30.4.05

Dugl

Þetta er nú að verða einn duglegasti laugardagur í manna minnum. Búið að fara langleið með að skipuleggja einþáttungadót hjá Hugleiki áður en leikárið er úti, vinna heilan haug í öðru, tala við milljón manns í síma út af hinu og þessu og svo er ég að bíta höfuðið af skömminni með því að blogga um helgi.
Kannski er það sólskinið sem er að hafa þau áhrif að ég vil endilegast vera inni að funda og síma og skúra og gera hluti.

29.4.05

Sjittfokkdembitsjhell!

Stundum er eins og fjölskylduna mína elti einhver fáránlega súrrealísk óheppni. Manni dettur það í hug á stundum eins og þegar:

- ...stærsti flugeldur áramótanna fer ekki nema hálfa leið upp, snýr þá við og miðar á fjölskylduna.
- ...tjaldið dettur af toppnum í ferðalaginu, en hverfur þó ekki alveg sjónum heldur hangir aftan í bílnum og spýtir súlum framan í næsta bíl. (Sem vill svo óheppilega til að er að elta til að láta vita af ástandinu.)
- ...pabbinn fær flugu í eyrað í sumarfríinu sem næst ekki út fyrr en um jól.

Og nefna má svo ótalmörg smáatriði út um allt land. Gjarnan koma bílavandræði við sögu. Rétt í þessu var einmitt að bætast í safnið:

- ...þegar Siggalára átti að passa græna bílinn hans afa síns en gleymdi alltaf að smyrja lamirnar á hurðunum þannig að þegar pabbi og manna ætluðu að fá bílinn lánaðan þá var ekki hægt að loka hurðinni farþegamegin nema með því að beygla hana þannig að hún passaði ekki lengur í þannig að það þurfti að fara með bílinn heim til hans Einars Knútz (sem Siggalára hefur ekki hitt síðan hún hætti með honum 2001) og láta hann laga hana þar sem hann er eini maðurinn í heiminum sem fjölskyldan þekkir sem myndi huxanlega kunna og nenna að gera svoleiðis á föstudaxkvöldi.

Kræst. Ég er búin að skammast mín, fá nokkur gelgjuköst (sem betur fór var Bára syss líka þannig að ég þurfti ekki að fá þau ein) skammast mín fyrir tilvist mína og fá nokkur gelgjuköst í viðbót. Og það versta í öllu saman er að ég get algjörlega sjálfri mér um kennt fjandans trassaskapinn. Ætla aldrei að eiga bíl eða nokkurn vélbúnað flóknari en saumavél. Og þarf kannski að fara til Hafnarfjarðar á mánudaginn að sækja helv... bílinn.

Nú skil ég til fullnustu merkingu orðsins MORTIFIED!

28.4.05

Full

Hef soldið verið að velta því fyrir mér hvenær ég verði fullorðin. Mér finnst ég ekki vera deginum eldri eða vísari en þegar ég var 18. Nú er ég náttlega óneitanlega orðin um helmingi eldri en það og get ekki að því gert að velta fyrir mér hvort þetta sé vandamál. Tók saman að ganni nokkur atriði sem mér finnst benda til þess að maður sé fullorðinn.

1. Þegar maður nennir að ryksuga og þurrka af á laugardögum. Alltaf.
2. Þegar maður er farinn að takmarka sjónvarpsáhorf við fréttir og heimildamyndir.
3. Þegar maður er farinn að þvo bílinn reglulega, og finnast það gaman.
4. Þegar manni er farið að finnast ekkert mál að gera skattaskýrsluna sína.
5. Þegar mann er stundum farið að LANGA til að fá sér ný gluggatjöld.
6. Þegar maður er farinn að skilja hvað það þýðir þegar seðlabankinn hækkar stýrivexti.
7. Þegar maður hlustar alltaf bara á rás 1 í útvarpinu.
8. Þegar maður verður hræddur ef manni verður á að labba niður í bæ á laugardaxkvöldi vegna skrílsláta í ungdómnum nú til dax.
9. Þegar manni er farið að þykja reglulega gaman í vinnunni.
10. Þegar maður er farinn að eiga kunningja sem eru ömmur og afar.

Skv. liðum 8 - 10 er ég fullorðin. Samkvæmt hinum 7 verð ég það aldrei. Sé hins vegar að þetta eru allt meira og minna útlistanir á því hvað mér finnast foreldrar mínir gera. Kannski er þetta misskilningur hjá mér. Kannski breytist maður ekki endilega í foreldra sína þó maður verði fullorðinn. Hmmmm...?

