4.3.05

Varð fyrir óhugnalegri reynslu. Inn komu þrír menn. Með talsverðum hávaða. Svona umhverfisblindingjar sem halda að þeir séu skemmtilegir þegar þeir eru í rauninni dónalegir. Og maður þekkir þessa týpu um leið og maður sér hana. Um leið og þeir gengu inn þurfti ég að byrja að berjast við sjálfa mig um að henda þeim ekki niður stigann.

Kannski var það óhugnalegasta að þeir töluðu um "kellingar". Ekki eins og við gerum, í hálfgríni, heldur hlutgerðu þeir og alhæfðu um "kellingar" minnst 5 sinnum á þessum 15 mínútum og virtust ekki einu sinni taka eftir því. Stundum er maður vakinn upp við það, frekar óhugnalega, að það virðist ekki vera búið að segja öllum að "konur eru líka fólk".

Þetta voru flottir strákar. Eflaust taldir hinir eigulegustu í sínum kreðsum. Vaða eflaust í "kellingum". Ungir menn á uppleið. Mér finnst óhugnalegt til þess að vita að þetta pakk er líklega það sem stjórnar þessu landi, og jafnvel meira og minna heiminum.

Mér líður eins og einhver hafi bæði ælt og drullað á gröfina mína.
Upp er að renna einkar annasöm helgi. Svo ekki sé meira sagt. Best að plögga:

Allra síðasta sýning á Memento Mori er í kvöld.
Og
Patataz verður frumsýnt á sunnudag.

Og ég hefi huxað mér að fagna endurheimtingu lífs míns, sem hefst á endurstandsetningu heimilis míns og heils kvölds kríublundi fyrir framan sjónvarpið eftir helgi, með því að hrynja íða vel og vandlega við bæði tilefni. Ójá. Þjófstartaði eiginlega með smá upphitun í gærkvöldi. Þangað til alltof seint. Er syfjuð og kannski ennþá full.

Um næstu helgi skal svo haldið í Rannsóknarleiðangur og endurnýjuð kynni við minn heittelskaðasta í heiminum sem ég er orðin meira en lítið langeyg eftir að sjá og þreifa á. (Þeir sem hafa hitt mig nýlega hafa kannski tekið eftir því hvað augun í mér eru orðin löng.) Huxa með öfund til foreldra minna sem fá að berja hann augum og eyrum um helgina.

Já, og fyrir þá sem hafa beðið eftir því, upplýsingar um skólann eru komnar á leiklistarvefinn.

3.3.05

Fékk ruslpóst sem hófst á þessum orðum:

"Til að ná hámarksárangri í lífinu þarf skýra stefnu, skrifleg markmið, jákvætt hugarfar, þrotlausa vinnu og þrautseigju."

Já, það er þetta með árangurinn. Svo maður tali nú ekki um "hámarksárangur í lífinu". Hvenær er maður búinn að ná hámarksárangri í lífinu? Og ef maður gerir það eingöngu með því að vera sífellt og þrotlaust að vinna að niðurskrifuðum markmiðum, fullur af uppgerðarkæti, er maður þá ekki að lifa frekar þreytandi og leiðinlegu lífi? Og er það ekki árangursleysi í sjálfu sér?

Það vefst svo mikið fyrir mér þetta með að "komast áfram" í lífinu og "ná árangri". Stundum er eini árangurinn sem mig langar að ná þann daginn sá að reyna að komast heim áður en endursýning á Survivor byrjar. Og þá er algjörlega hámarksárangri náð. Hann felst hins vegar alls ekki í að skrifa neitt niður eða sýna neina þrautseigju, heldur eingöngu í því að sitja ekki of lengi á kjaftatörn eftir leikæfingu.

Annars ætla ég nú svosem ekkert að vera að gera mig heimskari en ég er. Veit svosem alveg af hverju "árangur" samanstendur í viðteknum gildum nútímasamfélax. Það ku vera peningar, völd og jafnvel frægð, eða einhvers konar viðurkenning umhverfisins.

Þetta með peningana get ég svosem skilið, uppað vissu marki. Vissulega væri gaman að vita ekki aura sinna tal. Það þyrfti samt að gerast átakalítið og með einhverju skemmtilegu. Vil heldur lepja dauðann úr skel heldur en að vinna þrotlaust með þrautsegju að einhverju.

Þetta með völdin skil ég alls ekki. Þeim fylgir ábyrgð. Ég þoli hana ekki.

Því síður þetta með frægðina og þetta sem klapp á rassinn frá samfélaginu sem margir virðast þurfa mikið á að halda. Ef maður er ekki sæmilega sáttur við sjálfan sig er ekkert sem umhverfið getur gert í því. Og frægð felst aðallega í því að ókunnugt fólk er alltaf að bögga mann. Vill það einhver?

