31.10.09

Að lifa október af. 31. dagur.

Og eitt ráð að lokum.
Joss Whedon. Og mikið af honum. Hann býr til sjónvarpsþætti.

Efni sem til er. er, í öfugri tímaröð:
Dollhouse, 2 seríur
Angel, 5 seríur
Firefly, ein sería + kvikmyndin Serenity
Og síðast en ekki síst
Buffy the Vampire Slayer, 7 seríur

Við hjónin erum að hefja vegferð um 4 seríu af því síðastnefnda, í annað sinn. (Þ.e.a.s., hann í annað sinn, ég í u.þ.b. skrilljónsta.)
Í kvöld rifjaði ég til dæmis um sæmdarviðurnefnið "Evil Bitchmonster of Death." Sem ég hefi hugsað mér að vinna mér inn á lífsleiðinni. Hugsanlega í einhverskonar kennslu eður leikstjórn.

30.10.09

Að lifa október af. 30. dagur.

Ég veit ekki hvort að er annríkið, hörbað, hlaupin eða hreinlega að taka einn dag í einu og blogga á hverjum degi um ástandið, en þessi október hefur verið hreint ljómandi. Það hefur allur fjandinn komið uppá, orðið sprenging í þýðingavinnu og tímaleysi í ýmislegt mikilvægara setið á hakanum. Heimilið er til dæmis búið að vera frekar mikið eins og eftir gereyðingarárás. Fjármálin eins og þau eru þegar maður sér fyrir fimm manna fjölskyldu á einum kennaralaunum og allt bara ferlega stressað.

En mér hefur samt gengið hreint ljómandi að halda geðinu.

Nú er komin helgi og það eina sem er á planinu er að taka einhverjar myndir af börnunum og hlaupa einu sinni reglulega langt og einu sinni minna langt.

Já, og svo gerist ég sölumaður (dauðans) frá og með sunnudegi. Ef einhvern langar í Herbalife.

Á morgun er síðasti dagurinn í október. Þá ætla ég kannski að nenna að skrifa um Nígeríusvindlið og svona.

29.10.09

Listrænar upplifanir

Þrátt fyrir annríki hef ég upplifað eftirfarandi á undanförnum dögum.

- Kúlsta plott twist EVER í sjónvarpsþætti. Mæli með Dollhouse, nýjustu framleiðslu Joss Whedon, sem eins og allir vita er Guð.
- Stig Larson er ekkert að djóka. Saga eftir hann endar ekkert með kaffi og kruðum eftir að allt ofbeldið er búið. Stúlkan sem lék sér að eldinum er spennandi fram á síðasta orð.
- Svo fór ég á Nígeríusvindlið. Þið vitið hvernig þetta er þegar maður er að horfa á allskonar tilraunaflipp sem maður veit ekki hvert ætlar og svo stendur allt í einu Páll Rósinkranz á sviðinu og syngur Think of Angels? Ekki? Þá hafið misst af þessu.

Er annars alveg að fara að fara að sofa. Eða svona... að fara að fara að fara.

Að lifa október af. 29. dagur.

Hitti leiðbeinandann í gær og fékk fyrirmæli um eina af hinum fjölmörgu ritgerðum sem fyrirhugað er að ég skrifi í nóvember. Fór í framhaldinu í Bókhlöðuna í morgun og tæmdi hana. Hugsanlega eftir smá ryk í hornunum þar, annars bara starfsfólk.

Er líka með þýðingu.

Semsagt urlað að gera.

Og kaffibaunalaust í vinnunni, annan daginn í röð.

Andsk.

28.10.09

Að lifa október af. 28. dagur.

Jæjah. Þá eru bara tvær konur sem ég þekki bálóléttar og komnar 40+ á leið. Ja, sem ég veit af og er í sambandi við á feisbúkk. Sigga Rósa og Einar Hafberg eignuðust stóran strák í gærkvöldi og sleppur Hraðbáturinn þar með við að vera eini strákurinn í stelpnagerinu þegar við hittum þau og Völu, vinkonu Freigátunnar, og fjölskyldu, um ókomin ár. Hann er feginn.

Ég hef hins vegar verið að glíma við margvíslegar vangaveltur undanfarið og hefi ályktað ýmislegt. Eitt er þetta:

Þegar andófsmaður fær völd breytist ádeilan í áróður.

Þetta er líklega svolítið vandamálið við byltingar.

