30.3.07

Ef maður gefur manninum sínum dýrt dót fær maður hrós í fyrirsögn á blogginu hans

Í dag er fyrirhugað að gera alþrif á heimilinu. Enda eru að koma páskar, gestir og allskyns. Já, og eins gott að ég muni að skilja einhversstaðar eftir lykla handa Báru. Á morgun verður svo haldið norður yfir heiðar.

Nokkrar Freigátusögur:
Í vikunni varð Freigátan fjórtán. Mánaða. Ég hugði að nú væri tímabært að innræta henni kvenlega færni. Við bjuggum fallega um dúkkuna hennar í dúkkuvagninum og svo var haldið af stað í gönguferð um stofuna. Skipti engum togum að Freigátan hljóp hratt með vagninn. Klessti á borð, stól og vegg og hafði gaman af. Að því loknu missti hún áhugann.

Í gær var ég að reyna að vinna smá, og leyfði henni að vera úti á svölum. Þar á hún forláta sparkbíl sem við fengum í kaupbæti með hjólhestinum góða. Til að byrja með var hún nú eitthvað á ferðinni út og inn, en svo heyrðist ekkert eða sást góða stund. (Þegar það gerist er gjarnan eitthvað grunsamlegt á ferðinni. Venjulega er vissara að gá, en ég mundi ekki til þess að neitt hættulegt væri þarna úti, allt nýþrifið og svona, þannig að ég notaði bara stundarfriðinn til að vinna.) Svo kom hún í dyrnar.
Ég var búin að gleyma að það var stór blómapottur með mold úti á svölum...

Skemmst frá því að segja að alklæðnaðurinn fór í þvottavélina og sú stutta hafði takmarkaða lyst á kvöldmatnum.

Svo erum við að fara norður. Byrjum á að fara í sveitina. Það eru komin tvö lömb þar. Og ætlunin er að sleppa Freigátunni lausri úti á túni og gá hvað hún gerir þegar ekki eru bílar og önnur ó-ó í allar áttir.

29.3.07

Vantar eitthvað að gera um helgina?

Ég minni á sýninguna Epli og eikur sem Hugleikur sýnir í Möguleikhúsinu um þessar mundir. Frábær sýning, höfundur og leikstjóri og leikarar og tínlistarfólk sem klikka síst. Ef þið trúið mér ekki þá er hérna samdóma álit gagnrýnenda.

Svo er hérna líka sýnidæmi.

Ég fullyrði að allir sem einhvern tíma hafa haft gaman af einhverju hafa það líka af þessari sýningu. Aukinheldur kostar skít og kanil að sjá þetta, 1.500 á mann og 1.000 krónur miðinn, takist mönnum að draga tíu saman í hóp. Verð í leikhúsmiða gerist varla hagstæðara!
Og, fyrir þá sem ætla að fara "einhverntíma", þaþ er þegar orðið uppselt á einhverjar sýningar eftir páska. Ekki bíða eftir þeim!
Núna eru miðar lausir!
Ekkert víst að þeir verði það seinna!
Núið er málið!
Framtíðin er ekki til!

Súningar eru:
Í kvöld, fimmtudag 29. mars
Á morgun, föstudag 30. mars
Hinn, laugardag 31. mars
Hinnhinn, sunnudag 1. apríl

Miðapantanir eru hér.

Drífa sig!

28.3.07

Ólánstík?

Í haust fór ég að hjóla. Ég hjólaði og hjólaði. Svo kom hálka. Ég var alveg að fara að fara með hjólið mitt niður í hjólageymslu. Á meðan stóð það ólæst á veröndinni hjá mér. Þangað til því var stolið. Þannig fór um sjóferð þá.

Reyndar hafði mig alltaf, í laumi, langað í öðruvísi hjól. Konuhjól. Með fótbremsum.