Wellwell, ég er allavega búin að setja mér markmið um hámarksárangur í dag. Ég ætla að nenna í bankann. Ég ætla ekki að skrifa það niður.

PS. Fyrir þá sem langar ógurlega til að læra að ná árangri, þá var þetta upphaf á auglýsingu um námsstefnu á laugardaginn með Brian Tracy. Hún heitir:

Hámarksárangur - Sannreyndar aðferðir og lögmál sem leysa úr læðingi hæfileika þína til að ná árangri.

Maður veit nú bara ekki hvort maður að að hlæja eða gráta. Hæfileikar til að ná árangri... er það ekki bara að nenna hlutum? Er einhver virkilega svo skynsemi skroppinn að hann þurfi að fara á námskeið til að láta segja sér það?

2.3.05

Það er greinilega hægt að versla flest á netinu.

Ætli þeir sendi heim?
Í póstkröfu?
Eða borgað með korti?
Og gæti maður skilað ef stærðin passar ekki?

Þessir og margir aðrir brandarar duttu mér í hug.

Tekið skal fram að mig vantar ekki, rétt eintök má alveg eins finna á fylleríum, til dæmis á Papaböllum.

1.3.05

Stund milli stríða á skrifstofunni minni, eða kannski ætti heldur að segja stund milli skóla, þar sem nú virðist yfirstaðin flóðbylgja fólks sem er að sækja um í leiklistarskólann, en á móti kemur að skráningar í Bandalaxskólann hefjast væntanlega einhverntíma í þessum mánuði.

Svo villist jú inn einn og einn snyrtiskólanemi, sumar þeirra láta Paris og Nicole líta út eins og djúpvitra heimspekinga og kjarneðlisfræðinga. Ójá, það er náttúrulega svo margt sinnið sem skinnið en stundum virðist sem því fegurra skinnið því meiri mannvitsflatlendi leynast undir. Helberir fordómar að sjálfsögðu, sem ég er mikið búin að reyna að venja mig af, en samt kemst maður ekki hjá því að velta þessu stundum fyrir sér, sérstaklega þegar hingað rekast trekk í trekk fagrar (eða kannski aðallega vel snyrtar) ungar stúlkur sem virðast ekki... vaða í því... Sumar virðast meira að segja haldnar þeim ósið að þykjast tregari en þær eru. Það virðist í sumum kreðsum hreinlega ekki vera kúl að vita neitt eða kunna orð sem eru yfir 1 atkvæði.

Undarlegt. Maður fyllist jafnvel ákveðinni... já... kvenfyrirlitningu, bara.
Ævinlega sýnast mér karlmenn sem meiri eru á yfirborðinu en annars staðar heldur vilja sýnast klárari en þeir eru. Kemur reyndar stundum svolítið ámátlega út...

Sennilega best að reyna bara að vera nokkurn veginn eins innúr. Eftir því sem maður kemst næst.

En þetta var nú... útúrdúr... eða eitthvað.

Annars, gleðilegan bjórdag! Já, bjórinn er 16 ára á Íslandi í dag!
Og 16falt húrra fyrir því!
Stórkostlegt!

Nauðsynleg lesning á hverju heimili.

28.2.05

Var að fatta að ég hef ekki verið ekki í leikriti síðan ég kom heim frá Eistlandi í ágúst. Nema rétt yfir blájólin. Það er kannski ekkert svo ofboðslega undarlegt að maður skuli vera farinn að sakna sjónvarpsins síns smá og sé ekkert búinn að skrifa eða neitt?

Frá næstu helgi ætla ég líka að gera mest lítið annað en að prjóna og reyna að skrifa eitthvað og láta sjónvarpsdaxkrána stjórna lífi mínu í einu og öllu. Og þvælast til Akureyrar í tíma og ótíma. Lofa engu um félaxlyndi.

Og, best að plögga smá:
Það er aðeins ein sýning eftir á Memento Mori. Hún er á föstudaginn. Allra síðasti sjens að sjá þessa frábæru sýningu.

Og á sunnudaginn verður frumsýnt leikritið sem heitir víst ekki lengur Aðfaranótt heldur Patataz. Sýningar verða í nýju leikhúsi sem heitir Stúdíó 4 og er staðsett í Vatnagörðum 4. Mér sýnist þessi líka verða hreinast abbragð. Enda höfundurinn Björn Sigurjónsson og leikstjórinn Bergur Ingólfs og leikararnir allirsaman, hreinræktaðir snillingar.

Og svo er bara sól úti. Lallallah.