5.1.08

Heima

Þá erum við komin heim til okkar, eftir vel heppnaða útlegð. Enda síðasti sjens að leggjast inn á aldraða foreldra vora, huxa að við næstum fjölgun stækki fjölskyldan meira en svo að það verði uppá okkur bjóðandi, í bili.

Allavega, búið að brjótast inn með allt draslið og setja í fyrstu þvottavélina, Freigátan búin að heilsa uppá dótið sitt og feðginin sest niður og farin að syngja jóla- og áramótasöngva úr vísnabókinni. Sem á vel við, það er allavega ennþá verið að sprengja flugelda á milljón, hér í höfuðstaðnum.

Freigátan var annars alveg einstaklega þæg á leiðinni suður. Hún söng og svaf eins og engill alla leiðina. Enda finnst Móðurskipinu aldrei nein langkeyrsla hafa gengið svona vel, síðan hún fæddist. Ekki seinna vænna áður en næsti ófriðarseggur kemur í heiminn.

Já, og talandi um það, það eru víst komnar 35 vikur á teljarann. (Sem þýðir að það er einum degi betur samkvæmt mælingum. Ég nennti bara aldrei að leiðrétta teljarann.) Það er allavega víst ekki til setu boðið með undirbúning. Ég held við séum meira að segja tæknilega fallin á tíma með helv... fæðingarorlofsumsóknina, ekkert farin að athuga með leigu á vöggu og bílstól, og ég er ekkert farin að grafa í geymslunni eftir minnstu fötunum. (Treysti bara á að ég hafi verið jafnskipulögð og ég ætlaði að vera þegar ég var að ganga frá þeim... þetta ætti allavega að vera frekar ofarlega.) Já, svo þurfti eitthvað að skrúfa í skiptiborðið, ef ég man rétt, og eitthvað þarf að athuga uppstillinguna á baðherberginu áður en Ofurlitla Duggan siglir inn. Og svo þarf alveg örugglega að gera ótalmargt annað, sem ég man ekki í svipinn.

Og ekki er nú mikill tími til umþóttunar og dingls, ég held ég sé að byrja í skólanum á þriðjudaginn. Fékk nýtt metnaðarkast fyrir jólin, og langar til að reyna að taka næstum fullt nám eftir áramótin, eða þ.e.a.s., reyna að klára það sem ég þarf að ljúga í fæðingarorlofssjóð að ég þurfi að klára. (Samkvæmt kerfi þeirrar stofnunar þarf ég nefnilega að vera skráð í fullt nám þangað til ég eignast barnið. Þó ég sé ólíkleg til að klára það. Það á bara að líta út eins og það komi mér ógurlega á óvart að ég eignist barn í febrúar... vegir fæðingarorlofssjóðs eru órannsakanlegir.) En, mig langar til að reyna að klára bara þessar 12 og hálfa einingu sem ég er skráð í, enda er þetta mest í fjarnámi. En þetta eru nú fleiri einingar en ég þarf, og rannsóknarverkefnið sem ég ætla að gera í sumar verður líka auka. En, well, hvað hefur maður svosem betra að gera...?

En gott verður nú að komast í Meðgöngujóga og -sund. Hef reyndar bætt skemmtilega litlu á mig yfir jólin, skv. vigtum, þrátt fyrir óhóflegt og stanslítið ofát um allt land, og er ekki enn orðin hreyfihömluð að ráði. Samt kominn tími á smá hreyfingu.

3.1.08

Mont!

Var að fá tvær einkunnir. Og þarf að monta mig. Fékk 8,5 í þýðingafræðinni og Hagnýta rannsóknarverkefninu. Miður mín af hamingju.

Freigátan er búin að læra eitt og annað. Núna kann hún að segja, þegar pabbi hennar spyr: Hverjir eru bestir?

Illahúl!

Ég hef greinilega ekkert verið að standa mig.

