9.1.04

Ég á við vandamál að stríða.
Trúlega er það einhvers konar -ismi, ég veit það ekki, en hann lýsir sér t.d. í því að nú er ég búin að búa hér í nákvæmilega viku og hef enn ekki þurft að "gera" neitt nema að vinna. Þ.e.a.s., hef aldrei þurft að mæta neinsstaðar á neinn fund eða neitt. Hugleikur setti mig ekki í neitt hlutberk og ég er ekki í neinni stjórn á neinu (sem er reyndar æði).

Það er samt bara einhvern veginn þannig að þegar ég þarf ekki að gera neitt þá er mér lífsins ómögulegt að njóta þess að hanga. Lífið fyllist bara tilgangsleysi og nenni ekki einu sinni að gera það sem ég á að vera að gera.

Eftir viku af aðgerðaskorti eru alvarlegar geðtruflanir farnar að gera vart við sig. Aðgerða er þörf allavega 2 kvöld í viku sem hafa einhvern tilgang. Ekki væri verra að þær fælu í sér einhverja líkamsþjálfun til að vinna á móti afleiðingum nýafstaðins jólaáts.

Þegar á annað borð er byrjað er ég líkleg til að fara vestur úr því. Eftir smá stund verð ég sjálfsagt komin í kripalújóga á morgnana, námskeið í einhverju á kvöldin og 2-4 leikfélög (og fíla það í botn).

Á svona tímamótum eins og nú standa yfir þarf ég samt að vanda valið. Núna er ég komin í alvarlegan kaldan kalkún og þá er mest hættan á að ég gleymi mér og taki að mér eitthvað sem ég var búin að gleyma að mér þykir leiðinlegt.

Veit ekki hvað þessi -ismi heitir eða hvort eitthvað er við honum að gera. Veit heldur ekki hvort hann er nokkuð svo óhollur, kemur allavega í veg fyrir að maður setjist niður og mygli fyrir framan sjónvarpið fram undir sjötugt.

Allavega, komin í fráhvörf núna og þarf mitt fix.
Stefni á námskeiðaskráningar í dag.
Íha.

8.1.04

Hér er eitt besta samansafn fúkyrða sem ég hef lengi séð. Og af verðugu tilefni.
Mikið er annars gott þegar manni alls óskyldir menn taka upp á því að fylla mann skepnulegri og skilyrðislausri vellíðan.
Hannes Hólmsteinn bjargaði jólunum mínum með hálfvitalegum ritstuldi. Hrafn Gunnlaugsson áramótunum með verstu mynd sem gerð hefur verið.

Eins og stærðfræðikennarinn minn úr grunnskóla (sem gengur þessa dagana undir nafninu McMurphy) sagði þegar hann var að reyna að útskýra fyrir okkur hvers vegna plústala kemur út þegar maður margfaldar tvær mínustölur:
Þegar eitthvað vont kemur fyrir vondan mann, þá er það gott.
Nokkrir hlutir sem koma beint frá Guði:

- ADSL tengingar
- Kaffi
- Yop og fois gras
- Árið 2005

Þetta síðasta þarfnask e.t.v. útskýringar.
Við faðir minn gerðumst ógurlega forspá um áramótin og bulluðum því upp úr okkur í einhverjum ræðuspuna yfir freyðivíninu að 2004 verðu heldur dauft og tilbreytingalítið ár, enda slétt tala og óspennandi. Ekkert slæmt, en heldur ekkert viðburðaríkt. Hins vegar höfum við trú á því að 2005 verði stórskemmtilegt og klikkað. (Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, ég veit um eitt sem verður 2005 en það er leiklistarhátíð á vegum Bandalaxins. Só far só gúd.)
En auðvitað er alltaf mest gaman á prímtöluárum!

Ég finn fyrir tímamismun í Reykjavík og finnst dagurinn vera hrikalega seinn á lappir hérna! Grrrr!

7.1.04

Framhaldssagan um handrukkarana...

Í ljós kom að einhver ólifnaður hafði verið í gangi í kjallaraherberginu sem Ásta leigir út. (Semsagt, ekki víst að blessaðir drengirnir hafi farið húsavillt eftir alltsaman.) Allavega, í framhaldi af því er leigjandinn úr kjallaranum að flytja út í byrjun febrúar og Ásta er að leita að nýjum leigjanda. Nú verða gerðar kröfur um ýmsa mannkosti.

Á öðrum stað á veraldarvefnum sá ég að hún var búin að setja niður nokkur grundvallaratriði, m.a. karlkyns, myndarlegur, handlaginn og kattelskandi og ekki dópisti að neinu leyti. Svo þarf hann að vera mínímalisti og alveg til í að búa í kjallaraherbergi lennnnngi... (nema náttúrulega hann sé laumuríkur, Ásta geti gifst honum til fjár og hætt að leigja herbergið út.)

Enívon?

Ég er annars ennþá að reyna að koma einhverju skipulagi á líf mitt. Stórt skref var tekið í gærkvöldi þegar ég stríplaðist á náttfötunum á nýja heimilinu mínu í heilt kvöld. Það er ekki fyrr en það gerist sem maður fer að eiga heima á stað. Svo er ég búin að vera dugleg að skreppa á kaffihús með vinunum mínum, eins og hvert annað artífart 101 tilgerðargerpi. (Gott að vita hvaða þjóðfélagshópi maður tilheyrir.)

Ég man eiginlega allt sem ég þarf að vita í nýju/gömlu vinnunni minni þannig að það er bara rólegt. Einhverjir eru búnir að kíkja í kaffi til mín en þeir mættu alveg verða fleiri. Það eru frekar mikil rólegheit í gangi, leikfélög ekki farin að rífa sig upp eftir jólin og sollis.

6.1.04

Tíhí

Múhaha!

5.1.04

Og ég er komin aftur í vinnuna mína á Bandalaginu mínu.
Við bjóðum mig velkomna til starfa.