30.12.06

Árið 2006

Þá er það pistillinn.

Það bar helst til tíðinda að á árinu eignaðist ég barn (28. janúar), gifti mig (þann 8. apríl og skírði barnið Gyðu í leiðinni) og keypti mér íbúð (í október, flutti inn í nóvember). Hafa þetta allt verið mestu hamingju viðburðir (ja, nema kannski fæðing og flutningar, svona rétt á meðan.) Var í fæðingarorlofi alveg fram í ágúst en náði samt ekki að gera helminginn af því sem ég ætlaði að gera í því. Saumaði gardínur fyrir jólin, en bakaði bara eina sort. Gerði sem sagt allt það mikilvægasta sem hægt er að gera í einka- og fjölskyldulífinu á einu ári. Ekki nema von að maður sé svolítið sybbin.

Allavega, fjölskyldan sem nú telur fjóra einstaklinga hefur hafið búsetu á Ránargötunni við mikinn fögnuð allra viðstaddra. Segir mér svo hugur um að þar verði taumlaus hamingja ríkjandi á næstunni. Allir eru kátir, glaðir, hraustir og horfa með óskemmandi bjartsýni til framtíðar.

Hvað fleira?

Já, ég skrifaði leikrit fyrir Leikfélag Fljótsdalshéraðs. Það var sýnt í nóvember. Og sýndist sitt hverjum.
Skrauf líka nokkra einþáttunga. Einn var sýndur í októberprógrammi Hugleix. Sýndist mér vel.
Einnig var frumfluttur við sama tækifæri fyrsti einþáttungur Rannsóknarskips og Smábátur þreytti frumraun sína sem Hugleikari. Sjálf leikstýrði ég einhverjum tveimur einþáttungum, og það var gaman. Og fyrirliggjandi er allur heimurinn.

Nú ætlum við að eyða áramótum á Egilsstöðum. Erum búin að vera á ættaróðali Rannsóknarskips fyrir norðan í góðu yfirlæti, verðum hér til annars janúars og förum þá aftur norðurum, sækjum Smábát í föðurhús sín, og heim. Svo, hér hef ég um 3 daga til að hitta allar vinkonurnar og skoða alla nýlega fædda afkomendur þeirra, sem og hitta ömmur, frænkur, og allra handa skyldmenni til að sína litlu Freigátuna, þannig að ekki er til setu boðið.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

24.12.06

Jólakort ársins



Með þökk fyrir allt gott á árinu.
Sigga Lára, Árni, Róbert og Gyða

22.12.06

Skápur með gleri og allt

Það hefur verið ljóst í nokkurn tíma að ég hef tapað eftirsókninni eftir kúlinu. Þetta er ekki afleiðing fjölskyldunar vorrar, giftingar og barneigna, heldur hluti orsakar. En það er allt önnur saga.

Fyrr í vetur játaði ég ílöngun í hillusamstæðu.

Það bar til um þessar mundir að fjölskyldan fluttist búferlum. Í minna og sætara húsnæði, sem fylgdi minni og sætari eldhúsinnrétting. Ljóst var að puntglasaeign fjölskyldunnar komst hreint ekki fyrir í hinni mínímal eldhúsinnréttingu. Við Rannsóknarskip skipulögðum afmarkað svæði í stofurými þar sem mætti sem best koma fyrir skáp með gleri, fyrir puntglösin og fleira tilfallandi. Og leitin hófst. Hún barst víða. Nokkrir þóttu líklegir, en enginn almennilega útvalinn að svo komnu máli.

Víkur þá söguna til fólksins uppi. Uppi hafa staðið yfir miklar framkvæmdir og sýndist okkur helst hljóta að vera búið að henda öllu innanstokks, á því sem maður var að rekast á í stigaganginum. En lengi er von á einum. Fyrir nokkrum dögum rákumst við á, bókstaflega, forláta skáp með gleri. Var honum snyrtilega saman pakkað, og þótti okkur víst að hann ætti sér áfangastað. Gríntumst samt með að við ættum að gá hvort við mættum ekki bara hirða hann. Héldum við því áfram í hvert sinn sem við tróðumst framhjá honum næstu daga. Þar kom að að Rannsóknarskip rakst á eigendur skápsins í stigaganginum og bar upp erindið. Í ljós kom að skápafmánin var á leið á haugana og var okkur mikið velkomið að hirða hann og spara fyrri eigendum ferðina. maðurinn uppi hjálpaði Rannsóknarskipi meira að segja að bera hann á sinn stað.

Nú erum við sumsé orðin stoltir eigendur að þessum fínasta skáp með glerhurðum, sem kostaði ekki krónu, en lætur okkur samt líða eins og við séum þvílíkt ríkt og fínt fólki í vesturbænum, þegar við sjáum hve hann ljómar fagurlega, við hliðina á píanóinu. (Sem við erum með í láni.)