2.1.08

Árið

hófst með því að nýjársdagur gleymdi að koma. Ég varð allavega lítið vör við að það birti í gær. En okkur var nú bara alveg slétt sama hérna í Brekkunni, vorum bara inni og átum.

Í dag var síðan kominn tími á aðgerðir. Við Rannsóknarskip fórum bæði til læknis og fengum sitt hvort pensillínið. Hann við stífluðum kinnum og ennisholum og ég við reykingahósta. Minn læknir bætti meiraðsegja um betur og sendi mig í blóðprufu í fyrramálið, til að gá hvort ég sé ekki örugglega á réttu pensillíni.

Við erum búin að fresta för til höfuðstaðarins fram á laugardag, þykjumst ekkert hafa þangað að gera meðan við erum enn hundslöpp. Og Rannsóknarskip var líka orðinn svo slæmur af heim-í-sveitina-þrá á milli jóla og nýjárs að það þarf nú að bæta honum það eitthvað upp.

Við skiptumst bara á að liggja eins og klessur og reyna að hafa ofanaf fyrir Freigátunni, en hún er alveg ljónhress eftir sinn pensillínkúr sem lauk á gamlársdag. Svo bryðjum við pillur og snýtum okkur og vonum að þetta sé ekki forsmekkurinn að heilsufarinu á árinu, heldur frekar svona "fararheill".

31.12.07

Áramótabull

Þá erum við lent í Brekku eftir að hafa skilið Óðal feðranna eftir í tómri óreiðu, með dót og snýtubréf um allt hús. Hér munum við eflaust gera slíkt hið sama.

En það er víst gamlársdagur og svona, og þá hef ég það fyrir hefð að skrifa pistilinn, sem er samviskujöfnun fyrir að hafa ekki nennt að senda jólakort, frekar en fyrri daginn. Verð þó að byrja á að fyrirverða mig aðeins, pistill þessa árs verður framinn á PC tölvu. Nefnilega tölvu Sverris mágs. Ég tek því með skilningi ef einhverjir vilja ekki lesa lengra.

Svo mundi ég ekki baun hvað gerðist á árinu. En Rannsóknarskip gaf mér nú nokkra pojntera. Svo nú man ég eitthvað.

Síðasta ár hófum við hjónin á Egilsstöðum ásamt Freigátunni, en Smábátur var á Akureyri. Eftir miðnættið sendum við alla út á djammið, en lágum sjálf í leifunum og horfðum á As Good as it Gets. Ágætisbyrjun á árinu það. En árið hófst á sama hátt og því lauk, með drepsótt. Auk þess sem húsfreyju varð hált á fylleríi á þrettándanum og sneri sig á hæl og var fótlama í nokkrar vikur. Þegar fjölskyldan var rétt að skríða upp úr öllum þessum veikindum, veiktist tengdapabbinn í sveitinni og lést af þeim veikindum í febrúar. Rannsóknarskip var með annan fótinn í norðrinu í nokkrar vikur, en við Freigátan og Smábáturinn létum duga að mæta til jarðarfarar.

Var síðan kyrrt um hríð. Að mig minnir.

Páskahringurinn var tekinn að venju, og sem öðrum kirkjulegum hátíðum skipt á milli norðursins og austursins. Húsmóðir hamaðist og djöflaðist í stjórn Hugleix og Bandalaxmálunum sem aldregi fyrr, þóttist enda sjá fyrir endann á.

Líklega hafa næst orðið fyrirburðir og tíðindi á Bandalaxþingi í maí. Það var haldið á Hallormsstað, við góðan viðurgjörnin. Þar var að venju tilkynnt hvaða sýning hlyti titilinn "athygliverðasta áhugaleiksýning ársins" að mati lítillar dómnefndar í Þjóðleikhúsinu. Bar svo skemmtilega við að þetta árið varð fyrir valinu verk Móðurskips Listin að lifa, sem skrifað hafði verið fyrir 40 ára afmæli Leikfélax Fljótsdalshéraðs og sýnt fámenni á vetrinum á undan. Móðurskip og Hérastubbar bruggðust glaðir við og gerðu sér góða þynnku úr. Og aftur í partíi eystra um hvítasunnuna. Og svo auðvitað enn aftur eftir sýningar syðra.
Þótti að því loknu þrífagnað og það var nóg.

