7.11.09

Að kveðja

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.

Gamla fólkið sem nú kveður unnvörpum er til dæmis með "gömlu gildin" alveg á hreinu. Þessi sem almenningi á Nýja Íslandi gengur svo misvel að rifja upp. Þessi sem voru í gildi áður en allt fór að snúast um að græða eins mikið og er í mannlegu valdi og enginn gerði lengur neitt fyrir neinn.

Lára amma stóð í eldhúsinu. Oftast eldandi og bakandi ofan í ein 13 börn og milljón gesti. Það var alltaf pláss fyrir alla og nóg til frammi. Hún var alltaf kát. Það neikvæðasta sem ég heyrði hana nokkurn tíma segja var "Ég er nú svo aldeilis hissa!"

Síðasta samtalið sem ég átti við hana var fyndið. Hún var komin á sjúkrahúsið þá, ég var 27 ára og átti engan mann. Þetta þótti henni nú öldungis ómögulegt og ræddi það mjög. Það endaði með því að ég sagði henni, sísvona, að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Þá var hún sammála mér um að þá væri nú bara betra að eiga engan.

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.
Það fjölgar reyndar jarðarförunum.
En fólk sem vissi allan tímann að heilsast og kveðjast væri lífsins saga, hélt ekki að það yrði eilíft né færi með með veraldlegu auðæfin í gröfina, er gott að kveðja með ró og sátt.

Lára amma hvílir sko alveg örugglega ekki í neinum friði. Henni finnst hún sjálfsagt vera búin að gera nóg af því undanfarin ár.
Hún er að baka, og það eru margir gestir hjá þeim afa sem hún hefur ekki hitt lengi.
Kannski er hún meira að segja aldeilis hissa.

5.11.09

Þjóðmál – Heimsmál – Fjölskyldumál – Jarðarför

Jóhanna Sig. vill bjóða Haga upp. Í heilu lagi, bara. Það væri nú aldeilis fínt. Þetta getur enginn keypt nema bankapésarnir sem rændu okkur.

Einhverjir hafa stungið uppá að bjóða upp hverja "keðju fyrir sig". Þær eru eitthvað um 20. En það gildir einu. Engir nema virkilegir risastóreignamenn hefðu efni á að kaupa þær. Já, og svo leppar fyrir Bónusfeðgana sem eiga nú líklegast varasjóði einhversstaðar þar sem enginn má vita af þeim.

Mér finnst langhreinlegast að selja hverja búð fyrir sig. Þar með gæti venjulegt fólk tekið þátt og hugsanlega myndast smuga fyrir semí-heiðarlega viðskiptahætti og eðlilegt samkeppnisumhverfi á matvæla markaði að skapast.
Eiginlega finnst mér þetta eini möguleikinn sem eigi að koma til greina.

Fyrst verða þeir sem eru rúnir auði
að öðlast mola af hinu stóra brauði.

(Brecht/Weil)

---

Annars fór ég á Capitalism – A Love Story í gær. Ýmislegt magnað er að gerast í Bandaríkjum Ameríku. Ég var mjög hrifin af rekstrarformi sem er farið að skjóta upp kollinum, þar sem starfsmenn mynda stjórn fyrirtækisins og skipta ágóðanum alveg hnífjafnt. Og svo fólkið í Chicago (minnir mig það hafi verið) sem tók húsið sitt tilbaka, eftir að hafa verið borið út. Það er hreinlega verið að reyna að hnekkja auðmannaveldinu og það er séns að Obama sé að hjálpa til við það.
Annars grét ég eins og garðkanna yfir seinni hluta myndarinnar. (Svo ekki sé nú minnst á lokalagið.) Eins og ég var undir gríðarlega miklu af ræðuhöldunum í búsáhaldabyltingunni. Þó ekkert annað gerist þá er ræðuhöld og annar málflutningur sem knúinn er að hugsjón um einhverskonar réttlæti og jöfnuð í þjóðfélögum heimsins nokkuð sem ég átti ekki von á því að lifa að sjá í þessu lífi. Ekki eftir græðgisklikkun undanfarinna ára.

