Amma mín hafði illar bifur á mörgum fyrirmennum. Sýslumönnum, prestum, stórbændum. Hún sagði að þeir hefðu, margir hverjir, misnotað skammlaust aðstöðu sína gagnvart sætum vinnukonum. (Þvingað þær til að gera meðsér dodo, og þvískylt, sumsé.) Svo hefði vinnumönnum verið mútað til að þykjast eiga börnin sem komu undir. Amma nefndi aldrei nein nöfn, en það kvein stundum í henni þegar farið var að tala um "siðleysið á unga fólkinu nú til dags." Þá sagði hún gjarnan frá verra siðleysi, á gömlu köllunum í gamla daga. Á kjarngóðu alþýðumáli. Amma mín skefur ekkert utanaf því, hefur aldrei gert. Þess vegna man maður líka það sem hún segir.
Ég hef aldrei vitað hver er forseti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, áður. (Til að gæta fyllstu sanngirni, þá vissi ég nú ekkert um þetta batterí fyrr en Ísland fór á hausinn.) En konuna sem er núna gæti ég ekki pikkað útúr lænöppi. Né munað nafnið á. Hún er nefnilega ekki nærri mikið í fréttunum og Strauss Kahn var, jafnvel áður en farið var að ákæra hann fyrir kynferðislegan "misskilning" eins og það var einhversstaðar orðað.
Ólafur Skúlason var líka langsamlega meira áberandi sem biskup heldur en fyrirrennarar hans eða eftirmenn. Leiddist ekki sviðsljósið neitt.
Gilzenegger bjó í fjölmiðlum. Til að komast hjá því að vita hver hann væri þyrfti maður að henda sjónvarpinu og internetinu, auk símaskrárinnar.
Julian Assange er valdamikill maður. Margir hafa starfað fyrir Wikileaks. Og rökrétt væri að setja ljós sitt undir mæliker í þeirri vinnu, af ýmsum ástæðum. Þessi gaur er oft á forsíðum og í sjónvarpinu.
Ég þekki ekki deili á mörgum sértrúarsafnaðagúrúum. (Ja, nema ég þekki þá persónulega.) En Gunnar í Krossinum var alltaf duglegur að láta á sér bera.
Einhverntíma heyrði ég varað við því, þegar þau mál voru upp, að Guðmundi í Birginu væri ruglað saman við Mumma í Mótorsmiðjunni. Lítil hætta. Sá fyrrnefndi hafði farið mikinn í samfélaginu og barið sér á brjóst fyrir afrek sín. Af afrekum hins, þó engu minni væru, fóru ekki miklar sögur.
Ég hef ekkert alltaf verið með á hreinu hver væri utanríkisráðherra. En ráðherratíð Jóns Baldvins fór ekki framhjá neinum. Að sama skapi var alþjóð kunnugt um að hann væri í Bandaríkjunum, og síðan hann hætti í pólitík hefur hann samt gætt þess vandlega að menn fari nú ekki í grafgötur um hvað honum finnst. Ég hef ekki grænan grun um hver er sendiherra Íslands í Bandaríkjunum í dag.
Maður hlýtur að fara að velta fyrir sér, hvað er þetta með athyglissjúklinga í valdastöðum og kynferðislega misbeitningu. Athyglivert er líka að svör þeirra allra eru á einn veg þegar upp kemst. Þokukenndar og undarlegar afsakanir („...öllum geta orðið á MISTÖK...“!!! það nýjasta) og maður hefur það alveg klárt á tilfinningunni að þeir iðrist gjörða sinna andskotann og ekkert, þyki aðeins fyrir því að upp hafi komist um glæpina. Fyrir nú utan þá sem þvertaka fyrir að hafa gert nokkuð rangt eða án samþykkis.
Sumir vilja meina að þetta séu allt ímyndunarveikar kellingar og pólitísk samsæri. Já, og svo vondu fjölmiðlarnir! Ég held hins vegar að við sjáum bara blátoppinn á ísjakanum.
En nú verða menn líka að gæta þess að hengja ekki bakara fyrir smið. Þó svo að þessi dæmi séu asnalega mörg má alls ekki halda því fram að allir athyglissjúklingar í valdastöðum séu kynferðisglæpamenn. Því síður er sniðugt að leggja til að þeir séu allir hengdir upp á typpunum og flengdir á torgum.
En þetta er athyglivert. Athugunarvert, jafnvel. Getur verið að eitthvað, einhver trámu, einhver áföll í æsku, gen... ég veit það ekki, tryggeri einhvern veginn þetta tvennt í einu? Valdafýsn og óstjórn á kynferðislegri fýsn? Eða fá menn bara svona gegnumgangandi „ég-á-þetta-ég-má-þetta“ tilfinningu gagnvart öllu og öllum, við ákveðið stóra innspýtingu af sviðsljósi og völdum? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hvorki kynferðisglæpamenn né aðrir afbrotamenn, skáni við refsingu. Þetta er hins vegar verðugt rannsóknarefni fyrir sál- og/eða afbrotafræðinga.
Rannsóknin gæti heitið:
Forsíðumynd af krókódílamanninum.
Tilviljun?
Hvort einhver treystir sér ofan í þennan drullupytt mannlegrar eymdar er síðan annað mál.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)