5.2.10

Það búa tvær þjóðir í þessu landi

Auðvaldsklíkan og Blanki meirihlutinn.

Auðvaldsklíkan hefur enn töglin og hagldirnar í öllum peningamálum landsins. Hluti Blanka meirihlutans er með Stokkhólms-heilkenni og heldur að enginn geti stjórnað peningamálunum nema þeir sem hafa alltaf gert það, þó svo að árangurinn af því sé... ja svona eins og sjá má.

Að greina þarna á milli er ekki flókið. Í Auðvaldsklíkunni eru þeir sem hafa sambönd og fá "sérstaka fyrirgreiðslu" allsstaðar sem þeir koma. Í henni eru ekki allir sem keyptu Range Rover eða flatskjá. Í henni eru ekki þeir sem eru að fara á hausinn. Þar eru hins vegar þeir sem hafa einhverra hluta vegna fengið svigrúm til að vera ekki persónulega ábyrgir fyrir skuldunum sem þeir stofnuðu til, fengið að velta eignunum sínum á milli eignarhaldsfélaga og skilið eftir sig slóð af skuldum handa ríkinu, (blanka meirihlutanum) til að borga. Þegar fólk og fyrirtæki úr Blanka meirihlutanum á ekki fyrir skuldunum er hann umsvifalaust gerður gjaldþrota. Þegar fólk og fyrirtæki út Auðvaldsklíkunni eiga ekki fyrir skuldunum eru skuldirnar felldar niður eða þvegnar af öllu saman. Viðkomandi hafa gert þjóðina gjaldþrota en verða það aldrei sjálfir. Sama hvað.

Það mikilvægasta er að Auðvaldsklíkan stjórnar umræðunni. Hún tengist milli flokka. Þvert yfir landamæri hægri og vinstri og pólitíkur og fjármálaheims. Og hún ruglar markvisst umræðuna. Nú er búið að æsa upp í mönnum þrætur um hægri vs vinstri, kommúnisma vs kapítal, umhverfismá, Evrópusambandið... allt sem mönnum dettur í hug til þess að hið óhugsanlega gerist örugglega ekki, að blanki meirihlutinn sjái í gegnum djókið, geri áhlaup á bankana sem hamast við að afskrifa, hendi Auðvaldshringnum út í prófkjörunum, sýni almenna neysluleti og vinni saman, markvisst að því að koma öllum eigum þjóðarinnar út úr Auðvaldsklíkunni.

En því þarf að byrja á.

Menn eru að byrja að vakna. Farið er að heyrast af lögsóknum. Erfitt mál þar sem Auðvaldsklíkan á dómstólana. Já, og í mörgum tilfellum lögin (eða lögleysurnar) sem í gildi eru um hverjir mega stela og klúðra. En þetta er að byrja að koma. Menn fylgjast með. Rífast á Eyjunni. Það er byrjunin. Auðvitað eru menn aðeins úr þjálfun í málefnalegheitum, en fólk fylgist með. Það er ekki mikið svigrúm til að svindla eða pretta. Ekki mikið. Samt dáldið. Og enn virðist vera hægt að slá ryki í augu manna með því að setja fyrirtæki á almennan hlutabréfamarkað undir því yfirskyni að "hver sem er" geti keypt hluti. (Vandamálið er bara að "hver sem er" á enga peninga. Auðvaldsklíkan á það ekki heldur, en hún er með allavega tvo banka í vasanum, sem eru að afskrifa skuldir hennar, eins hratt og hægt er án þess að "allt verði vitlaust" og hefur enn sína menn í flestum valdastöðum þjóðfélagsins.)

Þetta er ekki flókið.

Allir vita hverjir eru í Auðvaldsklíkunni. Við þekkjum öll einhverja sem eru haldnir Stokkhólms-heilkenni og þora ekki að breyta. (Heilmikið af sjómannastéttinni, til dæmis, getur ekki hugsað sér að aðrir aðræni þá heldur en þeir sem það hafa alltaf gert.)

Enn og aftur.
Það þarf að gera byltingu.
Það þarf að ná völdunum af Auðvaldsklíkunni.
Þegar því er lokið er nógur tími til að rífast um allt hitt.