27.4.05

Url

Það er bara urlað að gera í vinnunni og allsstaðar. Og ef maður fær svakalegar hugmyndir um að taka að sér að skipuleggja hluti þá ætti maður allavega að hafa vit á að muna það ekki daginn eftir. Er sem sagt að skipuleggja hluti með Hugleiki. Sökum eigin heimsku í ölæði.

Er að fara að bjóða litlu systinunum mínum í mat annað kvöld. Ljómi og sómi, um að gera að sýna þeim íbúðina mína áður en ég sel og flyt.

Fór í leikhús í gær. Það stóð alveg undir væntinum og gott betur. Gefur Jóðlífinu sem flutt var á bandalagsþingi á Höfn 2000 ekkert eftir.

Best að fara að skrifa Hullurum bréf og blása til einþáttunga.

26.4.05

Evreka!

Ég er búin að vera haldin þeirri undarlegu tilfinningu, í einhverja daga eða vikur, að ég sé að gleyma einhverju. Búin að margfara yfir allt sem ég er með í hvert skipti sem ég fer út úr húsi, og finnst ég vera að gleyma að gera eitthvað þvílíkt mikilvægt. Líður sérlega undarlega þegar ég eyði tíma í sjónvarpsgláp eða annað hangs.
Og svo áðan fattaði ég hvað málið er.

Ég er ekki í skóla!

Er ekki að plana að skila lokaritgerð í neinu í maí. Er ekki að fara í próf í neinu heldur. Þetta hefur ekki gerst síðan vorið 1998, og það var í eina skiptið síðan ég hóf skólagöngu (árið 1980).

Þannig að það er ekki skrítið að manni líði undarlega.
Er að horfa uppá árstíma sem ég hef næstum aldrei séð!
Dýrðindýrðin!

Er þá svona að vera fullorðinn?

25.4.05

Ruslpósturinn...

Ég hef ógurlega gaman af að velta fyrir mér straumum og stefnum í ruslpóstum. Nú hefur um nokkra hríð rignt póstum sem bjóða manni ammrísk húsnæðislán. Læknadópsbyltingin virðist komin til að vera.

Sú áhugaverða þróun hefur hins vegar orðið á neðan-þindar-markaðnum að nú eru menn mest farnir að bjóða, í stað typpastækkana áður, leiðarvísi um hvernig á að... þiðvitið. Það er eins og rannsóknir hafi leitt í ljós að það var ekkert að græjunum, heldur kunnu menn bara ekkert á þær. Sniðugt.

Hins vegar hefur enginn Afríkani beðið mig um að þrífa fyrir sig peninga alveg lengi. Ætli þeir hafi tekið það alvarlega þegar ég svaraði þeim einu sinni í gríni og þóttist að netfangið mitt væri hjá Interpol á Íslandi?

Ég held að megi gera miklar menningarrannsóknir með því að skoða spömin.

Tók eitt skemmtilegt próf, komst að því að minn innri Evrópubúi er Hollendingur.
Ojæja, svo framarlega sem það er ekki Frakki.

Komin Attur

Tók flugvél í vinnuna.

Af hverju hefur mér aldrei dottið í hug að Immigrant Song með Led Zeppelin væri um Ísland? Ég meina, kommon!

We come from the land of the ice and snow from the midnight sun where the hot springs blow

Hammer of the gods
will drive our ships to new land
to fight the horde
and sing and cry
Valhalla I am coming


Þetta var alveg uppáhaldslagið mitt í menntaskóla, kunni þennan texta afturábak og áfram, og kveikti ekki á þessu. Og þetta gæti næstum verið úr ferðabæklingi. Maður á nú bara ekki orð yfir eigins fattleysi.

Átti annars ljómandi næstumviku í norðrinu. Við Árni fórum í leikhús, á Pakkið á móti, ágætis sýning það og fyndnari en ég bjóst við. Svo gáðum við hvað Eyjafjörður nær langt inneftir (eða frameftir, eins og heimamenn vilja segja) og hann nær næstum til Reykjavíkur. Svo endurnýjaði ég kynni mín af sauðfé og hitti nokkur verðandi lambakjöt. Þau voru ósköp falleg.

Og meira af nýburum, Svandís hefur birt myndir af hinni nýfæddu Heiðu Rachel Wilkins. Hún lítur út fyrir að verða mikil fegurðardís eins og hún á kyn til.