---

Við Friðrik erum heima, þriðja daginn í röð. Hann er með magapínu og eyrnabólgu. Kominn á pensillín sem lagar eyrnabólguna en hreint ekki magann. Ég er líka með einhverja magapínu og er búin að ganga fyrir vatni einusaman í þrjá daga. (Búin að missa svona eittoghálft kíló!)

---

Svo á Rannsóknarskip afmæli í dag. Gaman fyrir hann.
Svona fyrir utan að ég er að fara austur í kvöld og verð þangað til annað kvöld.

Þar ætla ég að kistuleggja og jarða hana Láru ömmu mína sem fékk hvíldina um síðustu helgi, södd lífdaga og ríflega það. Hún eignaðist hundraðfimmtíuogeitthvað afkomendur á meðan hún lifði, bjó lengst af úti í sveit og var alltaf með fullt hús af börnum og gestum. Síðasta samtal sem ég átti við hana átti sér stað fyrir nokkuð mörgum árum síðan, en síðustu ár hefur hún ekki mikið getað tjáð sig. Þá var ég tuttugu og sjö ára og hún hreint rasandi yfir því að ég ætti ekki mann. Þá ákvað ég að spila aðeins með hana, svona af því að hún var bindindiskona, og sagði eitthvað á þá leið að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Og hún var nú sammála því, að þá borgaði sig nú frekar að eiga engan.

Og hún lagði svo á og mælti um að við nöfnur hennar skyldum verða kistuberar, svo það er eins gott að vera skikkanlega til fara og haga sér.

4.11.09

Afrek

Ávinningurinn af að þurfa að vera heima heilan, sem nauðsynlega hefði þurft að fara í ritgerðarskrif, með lítinn pestargemling, er ýmis. Þar sem ég er aðframkomin af stressi yfir að vera ekki í skólanum að hamast við að ritgerða er ég einkar atorkusöm og búin að afreka eitt og annað.
Eins og:
~ Taka ferlega mikið til. (Sem hefði nú reyndar gengið betur ef sá stutti hefði ekki endilega viljað hjálpa MIKIÐ til.)
~ Ganga frá hverri einustu pjötlu hreins þvottar af allri fjölskyldunni. (Hugsanlega ekki alveg öllu á rétta staði, þó, vegna áðurnefndrar hjálparhellu.)
~ Hringja í augnlækni fyrir hönd auga Smábáts sem er ekki hætt að hafa sýkingu þrátt fyrir hálfan mánuð á tvíþættum ofurkúr. (Augnlæknir ætlar að hringja síðar.)
~ Panta tíma hjá lækni seinnipartinn fyrir Hraðbátinn sem er með einhverja undarlega pestarblöndu af magapest, hósta og raddleysi auk þess sem ég hef eyrun grunuð um að vera með vesen. Samt engan hita. Svo þetta er allt ferlega grunsamlegt.
~ Komast að því að þurrkarinn er léttari en þvottavélin.
~ Skrúfa þvottavélina í sundur.
~ Finna ekki hvers vegna hún vindur ekki almennilega.
~ Skrúfa þvottavélina saman aftur.
~ Þrífa á bak við þvottavél og þurrkara áður en allt var setta aftur á sinn stað.
~ Þrífa myglmundinn úr baðherbergisloftinu sem kemur alltaf í heimsókn í of miklum raka, sem kemur ef einhver vogar sér að loka baðherbergisglugganum eða þvottavélin vindur ekki almennilega, og gæti líka hugsanlega verið þáttur í veikindum Hraðbátsins.
~ Panta viðgerðarmann fyrir þvottavélina.
~ Fatta asnalega skyrtutakkann sem var inni og líklega ástæða þess að þvottavélin var ekki að vinda almennilega.

Næst á dagskrá er að hringja skömmustuleg í viðgerðarverkstæðið og ljúga því einhvernveginn að þvottavélin hafi lagað sig sjálf.

Segiði svo að svona dagar fari í vitleysu.

2.11.09

Skýring á geðvonskunni?