4.2.10

Vörkát

Þegar ég fer að hlaupa í hádeginu hef ég stundum asnast til að vera í íþróttahúsinu á háannatíma. Þ.e.a.s. þegar milljón kellingar eru að koma úr sértilgerðum kven-íþróttatíma. Ég veit svo sem ekki hvers vegna þessir tímar hafa aldrei festst í hausnum á mér. Og mér hefur aldrei dottið í hug að prófa að vera með, en líklegast er það einhver hroki. Margar þessara kvenna eru nefnilega á aldri við mömmu mína eða þareldri. Þrátt fyrir að vera bara rétt núna að komast í skítsæmilegt form þá ríður aldurshrokinn í manni nú ekki alveg alltaf við einreyming.

Allavega, í gær þurfti ég að fara á námskeið strax eftir hádegi á efri hæðinni í íþróttahúsinu. Úti var heimskautakuldi svo ég nennti alls ekki að hlaupa. Svo þá lá allt of beint við að prófa að fara í "kellingaleikfimi".

Ég var nú eiginlega samt fyrirfram komin með móral. Hélt ég myndi þá sennilega hreyfa mig allt of lítið þann daginn. Niðurstaðan varð... önnur.

Kellingaleikfimin, með helmingi hópsins 50+, var sko ekkert minna en brjálað eróbikk með lóðum, teygjum og sveigjum, hoppum og skoppum og magaæfingum eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hef líklega aldrei púlað jafnmikið á 45 mínútum í þessum skóla. Og er í dag með svaðalegar harðsperrur á öllum réttu stöðunum. Þ.e.a.s. hvaðan næstu 3 - 5 kíló skulu hverfa.

Þessar kellur eru sko hraustari en maður heldur.

3.2.10

Myndir í lok afmælaviku

Þessi snáði varð tveggja ára í dag.

Þar með lýkur hinni árlegu afmælisviku yngstu heimilismannanna.

Þessi stúlka (sem þarna er á kafi í austlenskum snjó) varð líka 4 ára fyrir tæpri viku.

Og þarna eru tveggja og fjögurra ára systkinin í einhverjum undarlegum fataleik.
Það er nú ekki langt í einhvers konar leikhús, þarna...

2.2.10

Meiri byltingu!

Ég fann ekki fyrir góðærinu og bíð enn eftir kreppunni.

En eitt er alveg á hreinu.

Það er ekki séns að fólkið í þessu landi láti bjóða sér það að Bjöggarnir og Baugararnir og vinir þeirra, haldi áfram að eiga öll fyrirtækin og allan markaðinn, með Davíð og Jón Ásgeir með fjölmiðlana í vasanum og sjálfstæðishundana þefandi uppi síðustu krónurnar í landinu til að lauma til Tortóla, á meðan heilbrigðis- og menntakerfi er skorið niður við trog.

Forsætisráðherra segir að ekkert sé hægt að gera í því, ef það að bankarnir afhendi sínum gömlu eigendum stórfyrirtækin skuldhreinsuð svo hægt sé að halda áfram að sukka... allt í lagi ef þeir fara eftir einhverjum leynilegum "verklagsreglum" sem þeir sömdu sjálfið árið 2006.

ER EKKI Í LAGI?!?!?

Voru þá ekki smá mistök að einkavinavæða bankana svona alveg út um bakdyrnar?
Er þá ekki kominn tími til að breyta lögunum þannig að þetta sé ekki hægt?
Hver semur helvítis verklagsreglurnar?
Er þá ekki eitthvað að þeim?

Ef það er það sem verið er að segja, vinstristjórn, að þetta sé bara ekki hægt að gera. Við séum bara dæmd til að borga skítaskuldirnar sem þessir HELVÍTIS GLÆPAMENN efndu til, en eru að sjálfsögðu ekki persónulega ábyrgir fyrir, af því að þeir eru siðblindir og hafa ekki hæfileika til að hugsa um annað en eigin gullslegnu rassgöt...
Ef lögin ná ekki yfir þá...
Og geta ekki náð yfir þá...
Og ríkið er jafn fullkomlega máttlaust og valdalaust í þessu máli og sumir vilja meina...

Þá tekur skríllinn málin í sínar hendur.
Þannig verður það bara.

Menn skulu ekki halda að við horfum hérna upp á niðurskurð og skattahækkanir, ár eftir ár, (og ég ætla ekki að fara með fávitaskap eins og að segja að Ísland brenni, eða þjóðinni blæði út, við höfum það samt skárra en margir) en ef menn halda að við ætlum að horfa á gróðærispakkið halda áfram að græða og grilla á öllusaman?

