4.12.09

Kreppujóló snilld

Jólasveinarnir 13
1.
Glitnisgaur kom fyrstur,
gráðugur í öll bréf.
Hann laumaðist í vasana
og lék með fólksins fé.

Hann vildi sjúga þjóðina,
þá varð henni ekki um sel,
því greyið var sko afæta,
það gekk nú ekki vel.

2.
Björgúlfsaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið úr skipi hafsins
og skaust í bankann inn.

Hann faldi sig í Rússlandi
og froðunni stal,
meðan bjórmeistarinn átti
við Yeltsín gamla tal.

3.
Bjármann hét sá þriðji,
böðullinn sá.
Hann krækti sér í milljarða
þegar kostur var á.

Hann hljóp með þá til Noregs
en hirti ekki um sjóðina,
sem féllu hver af öðrum
við sjáum núna slóðina.

4.
Sá fjórði, Bændasleikir,
var fjarskalega sljór.
Og ósköp varð hann leiður,
þegar bankadruslan fór.

Þá þaut hann eins og Welding
og þotuna greip,
og flaug með henni í London
því krónan var svo sleip.

5.
Sá fimmti Smárasnefill,
var skrítið fjármagnsstrá.
Þegar hinir fengu í nefið
hann barði dyrnar á.

Þeir ruku'upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti' ann sér að pokanum
og fékk sér góðan verð.

6.
Sá sjötti Sigjónárna,
var alveg dæmalaus.-
Hann framundan rústunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið vildi skýringar
á auralausum reikningum,
hann slunginn var að afsaka
og skyldi ei neitt í hlutunum.

7.
Sjöundi var Heiðarmár,
sá var sjaldan sýndur,
ef fólkið vildi tal af 'onum
hann var alltaf týndur.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó þjóðarskútan maraði
þá hálfu kafi í.

8.
Baugabur, sá áttundi,
var skelfilega þver.
Hann hluta keypt'af bönkunum
með hluta úr sjálfum sér.

Svo lánaði hann sér milljarða
og yfir öðrum gein,
uns hann stóð á blístri
og stundi og hrein.

9.
Níundi var Nógafaur,
næmur á fé og snar.
Hann hentist út um heim inn
og hluti keypti þar.

Á enskum bita sat hann
í símaleik
og át þar hluti drjúga,
enga Breta sveik.

10.
Tíundi var Skallakjaftur,
tungulipur mann,
sem hamaðist á landslýð
og æsti upp hann.

Ef vammlegt var hvergi
né ósiðlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

11.
Ellefti var Stjórnaskelfir
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hláleg
og heljarstór eyru og nef.

Ef fnyk af féhyggju
ekki hann fann,
þá léttur, eins og reykur,
lyktina upp spann.

12.
Sólráður, sá tólfti,
kunni að spinna vef.-
Hann þingmannasveitina
sveigði í kosningaþref.

Hann krækti sér í fylgi,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist enginn
akkurinn hans þá.

13.
Þrettándi var Kreppugeir,
þá var komið kvöld,
alltaf kom hann síðastur
á bankahrunsöld.

Hann blekkti litlu börnin sín,
sem mótmæltu prúð og fín,
og trítluðu um bæinn
með spónaspjöldin sín.

(Höfundur óþekktur
)

3.12.09

Jah...

Hvað skal segja? Ekki nenni ég í Æseif. Eru menn ekki alltaf í ruglinu á þessu Alþingi hvortsemer?

Ég hangi yfir verkefnum og ritgerðum þessa dagana. Einu ætla ég að skila á morgun, öðru á mánudaginn, próf á þriðjudaginn og svo ætla ég að skila síðustu ritgerðinni á föstudaginn eftir viku. Svo er ég að hugsa um að skrifa eina ritgerð enn fyrir jól, um orðræðugreiningu, bara svona uppá fönnið.

Peningarnir mínir eru enn í gíslingu. En ég má ekki vera að því að standa í að frelsa þá strax. En umsóknin mín um að komast í viðskipti við sætan sparisjóð fyrir norðan er farin í póst. Svo hugsa ég mér gott til glóðarinnar í framtíðinni að þurfa í Svarfaðardal eða Hrísey einu sinni á ári til að athuga hvort bankinn minn er á sínum stað.