Þetta var saga af skáp með gleri.

Tökum þá upp allt annað hjal, og segjum frá flónsku húsmóðurinnar.
Ég ætlaði, í fyrsta sinn í aldir, að senda jólakort. Þar sem ég átti svo fína mynd af krökkunum til að setja á það. Skemmst frá því að segja að pöntunin sem fara átti til Hans Petersen (á síðustu stundu) fokkaðist eitthvað upp hjá mér, og ég fattaði það ekki fyrr en löngu síðar. Okkur Photoshop tóxt hins vegar að búa til mynd sem lítur út nokkurn veginn eins og jólakortið átti að verða. Hún verður birt hér á aðfangadag.

Ég lít þannig á þetta að ég sé að spara mönnum pappír til að geyma í geymslunni sinni og henda eftir 10 ár. Þeir sem haldnir eru söfnunaráráttu geta prentað út fyrir eigin vélarafli.

21.12.06

Gullmolar

Í gær fórum við í IKEA. Það var aðallega Freigátan sem verslaði. Fjárfesti hún í einhverjum hirslum undir veraldlegar eigur sínar og einni flensu. Hún var því með 39 stiga hita í dag og ég var heima að halda á henni í staðinn fyrir að fara í vinnuna. Seinnipartinn var Rannsóknarskip í áhaldinu meðan ég fór í Smáralindina í fárviðrinu og eyddi mannskemmandi fjárhæðum í jólamat og gjafir. Það var gaman.

Gullkorn undanfarinna daga eru í boði Smábáts:
Á leiðinni heim úr IKEA fór Rannsóknarskip að láta ófriðlega, eiginlega að hætti félaganna Bívisar og Böttheds, við undirleik Eminems. Smábáti þótti ómaklega að sínum manni vegið. (Þ.e.a.s., undirleikaranum.) Eftirfarandi samtal átti sér stað:

Smábátur: Hvað ertu eiginlega að gera?
Rannsóknarskip: Ég er að vera unglingur.
Smábátur: (Þurrlega) Voru unglingar svona í þinni tíð?

Áðan vorum við að horfa á Geimtíví. Þar klikktu umsjónarmenn út með því að hvetja menn til að spila úr sér augun um jólin. Þetta fannst okkur fyndið. Smábáti þótti nú samt rétt að taka fram að hann ætlaði ekki að gera það.

Ég: Eiga menn ekki líka bara að fá ferköntuð augu af því að glápa of mikið.
Smábátur: (Eftir nokkra umhugsun.) Af hverju eru sjónvörp þá ekki bara höfð augnlaga?


20.12.06

Drullujól

Það verður rok og rigning um jólin. Held að Bogomil þurfi eitthvað að endurskoða textann í mæjónesjólalaginu sínu.

Drullujól gæti verið góður titill á jólaplötu paunkhljómsveitar.

Lögin á henni gæti til dæmis verið:
Glögggubb
Kjötskita

og
Skítagjafir

Paunkarar allra landa mega fara eins og þeim sýnist með þessa hugmynd.

19.12.06

Heimtur

Trúi ég verði góðar þessi jólin. Meira að segja skatturinn ætlar að gefa mér feita jólagjöf. (Reyndar fjármunir sem hann er búinn að geyma fyrir mig vegna kæruleysis míns viðo skattframtalsgerð undanfarin ár, en það er nú sama.)

Ég er ferlega löt, þessa dagana. Enda er ekkert mikið af neinu að gera. Þetta er síðasti dagurinn sem Smábáturinn er "eðlilega" í skólanum, og svo er mest lítið eftir nema að jólast eitthvað. Við Freigátan ætlum í bæinn í dag og spóka okkur í rigningunni. Sækja myndir í framköllun og versla pínu og tjilla. Í hlýjunni.
Freigátan er alveg að fara að labba. Henni finnst það hins vegar svo fyndið að þegar maður setur hana á lappirnar þá hlær hún bara þangað til hún hlunkast á rassinn.

Og nýja vídjóupptökuvélin fær allt of mikið að vera í friði. Eiginlega bara alltaf. Rannsóknarskip fór með hana á "Jólasmiðju" hjá Smábátnum, en skemmti sér svo vel að hann steingleymdi að taka upp. Vonandi stöndum við okkur betur við alla merkisviðburði um jólinn. Kannski maður taki þetta bara fyrir svona eins og hverja aðra kvikmyndagerð og geri t.d. bara heimildarmynd um aðfangadag? Til að allar ömmur geti séð hvernig hann gengur fyrir sig? Og hafi það svo fyrir árlegt brauð?

Ég er öll í að stofna fjölskylduhefðir.

18.12.06

Heimskaut

Það er hádegi og næstum alveg myrkur.
Ætli sé kominn heimsendir?

