16.4.04

Á morgun, laugardagskvöld 17. apríl, sýnir Hugleikur Sirkus í Tjarnarbíó í allra síðasta sinn í heiminum. (Þeir sem ætla að sjá þurfa að haska sér.) Þá verður nú kátt í höllinni.

Annars, kominn nýtt afl í mínu lífi. Wisardry 8.
Skipulag kvöldsins: Búa til nýjan hóp í Wisardry 8 skv. heilbrigðri skynsemi.
Skipulag framtíðar: Spila Wisardry 8. ALLTAF
Tilgangur lífsins: Wisardy 8

Það jafnast ekkert á við heilbrigða tölvuleikjafíkn

14.4.04

Þessa dagana er ég að reyna að fara í ljós annað slagið, til að vinna á ljósgræna vetrarhúðlitnum. Mitt helsta vandamál í því átaki er hins vegar að finna útvarpsstöð sem ég get lifað með í eyrunum í 16 mínútur samfleytt. Í gær gafst ég upp á því að reyna að finna eitthvað skemmtilegt "lag" og ákvað í staðinn að leita uppi gufuna og hlusta á "eitthvað af viti". Og viti menn, allt í einu hljómaði söngur Kamillu úr Kardemommubænum. Það var verið að spila leikritið (eða plötuna) eins og það lagði sig og í ljósatímanum náði ég líka Veðurvísunum, og öllu þangað til Tobías í Turninum var búinn að gabba Soffíu frænku til að koma með sér á Kardemommuhátíðina. Rás eitt rúlar!

Þessi Egner-upplifun sendi mann náttúrulega á vit minninganna, og ég veit að það er ógurlega óviðeigandi að segja það, en mikið obbosslega var ég oft full í Kardemommubænum. Og að sýna barnaleikrit daginn eftir dimmisjon, get ekki sagt að ég mæli sérstaklega með því... En gaman varða. Ójá.

Og meira um leikfélög, hann Hugleikur er tvítugur í dag. Þar með akkúrat 10 árum og 10 dögum yngri en ég. Í tilefni af því er hátíðasýning á Sirkus í Tjarnarbíó í kvöld klukkan 20.00. Og það fer hver að verða síðastur að sjá þann ágæta gjörning, lokasýning er á laugardag.

Og fyrst maður er farinn að auglýsa menningarviðburði, þriðjudaginn 20. apríl næstkomandi, kl. 20.30, verða haldnir yfirgengilega merkilegir tónleikar í Borgarleikhúsinu. Þar skilst mér eigi að vera einhver slatti af "frægum", en það merkilegasta af öllu sem þar fer fram mun vera frumflutningur Lúðrasveitar Reykjavíkur á fyrsta tónverki Báru, systur minnar, "Hver tók ostinn minn?". Þessi fína sinfónía fyrir blásarasveit byggir lauslega á samnefndri sjálfhjálparbók, og kokkaðist hugmyndin af henni upp um svipað leyti og ég fór að prjóna töskur.

Allir mæta!

13.4.04

í þáttunum um Blóðsugubanann Buffy
kemur fyrir persónan Angel. Hann er af ætt og kyni vampíra en er með þeim ósköpum gerður að hann er með sál. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að ef hann upplifir andartak af hamingju þá missir hann sálina og verður allur illur sem öll ætt fjandans væri saman komin. Ég er að velta því fyrir mér hvort þarna hafi Joss Wedon (hugmyndasmiður þáttanna) hitt naglann á höfuðið, varðandi fólk almennt.

Ég veit allavega að ef ég hef ekki mikið annað að gera en að sofa og éta í smá tíma verð ég alveg ranghverf. Nenni ekki því litla sem ég ætti eiginlega að vera að gera, og er síðan orðin úrill og andstyggileg persóna eftir örfáa daga, bara alveg eins og Angel þegar sálartötrið hans fer forgörðum.

Já, hamingjan er ekki öll þar sem hún er séð. Frí frá vinnunni og öllu er greinilega meira en ég fæ höndlað. Tala nú ekki um ef ofneysla súkkulaðis bætist við þannig að maður bókstaflega finnur buxurnar sínar skreppa saman og appelsínuhúðina springa út. Vei öllum páskafríum, líklega væri best að nota þennan tíma til menningarferða eins og Varríus og félagar gerðu þetta árið.

Muna það að ári.