5.10.11

Að stinga höfðinu í steininn

Þetta snýst um hvernig við skipuleggjum lífið í öruggar en ónáttúrulegar rútínur og, með því, höldum við því óvænta og kaótíska fjarri. Lífið er ekki fyrirtæki sem þarf að reka, það er leyndardómur til að lifa. Það er kominn tími til að rífa stimpilkortið, brjótast út úr verksmiðjunni og fara í stutta ferð út í hið ókannaða. Vinnan nær meira flæði ef hún er unnin með afslöppuðum huga.
(Eða eitthvað í þá áttina. Þýðing mín.)

Það er nefnilega það. Ljómandi gott spil í dag. Annars hef ég einmitt verið að hugsa um byggingametafórur. Mjög oft erum við ekki að byggja hús. En við látum eins og við séum að því. Einhverntíma, ca. 2008, sagði Baggalútur að ríkisstjórnin (þáverandi) hyggðist vinna á hruninu með útjöskuðum myndlíkingum. (Það var mjög fyndið. Þá vorum við líka alltaf úti á sjó hálfan fréttatímann.)

En svo erum við ekki nærri því alltaf að byggja hús þegar við látum eins og við séum að því. Við „leggjum grunninn“ að einhverju og næstum allt sem sagt er og gert „byggir á“ einhverju öðru. En þetta er alltsaman bull. Tíminn líður. Hann byggist ekki upp lórétt eins og hús. Og ef eitthvað er gert sem er ekkert endilega til að „byggja“ neitt á, er það verra? Að sama skapi, þó einhverju sé breytt, svona bara í skipulaginu, þá þýðir það ekki að það sé verið að „rífa niður“ eitt eða neitt. Ég held að byggingametafórurnar séu að drepa okkur...

Ég er að hugsa um að taka tilmælin „að hætta að stinga höfðinu í steininn“ bókstaflega og fara að taka eftir því hvernig og hvenær byggingalíkingar eru notaðar og athuga hvort þetta er kannski að skapa einhverja grundvallarskekkju í allri huxun.

Læt vita ef ég kemst að einhverju.




3.10.11

Erindi frá leikskáldastefnu

Var að fá hugmynd. Sem er heimskulegt að hafa ekki fengið fyrr. Ég er stundum að halda einhverja fyrirlestra sem fullt af fólki missir af. Oftast alveg næstum allir. Og er þá ekki vit í að birta þá bara hér?

Hér er allavega erindi mitt frá málþinginu á Grósku, leiklestrahátíð sem Félag leikskálda og handritshöfunda hélt 15. - 17. september.


Ég var beðin að tala aðeins um pólitískt leikhús.

Þannig er að ég er að gera doktorsrannsókn á pólitísku leikhúsi á Íslandi eftir hrun og þess vegna halda menn kannski að ég búi yfir einhverri þekkingu á fyrirbærinu. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur. Á undanförnum tveimur árum hef ég lesið gríðarlega mikið um leikhús, nútímaleikhús, pólitískt nútímaleikhús, samtímamál, tungumálið, tungumálin, orðræðuna... Því meira sem ég les gerir ég mér betur grein fyrir því hvað ég veit lítið. Og reyndar líka því að enginn veit neitt. Sem er ágætt, þá þarf maður ekki að vera að burðast með neina minniháttarkennd yfir því.

Öngvu að síður, fjarri mér ætla að fara að láta tækifærið til að láta gamminn geysa um svo spennandi efni framhjá mér fara.

Ádeila er spennandi orð. Komið af því að deila á. Gagnrýna. Segja til vamms, um hvað sem vera má. Í samhengi bókmenntanna getur meira að segja verið að við eigum mismunandi tegundir. Til dæmis þjóðfélagsádeilu annars vegar og samfélagsádeilu hins vegar. Ég var að vesenast með skilgreiningar á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að þjóðfélagsádeila lyti að því sem sneri að völdum og stjórnun í samfélaginu en samfélagsádeila þá frekar um að deilt sé á önnur samfélagsmein.