Horfði annars á Hrunið í gærkvöldi og endurupplifði byltinguna. Annars fannst mér gert gríðarlega mikið úr átökum og ofbeldi en allt of lítið úr því sem máli skipti. Byltingunni sjálfri. Sem fór fyrst að hafa áhrif eftir að hún varð appelsínugul. Satt að segja er ég helst á því að það hafi verið síðasti mótmælafundurinn sem gerði útslagið. Þá var ljóst að útspil Geirs H. Haarde með kosningar um vorið og ályktanir Reykjavíkurdeildar Samfylkingar dygðu ekki til að sefa óánægju almennings. Og svo ræða Guðmundar Andra. Ég fæ enn gæsahúð við tilhuxunina.

Ég held að fráfarandi ríkisstjórn hefði unnið mörg prik með því að viðurkenna að hún færi frá vegna sterkrar kröfu úr samfélaginu. Skoðanakannanir um svipað leyti sýndu að um 70% þjóðfélagsins studdu kröfur mótmælenda. Þó sitt sýndist hverjum um aðgerðirnar. Það er hyggin ríkisstjórn sem lætur að slíkri kröfu. En ég sakna Geirs H. Haarde og Halldórs Ásgrímssonar þegar ég hlusta á baulið í Bjarna Ben og Sigmundi Davíð. Hvílíkir angurgapar. Enda hef ég á tilfinningunni að nú sé restin af fylginu að rjátlast af Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mun minnka mikið þegar fram kemur almennilegt framboð fyrir hægri græna.

Bleh... Ég ætlaði ekki að missa mig í pólitík í morgunsárið. Þetta er örugglega andi Guðlaugs Þórs sem hefur skilið eftir einhvern óhroða í sál minni með því að vera að þvælast hérna í gær.
Svo er líka kaffilaust.

27.10.09

Til þeirra sem ekki skilja gleðina yfir brotthvarfi MacDonalds

Málið er að hingaðkoma þeirrar keðju markaði upphaf hins uppdiktaða góðæris þess sem síðan hefur farið hér með efnahag allra til fjandans. Með þann sem tróð í sig fyrsta biggmakknum í fararbroddi.

Brottför þessa merkis úr landinu er ekkert annað en táknræn. Enginn missir vinnuna, heldur verða nokkru fleiri störf í tengslum við hið verðandi "Metró" þar sem hinar nýju hamorgarabúllur munu brúka íslenskt hráefni.

Því er ekki að undra að húrrahrópin endurómi.

Og það fer í taugarnar á mér þegar fólk talar um að eitthvað gerist "í netheimum." Puttar okkar sem tjá sig þar eru í kjötheimum og skoðanir líka.
Þetta er allt sami heimurinn.

Að lifa október af. 27. dagur.

Skilja mátti á fésbókarfærslu Svandísar minnar í gær að nú væri hún farin á fæðingardeildina. Síðan hefur ekkert frést. Ég hefi trú á að nú sé enn ein æsispennandi útvíkkunarsagan í fæðingu. Bókstaflega.
---
Neibb, þetta reyndist bara gabb hjá þeirri (enn) ófæddu. Þar með þekki ég nú þrjár konur sem eru að hamast við að ganga frammyfir og hef ekki við að vorkenna þeim.
---
Mikið hroðalega svindlaði maður nú annars á megruninni um helgina. Tók herbalæfið ekki með norður, hljóp ekkert að neinu ráði og hagaði sér almennt óskynsamlega. Enda finnst mér ég vera hundrðogáttatíu kíló og er finn fyrir gríðarlegri löngun út að hlaupa svona 10 kílómetra. Ekki tími til þess í dag, en seinnipartinn er þó einhver tæplega klukkutíma smuga sem mun brúkast úr í ystu æsar.

Svo langar mig hrikalega að sjá Nígeríusvindlið og nýju Mikael Moore myndina. Verð að búa til tíma fyrir það.

Og október er bara að verða búinn!
Sijitt hvað ég þarf að skrifa margar ritgerðir í nóvember.

26.10.09

Að vera eins og heil hreppsnefnd í framan

Þjófstolið af bloggi Láru Hönnu. Sem allir ættu, bæðevei, að lesa alltaf. Frekar en mbl og deffffinetlí frekar en vísi.

Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún hefur orðið:

"Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villutrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttunni Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður ástina, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.

Þær konur sem ganga inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættu að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er engin ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem misst hefur lífsneistann úr augunum.

En lífsneistinn er kulnaður, af því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?

Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmiklir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.

Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku."