19.5.04

Og hvað gerist ævinlega þegar síst skyldi? Jú, allt. Nú er að koma að því alskemmtilegasta sem fylgir mínu starfi, einþátttungahátíð og maraþon aðalfundur sem að þessu sinni verður haldinn að Húsabakka í Svarfaðardal, sem er einn besti staður í heimi. Og hvað gerist? Jú, það brestu á með nístings-skíta-kulda og ég er langt komin með að fá kvef og hita og allan viðbjóð sem hægt er að ímynda sér. Við erum að reyna að finna út hverju við erum að gleyma og fljúgum norður í fyrramálið og ég veit varla hvað ég heiti eða hvað snýr upp eða niður í þessum heimi. Ætla að reyna að halda þessu í skefjum með rækilegu c-vítamín áti, en verð nú samt trúlega ekkert alveg upp á mitt besta. Fundargerðin gæti orðið full af óráðshjali. Sem væri reyndar trúlega bara skemmtilegt.

Svo gleymdi ég að senda bróður mínum ammliskveðju í gær, litli (næstum) viðskiptafræðingurinn á Akureyri varð 23 ára í gær... Til hamingju, Sigurvin, og í leiðinni til hamingju með þína menn í Enska boltanum! Bara á spjöld sögunnar og læti?

Annars veit ég ekki alveg hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi í dag. Þarf að reyna að láta mér batna seinnipartinn, með öllum tiltækum ráðum. Aðallega með almennri legu.

18.5.04

Lengi er ég búin að nenna ekki að mynda mér skoðun á títtnefndu (og fáttannað nefndu) fjölmiðlafrumvarpi. Það er nefnilega einhvern veginn þannig að þegar byrjað er að ræða hver á hvað í þessu þjóðfélagi, þá er eins og mér hafi verið gefið full krukka af svefnpillum. Mér bara gæti ekki verið meira sama og mér heyrist þetta allt eiga hvert annað hvað sem öllu einkavæðingarbrölti líður. Mér finnst það heldur ekki neitt sérstakt tiltökumál. Ég er ekki einusinni neitt sérstaklega gömul, en ég man þegar ríkið átti helminginn af öllu, Samvinnuhreyfingin hinn. Þá var mér líka alveg sama. Samt sem áður, það kviknuðu pælingar.

Ef við göngum nú bara út frá því að Forsætisráðherra sé, eins og hann segir, EKKI í einkastríði við Jón Ásgeir og co. og ímyndum okkur að þetta frumvarp sé til komið vegna vel ígrundaðra áhyggja af eignarhaldi markaðsráðandi afla á fjölmiðlum. Sem sagt, þá eru menn að gera því skóna að fréttaflutningur þeirra fjölmiðla sé hlutdrægur, taumur Baugs dreginn í hvívetna og hann fái ókeypis auglýsingar og eitthvað og eitthvað.

Þá hlýtur maður að spurja, hversu litla trú hefur forsætisráðherra eiginlega á vitsmunum landans? Ég held að það væri alveg sama þótt bónusmerkið væri stillimyndin á Stöð tvö og Jón Ásgeir tilbeðinn í upphafi hvers fréttatíma, það er ekki eins og við myndum öll flykkjast í Bónus eins og heilaþvegin vélmenni. Satt að segja eru fréttir af Baugi og fylgifiskum yfirleitt ekki það krassandi að manni finnist miklu máli skipta hvernig er "tekið á" þeim. Enda á Davíð hinn stóra fjölmiðilinn sem skapar þá alltaf mótvægi, ekki satt? Aukinheldur, nú eru þessir "aðilar" á kafi í fyrirtækjarekstri á öðrum sviðum. Það þarf enginn að segja mér að þeir hafi tíma til að standa og lesa yfir axlirnar á fréttamönnum stöðvar tvö og fréttablaðsins til að passa að það sé nú ekki verið að skrifa neitt ljótt um þá eða þeirra fyrirtæki, neitt frekar en Davíð Oddson hafi tíma fyrir að leika fréttarýni fyrir ríkismiðlana.

Er sumsé búin að mynda mér þá skoðun að þetta frumvarp sé apalegt og annað hvort til komið af persónulegum urg í forsætisráðherra út í ákveðna menn eða þá vegna þess að hann álítur þegna sína fábjána.
Hvorugt er yfirvöldum til sóma.

16.5.04

Og við höfðum Júróvisíon!
Alltaf jafn ógurlega skemmtilegt og gaman. Gísli Marteinn ógurlega fyndinn, aðallega þegar hann ætlaði ekki að vera það, svosem eins og þegar ann ætlaði að urlast vestur úr því yfir "nágrannapólitík" í stigagjöf. (En ætlaðist nú samt til þess að önnur löng beittu henni gagnvart Íslandi...)

Annars er frekar merkilegt að löndin á Balkanskaga skulu vera að gefa hvert öðru svona "nágrannavinaleg" júróstig. Ekki svo langt síðan þessar þjóðir voru mest í að drepa hver aðra og setja hvers annars konur í nauðgunarbúðir og hvurveithvað.
Kannski eru þetta svona "sorrí" stig.
10-12 stig þýða: "Sorrí að við reyndum að drepa ykkur öll hérna um daginn".
6-8 stig til baka þýða: "Já, alltílagi, sorrí sömuleiðis".
Fá eða engin stig eru síðan móðgun og allt fer aftur í bál og brand. Vinaleg stigagjöf í Júróvision er sumsé lykilatriði til að friður haldist á Balkanskaga.

Ég drakk eina flösku af rauðvíni, með aðstoð drykkjuleik dauðans þar sem ég átti alltaf að drekka þegar Ruslana fékk stig. Það endaði náttlega bara með því að ég datt um koll og dó, druslan hún Ruslana fékk öll stigin. Ég var dauð um miðnætti og held ég sé ennþá full.

Samt er ég eitthvað að myndast við að þykjast ætla að ritgerða... held ég sé nú samt eiginlega ekki að blekkja neinn.