Ég er búin að vera bókstaflega miður mín af geðvonsku síðan svona um kvöldmatarleytið. Hreinlega varla verið líft nálægt mér. Reyndi að vera ekki hræðilega vond við börnin, en þurfti að taka á öllu mínu.

Svo mundi ég að það var fullt tungl... ekki að ég taki venjulega eftir því en möguleg skýring.

Svo var ég að fá sms frá Svandísi vinkonu minni, hún skellti í heiminn einni 18 marka dömu áðan. Á tveimur tímum sléttum frá fyrsta verk. Ekki skrítið að kosmíska orkan hafi verið í einhverju fokki.

Elsku Svandís og Jonathan,
Til hamingju með litlu nornina hana Lilju Katherine, sem fæddist í fullu tungli á Allrasálnamessu. Með þessum líka látunum.

Hvaða andskotans viðkvæmu mál?

Já, andskotinn forði því nú að við fáum að vita hvernig er búið að selja okkur í alþjóðahóraríið. Jóhanna og Steingrímur valda mér gríðarlegum vonbrigðum ef ætla að treysta á að við tökum ekki eftir því þegar við verðum tekin í ósmurt. Og eitthvað gekk bankastjóragerpinu í Kaupthinking illa að kjafta sig í kringum afskriftamálin hjá Baugi.

Það lá við að maður heyrði í gegnum samtalið símtalið sem hann var nýbúinn að hringja:
- Heyrðu, Nonni, þetta gengur víst ekki með 50.000 kúlurnar, eins og við vorum búnir að ákveða. ... Já, neinei, ég lýg bara einhverju í bili. Svo finnum við eitthvað út.

Helvítis andskotans svínarí.
Liðið sem við kusum í þessum langþráðu kosningum í vor þarf að fara að taka til í spillingarhítinni. Og það fljótt. Mér líður ekki vel að vera sammála Bjarna Ben. Reyndar gleymir hann alveg að minnast á að hann að hanga á aurakrossinum við hliðina á útrásarvíkingunum og Davíði. Og mér þætti gaman að vita hvað hann hefur fengið marga milljarða uppí galopið þvert og hurðalaust út á helvítis smettið á sér.

Mikið er nú ágætlega heppilegt að maður skuli á öllum tímum geta fundið eitthvað í "ástandinu" til að skeyta skapi sínu á þegar maður er, til dæmis, illa sofinn og úrillur.
---
Jáh, svo er víst fullt tungl...

1.11.09

Messa allra heilagra

Skemmst frá að segja að eitt gerðist ekki um þessa arfaindælu helgi. Ég tók enga mynd af börnunum. Ekki eina einustu. Þrátt fyrir geðbilað fagurt veður í dag og fagurt til myndatakna. En ég ætla að gera það... alveg bráðum. Það þarf eiginlega að fara að hugsa fyrir jólakortunum.

Annað í fréttum, fékk krasskors í sölumennsku hjá Hörbanum í dag. Þarf bara að lesa einhver ósköp og gera dáldið... og þá fæ ég afslátt af öllu stöffinu sem ég borða. (Og má reyndar líka selja, ef einhvern langar að prófa.) En á eftir að auglýsa það nánar seinna, þegar ég veit eitthvað.

Og svo var ég á fínni einþáttungasýningu hjá Hugleik. Það mátti sjá 6 snilldarlega skrifaða og leikna einleiki, afrakstur námskeiðs hjá Agnari Jóni Egilssyni. Allir voru flottir og stóðu sig með stakri prýði, engum blöðum um það að fletta.

Mér fannst svolítið fyndið, í ljósi kreppunnar, að allir sögðu þeir frá erfiðum tímum og einmanalegum lífum. En kannski er einmanaleiki í eðli einleiksins? Sumir voru alveg meinfyndnir, aðrir ógurlega tragísk drömu og svo allt þar á milli og í bland. En eitthvað þema með að yfirstíga... eða ekki... erfiðleika, fann ég svolítið.

Þetta gerist aftur á morgun. Hugleikhúsinu klukkan 20.00, að staðartíma. Og kaffi og kökur og svona.