26.10.07

Heimilisannáll daxins

Ritari heimilsins hefur átt annasaman morgun. Enda eiga heimilismenn nú pantaða tíma hjá öllum sérfræðingum borgarinnar, flug vítt og breitt um landið auk þess sem niðurstöður afstaðinna læknisrannsókna eru allar komnar í hús.

Í morgun sagði ég Freigátunni að nú ætluðum við að hafa það rólegt í dag og vera helst bara á náttfötunum. En hún er nú ekki á því og mér sýnist hún vera að þvinga fram tiltekt í töpperver skápnum. Enda svaf hún óvenjusæmilega og er í dag aðeins brattari, finnst mér. Reyndar koma horskriður reglulega og grenjuköst við minnsta mótlæti. En samt er nú allt í áttina. Ég vona af öllum kröftum að hún komist í leikskólann á mánudag. Og það vonar hún líka. Í morgun klæddi hún sig í stígvél, setti á sig húfu og tók leikskólatöskuna og grenjaði svo kröftuglega frammi við dyr, góða stund.

Í haust hefur staðið yfir hálfgerð barátta. Smábátur fékk að framlengja kvöldið um hálftíma, þ.e.a.s. fara hálftíma seinna að sofa en í fyrra, þar sem hann var orðinn alveg hroðalega flinkur í að vera hress á morgnana, jafnvel kom fyrir að hann vaknaði sjálfur! En í haust er þetta búið að vera bölvað basl. Engin mútur eða hótanir hafa dugað, drengur hefur einfaldlega verið of sybbinn á morgnana og farið í skólann í ranghverfum fötum með augnlokin á hælunum. Í gærmorgun missti ég þolinmæðina alla leið og lýsti því yfir að fyrri háttatími yrði tekinn upp, undir eins. Í morgun vaknaði Smábátur við fyrsta Móðurskipsgal og var mættur í morgunmat um mínútu síðar, í fötunum með réttuna út og augun opin alveg alla leið. Það er ljóst að gamla skipulagið er komið til að vera.

Í annarri baráttu er ég hins vegar að hugsa um að játa mig sigraða. Það hefur að gera með rigninguna. Ég er óskaplega mikið fyrir að þurrka þvott úti. En það hefur bara ekki verið hægt á þessu landshorni síðan í ágúst, nema í mjööög miklu hófi. Svo þá er aldrei hægt að þvo meira en kemst á handklæðaofninn í hvert skipti. Og það gengur ekki. Þannig að, móðir mín verður svoooo glöð að heyra þetta, ég huxa að ég fái mér þurrkara. Fann meiraðsegja svoleiðis á tilboði einhversstaðar á töttögogfemmþúsund kall. Það er barki fyrir svoleiðis í baðherbergis-þvottahúsinu. Ég var bara með þrjósku. Verst að ég þarf líklega að láta gera smá endurskipulagningu á innréttingunni... eða skipta um þvottavél.

Já, ég er ekki frá því að hreiðurgerðin sé farin að gera vart við sig...

25.10.07

Dugggn

Í gærkvöldi fór ég að grenja af því að ég myndi aldrei ná í skottið á skólavinnunni og heimilshroðanum.

Í morgun fórum við Freigáta til læknis. Í ljós kom að ég hafði engan kokk. Ákveðið var að sjá aðeins til hvort hennar er ekki á undanhaldi, enda var hún oggulítið skárri, með 39 stiga hita og minna flekkótt. En hún er með einhverja smá eyrnabólgu öðrumegin og líklega einhvern vírus ofan á streptókokkunum. Svo við erum bara pollrólegar.

Svo gerði hún mér þann greiða að vera hin þægasta í morgun og sofa svo lengi þannig að ég gat lært heilan haug. Þegar hún vaknaði var hún nánast hitalaus. Í gleði minni skúraði ég alla íbúðina og fyrir liggur að ganga frá öllum þvottinum. Eftir eitt verkefni er ég síðan búin að ná í rassinn á sjálfri mér í skólamálum, þarf reyndar að klára þýðingu og þýðingaskýringar um helgina. Og þá er bara... ekki nærri allt búið, en þó nokkurn veginn komið á áætlun.

Svo þá þarf ég ekkert að fara að grenja í kvöld.
Enda er gott í sjónvarpinu.

24.10.07

Langavitleysa miðvikudaxins

Skildi Rannsóknarskip og Freigátu eftir heima í plágunni. Félagarnir Kevepenín og Amoxissillín ætla að lækna þau í dag. Rannsóknarskip fékk sumsé pillur við sínum streptum í gær, og á að vera orðinn fínn á morgun. Freigátunni finnst meðalið æðislega gott og vill helst fá að drekka miklu meira af því.
Móðurskipið pantaði sér tíma hjá lækni í fyrramálið. Þó ég sé ekki búin að vera neitt fárfárveik eins og aðalkokkarnir, þá er ég búin að vera með ponkulitla hálsbólgu.

