.4.11

Eilíf ást og hamingja og friður á jörð

Þetta er semsagt pistill um það sem mig langar í.

Hjól.
Það þarf samt að vera þannig að ég geti notað það gríðarmikið og alltaf. Og ég þarf líklegast að geta haft allavega einn krakka aftaná. Nenni samt eiginlega ekki að fá mér tengivagn. Of dýrt og of mikið vesen. Fann í dag úr að það er reiðhjólaverkstæði rétt hjá mér sem er til í að taka hjólin sem við þurfum að henda og er með notuð hjól til sölu. Sem er alveg ferlega exellent. Það þarf líka eitthvað að lappa uppá Freigátuhjól í leiðinni. Í vor er síðan planið að fara eitthvurt og kenna henni að hjóla hjálpardekkjalaust.

Svo langar mig á Skólann í sumar.
Auðvitað á ég ekki forkaupsréttinn af því eftir að hafa tapað megrunarkeppni við eiginmanninn. Hann er samt eitthvað að draga lappirnar. Ég held líka að það séu miklu meiri vinir mínir en hans að fara þetta árið. Svo kannski ríf ég þetta bara af honum. Þarf að ákveða mig á morgun eða hinn!

Mig langar ekki að íbúðin sem ég er nýflutt inn í seljist. En auðvitað er það óttaleg eiginhagsmunagæsla í mér. Seljandinn, leigusalinn, verður auðvitað dauðfeginn um leið og það gerist. Það er að koma haugur af fólki að skoða á morgun. Ef selst samgleðst ég eiganda vissulega... og fer að leita mér að öðru fj... húsnæði.

Ég hlakka til að sjá generál á Einkamál.is hjá Hugleik í kvöld. Hlakka líka óstjórnlega til að sjá Havgird með færeyska leikhópnum Royndinni í Gaflaraleikhúsinu aftur á laugardagskvöldið. Sem og Ballið á Bessastöðum í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn. Á föstudagskvöld er ég líka að fara í boð sem er einhvers konar samdrykkjufundur. Og hvað á að tala um? Jú. Leikhús!
Af því að það er auðvitað aldrei nóg af því!

Ég hlakka til að hlaupa þessa 7 kílómetra í Háskólahlaupinu á morgun. Og fara mögulega í jóga í beinu framhaldi. Það verður sko hreint ekki neitt leiðinlegt. Fékk flottan bol þegar ég skráði mig!

Og skelfing verður gaman að klára að tæma geymsluna í Gamlahúsi og skila því á mánudag. Þá verðum við endanlega Flutt.

Já, ferlega er eitthvað mikið og skemmtilegt að gera! Þetta er nú eiginlega algjört met, bara. Eins gott að það fer að bresta á með páskum og tjilleríi. Ótalmargt heima hjá mér ætlar að finna "sína staði" þá.

En það er ljóst að ég nenni ekkert að vinna núna. Best að fara út í bæ að reddast.

12.4.11

Að prenta út 150 heimapróf er góð skemmtun.

Svo ekki sé nú minnst á roknafjörið við að fara yfir þau!

Þannig að best er að bulla dáldið vitleysu. Rannsóknarskip var endurheimtur í gær eftir lengri fjarvistir en ætlað var, vegna veðurs. Áðan labbaði ég yfir í Aðalbyggingu í rigningu. Svo til baka yfir í Háskólatorg í hagléli. Þaðan aftur yfir í Aðalbyggingu í sólskini. Og til baka hingað í Gimlið í skýjuðu og vindi. Þetta tók allt í allt svona 15 mínútur.

Í dag ætla ég að æfa örleik. Hanga svo í vinnunni og taka við og fara yfir heimapróf til miðnættis. Á morgun ætla ég með krakkaormana í páskaklippinguna, eftir leikskóla. Fara með þau í Stubbalubba og eyða formúgu í skallana á þeim.