Svona skilgreiningar eiga samt ekkert heima í neinum formúlum og passa ekki í exel. Leikrit eru aldrei hreinræktuð annað hvort eða, heldur geta verði haldin snerti af hvorutveggja, ásamt ótalmörgu öðru.

Ég held að öll leikskáld finni annað slagið, ekki síst á Íslandi í dag, fyrir ákveðnum þrýstingi. Þið eigið að skrifa um þetta! Það vantar fleiri ádeilur á það hvernig allt er! Hvar eru ádeilurnar á bankamennina? Ríkisstjórnina? Auðmennina? Hugarfarið? Mér heyrast margir vera alveg gjörsamlega á hreinu hvað þarf nauðsynlega að gerast núna. Og það sem að okkur snýr, hvernig leikrit við ættum að vera að skrifa. Þegar ég er í stuði (og helst full) finnst mér ég vita það líka.

Ég held að mannkynið sé aldrei í meiri afturför heldur en þegar það er alviturt.

Enda erum við stödd á mjög spennandi hnignunartímum. Ýmsir telja að við séum að upplifa endalok heimsveldis ákveðinna hugmynda... þó allir séu mjög ósammála um hverjar hugmyndirnar séu. Svo ekki sé minnst á hvað gerist næst. (Eða hvað best væri að gerðist næst.) En mér finnst upplífgandi að minnast þess að eftir að alræði kaþólsku kirkjunnar lét undan í Evrópu miðaldanna tók endurreisnin við. Einhver brjálaðasta sprenging í listum og vísindalegum uppgötvunum sem við eigum heimildir um. Persónulega átti ég ekki von á að lifa Öld Alheimsfrekjunnar láta undan síga eins mikið og hún hefur þó gert. Svo þetta eru nú þegar meira spennandi tímar í hugmyndum og hugmyndafræðum heldur en ég átti von á að sjá, hvað sem það heitir sem nú er hugsanlegaað byrja að enda sín yfirráð.

Um stöðu leikskáldsins í hugmyndafræðilegu samhengi má spyrja margra spurninga. Ber okkur skylda til að skrifa um ákveðin mál? Eigum við að vera að jarða sumar hugmyndir en halda öðrum á lofti? Er einn altækur sannleikur um hvaða hugmyndir eru “hættulegar”? Er það sama hættulegt fyrir alla? Eigum við kannski að vera hættuleg? Er mögulega allt hættulegt? Getum við breytt heiminum og er eigum við að gera það? Er okkur treystandi til þess?

Skemmtileg þversögn í því að þeim sem telja sig þess umkomna er sennilega einmitt ekki treystandi til þess. Enginn er hættulegri en maður sem er viss.

Áróður er líka magnað fyrirbæri. Áróðursleikhús hefur oft verið notað með góðum árangri. Og ekki síst í dag, nema nú köllum við það almannatengsl og auglýsingar. Ef ádeilan spyr spurninganna þá kemur áróðurinn með svörin. Ádeilendum er gjarnan legið á hálsi fyrir að spyrja spurninga en koma ekki með svör. Já, við höfum það skítt en ef við hendum því sem er hvað fáum við í staðinn? Er spurt.

Mannskepnan er aldrei í innilegri sleik við vöndinn en þegar hún heldur að hún upplifir blekkinguna um öryggi.

Þeir sem telja sig hafa lausnina, eða vilja halda því fram, koma með áróðurinn. Allt væri fullkomið ef það væri SVONA. Bara kaupa svona pakkadíl. Dömur mínar og herrar, leitið ekki lengra, lausnin er ÞESSI. Einföld og þægileg eins og internetið. Mér er reglulega sagt að leikhúsið sé ekki að standa sig nú um stundir. Það bjóði ekki upp á nógu þægilegar lausnir. Komi ekki með svörin. Skemmti ekki nóg. Skilji menn eftir með óþægilegar spurningar en veiti engin svör. Og til hvers að vera að setja upp leiksýningar sem ekki “slá í gegn”?