Hraðbáturinn fór í leikskólann í dag, en svo sóttum við hann reyndar snemma. Hann fékk einhvern smá hita og lumbru seinnipartinn. Um kvöldmatarleytið var hann síðan bara alveg í bananastuði svo líklega verður önnur tilraun gerð á morgun. Annars er Ingamma Smábátsins á bakvakt.

Já, svo er ég að (fara að) leikstýra einu örstuttu sem á að verða á Jólavöku Hugleiks sem á að haldast á Eyjarslóðinni... einhverntíma. Ég veit ekki hvað þetta er með desember. Hann rennur alltaf einhvern veginn allur alltaf saman. Ég braut annars blað í sögunni í dag og fjárfesti í fyrstu jólagjöfinni.

Og nú er ég algjörlega að eyða dýrmætum tíma í vitleysu. Krakkar sofandi, Smábátur í útláni, Rannsóknarskip úti í bæ að spila póker... auðvitað ætti maður að vera að gera eitthvað af alveg ferlegu viti.

Einntveirog...!

1.12.09

1. des.

Fyrir ári síðan var líka skítakuldi.

Við Hraðbátur létum okkur samt hafa það að mæta uppá Arnarhól á þjóðfund. Þar stóð ég lengi dags með barnungann í vagninum og tárin í augunum af hamingju yfir að heyra menn tala svo heitt hjartanlega af öðrum hvötum en eiginhagsmunapoti og græðgi. Þetta var mikil breyting frá þjóðfélagi síðustu ára.

Í dag hefur einn banki verið endureinkavinavæddur. Sami banki vill ekki láta mig hafa milljónina sem ég á hjá honum og þarf að nota hluta af og hef engan áhuga á að geyma restina hjá hulduher útrásarvíkinga með "kröfur" og Tortólapeninga. Ég er semsagt aftur alveg að fara að grenja í dag. Fyrst stjórnvöld geta þvegið hendur sínar af þessum banka vil ég geta gert það líka.

Alþingi er í gíslingu auðvaldspúka og fávita.

Einu sinni var Ísland fullvalda. Nú eru Íslendingar landlaus þjóð.

Amma mín á nú samt afmæli. Og Mæja.
Til hamingju.

Arion heldur sparifé mínu í gíslingu!

Jæja. Nú fer ég alveg að hringja í Davíð.

Ég er búin að standa í "ferli" að skipta um viðskiptabanka. Og eitt grunaði mig að yrði vesen. Ég á nefnilega rúma milljón inni á verðtryggðum reikningi í "Arion" (þetta nafn bara verður að vera innan gæsalappa) og hann er bundinn til 2012. Þegar ég stofnaði hann grunaði mig hins vegar ekkert um að þessi banki hefði hugsað sér að halda uppi glæpastarfsemi Haga um ókomna tíð og einkavæðast á þann dæmalausa hátt til huldufólks eins og nú er orðið. Svo lengi sem ég verð í einhverjum viðskiptum við þennan banka verð ég með æluna í hálsinum.

Sem betur fer er umsókn mín um viðskipti hjá Sparisjóði Svarfdæla langt komin. Það er bara eitt vandamál. Bankinn vill ekki láta mig fá peningana mína. Útibússtjóri þarf að samþykkja að maður eyðileggi eða taki út af bundnum reikningi. Þetta hef ég þó fengið að gera fram og til baka á mínum reikningum í þessum banka sem öðrum alla ævi, hef enda algjörlega flekklausa viðskiptasögu og þetta ekki verið fjárhæðir sem ættu að setja bankann á hausinn.

En í morgun hringi ég, og fæ svar eftir nokkra stund, þvert nei.

Stuttu síðar sé ég fréttir af nýju eignarhaldi bankans.

Ég sé rautt og er of frávita af brjáli til að átta mig almennilega á því hvað ég á að gera næst. Faðir vor ætlar að ræða eitthvað við sinn mann innan útibúsins og nýi viðskiptabankinn minn er tilbúinn til að reyna eitthvað að koma að málinu, gangi það ekki.

Ég vona að gert verði áhlaup á bankann og hann fari á hausinn fyrir hádegi á morgun. Ég vil frekar hafa peningana mína glataða að eilífu heldur en "óhulta" í láni hjá Jóni Ásgeiri eða öðru útrásarpakki.

