25.9.09

Drög

Lagði drög að því að skrifa splunkunýtt eintal í gær. Og gerði heiðarlega tilraun til að pikka upp "nýtt" lag með fulllt af "nýjum" hljómum. Ofboðslega margt nýtt í gangi.

Svo er ég að hugsa um hvort er ekki bara best að druslast á Hálfvitatónleika í kvöld, þar sem illu er best aflokið?

23.9.09

Varúð! Kommúnismi!

Hvernig væri:

- Að skera ekki niður í heilbrigðis- né menntakerfi heldur efla hvurutveggja, þar sem það er löngu tímabært, og sporna í leiðinni gegn atvinnuleysi.
- Að segja Aþjóðagjaldeyrissjóðnum að fara heim til sín og bíta í það súra epli að það verði bara fokkíng fjárlagahalli á meðan við erum að borga upp rugl síðustu ára.
- Ef menn vilja endilega fá einhverja peninga inn í ríkissjóð: Að þjóðnýta orkulindir og auðlindir, allar sem eina, (þar með talið helv... mælana sem Finnur Ingólfs er búinn að græða alveg nóg á) halda bönkunum í eigu ríkisins og fara í harðar aðgerðir til að ná aftur peningunum sem þessir 30 sem allir vita hverjir eru stálu.

Já, og eigendur eignarhaldsfélaga eru AÐ SJÁLFSÖGÐU persónulega ábyrgir fyrir skuldum þeirra. Og hana fokkíng nú.

Það myndi ég gera.
Hverjir eru með í að stofna kommúnistaflokk?

22.9.09

Af öllum ekki-fréttum...

Eftir nokkrar vangaveltur hef ég komist að því að mér er hjartans sama hvar Davíð, þessi, Oddsson vinnur. Svo fremi sem ég þarf ekki að vinna með honum. Það held ég sé varla skemmtilegt, ja, nema maður sé algjör undirlægja og hafi enga skoðun nema hans. Hins vegar finnst mér ódýrt ef satt er, að þetta sé sögusögn sem stjórnendur moggans hafi komið á kreik til að blaðamenn sætti sig frekar við uppsagnarbréfin. Sjáum hvað Zetur.

Fræðilegi þátturinn í rannsókninni minni mjakast áfram og leiðbeinendurnir mínir hafa staðið sig vel í að bjarga mér frá barmi örvæntingar, þegar ég hef verið á leiðinni þangað. Svo horfir maður bara á heimspekingana, sem ganga hérna soldið um og halla undir flatt... það er eitthvað ferlega róandi við nærveru Páls Skúla og Róberts Haralds. Eitthvað svona... beita bara aðferðum stóisma og gagnrýninni huxun og þetta verður allt í lagi.

Þessa vikuna virðast allir ætla að vera hraustir. Enda bæði litlu börnin á Flemoxíni, Hraðbátur við eyrum og Freigáta við hori. Allur skarinn tekur síðan daglegum framförum til orðs og æðis.

Og rökhuxun:
Freigátan var í gær eitthvað að pota í hrefnu sem orðið hafði eftir frá deginum áður. Ég sagði henni að þetta væri hvalkjöt. Hún horfði á mig stórum augum og sagði: "Nei, mamma, hvalir borða hvalkjöt. Ég borða bara stelpukjöt."
Ég ákvað að leiðrétta þennan misskilning ekki alveg í bili.

Hraðbáturinn er farinn að tala meira og meira með hverjum deginum, og Smábáturinn verður afar fallega bleikur í framan þegar maður spyr hann eitthvað útí stelpurnar sem hann er alltaf að flækjast með.
Rannsóknarskip er líka hamingjusamur þessa dagana. Hann á nýtt Empire.

Best að drífa sig í Þætti úr Menningarsögu... (Þar sem á að tala um Nietzsche. Fokkíng vei...)

---

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða Herbalife-ið. En ég verð aldrei syfjuð í tímum lengur. Jafnvel ekki þegar ég er að lesa Foucault með öðru auganu og hlusta á kennarann dróna um Nietzsche með hinu eyranu.