Ég veit það ekki.

Nú þegar drekkum við og dópum til að þurfa ekki að upplifa raunveruleikann á rauntíma. Horfum á sjónvarpið, höngum á feisbúkk, étum okkur til óbóta... einn stærsti iðnaður jarðar er kenndur við afþreyingu. Þarf leikhúsið líka að vera dóp? Eigum við bara að að rorra í spikinu í þeirri þægilegu fullvissu að við vitum allt? Séum örugg og höfum ævinlega rétt fyrir okkur? Vitum upp á hár hvernig allt ætti að vera?

Þrátt fyrir að leikhúsið hafi vissulega svarað þessum kröfum tímans og sviðsetji oft og mikið efni sem leggur sig fram um að skemmta öllum og ögra engum (reyndar hægara sagt en gert á þessum óþolandi tímum þegar allir virðast hafa skoðanir) þá hefur leikhúsið samt á sér orð fyrir að vera stundum, og kannski oft, og kannski of, óþægilegt.

Við erum ekki á einu máli um hvað á að gera við leikhúsið. Eigum við að koma því fyrir á þægilegum púða í miðri flóru afþreyingarmenningar? Nútímavæða, komast að því hvað “fólk” vill? Selja, selja selja? Eða eigum við að að vera óþægileg? Sýna það sem fáir vilja sjá? Spyrja spurninga óendanlega margra svarmöguleika?

Auðvitað er þetta síðan ekkert annað hvort eða.

Ég hef líka heyrt því fleygt að „hefðbundin“ leikritun sé úrelt og dauð. Ekkert merkilegt komi neinsstaðar frá lengur nema úr leikstjóraleikhúsinu. Ef maður les leikhúsfræðin sem mest er haldið á lofti þessa áratugina mætti halda að hefðbundin leikverk væru hreinlega ekki sett á svið lengur. Ef maður athugar hvað er verið að leika á leiksviðum heimsins kemur síðan allt annað í ljós. Það er eins og fræðaheimur leikhúskenninga og raunheimur leikhússins sé ekki uppi á sama tíma, né hrærist í sama samfélagi.

Er leikritið dautt?

Skáldsagan drap ekki leikritið. Kvikmyndin drap ekki leikhúsið. Sjónvarpið drap ekki kvikmyndina og internetið drap ekki sjónvarpið. Fræðilega erum við ekki endilega að skoða leiksýningar sem bókmenntir lengur... ef einhver veit þá hver skilgreiningin á bókmenntum er. Við erum reyndar bara alls ekki á einu máli um merkingu og mikilvægi margra orða í dag...
En á meðan einhverjir nenna að skrifa leikrit... og ég held að ef þessi hátíð hefur sýnt fram á eitthvað þá hefur hún sýnt fram á að þeir eru til... heilu haugarnir... þá eru að verða til leikbókmenntir.

Og það sem er til er til. Það þýðir ekki að setja „computer says no“ á listform. Gömul eða ný. Vissulega er síðan hverjum frjálst að hafa skoðanir á því að sum listform séu betri en önnur, sum séu góð og vænleg, önnur skaðleg, leiðinleg, skemmtileg, og listina er svo sannarlega hægt að nota í ýmsum tilgangi. Jafnvel tilgangi sem einhverjum kann að þykja vafasamur.

Og við lifum á tímum höfðatölunnar. Mikilvægi verka er mælt í vinsældum. Miðasölu.
En er endilega betra að hafa engin áhrif á marga en mikil áhrif á fáa? Erum við að vinna vinnuna okkar ef við erum ekki að hugsa um framþróun mannkyns og samfélags? Ef við erum bara að reyna að vera dóp? Flóttaleið frá veruleikanum?

Leikhúsið heldur áfram að vera allskonar, eins og leikhúsfólkið.
Ég held kannski á meðan við heyrum að leikhúsið sé á villigötum séum við á réttri leið.
Þegar allir verða sáttir verður ástæða til að hafa áhyggjur.