10.6.10

Skóli!

Jæja, hann er að bresta á. Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga. 13 ára fyrirbæri. Gríðarlegur innblástur og upplypting andans fyrir alla sem sækja hann ár hvert, ef maður vill vera hástemmdur. Skemmtilegt, slítandi og lærdómsríkt skemmt, vilji maður halda sig við jörðina. Nú verður reyndar flutt sig um set, frá Húsabakka til Húnavalla, sem hefur í för með sér örlítið fámennari samsof í herbergjum sem mögulega dregur eitthvað úr táfýlu.

Fór í fyrra og komst að því þegar myndirnar fóru að streyma inn á Facebook að ég var orðin fe-he-heit. Núna reyni ég aftur, ári og 10 kílóum síðar, hörbalæfið og hlaupagallinn verður með í för. Sem og gítarinn hennar Gerðar, nýrstrengjaður, og gríðarlega þykk mappa með allskonar tónlist. (Og þá meina ég ALLSKONAR. Eivör, Kurt Cobain, Nancy Sinatra, Liza Minelli og allt þar á milli.) Og svo eitt eintal sem ég á að vera búin að læra... en er hreint ekki nema síður sé.

Er annars með fjölmarga langhunda í hausnum um femínisma, peningakerfið, Kambódíu, verkaskiptingu og sérhæfingu, Zeitgeist og allann fjandann og fjárann. Tjáningaþörfin er bara í einverri lægð. Eða kannski hefur hún náð nýjum hæðum. Get hreinlega ekki byrjað þar sem þetta eru orðin gríðarlega yfirgripsmikil rönt í hausnum á mér. Og það er langt í að ég hafi tíma til að skrifa þau niður. Svo menn verða bara að nota ímyndunaraflið.

Kannski kyrrist eitthvað öldurótið í kollinum við að hlusta á sjálfan sig syngja og spila í 10 daga.
Hvurveit? Veitir allavega ekkert af.

7.6.10

Undirbúningur

Allt í einu brast á með brjáluðum undirbúningi undir skólann sem er ekki lengur í Svarfaðardal.

Finna slatta af lögum. Þau eiga að vera misjöfn. Og einhver þeirra leikhúsleg. Og með hljómum.
Tjekk og miklu meira en það, með valkvíða, bara eftir að setja herlegheitin í möppu. Sem var fjárfest í áðan. Og langar að syngja svo dæmalaust margt.

Læra eintal. Ekki neitt fjárans tjekk og kvíði dauðans. Ekki val-. Langar alls ekki til að flytja eitt eða neitt ósyngjandi.
Jæjajæja. Búin að ná mér í Trójudætur. Með snúð á vör. Ætti að bjargast.

Verra með horið sem situr sem fastast í öllum holum haussins. Er að hugsa um að skreppa og kaupa hjól handa Freigátunni snöggvast og vígja það með því að leyfa henni að hjóla á læknavaktina með mér og athuga hvort ég get ekki kríað út sýklalyf handa okkur báðum þar sem við erum hvor sem önnur og slitnar vart horreimin á milli okkar.

Horlaust og án andarteppu þarf að verða fyrir föstudag. Þannig er það nú bara. Auk þess sem Rannsóknarskip liggur nú flatur fyrir en þarf helst að uppreisast fyrir sama tíma.

En ég sé ekki fram á að gera neitt gáfulegt í greinum eða ritgerðarköflum í dag. Stíflur höfuðsins einfaldlega of fyrirferðarmiklar. Best að hætta að þykjast þetta, fara og flytja inn í möppuna góðu og versla svo eitt stykki reiðhjól af minna taginu.