16.8.08

Feis Speis

Ég á mæspeis sem ég nota eingöngu til að skoða myndir af dóttur vinkonu minnar í Montpellier. Og samskipta við leikritunarvinkonu í Bandaríkjunum. Og svo kommenta Ljótu hálfvitarnir reglulega auglýsingar. Ég held ég eigi 6 vini þar. Og fer örsjaldan þar inn til að hafna vinasamböndum við ókunnugt fólk með köldu blóði. Og er alveg búin að jafna mig á því.

Og undanfarið þá hafa hinir og þessir verið að tala um Fésbækurnar sínar. Ég lét mér finnast um fátt. Þangað til ég raxt á einhverju bloggflandri á þá staðreynd að þar eru Niturbasarnir. NITURBASARNIR! Látum vera með Sólstrandagæjana eða Döðlurnar, en þetta er nú svo mikið költ að þessu bandi man sjálfsagt næstum enginn eftir. 
Með Ugludjöfulinn á heilanum fékk ég mér Fésbók.

En. O-ó. Grefill og dauði. Sækja nú að tilvistarkreppur úr öllum áttum.
Til dæmis á ég enga vini. Mjög plebbskt. 
Svo á ég enga almennilega mynd af mér. Staðreynd: Til að hægt sé að taka betri myndir þarf ég að líta betur út. 
Svo sá ég að Allir eru með myndir af sér með börnin sín. 
Átti ég að gera það?
Á ég mynd af mér með einhverju af börnunum þar sem ég er ekki Feit?

Sveimérþá. Fer að efast um að Niturbasarnir séu allrar þessarar angistar virði...
Sjúkk að Hugleikur er þó allavega með grúppu...

Köst

Gríðarlega miðar okkur nú. Heimilið er alveg að verða mannsæmandi. Og forstofan er full af fatapokum sem eiga að fara í hjálpræðisherinn. 

Og í dag var líka farið á höfundafund þar sem heimtur af efni fyrir afmælis einþáttungaprógramm Hugleix voru skoðaðar. Hraðbátur sótti þar sinn fyrsta höfundafund og hitti dreng sem var miklu minni en hann sjálfur hverrar móður ég gleymdi að inna eftir bloggi eða barnalandssíðu. 
Ha? Nína?

Hreint ljómandi gaman.

Síðan er húsbóndinn búinn að vera afskaplega upptekinn af íþróttum í imbanum, heima og heiman frá sér, og húsfrúin hálf á hvolfi inni í fataskápum, eins og vera ber.

Enn er þó ekki komin nógu mikil regla á huxanir mínar til þess að ég geti farið að athuga með að klára að vinna Glettinginn. En það fer að koma að því.

Enn bíðum við líka eftir að frétta hvenær Freigátan má byrja á leikskólanum. Og ólíklegt að Móðurskipið geri mikið í neinu meðan litla Gátan er með í öllum húsverkum. Svo tínist Smábátur í bæinn á morgun eða hinn, og þá er fullskipað í veturinn.

15.8.08

Það er ljóst

að það mun taka veturinn að koma málum hér á heimilinu í nokkurn veginn samt lag. Sit í haugnum miðjum og nenni engu. Rannsóknarskip farið í langþráða klippingu með Freigátuna með sér og Hraðbátur sofandi úti á nýsópuðum svölum. Og mig langar í alvarlegar endurskipulagningar á geymslunni.

Og haldiði að við séum að sjá síðasta meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur þetta kjörtímabilið?
Ég leyfi mér að efast.

Í aðalfréttum úr heimilislífinu er annars það að Freigátan er næstum alveg hætt að ganga með bleyjur og Hraðbátur er kominn með vígtennur.

Og það sést ekki í svefnherbergið okkar, þar er bara stór haugur af fötum. Ýmist eru þau á leið aftur inn í skáp, í geymsluna, á hjálpræðisherinn eða í ruslið. Og þarf að klárast í dag , svo við komumst í rúmin í nótt. Jæjajæja.

Annars er ég nú mikið að reyna að heyra í gegnum fréttir frá Georgíu. Hroðalega er ég hrædd um að ástandið þar sé mikið verra en maður heyrir. Það er einhvern veginn þannig þegar fréttir eru misvísandi og allir virðast ljúga. Átökin í Georgíu virtust eitthvað svo nálægt, þarna á leiklistarhátíð í Lettlandi þar sem fólk sem maður þekkti átti fjölskyldur þar sem náðist ekki í. Allt í einu hrukku líka alls konar þreifingar Rússa undanfarin ár í eitthvað samhengi í hausnum á mér. Og margir segja að brjálæðingur sé þar við völd. En maður huxar alltaf: Issss hvað ætli þeir geeeeti svosem. Er ekki allt í klessu í Rússlandi?

