13.1.05

Sjónvarpskrílið mitt skipar stóran sess í mínu lífi þessa dagana. Enda um að gera áður en æfingar hefjast á milljón og greyið byrjar að rykfalla aleitt heima öll kvöld. Í gær var einstaklega lýðræðislegt sjónvarpskvöld sem skiptist hnífjafnt á milli þriggja stöðva.

Fyrst Íar. Náttúrulega. Það er nú samt eiginlega bara svona af gömlum vana. Ég sakna George Clooney og allra gömlu kallanna ógurlega mikið í hvert skipti sem ég slysast til að horfa á það.

Svo Baddsjelorett. Ég horfi stundum á það, en samt með smá hryllingi... Mér finnst þetta svolítið... ógeðslegt. Og að það sé hægt að hrúga saman einhverjum 25 manns og einn þeirra sé að öllum líkindum "sá eini rétti" gengur þvert á alla rómantík. Kannski hefur Moon-söfnuðurinn bara nokkuð til síns máls. Bara hægt að para fólk í tölvunni og gifta það svo... Frekar leiðinleg, órómó og óspennandi hugmynd.

Annars finnst mér fyndið hvernig veruleikasjónvarp er að þróast. Einhverjir sem ég hitti lýstu nefnilega yfir áhyggjum þegar þessi sjónvarpsþáttategund fór af stað, héldu að þetta myndi þróast út í einhverja "lífsogdauða" þætti, samanber ástandið í Flóttamanninum eftir Stephen King. Þróunin virðist hins vegar vera þveröfug.
Survivor er enn "hættulegasti" þátturinn, en þeir sem eru að spretta upp núna eru að verða minna og minna krassandi keppnir.
- Hver fær vinnu hjá Donald Trump?
- Fólk að innrétta íbúðir.
- Einhver gaur að stofna hárgreiðslustofu.
- Bein útsending á internetinu frá öðrum sem er að taka til í íbúðinni sinni.
- Heimilislífið hjá Osbourne.
...já ég held þetta sé að ganga sér til húðar.

Endaði kvöldið á einstaklega skemmtilegum Óppru-þætti þar sem verið var að fjalla um bók sem heitir "He's just not that into you" eða "Hann er bara ekkert skotinn í þér" þar sem hulunni er loxins lyft af öllu kjaftæðinu sem karlmenn nota þegar þeir þora ekki að segja manni að þeir séu ekkert skotnir í manni heldur þykjast vera uppteknir/á röngum stað í lífinu/ekki í andlegu jafnvægi/á leiðinni til Mars í rannsóknarleiðangur. Held þetta sé tímamótabók. (Enda skrifuð af tveimur 6 and the City höfundum og getur ekki verið annað en snilld.) Hefði sparað mér margra ára bull hefði ég lesið hana fyrir 10 árum síðan.

Það olli mér þó heilabrotum hvers vegna það eru bara karlmenn sem eru svona hræddir við að segjaða bara.
- Er það vegna þess að karlmenn eru innst inni allir sjentilmenn og kunna ekki við að særa ungar stúlkur sem þeim þykja allar vera viðkvæm lítið blóm?
- Eða er það vegna þess að þeir eru vesalingar og þora ekki, haldandi að við séum allar nornir og getum galdrað tippin á þeim græn?
- Eða vilja þeir bara alltaf hafa nokkrar svona "hangandi" til vara ef ske kynni að þá vantaði kynlífshjálpartæki?

Væri líka ekki meira hressandi að heyra sannleikann?
- "Veistu, ég get bara ekki verið með þér lengur. Mér finnst þú bæði heimsk og leiðinleg, og eiginlega bara alveg ógeðslega ljót, líka, ha? Þú verður eiginlega bara að finna þér kærasta sem er jafn vitlaus og ljótur og þú, vegna þess að þú getur bara ekki lagt þetta á nokkurn mann..."

Það var allavega ekkert farið ofan í saumana á því hvers vegna kvenfólk virðist sjaldnar eiga við þetta vandamál að stríða.
- Erum við kannski bara svona harðbrjósta að við eigum í engum vandræðum með að losa okkur við menn þegar þeir hafa gagnast nóg?
- Eða erum við svo yfirgengilega tillitssamar að við viljum ekki að menn sem við höfum ekki áhuga að séu að sóa tíma í okkur þegar þeir gætu verið úti að veiða betra?

Svo gætum við náttúrulega bara sagt sannleikann:
- "Veistu, ég bara get ekki átt mann sem kyssir með tönnunum, fer aldrei í bað og getur ekki talað um neitt nema fyrstu sísonin í Startrekk..." til dæmis.

Já, sannleikurinn getur verið fyndinn.

En þetta fannst mér allavega skemmtilegt og kom mér til að sakna Dr. Phil. Ég vil að hann komi aftur í sjónvarpið mitt.

12.1.05

Uppgötvaði einstaklega skemmtilegt dót um jólin. Singstar. Það er skemmtilegt. Vil mælast til þess að einhver sem ég þekki hérna megin á landinu eignist svoleiðis svo það sé hægt að taka einvígi eftir ædolpartí.

