24.3.05

What?

Var að eiga hreint indælt skírdaxkvöld yfir sjónvarpinu þegar allt í einu gerðust undarlegir hlutir. Bein útsending alveg útum allt. Fissjer er að koma! Þetta er orðið allt hið pínlegasta og farið að minna skuggalega á komu Keikós á sínum tíma.

Ætli þetta verði ekki bara sama dæmið? Tómur kostnaður og svo veit enginn hvað á að gera við kvikindið? Eigum við ekki bara að læra af mistökunum frá því síðast og éta hann strax?

Allavega hefur enn einn geðsjúklingurinn bæst í íslenskra manna tölu.
Mér finnst það nú ekki sérstaklega fréttnæmt.

23.3.05

Tjáði mig náttlega of snemma um páskarólegheitin. Það er auðvitað eins og við manninn mælt, kl. 20 mínútum áður en ég ætla í páskafrí fyllist allt af menntaskóla-unglingi, sem talar óskiljanlega og veit ekki hvað hann vill. Aukinheldur hringir allur heimurinn og man allt í einu eftir milljón hlutum sem hann þarf að redda, á minni skrifstofu, einmitt í dag. Svei því öllusaman. Minn miskunnsami samverju nær bara ekki lengra en svo að ég skammast mín takmarkað fyrir að láta marga lifa páskana án minnar þjónustu.

Klukkan er 12.47 og þeim sem láta sjá sig hér fram til 13.00 verður fleygt afturábak niður stigann.

Meira norð

Mikil lognmolla hvílir á þessum síðasta vinnudegi fyrir páska. Held helst að allir séu komnir í páskaletina.

Í gær upplifði ég mikla rómantík í formi gönguferða um miðbæ og þingholt í samfylgd Rannsóknarskips og Smábáts. Horfði ég að venju girndarauga til margra villa við Fjölnisveg og einnig litum við nokkur hús við Skólavörðustíg hýru auga. Nýjasta fantasía okkar Árna felst nefnilega í því að búa til pínulitla bókabúð, þar sem aðeins verða seldar fáar og góðar bækur, líka selt kaffi, og bara fáir koma nokkurn tíma inní. Og svo ætlum við að búa á efri hæðinni. Þetta er á 20-30 ára planinu. Er það trú okkar og vissa að Skólavörðustígurinn sé upplagður. Fyrst þurfum við samt að eignast ósköpin öll af peningum, fyrir tilviljun þar sem við nennum ekki að vinna neitt obbosslega mikið, þar sem þessi verslun á aldrei að komast nálægt því að standa undir sér.

Í nútíðinni og raunveruleikanum ætlum við að bruna norður yfir heiðar seinnipartinn þar sem ætlunin er að páska. Mig langar talsvert að sjá sýningu Leikfélax Húsavíkur á Sambýlingum, en maður veit ekki hvað verður úr.

Svo þarf líka að leggja höfuðið örlítið í bleyti og vinna aðeins í meistaraverkum á sviði leikritunar. Mest væri náttlega gaman að púlla Björn Margeir og skrifa MIKIÐ. Samt kannski ólíklegt að svoleiðis elja komi allt í einu til. Og, já, Gummi, ég ætla að reyna að klára eitthvað handa þér líka.

Annars er ég mjög stolt af nýbloggaranum henni systur minni í dag. Hún er fyndin.

Gleðilega páska, ef ég tjái mig ekkert fyrr en eftir þá.

22.3.05

Eninga...

Fasteignamatið á íbúðinni minni hefur hækkað um einar 2 milljónir síðan ég keypti hana. Er komin með dollaramerki í augun og er mest að spá í að selja í sumar.
Tsji-tsjing.
Þarf náttlega að láta meta hana og reikna síðan út, en ef ég er að koma út í gróða, eftir að öll lán eru uppgreidd og hvaðeina, mikið skratti var þetta þá góð fjárfesting. Huxanlega hægt að kaupa einbýlishús á Vestfjörðum fyrir mismuninn. Það er ekki öll vitleysan eins. Hún er mjög mismunandi.

Er annars að fíla fjölskyldulífið í botn og tætlur. Nú er alltaf fólk heima hjá mér. Og ég er alltaf að huxa um mat. Velta fyrir mér hvað ég á að hafa í matinn, versla í matinn, elda matinn, og þegar það er búið er kominn tími til að huxa um hvað á að vera næst í matinn. Þetta er mér nýnæmi. En auðvitað má kannski segja að það sé undarlegt að hafa sloppið fram á fertuxaldur án þess að hafa þurft að sjá um heimili að neinu viti. En þetta vex mér merkilega lítið í augum. Held að Húsmóðirin á Vestfjörðum myndi bara ekkert skammast sín mikið fyrir að þekkja mig, þó hún sæi aðfarirnar.

Vér hjónin höfum, milli mála, setið við þýðingar, aðallega hitt hjónið samt, og er vel. Gaman að geta hangið heimahjásér og verið samt að vinna. Svo held ég með stórfjölskyldunni norður í land á morgun, líklega, þar sem við hyggjumst eyða páskum. Þar hyggst ég taka til hendinni við leikskrif ýmis konar, auk þess náttlega að þaulskipuleggja páskamáltíðir.

Fréttir úr bloggheimum, í fæðingarhríðunum er blogg eitt merkilegt. Það mun verða systir mín hin kjaftforri sem bloggar að eystan.

21.3.05

Og skattframtalið er gjört! Reyndar örugglega bandvítlaust og allt, en þeim er bara nær að láta mann færa inn bjánalæti eins og upplýsingar um íbúðalánasjóðslán og sollis, sjálfan.

Átti annars ágætishelgi. Dró ástmann minn á Ungann með Patataz-fólki á föstudaxkvöld. Á heimleiðinni fundum við mann liggjandi í bankastrætinu. Hringdum á lögguna og pössuðum hann þangað til hún kom og tók hann með sér. Þóttumst öll vera betri manneskjur á eftir. Þegar heim kom hlustuðum við Árni á Embættismannahvarfadiskinn í heild sinni. Ætla aldrei að gera heimsbyggðinni það framar að syngja eitt einasta gaul. Árni var hinsvegar búinn að gleyma öllu sem hann söng í þessu leikriti, en hafði ekki nokkurn hlut að skammast sín fyrir þar. Þetta er náttlega að springa úr mússíkkölskum hæfileikum.

Á laugardaxkvöld lenti ég í partí hjá hans félögum. Þetta var sannkallað nýaldarpartý sem snerist mest um að dánlóda allskonar tónlist af internetinu. Það var hin bezta skemmtan.

Fór svo á Klaufa og kóngsdætur á sunnudegi. Varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Hefði viljað sjá:
Minni H.C. - Meiri Ármann/Togga/Sævar, í handriti.
Minna prjál - Meiri strípaða Ágústu, í uppsetningu
Og almennt, minna væm - meira fynd.
Þóttu sumar sögurnar langdregnar (og heyrðist á einbeitingu ungra áhorfenda að þeir væru mér frekar sammála) og væri til í að kjöldraga þann sem setti þessa Suður-Ammrísku laghörmung inn í Svínahirðinn. Ekkert verra en að koma út af leiksýningu með leiðinlegt lag á heilanum.

Tekið skal fram að ég fór með talsverðar væntingar.