24.12.04

Þá eru það jólin í hinum Frjálsa Heimi.
Í virðingarskyni við hinn Frjálsa Heim, þá verða fyrirvarar á öllum jólakveðjum í ár. Sem sagt:


Gleðileg jól...

(...nema náttúrulega ef lesandinn er einn af þeim sem þykir jólaskraut ljótt, jólamatur vondur og leiðinlegt að fá frí í vinnunni og gjafir, þá þarf hann náttúrulega ekkert að taka þetta til sín. Má halda ógleðileg jól mín vegna. Heldur ekki ef hann er frábitinn jólum af trúarlegum, andlegum eða líkamlegum ástæðum.)

...og farsælt komandi ár.

(...nema náttúrulega ef lesandinn vill ekki að næsta ár verði skemmtilegt og líður bara almennt betur ef tímarnir eru verri. Heldur ekki ef hann er með ofnæmi fyrir árum sem enda á 5 og þykir þau alla jafna leiðinleg. Auðvita er mönnum frjálst að hafa næsta ár eins og þeir vilja. Maður segir bara svona...)

Þakka allan viðurgjörning á liðnu ári.

(...hvort sem mönnum líkar betur eða ver.)

22.12.04

Kæri Davíð.
Gleðileg jól og til hamingju með góðærið, hagvöxtinn og að við skulum vera með ríkustu þjóðum heims. Þetta var nú aldeilis vel af sér vikið hjá þér. Að koma þjóðfélaginu á þessa líka gargandi siglingu.

Nokkrir menn eru meira að segja orðnir grilljónamæringar! (Reyndar náttúrulega ekki rétta fólkið, Jónarnir Ásgeir og Ólafs áttu náttúrulega ekkert að vera að vilja upp á dekk með að troða vinum þínum um tær... En á móti kemur að nú getur þú reddað öllum sem þú þekkir fínum embættum á vegum ríkisins. Það var nú eins gott.)

Já, það er góðæri. Allir sem máli skipta hafa það gífurlega gott. (Reyndar eru alltaf einhverjir öryrkjar og aumingjar vælandi, þykjast ekki eiga í sig eða á og standa í stækkandi biðröð fyrir framan Fjölskylduhjálpina og Mæðrastyrksnefnd fyrir hver jól. En eins og þú sjálfur sagðir: Þar sem eitthvað er ókeypis þá hópast náttúrulega sníkjudýrin að. Þetta er auðvitað rakkarapakk sem helst ætti að éta það sem úti frýs, hvort sem er.)

Og til hamingju með stríðið í Írak! Stórkostleg framtakssemi! Að koma á lýðræði! Eins og í Afganistan! (Reyndar er lýðræðið í Afgan ekki alveg að virka, löggan gerir það sem henni sýnist og glæpagengi ráða því sem þau vilja og menn eru að fá talsvert verri útreið en hjá Talebönum áður, en það er ekki okkar vandamál... er það?) Og Írakar skulu fá lýðræði, hvort sem þeim líkar betur eða verr. (Reyndar er útlit fyrir að þeim líki það verr, enda heittrúaðir talebanskir múslimar meirihluti þjóðarinnar. Og menn eru strádrepnir þar á hverjum degi og útlit fyrir að einhver slatti af fólki fái ekki að lifa af jólin... En þetta pakk náttúrulega veit bara ekki hvað því er fyrir bestu!)

Og til hamingju með lýðræðið á Íslandi! (Auðvitað var ekkert hægt að láta hvaða sótraft sem var hafa rétt á að hafa skoðun á fjölmiðlafrumvarpinu. Að láta sér detta annað eins í hug! Lýðræðið gengur náttúrulega ekki nema meirihluti þjóðarinnar sé sammála þér, eins og þú veist.)

Já, ég hef enga trú á öðru en að þú eigir gleðileg jól og sofir vel á nóttunni eftir allar þessar stórkostlegu ákvarðanir sem allar hafa verið þjóðinni og mannkyninu öllu til framdráttar. Hér mun ríkja Stöðugleiki og Lýðræðislegt Frelsi um aldir alda og megi Afturhaldskommatittir Aldrei Þrífast.
Now is the summer of my content...