Svo er ég greinilega ekki enn búin að jafna mig eftir dásamlega bók sem ég las um jólin. Nefnilega Börnin í Húmdölum. Snilldarbókmenntir. Las hana á milli jóla og nýjárs og er enn að fá martraðir. Svona eiga hryllingsbókmenntir að vera og ég hlakka mikið til að sjá hverju þessi ungi afburðahöfundur tekur upp á í framtíðinni.

Annars eru janúargeðsveiflur að ná nýjum hæðum þetta árið og ég bregst við þeim með því að halda mig fjarri mannlegu samfélagi eins mikið og ég get. Betra að urra bara á sjónvarpið og veggina í íbúðinni sinni heldur en annað fólk. Þykist síðan ekkert nema gleðin og geðgæðin þegar Rannsóknarskipið mitt hringir í mig. Heppilegt fyrirkomulag. Enda, ef marka má ófarir síðustu sjöþúsundmilljón sambanda minna, hentar návígi mér sennilega ekki allskostar. Geðillska á nefnilega til að hræða fólk.

11.1.05

Lallallah!
Æm on ðe, topp off ðe vörld lúkkíng, dán on kríeisjon...
Skemmtilegt. Er ekki gaman?

Allt eitthvað svo ágætt í dag.

Ha? Mislynd? Getur bara hreint ekki staðist! Haugalygi.

10.1.05

Er einkar úldin í dag.
Janúar er ekki uppáhaldsmánuðurinn minn, nóvember til febrúar ætti ég helst að vera í sofandi. Og er það gjarnan, þessa dagana. Enda, þegar er kalt, og snjór, og alltaf dimmt og jólaskrautið farið, þá er lítið annað að gera. Það sem bjargar þessum leiðindatíma reyndar mjög gjarna er að geta lokað sig inni í einhverju leikhúsi með hausinn á kafi í gerviveruleika einhvers leikrits. Þegar maður sleppur þaðan út er síðan gjarnan komið vor, jafnvel sumar, og farið að líða að leiklistarhátíðavertíð. (Sem samanstendur þetta sumarið af einni á Akureyri, sem ég Verð á, og annarri í Mónakó, sem mig langar að vera á. Jeij!)

Ummitt að fara að byrja æfingar núna. Samlestur á Aðfaranótt eftir Björn M í kvöld og vonandi hin skemmtilegasta veruleikafirring í vændum. Ætla þangað á aðstoðarleikstjórabuxunum, verð vonandi við það minna kenjótt í skapi.

Og utanríkisráðherra skellir stóru skollaeyrunum sínum við því að áttatíuogeitthvað prósent þjóðarinnar vilji ekki vera á listanum góða.
Hvernig væri að segja nú bara satt?
Ha, Dabbi?
Segðu bara: "Við getum ekki tekið okkur af þessum lista vegna þess að þá gæti Kaninn huxanlega farið í fýlu og farið burt með alla vinnuna af Suðurnesjum!"
Hvað er svona erfitt við það?

Og svo á að byggja sjúkrahús. Mér finnst það vera soldið eins og að byggja menningarhús. Eru til peningar til að manna og reka fleiri sjúkrahús, þegar þau sem fyrir eru eru undirmönnuð og allt starfsfólk undirborgað fyrir? Auðvitað er síðan verið að hækka kostnað við það að vera veikur... innlögn á sjúkrahús fer að kosta á við meðal utanlandsferð og fer að verða lúxus sem ekki er á færi nema fárra útvaldra. Þarf þá fleiri? Svona ef Davíð skyldi þurfa að láta fjarlægja úr sér fleiri fjölmiðlafrumvörp og Guðni skyldi éta aftur yfir sig af pulsum og halda að hann sé að fara að fæða barn?

Og hvaða kjaftæði er þetta með að 26. grein stjórnarskrárinnar "virki ekki"? Hefði ekki þurft að halda þjóðaratkvæðagreiðslu til að komast að raun um það? Ég sá ekki betur en hún virkaði bara ágætlega, þangað til ríkisstjórnin ákvað að taka lýðræðið af borðinu.

Allt sem hann Dabbi litli hefur látið frá sér fara undanfarna daga finnst mér í ætt við fyrsta orð hans í sjónvarpi: Drulla. Það ætti að flengja menn fyrir svona bull.

Og Íslendingar ákváðu að vera einstaklega rausnarlegir og flytja slasaða Svía heim af flóðasvæðunum. Vegna þess að Skandinavar eru svo fátækir að þeir hafa ekki efni á því að sækja sína slasinga sjálfir? Hefði ekki verið nær að flytja heim fórnarlömb þeirra þjóða sem ekki eiga bót fyrir borurnar á sér? Eða nota peningana í hjálparstarf á svæðinu? Er ekki allt í lagi?

Grrr... Ef mann langar að verða jafnvel enn geðverri er besta ráðið að horfa á fréttir nokkra daga í röð.