Ég fór að rífast við Framsóknarfrændur mína á Fésbókinni. Sem er náttúrulega ein versta tímasóun sem hægt er að finna uppá. En annar þeirra kom með umræðupunkt sem ég get ekki hætt að hugsa um. Honum fannst nefnilega sjálfgefið að þar sem ég starfa í menningargeiranum væri ég ósátt við launin mín.
Hmmmm.
Nú um stundir er ég með föst laun. Sem er frekar sjaldgæft. Fjallaði um það hérna áður.
Og þau eru kannski ekkert há. Og maðurinn minn er kennari.
En nú ber svo við að við erum að flytja. Ég var í Kópavoginum að pakka niður um helgina. Og hvílíkt og annað eins ógrynni af eignum. Sjálfsagt milljónavirði af einskisverðu drasli sem allir í fjölskyldunni hefðu alltaf getað verið án. Um rúmmetri af mismikið notuðum fötum fór í Rauða krossinn sem var svo heppinn að vera einmitt með fatasöfnun. Góður slatti af mublum og öðru endar í nytjagámnum. Alveg slatti kemur hingað austur í áttatíu fermetrana, fer inn í geymslu og líklega ekki þaðan út aftur fyrr en við flytjum næst.
Og það er fyrirsjáanlegt, vegna þess að áttatíu fermetrarnir eru auðvitað of litlir… einhverjir 16 fermetrar á mann eru náttúrulega ekki nóg. Ekki vegna þess að við séum svona stór um okkur né heldur að við séum hreyfingarnöttarar og þurfum að stunda íþróttir heima hjá okkur og enginn í fjölskyldunni gerir útilistaverk.
Heldur aðeins vegna þess að það er ó, svo ótalmargt sem við þurfum endilega og ævinlega að hafa við höndina.
Heldur aðeins vegna þess að það er ó, svo ótalmargt sem við þurfum endilega og ævinlega að hafa við höndina.
En þegar ég horfi í huganum yfir kassafjallið sem ég fæ hingað um næstu helgi get ég ekki varist þeirri hugsun að fyrst launin hafa dugað til að fjárfesta í öllu þessu drasli hljóti þau nú að duga fjölskyldunni til viðurværis.
Þarf ég hærri laun?
Ég verð að viðurkenna að þegar lítið er um peninga þá sker ég bara niður. Eins og ekkert sé. Kaupi mögulega minna af drasli, hugsa um að rækta kryddjurtir og kartöflur (hef enn aldrei komist lengra en að hugsa það) og endurnýja ekki tækjakost heimilisins nema hann sé ónýtur. Og jafnvel ekki einu sinni þá! Miklu frekar heldur en að fá mér vinnu á 12 tíma vöktum í álverinu eða leita annarra leiða til að auka tekjur heimilisins til að geta keypt mér allt dótið sem ég hef síðan aldrei tíma til að leika mér með af því að ég er alltaf í vinnunni.
Ef heimili mitt væri ríkissjóður væri ég Sjálfstæðisflokkurinn.
Peningar eru dóp. Ég hef aldrei hitt neinn sem finnst hann hafa nóg af þeim.
Og nú er söngur dópsalanna byrjaður.
„Viltu ekki aðeins meira, væna?“
„Má bjóða þér lán inní eilífðina?“
„Af því að RÉTT BRÁÐUM fá náttúrulega ALLIR MIKKKKLU meiri peninga… ókeypis.“
Það er markvisst verið að fylla okkur öll af fráhvarfskenndri óþreyju.
Í „Gróðæri II – Endurtökum leikinn“ sem nú er að hefjast tek hins vegar ég engin lán. Ekki verðtryggð, ekki óverðtryggð uppá náð og miskunn geðþóttaákvarðana bankamanna um vexti, ekki einu sinni lán sem eru tengd við stýrivexti Seðlabanka. Frekar held ég áfram að flytja í nýtt gamalt og krappí leiguhúsnæði á eins til tveggja ára fresti og henda öllu draslinu sem ég er búin að eyða peningunum í, í leiðinni. Vissulega er líka séns í helvíti að mér auðnist á leiðinni viska til að hugsa mig betur um áður en ég kaupi það.
Ég neita að taka þátt.
Í næsta hruni ætla ég að ulla á nýju hrunkvöðlana og segja „tóld jú só“ við alla Framsóknarfrændurna mína sem verða auðvitað búnir að skuldsetja sig undir drep útá froðorðin hans Simma Hrafnabjörgum.
Valhoppa síðan skuldlaus og hamingjusöm inn í næstu lista- og nýsköpunarsprengingu, auðug í andanum eins og Þorvaldur Þorsteinsson heitinn.