Svo kannski er ég með... einn. Kokk. Í hálsinum.
Best að láta gá.

---

Ég þoli ekki fresti. Nú áttum við að skila haug í þessari viku, og ég var farin að hlakka voða til að það yrði búið. En nú eru "einhverjir" farnir að væla um fresti, og þá er þeim bara troðið uppá alla.
Sé fram á að þurfa að reyna að láta hina í fjölskyldunni passa hvern annan einhvern slatta um helgina og loka mig inni á skrifstofu. Eða fara í helv... Bókhlöðuna. Ömurlegt aðviðurkenna það þá vannst mér svaka vel þar í síðustu viku.
Ömurlegra að viðurkenna að ég þurfti að nota alla þessa fresti.

---

Og nú þarf ég að fara að flytja útvarpsþáttagreininguna mína. Sem var ekki borað uppá mig fresti í. Og er þar af leiðandi bæði einstaklega vond og allt of stutt og eins gott að hún Ólína Þorvarðar talar við okkur frá Ísafirði, þá getur hún ekki afhausað mig eins mikið. En þetta verður ekki toppeinkunn ársins. Sérstaklega ekki ef hann Gotti fer ekki að hleypa okkur út. Þá verð ég óétin í þokkabót.

---

"Mjög gott" sagði Ólína. Hún hlýtur að vera full.
Eða að hún er að undirbúa að snæpera mig með öööömurlegri einkunn.

---

Jeij, Halldór Guðmundsson er gestafyrirlesari í dag. Nú læri ég ritstjórn!
Ég heyri kjallaraútgefandann föður minn grænka af öfund.

---

Ésús.
Halldór er alveg hrrrroðalega flínkur fyrirlesari sem veit allt um útgáfur. Og þarf að segja gjörsamlega allt sem máli skiptir á 40 mínútum. Maður hefði haldið að flestir angurgaparnir hefðu vit á að halda sér saman í þessar mínútur?

Ekki alveg allir.

Ekki allra heilalausasti fávitinn í bekknum sem er búinn að pirra mig í hverjum EINASTA TÍMA! Djöfull þoli ég ekki þetta hálfvitagerpi.

(Var að hugsa um að nota orðið þvergirðingsfábjáni, en það er bara of flott fyrir hann þennan. Þetta er bara greindarskert viðrini sem ætti aldrei að fá að hafa samskipti við annað fólk.)

Sumir spyrja gáfulega, en þessum finnst bara gaman að hlusta á sjálfan sig. Ég þarf að sitja nokkra tíma í viðbót með þessum náunga. Sem betur fer bara í þessum kúrsi. Ég er ekki alveg viss um að hann lifi það af.

---

Dísuss! Haldiði að fávitinn ætli ekki bara að fara að kansela Halldóri til að fá kaffihlé! Thats it. Það verður banaslys í stiganum á eftir.

---

HAHAHAHAHAHA!
Þegar Fífl var búinn að fjölmyrða fyrirlesturinn fyrir aldur fram með einhverju helvítis kaffikjaftæði, lauk honum á eftirfarandi hátt:

Halldór: Eru einhverjar spurningar að lokum?
Fífl: Já, ég vildi fá að spyrja að einu...
Halldór: Spurning hvort EINHVER ANNAR vill spyrja að einhverju að lokum?

Fífl fór í fýlu.

Mér var svo skemmt að ég fresta morði þar til í næstu viku.
Halldór Guðmundsson fékk heilan haug af akademískum rokkstigum.

---

PS: Komin heim. Freigátan er enn með 40 stiga hita. Lyfin virðast ekki vera að virka. Líklega fær hún að nota læknistímann minn í fyrramálið því ég er orðin hálsbólgulaus. Sennilega af tómri Þórðargleði yfir niðurlægingu Fíflsins áðan.

23.10.07

Húrra fyrir pensilíngerðarmanninum!

Núna áðan var ég rétt búin að kyssa barnalækni.

Fór með Freigátuna á barnalæknavaktina. Með hálfgerðri fýlu. Hélt ég fengi bara þetta týpíska, halda áfram að gefa henni stíla, passa að hún drekki, og bíða svo í hálfan mánuð eftir að hún jafni sig eftir læknisferðina en fór eiginlega til að friða Rannsóknarskipið sem sótti fast að ég léti líta á fárveiku einkadótturina.
Ynnndislegi læknirinn gerði á henni streptókokkapróf, og þá var hún með.

