18.3.11

Ekkert slær í gegn!

Mér finnst þetta frábært.
Það slær ekkert "í gegn" á Íslandi í dag. Ekkert er að slá nein met. Allt sem er framleitt með það að augnmiði að "hitta" og framleitt fyrir steríótýpisma... jújú, fær alveg einhverja athygli, en ekki öll grilljón-skrilljón hittin/miðasöluna/aðsóknina sem það átti að fá. Skoðanakannanir eru flestar ómarktækar af því að helmingurinn vill ekki svara eða er óákveðinn. Og undarleg jaðarfyrirbæri sem menn búa til til að skemmta sjálfum sér fá allskonar athygli. Samt ekkert brjálað mikla. "Athyglin" dreifist bara meira. Eftir smekk. Sem er allskonar.

Auðvitað er meira krossnöldur en oft áður. En það er bara vegna þess að menn eru ekki lengur til í að láta selja sér skoðanir annarra heldur halda fast við sínar. Kannski endar með því að við lærum að virða skoðanir annarra. Og áttum okkur á því að allt er allskonar og rétt og rangt líklega ekki til. Það væri nú alveg svakaleg framför.

Mér finnst þetta lofa góðu. Þetta segir mér að menn séu eitthvað að róa sig í hjarðeðlinu. Fleiri eru til í að tékka á allskonar. Ég held að auglýsingaherferðir hljóti að vera farnar að missa aðeins marks. Kúl-faktorinn er ekki lengur jafn allsráðandi, þegar kemur að því að móta sér smekk. Ísland er ekki kúl. Ekki heldur heimurinn, neitt sérstaklega.

Var annars að horfa á þáttaröð sem heitir The Century of Self sem er hægt að sjá á Youtube. Fjallar um þróun PR-sins og auglýsinganna í heimi ofurneytandans.
Ansi hreint áhugavert.

16.3.11

Viðburðir!

Jónas Sigurðsson og ritvélar framtíðarinnar eru á Rósenberg í kvöld. Ég gaf Árna diskinn þeirra „Allt er ekkert“ í jólagjöf og hann fór ekki úr spilaranum í bílnum fyrr en ég fór með hann í partí. (Og er enn á leiðinni aftur í spilarann í bílnum. Það er þar sem er helst hlustað á tónlist á okkar heimili.) Svo fengu þau verðlaun fyrir lag ársins. (Sem er reyndar ekkert uppáhaldslagið mitt á þessum diski, en hvað um það.)
Ábyggilega magnaðir tónleikar. Og örugglega troðstappað áðá.

Svavar Knútur ætlar svo að halda tónleika, líka á Rósenberg, á morgun. Hann gaf út annan snilldardisk sem hann kallar Amma, fyrir jólin. Það sem ég hef heyrt af þeim diski er ekkert nema dásamleg snilld. Yndislegar ábreiður af svona síðustu-lögum-fyrir-fréttir. (BTW, ég er ekki enn búin að eignast þennan disk. En ég á bráðum afmæli!) Svavar spilar nú alltaf, annað slagið, en það er auðvitað löngu orðið skammarlegt hvað maður er lélegur að mæta áann.

Um helgina ætlar svo A Band on Stage að spila tónlist níunda áratugarins á títtnefndum Rósenberg. Þekkjandi það gengi verður ekkert með Wham eða Duran Duran á prógramminu og líklega allt b-hliðar lög. Sem gerir þetta vissulega mjög spennandi. Ég reikna með að reyna að mæta annaðhvort kvöldið. Ætla að reyna að stilla mig um að fara bæði.

Og, síðast en ekki síst, besta leikrit í heimi, Havgird, eftir og í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, í flutningi Theatergrúppunnar Royndin frá Færeyjum, verður sýnt í Gaflaraleikhúsinu um pálmasunnudagshelgina. Ég sá þessa sýningu í fyrrasumar á leiklistarhátíðinni á Akureyri. Þetta er EIN ALLRA BESTA LEIKSÝNING SEM ÉG HEF SÉÐ!
Það verða bara tvær sýningar. Það verður alveg örugglega troðstappað á þær báðar vegna þess að allir sem sáu troðstöppuðu sýninguna á Akureyri ætla örugglega aftur og draga alla og ömmu sína með. Svo, þeir sem ekki vilja missa af, PANTA!

Annars, í minniháttar fréttum úr prívatlífinu.

Styrkumsókn til Rannís fór alla leið í gær. Held ég. Fékk reyndar enga staðfestingu á viðtöku eða neitt, og svo frétti ég skömmu síðar að kerfið hefði fömblað og fresturinn lengdur um tvo daga.
Persónulega finnst mér líklegt að umsókn mín hafi verið svo brilljant að hún fór með kerfið. Því fannst bara óþarfi að taka við fleirum!
En þá er ég allavega búin með allt umsóknabull á þessu ári. Og best að reikna ekkert með að fá neitt útúr þessum apalegu sjóðum, frekar en venjulega.

Í gær þurftu líka fleiri styrkumsóknir að fara út um allt og svo var fundur og svo fékk ég hundraðogsjötíu heimapróf í hausinn. Sat fram til miðnættis við að taka á móti þeim og er heldur en ekki úldin í dag.

Enn hefur ekki gefist tími til að skoða verðandi híbýlin í Koppavoginum. Bíllinn hefur áhyggjur af þessu og er því farinn að búa til allskonar erindi í Bíla Áttuna. Um helgina át hann úr sér rafgeyminn og núna er bara hægt að opna bílstjórahurðina innan frá.

En við þurfum að fara að drífa í að tala við manninn sem ætlar að flytja úr íbúðinni. Ekki síst til að komast að því hvort hann ætlar að gera það í lok apríl eða eftir... 14 daga! Eftir rúma viku verður sölufundurinn okkar. Þá reikna ég með að við afsölum okkur endanlega eignarrétti á húsnæði. Og borgum upp heilan haug af milljónum í leiðinni. Mikill dauðans léttir verður það nú.

Aldrei er best að eiga neitt.
Eyða bara öllum peningunum í að styrkja listvæna vini sína með uppákomusókn.
Ferlega vistvænt.