Er að fara austur á eftir. Á reyndar eftir að pakka og gera nokkurþúsund hluti. Jæjajæja. Ég veit ekki hversu dugleg ég verð að blogga næstu 10 daga, ca., fer alveg eftir því hvernig staða tölvumála á bernskuheimili mínu er um þessar mundir. Það kemur nú samt vonandi jólakveðja, þar sem ég hef ekki frekar en venjulega nennt að senda jólakort, og áramótapistill af því að það er hefð.

Ég verð líka eins og landafjandi á milli austur- og norðurlands. Fer austur í dag, norður 28., austur aftur á gamlársdag, norður aftur, sennilega 2. og suður 3. þannig náum við Rannsóknarskipið heilli viku í hvors annars návist og verður það mikil gleði. Þó þetta sé náttúrulega talsvert hindranahlaup með þessar asnalegu fjarlægðir allar saman. Kannski samt eins gott að halda þeim bara, menn hafa tekið upp á þeim leiða ávana að gefast bara upp á mér ef ég er nær...
Vona bara að vika sé ekki of mikið...

Best að fá ekki kvíðaröskun yfir því alveg strax. og einbeita sér að hamingjusamlegri hlutum. Í kvöld fæ ég mömmumat! Jeij!

21.12.04

Ég hef oft og gjarnan huxað henni J.K. Rowling þegjandi þörfina undanfarna mánuði og ár fyrir að láta mann alltaf bíða lengur og lengur eftir næstu Harry Potter bók. Biðin virðist vera á enda í þetta skiptið, hún er búin að skrifa bókina og senda hana til útgefenda sem ætla að segja mönnum í dag hvenær hún kemur út.

Ég er mjög hamingjusöm. Þetta bjargaði alveg þessum annars dimmasta degi ársins.

(Örskömmu síðar)

Og svo kemur hún ekki fyrr en í JÚLÍ!!! Komm on!
Hún Ásta átti afmæli í gær og til hamingju með það. Ég komst hins vegar ekki til að heimsækja hana í tilefni daxins sökum nennuleysis á náttfötunum.

Enda kom ekki dagur í gær. Ég veit það kemur ekki svoleiðis heldur í dag, á morgun eða nokkurn tíma fyrr en á næsta ári. Það verður nú bara að viðurkennast að skammdegið fer illa í mig og það er fáránlega erfitt að fara fram úr og gera eitthvað af viti. En, það verður mér sennilega til lífs að fara heim og láta mömmuna sjá um mig þangað til á næsta ári. Hún sökkar, skammdegisfýlan...

Ég er annars búin að kaupa allar jólagjafirnar, lá reyndar við nokkrum kvíðaköstum í Kringlunni í gær. Hvaðan kemur eiginlega allt þetta fólk?

Varð vitni að einu. Var í bókabúð og var að fá afgreiðslu þegar inn storma fjórir pottormar, á aldrinum 10 til 12 ára, ca, og spyrja afgreiðslukonuna hvort hún selji klámblöð. Konan kvað já við því en lét fylgja sögunni að þeir væru of ungir til að kaupa slíkt. Pottormarnir sinntu því engu, en snöruðust að tímaritahillunum þar sem þeir horfðu á forsíður að Burda og Bride Magazine í 10 sekúndur sögðu "OJ" og héldu síðan á brott flissandi og frussandi. Okkur afgreiðslustúlkunni var skemmt.

Ég fór nú samt aðeins að velta þessu fyrir mér, svona eftirá. Ætli kvenfólk sé sem sagt orðið svona rækilega hlutgert í augum komandi kynslóðar karlpenings að myndir af slíkum fyrirbærum séu samstundis orðnar klám? Ætli þetta hafi verið litlir og upprennandi talebanar sem krefjast þess heima fyrir að mæður þeirra og systur hylji á almannafæri allt nema augu og fingur? Ætli uppvaxandi kynslóð hyggi á siðferðisbyltingu með viðeigandi kvenhulningu? Eða kannski er bara búinn að vera vetur svo lengi að blessuð börnin hafa ekki séð úlpulaust kvenfólk síðan þau muna eftir sér...