Á fimmtudag eru síðustu sýningar á Hárlakki í Hagaskóla! (Aukinheldur ætla ég að hlaupa 7 kílómetra í Háskólahlaupinu og gá hvað ég næ mörgum veðrum á leiðinni.)

Geymslan á Ránargötunni hefur enn ekki tæmst. Planið er að Rannsóknarskip gangi í málið á mánudaginn, þegar hann verður kominn í páskafrí á undan öllum öðrum. Vera má að eitthvað verði tekið til óspilltra mála um helgina. Planið er allavega að skila öllu draslinu, tómu, hreinu og alfarið fyrir páska.

Páskunum verður því eytt óskiptum úti á landi. Þ.e.a.s. í Kópavoginum.

Og ég verð bara að segja það. Það er ekkert leiðinlegt að skulda 22 milljónum minna en í síðasta mánuði. Þó svo að í augnablikinu sé búseta háð því að fasteignamarkaðurinn taki ekki allt í einu geðveikisflipp svo seljist undan okkur fína og risastóra leiguhúsnæðið.

Ég sé líka ákveðna þörf fyrir smá húsgagnaverslun. Ætla samt að reyna að hafa hemil á mér þar til ég verð búin að henda/gefa/selja bókstaflega allt sem ég þarf ekki að nota. Þá ætla ég að safna mér fyrir einhverju reglulega flottu mubleríi, einhversstaðar, kannski.

Hei!
Það er aftur komin sól!
Og fleiri heimapróf!
Jeij!

11.4.11

Það sem ég nenni ekki að skrifa á Facebook

Var komin með leiðinlegasta status veraldar í vinnslu. Ákvað að kvelja ekki aðra með honum en þá sem fara hingað sjálfviljugir.

Er enn grasekkja, vegna veðurs. Unglingurinn er lasinn heima og Freigátan þarf að fara til læknis vegna síhors. Draslið er enn í geymslunni á gamla staðnum og ég er komin laaangt á eftir með allt sem ég ætlaði að gera í vinnunni á þessari önn. Allt í fokkinu.

Svo mörg voru þau orð.

Já, svo er líka fokkíng haglél.

10.4.11

MinnihlutaPollýanna

Ég tapaði Icesave. Það verður áfram í fréttunum. Ásamt Bjarna Ben og Sigmundi fokkíng Davíð. Æði.

Er samt alveg stútfull af bjartsýni. Fátt er svo með öllu illt, og allt það. Það góða við þessa niðurstöðu er að nú fáum við ekki meiri lán. Og það er GOTT. Við skuldum alveg nóg og meira en það. Hingað koma heldur engir "erlendir fjárfestar". Það er enn betra. "Erlendir fjárfestar" eru skítapakk með vanvirka siðferðiskennd sem, alveg sama hvað hver segir, eru ALDREI að hugsa um hag samfélagsins. Það er ekkert win-win. Ókeypis hádegisverður er ekki til. Læra menn í Viðskiptafræðunum. Enginn "fjárfestir" er að fara að koma færandi hendi með peningana sína til Íslands, færandi hendi, samfélaginu til góðs. Aldrei.

Hins vegar vill svo skemmtilega til að hér er nóg af öllu. Mat framleiðum við sem gæti dugað miklu fleirum, tómt húsnæði er hér í haugum, og ef menn væru til í að ná nefjunum uppúr sparibaukunum sæju menn að hér er fullt af verkum sem þarf að vinna, má alveg kalla þau "störf" ef menn endilega vilja, í mennta- og heilbrigðistkerfi, vegir sem þarf að laga á Vestfjörðum og allskyns. Og fullt af fólki sem vantar eitthvað að gera!

Svo ég segi það enn einu sinni. Er ekki eitthvað að þegar draslið sem við fundum upp til að auðvelda okkur viðskipti, kemur nú í veg fyrir að við getum stundað viðskipti?

Pollýanna ætlar að ímynda sér að þessi kosning sé upphafið af endalokum peningakerfisins.