Mikil var því gleði mín í gær þegar ég var að vafra í tilgangsleysi á internetinu og rak augun í markaðinn á barnanet.is. (Mig langar nefnilega líka í laumi í nýjan barnavagn. Á loftdekkjum. Jafnvel systkinavagn. Þó ég sé ekki einu sinni orðin ólétt... Ókei, sagan er ekki byrjuð og ég er strax búin að ljóstra upp heilmikilli geðveiki.)
Gleði mín var ekki vegna tilvistar barnanetsins (sem ég væri þó trúlega alveg eins með síðu á, ef ég nennti að halda úti sérbloggi fyrir börnin mín) heldur yfir því að þar sá ég auglýst þetta líka glæsilega kvenhjól. Lítið notað, á lítinn pening, barnastóll fylgir. Ég setti mig umsvifalaust í samband við eiganda.

Um kvöldið lagði ég síðan í langferð til Grafarvogs, en þar var hjóltíkin búsett. Allt gekk vel þar til komið var í Grafarvog. Þar var sama hvernig ég leitaði, ég gat ekki fyrir nokkurn mun fundið götur sem enduðu á -engi. Sérstaklega ekki þar sem ég var búin að ímynda mér að þær væru. Þar var kirkjugarður. Ekki bætti úr skák að Grafvogingar voru allir að flýta sér heim til sín (og vissu hvar það var) og höfðu litla þolinmæði í litlu villtu konuna sem ók hægt og las á öll götuskilti. Eftir lahangan langan rúnt um Vog Grafarinnar þveran og endilangan gafst ég upp og hringdi í hjóleiganda. (Ég spyr ALDREI til vegar. Að því leyti er ég karlmaður.) Hún lóðsaði mig á réttan stað.

Hjóltíkin var síst óyndislegri í eigin persónu heldur en á myndum. Heldur stærri, samt. Um tíuleytið í gærkvöldi mátti sjá tvær konur á undarlegum stað í Grafarvogi reyna að troða allt of stóru reiðhjóli inn í allt of lítinn bíl. Þá fór að snjóa. Á heimleiðinni lærði ég að þó maður sé með hálft reiðhjól hangandi út úr afturendanum, og enginn annar sé á ferli, þykir reykvískum ökumönnum síst minna mikilvægt að reyna að nudda á manni afturendann með stuðaranum. Merkilegt.

Í morgun vaknaði ég snemma. Ákvað að það væri ekkert of mikill snjór til að hjóla í vinnuna. Flýtti mér svo mikið að ég gleymdi bæði gleraugum og hjálmi og skiptilykli. Ætlaði "venjulegu" leiðina og taka loft í dekkin á "venjulegu" bensínstöðinni. En, halló, stór hluti af þeirri leið, og þar með bensínstöðin, leit út fyrir að hafa orðið fyrir kjarnorkuárás og var hreinlega ekki til staðar. Ég hata verðandi Tónlistarhús.

Þurfti að hjóla Hverfisgötuna, blindandi með sætið allt of hátt og hálfloftlaus dekk. Ekki sexí. Nú er að athuga hvort ég kemst aftur heim.

27.3.07

Dæs

Mér finnst ótrúlega fátt hafa breyst við að eignast börn. Þó ég hafi eignast tvö slík og sambýlismann eiginlega á einu bretti og breytt þeim síðastnefnda í eiginmann skömmu síðar. Sennilega hef ég hlustað of grannt á málflutning skuldbindingafælinna, en ég hélt áður að þetta væri eiginlega bara... ekki hægt! Breytti allavega ÖLLU og flestu á versta veg. En mér finnst ég nú vera meira og minna sama manneskjan.

Fyrir utan það að ég man ekki eftir að hafa dæst áður. Núna dæsi ég í tíma og ótíma. Og af ýmsu. Það getur verið feginleiki þegar allt er komið í ró, af vanþóknun yfir að Smábátur eigi mikið eftir að læra á sunnudaxkveldi, vellíðan eftir vel heppnaðan kvöldverð (eins og núna).
En þetta finnst mér hafa verið mest áberandi breytingin á lífi mínu.