Ég held ég fari bara í gönguferð og síðan jóga til að forða mér frá alvarlegu geðrofi af brjáli.

30.11.09

Bankaskipti og langþráður svefn

Hið ótrúlega er að gerast. Hraðbátur, sem ekki hefur sofið nema svona hálftíma í senn í viku eða meira, svaf 4 tíma í dag. Var þó greinilega illa sofinn eftir og sofnaði við fyrsta svæf og hefur sofið eins og steinn í allt kvöld. Ég veit bara hreinlega ekki hvað ég á að gera við hendurnar á mér þegar ég þarf ekki að halda á honum og er því búin að eyða kvöldinu étandi. Ekki gott. En ofursterku sýklalyfin eru greinilega að virka á drenginn og ég trúi því varla að ég sé að fara að sofa kannski bara nánast sleitulaust í alla nótt.

Svo er ég að fylla út umsókn um allskonar þjónustu hjá nýja bankanum mínum, Sparisjóði Svarfdæla. Útibú á Dalvík og í Hrísey. Engar horfur á útrás. Alveg örugglega engar afskriftir til glæpamanna. Ég mun sofa enn betur þegar bankaviðskipti mín eru komin á betri stað. Ég ætla alltaf að klappa bankanum mínum þegar ég kem til Dalvíkur. Sem hefur átt til að vera svona einu sinni á ári. Kannski maður geri sér ferð til Hríseyjar.

Og, svo maður minnist nú á það, hvaða leynisamningur sem vér sauðsvartur má ekki vita um er á bak við Icesave-samkomulagið? Og það skuggalegasta af öllu, af hverju kjaftar stjórnarandstaðan ekki frá því? Og ef þetta eru upplýsingar sem koma hrunamönnum illa, af hverju kjaftar Steingrímur ekki frá því? Og ég meika ekki öll þessi leyndó elítunnar.

Sennilega endar með því að við verðum að gera almennilega byltingu og höggva hausana af þessum sækópötum öllumsaman.

29.11.09

Svefnlaus

Það er afar spennandi að eiga börn. Til dæmis getur maður stundum þurft að prófa alveg til þrautar hvað maður kemst af með lítinn/engan svefn lengi, án þess að verða afar geðveikur. Ég er einmitt stödd í slíkri tilraun. Er alltaf að vona að henni fari að ljúka en það er hreinlega ekkert útlit fyrir það. Hreint ekki neitt. Eiginlega þvert á móti.

Hraðbátur er búinn að vera með nokkrar veikir í röð. Núna alveg síðustu nætur hefur hann eiginlega ekki sofið neitt. Hann er eitthvað svo stíflaður og uppfokkaður í öllum öndunarfærum að um leið og hann sofnar hættir hann að geta andað. En stundum er hann samt ágætur þegar hann er vakandi. Svo áðan fann ég að eitlarnir í hálsinum hans eru alveg stokkbólgnir. Og ég las mér til um einkirningssótt. Og komst að því að hún myndi útskýra þetta alltsaman. Og tekur 2 - 4 vikur.
Sijitt-fokk-dem-bitsj-hell.

Við hliðina á þessu er hlaupabólan sem Freigátan er með bara pínöts. Hún átti reyndar svefnlausa nótt síðustu nótt og fékk að fara í bað með hafragrjónum í um miðnættið. Það þótti henni svo mikið sport að hún hefur reynt að feika kláða annað slagið í dag til að fá að fara í svoleiðis aftur.

Svo á ég víst að þykjast vera einstaklingur á daginn í næstu viku og skrifa einhver verkefni og ritgerðir og svona. Ekki einu sinni fyndið hvað ég sé það ekki gerast.

---

Öppdeit:
Morguninn eftir fór ég með Hraðbátinn til barnalæknis og hann úrskurðaður með enga einkirningssótt heldur bara brjálaða sýkingu í eyrum (ennþá) sem hefur dreift sér í alla kirtla og eitla. Hann fékk uberpensillín og getur vonandi bráðum farið að anda léttar og sofa á nóttunni. Móðir hans verður mun skemmtilegri í samskiptum þareftir.