Ég man ekki hvort ég kjaftaði einhvern tíma frá því, en í framhaldinu hóf Þjóðleikhúsið við mig óformlegar viðræður um huxanleg skrif fyrir þá stofnun. Okkur Hlín Agnarsdóttur gekk þó illa að koma á fundum í sumar. Auk þess sem mér gekk illa að koma til hennar hálfköruðum verkum á tölvuformi sem hennar tölva skildi, og henni gekk illa að hafa tíma til að lesa þau sem skiluðu sér á mannamáli. Í haust las ég síðan í blöðunum að hún væri hætt sem leikhúsráðunautur Þjóðleikhússins, svo ég reikna með að málið sé dautt í bili. Enda má ég ekkert vera aððessu, akkúrat núna.

Hér fóru nefnilega stórtíðindin að rekast hver á önnur eins og risastór rolluhópur.

Móðurskipið fékk þá flugu í höfuðið að skreppa með flotann til Montpellier, til að sleikja sólskinið og skoða fornar slóðir. Og varð það úr. En nokkrum dögum fyrir brottför uppgötvaðist hins vegar tilvist laumufarþega. Ofurlítil Duggan, sem hefur huxað sér að fæðast í febrúar á ári komanda, vildi nefnilega hreint ekki missa af þessu ferðalagi. Þetta gerði það að verkum að Móðurskip hafði ekki alveg alla þá matarlyst sem hún ætlaði að hafa í landi yfirhafnanna, og var frekar sleppileg megnið af sumrinu.

Áður en að útferð kom skrapp líka Móðurskip í örsnöggt tripp til Egilsstaða til að taka við menningarviðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa fyrir "framúrskarandi störf að leiklistarmálum" svo ég vitni í skjalið. Mikið mont. Og péningar. Sem voru að sjálfsögðu brúkaðir til kaups á tæki sem fremja átti frekari afrek á leikvellinum. Sem átti reyndar að fara ólöglegu leiðina til landsins, en mistókst sú tilraun til glæpastarfsemi hrappallega, þrátt fyrir einbeittan brotavilja, og fékk Móðurskip næstum sakaskrá fyrir vikið og var gert að borga formúgu, þegar loxins var hægt að losa gripinn úr tollinum, síðsumars.

Í haust urðu síðan mikil umskipti hjá næstum öllum flotanum. Smábátur settist á 6. bekk Vesturbæjarskóla. Rannsóknarskip lagði söngnámið á hilluna í bili og tók til við kennslu í skóla Haganna. Freigátan hóf sína fyrstu skólagöngu á leikskólanum Ægisborg. Og Móðurskipið vatt öllum sínum kvæðum í kross og hóf nám í Háskóla Íslands (einu sinni enn) og hugðist í þetta sinn eignast Meistarapróf í einhverju sem heitir Hagnýt ritstjórn og útgáfa.

Skemmst frá að segja að í þeim töluðum orðum upphófst mest pestatímabil í sögu fjölskyldunnar. Freigáta og Rannsóknarskip eru búin að liggja, ýmist sitt á hvað eða um leið, í ýmsum slæmskum og Móðurskipið hefur tekið einhvern þátt í því líka. Smábáturinn hefur einhverra hluta vegna sloppið að mestu, hvort sem það er að þakka ólíkri genasamsetningu eða sérherbergi. Síðan hefur eiginlega ekki gegnið á með öðru en hor og pestarfréttum, núna síðast bara alveg nýverið.

