22.1.11

Frumsýningardagur!

Frumsýningardagar eru alltaf furðulegir. Maður er ekkert í sambandi. Sérstaklega ekki við raunveruleikann. Flesta frumsýningardaga sem ég hef lifað (sem eru að verða nokkuð margir) hef ég verið með einhver undarleg plön um að leggja mig.
Þetta gerist aldrei.

Ef svo ólíklega vill til að maður finnur sér tíma til að verða láréttur einhverja stund kemur manni hreint ekki blundur á brá. Og svo hringir síminn. Og svo þarf maður að fara í ríkið. Og svo dettur manni í hug að fara frekar niður í leikhús og skúra einu sinni enn, áður en maður fer að punta sig. Sem maður byrjar síðan á allt of snemma. (Nema maður sé að leika... en ég man ekki lengur hvernig það er.)

En, sem sagt.

Helgi dauðans er frumsýnt í kvöld.

For better or worse.

Generalprufugestir sögðu einum rómi: Þetta var nú bara gott! (Og gætti nokkurrar furðu í rómnum.) Ég hefi ákveðið að taka viljann fyrir verkið. Þetta er sumsé fram úr björtustu vonum generalprufugesta en ekki skal ég segja um hvar þær vonir hófust.

Það þarf samt eitthvað lítið til að pirra mig í dag. Er þó búin að koma litlu börnunum í íþrótta- og dansskóla, óbrenglað, í morgun.

En svona er frumsýningardagslíðanin: Haugsyfja, úld dauðans, grunnt á pirrinu. Mér finnst afar líklegt að þetta leikrit sökki feitt (algjörlega á mína ábyrgð) en veit líka alveg að þegar komið verður að hinni stórkostulegu kombinasjón freyðivín og pizzu, að sýningu lokinni, verður allt annað uppi á teningnum.

Það er alveg sama hvað frumsýningar-rússíbaninn er oft tekinn. Aldrei er maður viðbúinn.

Líklega ætti maður einhverntíma að hafa vit á að eyða þessum degi í ærlegt dekur-spa. Örugglega eina vitið.

19.1.11

Að gera þarfir sínar.

Í gær fattaði ég að til þess að hætta að vera svona geðvond, geðbiluð, kvíðin og leiðinleg þyrfti ég stundum að hvíla mig. Alveg. Gera ekkert. Ekki hanga-á-Facebook-og-horfa-á-how-I-met-your-mother hvíla mig heldur gera alls ekki neitt. Ekkert. Prófaði þetta soldið í gær og er allt önnur, þegar. Sem er eins gott. Því eftirfarandi er að gerast þessa dagana:

Fékk samþykktan fyrirlestur á ráðstefnu í London. Í september.

Fékk styrk til að fara á ráðstefnu í Osaka í Japan. Áður búin að fá fyrirlestur samþykktan. Það er í ágúst. Eyddi morgninum í að reyna að bóka flug í gegnum Finnland og Tyrkland. Áhugavert.

Er að fara austur um miðjan febrúar og í framhaldi af því í rómantíska helgarferð til Edinborgar með eiginmanninum.

Helgi dauðans verður frumsýnd á laugardag.

Ljóð fyrir 9 kjóla er sýning sem ég ætla að gera fyrir einþáttungahátíð í mars.

PS. Og þegar ég var að byrja að jafna mig á ást minni á húsinu sem ég hef ekki efni á, frétti ég að Þórbergur Þórðarson bjó í því.
DAMN!
Þetta eru skitnar 10 milljónir, ha? Kúlulán? Yfirdráttur? Alveg er ég viss um að íslenskir banksterar eru að éta svoleiðis upphæðir í morgunmat. Með gulli, bara.

Jæja, farin í leikfimi.

17.1.11

Ást...

Það er afar heimskulegt, þegar maður á ekki baun í bala og sérstaklega ekki 10 milljónir eða neitt, að hanga lon og don á fasteignavefnum og vita alltaf hvað er til. Þá kemur fyrir að maður verður illa ástfanginn af húsum. Eitt er að elska úr fjarlægð hús sem maður hefur alls ekki efni á. Það er alveg hægt að lifa ágætu lífi með svoleiðis draumórum. Það er bara svona eins og að langa til Afríku... sem er alveg á hreinu að er ekkert að fara að gerast.

Það er verra með hús sem maður hefur NÆSTUM efni á. Munar ekkert sérstaklega mörgum milljónum. Og svo eru þetta alltaf einhverjar reiknikúnstir. Það versta er að í hruninu hrundi íbúðaverð bara ekki neitt í vesturbæ Reykjavíkur. Svo húsin sem mann langar í eru öll alveg fokdýr.

En... bíddu... íbúðin mín er líka þar. Og búið að taka allt í gegn að utan og svona, síðan ég keypti. Og soldið að innan líka...

Einmitt, svona byrjar það. Svo skoðar maður og skoðar og lætur síðan fasteignasalann selja sér köttinn í sekknum og bankann pranga inná sig einhverju sem maður getur aldrei borgað.

Pufffff.

Fyrsta skrefið er að loka vefglugganum með myndunum af fagra aldamótahúsinu.

Svo er að stilla sig um að leggja lykkju á leið sína til að ganga framhjá því.

En fráhvörfin verða erfið.
Jájá.