Sjaldan hefur nokkur kokkur glatt mig meira.

Ég skýrði frá heilsufari eiginmannsins, læknirinn sagði mér að senda hann til læknis en vera ekkert að kyssa hann.

Pensilínið er komið í hús og að öllu eðlilegu ætti hún að vera orðin fílhraust eftir tvo til þrjá daga. Í gleði minni snaraði ég fram herramannsmáltíð að hætti Indverja. Að því loknu spratt Rannsóknarskipið upp af sóttarsæng og er nú farinn á læknavaktina að fá, vonandi, sömu sjúkdómsgreiningu og batahorfur og Freigátan.
Hún mældist hins vegar uððitað með tæplega 40 stiga hita eftir útstáelsið og er sofnuð... eða allavega meðvitundarlaus.
En hefur þegar innbyrt fyrsta skammt ævi sinnar af pensilíni og má vænta aukinni vellíðan strax á morgun.

Í flotastöðinni ríkir því mikil gleði hjá þeim sem heilsu hafa til að vera með slíkt.
Nú er ég farin að klára að læra heima fyrir morgundaginn.

Drepsóttarfréttir

Freigátan kom nú öllum á óvart. (Ja, öllum sem voru viðstaddir og með meðvitund. Þ.e.a.s. mér.) Svaf til níu í morgun (sem er tveimur tímum lengur en venjulega) var hitalaus og gúllaði í sig tveimur hrokuðum diskum af hafragraut, næstum án þess að líta upp eða anda. Hún er nú samt hálf dösuð, óvenjukjur og ennþá með smá útbrot á mallanum og í hárinu. Ég fer nú samt að vélfengja sjúkdómsgreiningu mína um mislingabróður þar sem Rannsóknarskip virðist vera með það sama. En hann er vel yfir þriggja ára aldri svo það passar eiginlega ekki.

Dularfulla drepsóttin virðist allavega ætla að vera fljót í förum, ef Freigátan heldur svona áfram. Ég er enn að vona að hún fari framhjá okkur Smábáti.

Rannsóknarskip liggur hins vegar jafnmeðvitundarlaus og Freigátan var í fyrradag. Það merkilega er að þegar hún raknaði úr rotinu var hún búin að taka einhvern máltökukipp og segir núna allskonar sem hún kunni ekki fyrir.
Það verður því spennandi að sjá hvað Rannsóknarskip lærir í máltökukómanu. Kannski kínversku?

22.10.07

Ég er orðin of ólétt fyrir þetta!

Freigátan er hin hressasta. Eftir að hafa haldið vöku fyrir foreldrum sínum í alla nótt, lagt sig næstum ekkert í dag og gubbað út um allt þegar hún vaknaði. M.ö.o., gert næstum útaf við dauðuppgefið Móðurskipið. Ég var búin að vorkenna mér hrrrroðalega í dag. Ekki haft tíma til að sofa eða borða, pissa eða kúka, fyrir heimilishaldinu og aðallega veika barninu og fannst ég eiga ógurlega bágt.

Þangað til Rannsóknarskip kom heim.

Þegar ég sá hann staulast inn úr dyrunum, allan í keng og allt í einu kominn með 40 stiga hita, varð ég allt í einu stálslegin eftir lögmálum samanburðarins. Annars fór hann líka í lungnamyndatöku í dag, til að athuga möguleikann á því að hann sé með einhverja einstaklega lúmska lungnabólgu. Það kemur ekki út úr því fyrr en eftir tvo daga, en ég vona að eitthvað komi í ljós sem hægt er að lækna, helst með pillum en ekki geislameðferð. Hann er búinn að vera með hita síðan einhvern tíma í byrjun september.

Það er sem sagt ekkert sérstaklega gott ástand á flotanum. Og þar að auki er bræla. Og enginn getur skutlað vesalings Smábát í tónlistarskólann, svo hann verður bara pollagallaður upp og sendur af stað fyrir eigin vélarafli.

Freigátan er annars á öðrum degi mislingabróður. Sem þýðir að hún var hálfmeðvitundarlaus af hita í gær, er með minni hita en öll í útbrotum í dag og ætti að fara að skríða saman á morgun. Ef við erum heppin ættum við kannski að fá að sofa smá í nótt.

Mikið happ að í þýðingafræði var troðið upp á alla auka-skilafresti á bókmenntaþýðingum sem áttu annars að vera til á morgun.
Sjúkk.

21.10.07

Bloggfærslur styttast

Freigátan er með tæplega fjörtíu stiga hita.
Hún var líka vakin um miðnætti af #&)!$#& sem var með partí á efri hæðinni.
Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Á svona dögum skoða ég fasteignavefinn.