Smábáturinn er þó óvenjulánsamur þetta árið, þegar fjölskyldan var í Frakklandi í sumar, meira að segja í ferðalagi í ferðalaginu, í Avignon, þegar honum barst einkar skemmtilegt símtal. Það var nú frá henni Ingu móðurömmu hans, en hún var að spyrja hvort hann fýsti ef til vill að eyða jólunum með þeim ömmu og afahjónum sínum og fleirúm úr móðurfjölskyldu sinni úti á Flórída, og þar dvelja fram yfir áramót. Að fengnu samþykki allra foreldra hélt sá stutti það nú aldeilis, og þar er hann nú. Í góðu yfirlæti og fjarri pestarganginum í okkur. Og er því jafnvel enn heppnari en hann hugði. Síðast þegar fréttist var hann "búinn að fara í marga rússíbana".

En, sumsé. Nú ætlum við að heilsa nýju ári hér í Brekku í Eyjafjarðarsveit og heita á allar nærstaddar forynjur að heilsufarið verði eitthvað skárra á næsta ári en því síðasta.

Á ári komanda verður væntanlega fyrsta verkið að undirbúa mætingu nýs afkomanda á svæðið. Og líklega ráð að fara að drífa í því, mig dreymdi, núna síðustu nótt þessa árs, að ég væri komin á fæðingardeildina. Og Siggadís líka. Svo kom einhver kerlingarfáviti og fór að setja út á villur í vegabréfinu mínu... Guðmávita hvernig það á svosem að ráðast.

Ég óska öllum lesendum sem nenna árs og friðar.

ps: Ætlunin er að myndskreyta og tengja allskyns linka inn í þennan pistil. Ég nenni því bara ekki fyrr en ég kem heim.

30.12.07

Drepsóttarjólin

Jæja, þá er lox eitthvað að rofa til í heilsufarinu. Húsbóndinn heldur nokkurn veginn rænu í dag, svo við erum farin að huxa okkur til hreyfingx. Reyndar ætlar veðrið eitthvað að stríða okkur, en við ætlum að sjá til og sæta lagi, annað hvort í kvöld eða fyrramálið, að skjótast norðurum.

Freigátan er öll orðin þrælspræk og amma-Freigáta hefur verið svaka dugleg að hafa ofanaf fyrir henni, en Móðurskipið fékk líka einhvern skít í lungun en er að jafna sig. Smábátur reyndist því ótrúlega heppinn að vera fjarri fjölskyldunni þessi jólin, því ekki höfum við nú verið skemmtileg.

Einn er þó sjálfsagt feginn að norðurferð lét á sér standa, og það er hann litli kisi hjá ömmu í sveitinni sem Freigátan væri sjálfsagt langt komin með að sálga ef við værum á þriðja degi í heimsókn hjá honum nú þegar. Hann þarf sem sagt líklega bara að þola áganginn í um 2 daga í stað 5 og aukast þar með lífslíkur hans sem því nemur.

En öjmingja Rannsóknarskip er löngu kominn með heimþrá. Við vorum að vona að veðrið myndi þá teppa okkur fyrir norðan eitthvað lengur í staðinn, en, nei, spáð alveg hreint glimmrandi ferðaveðri á annan jan. Og bara þá. Hann verður bara að fá að fara í helgarferð einhverntíma í staðinn... samt ekki alveg víst að það verði hægt alveg á næstunni... mar er víst að verða kominn einhverjar 35 vikur á leið... ekki að ég búist við neinum atburðum fyrr en minnst 15 dögum eftir "ásettan" af biturri reynslu.

Ég held annars að Ofurlitla Duggan sé farin að síga aðeins. Það þýðir sennilega lítið annað en að drífa í undirbúningi þegar í bæinn verður komið, svona til frekasta öryggis. Svo ekki sé minnst á að sækja um fæðingarorlofið, sem gleymdist í jólaundirbúningnum og er "tæknilega" orðið of seint fyrir Rannsóknarskipið... Vonandi hafa jólin eitthvað smurt liðlegurnar í þeim á Hvammstanga.

Á morgun liggur fyrir að semja áramótapistilinn, ef internetið í Brekku vill eitthvað við mig tala. Og ekki er ég neitt farin að huxa fyrir honum. Sjitt hvað mar er ekki að standa sig.