Dæs.

Annars er ég að huxa um að skreppa í Grafarvog í kveld og fjárfesta í notuðum hjólhesti.

26.3.07

Draugurinn...

Smábáturinn er að læra Konuna sem kyndir ofninn minn. Mig langar alltaf miklu meira að kenna honum Ljóta hálfvitatextann:

Ég finn það gegnum svefninn
að einhver læðist inn
með eldhúshnífinn sinn
og veit að það er draugurinn
sem drap hann frænda minn.

(Annaðhvort Toggi eða Ármann, eða hugsanlega Sævar, eða tveir af þessum eða allir þrír.)

Best að lesa loxins verðlaunasmalavísur.

Það er líklega óþarfi...

...en mér finnst samt vissara að vara fólk við.

Frá og með laugardeginum verð ég utan þjónustusvæðis, og allar götur til miðvikudagsins 11. apríl. Verð á Norður- og Austurlandi, óvíst að ég nenni mikið að vera að skoða tölvupóst (hvað þá svara honum) kem reyndar sennilega oftast til með að svara í símann en verð treg til að gera neitt í neinu og kem til með að vita fátt. Og kem ekki til með að taka neina ábyrgð á höfuðborgarsvæðinu á meðan á páskaferð fjölskyldunnar á forfeðraslóðir stendur.

Ég hefi nefnilega fengið þá flugu í höfuðið að erfitt sé að vera án mín. Er ekki frá því að menningarlíf höfuðborgarsvæðisins hreinlega lamist á meðan ég verð í burtu frá því...

Hvernig stendur á því að maður missir sig í svona yfirgengilegt sjálfsmikilvægishól og ranghugmyndir? Þetta heitir nottla bara stress. Meira að segja óþarfa-. Að líkindum er öllum sama og sól menningarlífsins í höfuðstaðnum kemur til með að rísa og hníga hikstalaust án minnar aðstoðar í 10 daga.

Allavega, ef einhver hringir í mig, stressaður, í brúðkaupsafmælisferðina hef ég huxað mér að yppa öxlum. Og þangað til ég fer ætla ég aðallega að leggja metnað minn í að þvo allan þvottinn og gera heimilið páskafínt. Og fara í ræktina. Oft. Og knúsa flotann.

(Sagði konan sem var að frumsýna um helgina, djammaði í frumsýningarpartíi fram undir morgun, var þunn það sem eftir var helgar og er að fara á PR-fund í næsta verkefni í kvöld. Titillinn "Húsmóðir ársins" fer kannski eitthvert annað á þessu leikári...)

25.3.07

Möst! Sí!

Vorum að frumsýna aldeilis frrrábæra sýningu á föstudagskvöldið. Þó ég segi sjálf frá. Öskrandi snilld, enda söngleikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur á ferð í leikstjórn snillingsins Odds Bjarna í meðförum Hugleix. Ja, þarf maður að segja meira? Sýning í kvöld, svo fjórar um næstu helgi, Bára, eina sýningin sem þú kemst á er 4. apríl. Ég skora á alla að láta sig vanta, sízt.

Allavega, frusmýningarpartíið gaf sýningunni ekkert eftir og ég var ekki komin heim til mín fyrr en um fimm! Hef enda ekki verið svona lengi vakandi árum saman og er öll ónýt ennþá á sunnudegi.
Hvað um það? Vel þess virði.


Annars er ég að ábyrgða yfir mig í leikfélaginu. Ég hef svo mikla yfirsýn að ég er orðin snarlofthrædd. Í vor ætla ég að hætta í stjórn Hugleix. Svo er ég að huxa um að fara bara að leika og syngja og dansa, þó ég geri það ekkert vel, vaska aldrei upp kaffibollann minn, taka aldrei neitt "að mér", henda búningnum mínum alltaf í gólfið og hoppa á honum áður en ég fer heim.
Mig langar bara að gera það sem mér finnst gaman.