1.11.03

Hvað gerir fólk á laugardögum ef það er ekki leikæfing eða eitthvað þanneigins? Mér líður mjööööög undarlega. Það liggur við að ég fari að skrifa... eða eitthvað.
Ég má samt alveg eyða öllum deginum í að hanga ef ég vil.
Jibbíkóla!
Það er nú samt eiginlega alveg nóg að vita af því.
Best að fara að gera eitthvað.

31.10.03

Eitthvað voru menn að ráðleggja mér að fara að éta rítalín vegna ofvirkni. Ég veit um fleiri sem ættu þvílíkt að gera það.
Menn hafa greinilega fengið einhverja ógurlega vítamínsprautu í rassinn, hvort sem það er "Mörgu smáu" að þakka eða ekki. Ég varð að reka augun í það að Hugleikarar eru að fara að sýna svo mikið sem 11 örleikrit í Borgarleikhúsinu á morgun í tengslum við tónleika Þórunnar Guðmundsdóttur. Einhver njósn hefur mér síðan borist af því að eitthvað prógramm verði í gangi hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar helgina eftir með glás af slíku, hátíðarefni og nýæfðu (sel það ekki dýrar en ég keypti það, nánar auglýst síðar, vona ég).
Allavega, miðað við marga sem ég þekki ligg ég og mitt leikfélag í leti og ómennsku. Djöfuls bömmer að geta ekki þvælst í bæinn um hverja helgi um þessar mundir.

Sýning í kvöld, allir á Gaukshreiðrið. Sýningin búin að fá gargandi dóma, allavega það sem ég veit um. Aðeins verða sýndar 8 sýningar þannig að menn verða að drífa sig ef þeir ætla!

27.10.03

Þá er aflokið
alveg hreint gífurlega menningarlegri helgi. Á föstudagsmorgun flaug ég til Reykjavíkur, mætti á réttum tíma í flugið í þetta skipti og hvaðeina. Eftir að hafa vesenast í bænum megnið af deginum hitti ég Skottu, þá Nönnu og lenti í samfloti við þær á opnun á femínistaviku niðri á Nýlistasafni þar sem við hittum Ástu. Þar var fjallað um sjálfsævisögur kvenna og lesið upp úr slatta af slíkum. Það var bara mjög gaman. Síðan var áfengi og smáréttir í boði Reykjavíkurborgar sem var ekki minna gaman.
Svo hitti ég unnusta minn og fór með honum í Hafnarfjörðinn, sem var náttúrulega mest gaman.

Á laugardag var ég síðan komin upp í Borgarleikhús um eitt þar sem ég og mínar kellur skyldum fá hálftíma á sviðinu sem við áttum svo að sýna á eftir kvöldmat, á stuttverkahátíðinni ógurlegu, "Margt smátt". Dagurinn fór síðan mikið í það að villast um ranghala Borgarleikhússins og hitta fullt af fólki sem maður hafði síðan allt of lítinn tíma til að tala við. Hátíðin sjálf hófst síðan klukkan 5, leikið til skiptis á litla sviði og nýja sviði og heppnaðist alveg frábærlega. Þarna kenndi ýmissa grasa, gott ef ekki bara allra grasanna, fullt af frumsömdu og ég veit ekki hvað. Svo misstum við náttúrulega af einhverju í kringum okkar þátt. Keeellingarnar mínar stóðu sig vel og voru sínu félagi til sóma. Þetta var sumsé allt hið besta mál.

Jæja, sunnudagur byrjaði á flugi (mætti aftur á réttum tíma, en missti á meðan af partýi á Bessastöðum sem haldið var fyrir stuttverkahátíðargesti). Fór svo að segja beint upp í Valaskjálf þegar ég kom í bæinn, og reyndi að gera eitthvað fleira heldur en að þvælast fyrir fram að frumsýningu á Gaukshreiðrinu klukkan 17.00. Hún heppnaðist alveg dandalavel, áhorfendur máttu vart vatni halda og leynigestur á meðal þeirra var "Billy" frá Húsavík, sem heitir öðru nafni Siggi Illuga. Þar vorum við semsé allt í einu og alveg óvænt komin með báða Túpílakabræður á svæðið, enda var Bandalagið sungið af gífurlegri innlifun í partýi. Partý var stutt og fallegt, enda sunnudagskvöld og Bromden höfðingi víst búinn að hella liðið á peruna kvöldið áður.

Svo hélt ég að ég gæti nú aldeilis tjillað í kvöld. En, nei, ritstjórnarfundur í Glettingi.