20.12.04

Það er svo fyndið, þegar það eru að koma jól, þá er alltaf líka eins og það sé að koma heimsendir. Það þarf Allt að gerast Fyrir Jól, annars bara... gaaaah!

Í tilefni þess kem ég til með að eyða eftirmiðdeginu í Kringlunni og gott ef ekki Smáralindinni líka og kvöldinu á haus ofan í skúringafötunni. Aldeilis eins gott að það sé hreint heima hjá manni um jólin, það sér nefnilega enginn. (Nema kannski álfarnir ef þeir vilja halda partí. Treysti Hugrúnu síðan til að henda þeim út þegar hún kemur þann 27.)

Ég er að fara heim ekkjámorgunheldur hinn og ætla að búa í ömmuhúsi. (Þar sem ömmurúm er of stutt fyrir litlabróður, en ekki fyrir Rannsóknarskipið. Já, við erum margt smátt fólk.) Þar með komum við Hugrún til með að búa saman í tæpa viku... af því að okkur gengur það alltaf svo ljómandi vel... Juminn...

Ísskápurinn minn er tómur og ég fantasera þessa dagana mikinn um hvað ég ætla að borða í jólafríinu. Það er margt stórt.
Þetta var helgi menningar og félagslegrar meðvitundar á alla kanta.

Á föstudaxkvöld ákvað ég að nenna ekki á Memento Mori (enda saumavélin sem ég ætlaði að sækja flúin af vettvangi) og ákvað í staðinn að vera heima og horfa á þrennt í sjónvarpinu í einu. List sem aðeins er hægt að iðka ef maður er aleinn um fjarstýringuna. Fljótlega urðu þó bæði Law & Order og Ædolið að lúta í lægra haldi, heimildaþátturinn um Band Aid tók alveg yfir. Þetta er, að ég held, í fyrsta skipti sem ég hef grenjað yfir heimildamynd. Ég veit ekki alveg hvort það var hreinlega það að sjá öll æskugoðin mín á einum stað að syngja jólalag, eða upprifjun á hungurkláms-myndunum frá Eþíópíu, eða myndir af sama stað nú 20 árum seinna þegar menn eru tiltölulega glaðir, börnin kát og ekkert tiltakanlega svöng, en ég vatnaði mörgum músum. Á milli þess þegar ég skellihló að lýsingunum á því hvað allar eitís stjörnurnar voru þunnar þennan dag og hversu alvarleg hárspreyslykt var í loftinu. (Og svo eru menn hissa á því að það hafi komið gat á Ósonlagið?) Og að Boy George sem var næstum eini maðurinn í heiminum sem var kominn út úr skápnum og þreyttist ekki á að bregða samgoðum sínum um samkynhneigð. Sérstaklega George Michael (!)

Á laugardaxkvöld byrjaði ég á að fara að sjá Birdy hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Skemmst frá því að segja að sú sýning er mikil snilld. Hver silkihúfan upp af annarri í leikarahópnum og flottar lausnir út um allt. Virkilega gaman að sjá.
Velkominn Ingvar.

Þaðan lá leiðin á Þjóðleikhúskjallarann að sjá fjóra kraftflimtingamenn í röð með Ágústu Skúla á milli. Það var algjör gargandi snilld og mér er ennþá illt í hlævöðvunum.

Í gærkvöldi reif ég mig svo upp úr þynnkunni og fór að sjá leikritið Þú veist hvernig þetta er, hjá Stúdentaleikhúsinu. Fyrr á árinu var eitthvað verið að reyna að segja mér að pólitískt leikhús væri dautt og úrelt. Það er haugalygi. Sem er eins gott vegna þess að þá væri nú minn leikritunarferill á enda. Þessi sýning er gargandi snilld og gladdi mig gífurlega þar sem þar sem það er nú ljóst að ég er ekki eina manneskjan sem finnst þetta þjóðfélag vera að sigla hraðbyri til Helvítis. Þetta átti víst að vera allra síðasta sýning, en mér finnst það ætti að vera allavega ein enn, starfsmannasýning á Alþingi.

Og svo eru víst bara að koma jól! Jahjarna.