Sennilega mikið eins og menn huxuðu um Þýskaland millistríðsáranna... 

Þetta var einstaklega stefnulaus bloggfærsla og hreint ekki til fyrirmyndar.

14.8.08

Komin heim

Og þá erum við loxins komin og alkomin heim.
Vitum ekki í þennan heim eða annan fyrir drasli og áttavillu. Það á eftir að taka einhverja daga að finna allt sem átti einhvern tíma að vera til hérna undir öllu draslinu... en mig minnir að einhvern tíma höfum við kunnað að búa hérna...

11.8.08

Riga festivalið

Ég veit ekki hvort ég get byrjað að tjá mig alveg strax. Er samt að huxa um að reyna að gera örstutta samantekt. (Þar sem tímamismunurinn vakti mig fyrir allar aldir.) 

Látum oss nú sjá.

- Ég er ekki búin að gera nógu rækilega úttekt á leiklistinni á þessari hátíð til að geta sagt mikið um standartinn á henni, ennþá. Ég hef þó smá tilfinningu fyrir að menn hafi talsvert haldið sig í meðalmennskunni, sumir aðeins fyrir ofan, aðrir aðeins fyrir neðan. Og ég ákvað að ganga í gæðakröfugengið. Meðalsýningar get ég séð heima hjá mér. Á leiklistarhátíðum NEATA vil ég sjá það besta af því besta frá öllum 10 löndunum og ekkert kjaftæði!

- Ég kom aldrei til Sovétríkjanna, meðan þau voru og hétu, en núna er eins og maður hafi séð smá  sýnishorn. Við bjuggum í skóla dáldið fyrir utan Riga. Sváfum á herbeddum og sturtan var... ólýsanleg. Því miður var ég ekki með myndavél. En mér finnst líklegt að þær birtist á fésbókum hátíðarfara innan skamms. Og af því að gistiaðstaðan var svona langt úti í sveit eyddum við talsverðum tíma af hátíðinni í rútum. eitthvað um 20 klukkutímum, reiknaðist okkur á heimleiðinni.

- En lokakvöld hátíðarinnar var Dásamlegt. Yfirleitt leiðast mér svona lokakvöldverðir heldur. Stundum voða mikið spariföt og ræður, eitthvað. Og ekki leist okkur alveg á blikuna þegar í ljós kom að það átti að fara með okkur enn lengra út í sveit, í hina áttina, beint eftir heilan dag af hátíði og ekkert að gefa mönnum neitt færi á sturtu eða sjæni í millitíðinni. (Sem afnam reyndar sparifatahefðina í einnu böggi.) En svo var þetta svona líka ljómandi glæsilegt hjá þeim. Svakalega flottur staður, svona sveitakrá. Dásamlega góður grillmatur, ræðurnar óvenjustuttar, flottasta flugeldasýning sem ég hef séð, þjóðlagakennd hljómsveit sem lék undir dansi. Svæðið hentaði einkar vel til minglunar og menn tóku magnaða spretti á dansgólfinu. Og ferðina til baka, sem við sáum fram á að yrði nokkuð löng, reyndum við formaður NEATA að gera bærilegri með því að skipta mönnum upp í partírútu og svefnrútu. (Tóxt reyndar ekki betur en svo að Litháar skildu okkur ekkert og sváfu í miðri partírútunni, á meðan færri komust þangað en vildu og þurftu að gera sér að góðu lágværan vísi að partíi í svefnrútunni.)
En þessi lokahnykkur var algert æði.

Einhvern tíma þarf ég síðan að tjá mig um margt fleira og fullt í viðbót. Aðallega gera tæmandi úttektir á hverri sýningu fyrir sig. (Af því að mér finnst svo gaman að fá svoleiðis eftir að ég hef verið öfundarkoffort.) En nú er ég að fara að fljúga norðurum land í faðm fjölskyldunnar eftir hádegið. Svo það er víst best að reyna að leggja sig aftur. Og vonandi koma bráðum menn með töskuna mína, sem þeim fannst nauðsynlegt að gera viðskila við mig og láta verða eftir í Köben.

Át!

Komin heim úr Gúlaginu.
Meira síðar.
Nefndin.