Þeink agennn.

1.2.10

Reiðin og tortryggnin rúlar!

Lára Hanna er komin með link á mig. Þarf maður þá ekki alltaf að vera málefnalegur, pólitískur og reiður?

Allavega.

Þegar menn fara að kvarta yfir reiðinni og tortryggninni í þjóðfélaginu þá verð ég... tja... tortryggin. Og jafnvel bara reið.

Reiðin og tortryggnin veitir nefnilega aðhald. Þeir sem eru að svindla sér milljónum (eða -jörðum) í dag, reyna nefnilega að fara frekar leynt með það. Ekki það að viðkomandi aðilar skammist sín. Það er ekki víst að þeir hafi hæfileikann til þess, enda lifa þeir allir í þeirri sjálfsblekkingu að þeir séu heiðarlegustu menn landsins og þótt víðar væri leitað, en þeir vita að það er vissara að reiði og tortryggni skríllinn fylgist frekar vel með þessa dagana, þrátt fyrir að almennilegir rannsóknarblaðamenn séu reknir frá fjölmiðlum í hrönnum.

(Sem... af hverju ætli það sé, annars? Vilja eigendur fjölmiðlanna kannski ekki að mál séu rannsökuð? Tortryggni? Já.)

Og svindlararnir vita sem er að ef reiði og tortryggni skríllinn vissi að enn væri verið að stela milljörðum á dag... ja, þá gæti það bara misskilist.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda reiðinni og tortryggninni áfram og við. Um leið og henni sleppir fara skrúðkrimmarnir á stjá. Enda held ég að henni sleppi ekki neitt fyrr en réttlætinu hefur verið fullnægt.

Með einum eða öðrum hætti.

Gríðarlega sæt börn - myndir

Júlía Hannam tók þessar flottu myndir af Hraðbáti og Freigátu þegar þau komu að sækja mig í Svarfaðardalinn síðasta sumar.


Föst tök

Kominn febrúar bara.

Sjitt hvað þarf að fara að taka margt föstum tökum. Megrunin hefur til dæmis staðið algjörlega í stað síðan um jól. Og örugglega ekki gengið sérstaklega vel í tvöfalda barnaafmælinu um helgina. Þrátt fyrir 10 kílómetra hlaup í gærmorgun.

En nú er kökusukk jóla og barnaafmæla á enda og best að taka til óspilltra málanna. Takmark mánaðarins febrúar: Að fara niður fyrir 70 kíló. Þó ekki sé nema niður í 69 og hálft. Til þess þarf að nenna að hreyfa sig og éta minna og hollara. Best að panta sér Herbalifedót í dag.

Já, við afmæluðum litlu börnin um helgina. Þá er bara eftir afmælisdagur Hraðbátsins, en hann er á miðvikudaginn. Þar með lýkur afmælisvikunni ógurlegu, þetta árið. Afmælin voru ljómandi skemmtileg og heppnuðust afgerandi vel. Rannsóknarskip er enn dáleiddur úr hamingju yfir að Hraðbátur skuli hafa eignast Liverpool-náttföt. Ég efast um að ég fái nokkurn tíma að þvo þau, einu sinni. Þau verða bara höfð í stöðugri notkun. Enda er sá stutti búinn að læra að steyta hnefann upp í loftið og hrópa: Liverpool! Af allri innlifun hjartans. Þá fannst Freigátunni kominn tími til að jafna í liðunum og sagði mér, í óspurðum fréttum, að hún ætlaði þá bara að halda með Everton með mér.

Helst vil ég líka klára orðræðigreiningarritgerðina mína í þessari viku. Allavega svona nokkurn veginn. Til þess þarf að nenna að vinna í vinnunni. Hmmmm.

Annars er nú alltaf hressandi þegar það er farið að birta bara svona um 10-leytið.

Sá leiksýningu um helgina. Munaðarlaus. Ljómandi gott stykki og flott vinna hjá krökkunum. Liggur við að það heyri til undantekninga að maður sjái leikrit sem eru bara svona "venjulega" unnin. Eftir einhvern einn. Ekkert dívæs eða dót. Bara... leikrit. Hressandi. Sérstaklega þegar þau eru góð.

Smábátur kemur frá norðrinu í dag. Upphefjast þá mikil venjulegheit fram að norðurferð fjölskyldunnar í vetrarfríi, 17. - 21. febrúar.

Alltaf frekar gaman að svoleiðis.