Margt

Það fer að verða hefð fyrir því að síðasta helgi fyrir jól sé svona hreint arfaskemmtileg.

Föstudagskvöld byrjaði vel.
Fór á afmælissýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Skemmst frá því að segja að ég hló allan tímann og alla leiðina heim. Þessi sýning, Ráðskona Bakkabræðra, er algjör gargandi snilld. Hún byggir á handriti sem var ógurlega vinsælt í kringum 1945. Er samt fyndin í dag. Sem er því meiri snilld.

Enn hálfflissandi mætti ég síðan á tónleika Ljótu hálfvitanna á Rósenberg. Það var líka hrrroðalega gaman. Ekki voru nú margir kunnugir á staðnum til að byrja með. (Það er asnalegt að fara úr á pöbba um helgar. Allir ókunnugir og fullir.) En úr því rættist nú þegar á leið. Ég flissaði að lögum sem mér eru búin að þykja fyndin í 12 ár. Fór að huxa um tímann með Hugleik og finn á mér að væminn pistill um þann félaxskap allansaman er alveg á leiðinni.

Á laugardag fórum við Júlía og röðuðum til á Eyjarslóðinni til þess að ofvirka leikfélagið okkar geti æft þar fram að áramótum. Já, menn eru klikk.
Seinnipartinn á laugardag vorum við Freigátan síðan bara heim að leika okkur á meðan Feðgar fóru í bíó. Þeir skemmtu sér konunglega á Eragon.

Á sunnudegi var síðan gluggatjaldasaumur næstum kláraður. Svo fórum við með fjölskylduna á Pítsu hött, í Nettó hvar verslaður var forláta hamborgarhryggur, og efni til piparkökugerðar sem framleiddar voru með miklum tilþrifum þegar heim kom.

Og í gærkvöldi gerðum við Rannsóknarskip lista yfir hvað væri eftir af jólaundirbúningi. Hann varð styttri en við var að búast.

14.12.06

Þetta helzt

Það er verið að rífa vinnupallana utan af húsinu mínu. Spurning hvort maður ratar heim?

Og Pínósjett er dauður. Fáum harmdauði.

Einhver geðsjúklingur a la Criminal Minds veður um í Englandi og drepur vændiskonur. Á Maggabloggi er vitnað í glæmaumfjöllunamann Daily Mirror í viðtali við Sky News, en sá sagði eitthvað á þá leið að síðan væri nottla enn hræðilegra að nú þegar vændiskonur héldu sig innandyra vegna hættunnar þá væri "venjulegar, saklausar stúlkur" í hættu.
Á Bretlandseyjum eru hórur nebblega réttdræpari en aðrir.

Á Íslandi er löggan hins vegar réttdræp, í augum einhverra, þar sem maður lést í þeirra umsjá. Maðurinn átti að sjálfsögðu að fá að vera með ólæti þar sem honum sýndist, eða hvað? Mér finnst skerí að á íslandi geta Samtök Handrukkara hrætt lögguna í skothled vesti og stærri kylfur, og verið samt betur vopnuð. Ekki það að ég vilji að löggan sé vopnuð. Vil bara ekkert að neinn sé vopnaður neinu og að allir fari eftir lögunum. Er það skilið?

Og Stefán Jón Hafstein er á leiðinni til Afríku til að skipta sér af menntamálum. Spurning um að vara afríska tónlistarskólanema yfir 25 ára við?

13.12.06

Andvaka

Nú fer að styttast í hin árlegu fyrirjólarólegheit. Í ár hef ég huxað mér að brúka þau að mestu í gardínusaum. Undanfarið hef ég verið arfasyfjuð. Sofnað alveg örmagna yfir huxunum um allt þetta leiðinlega sem ég þarf að gera á morgun. Í dag þarf ég eiginlega ekki að gera neitt. Sem var sennilega ástæða andvakanna í nótt. Nú má ég nefnilega bara gera það sem mér sýnist. Gaman? Já, vissulega. En geðveikin mín er hrædd.

Mér finnst ég nefnilega ekki vera að gera gagn í mannlegu samfélagi nema ég sé stressuð. Nema það sé vandamál. Nema eitthvað sé neikvætt. Nema eitthvað mál þurfi að leysa. Ef allt er gaman og skemmtilegt og hvergi ber nokkurn leiðindaskugga á, þá er ég ekki að standa mig... í lífinu. Auðvitað veit ég að þetta er della.

Ég veit að utan örfárra skylduverka og skúringa þarf ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en það sem mér sýnist. Mér ber engin skylda til að vera stöðugt að stressa mig yfir einhverjum "málum". Ég þarf ekkert að fara í neins konar klessu þegar ég heyri vandamál sem aðrir eiga við að stríða eða hafa búið sér til heldur. Mér er fullkomlega frjálst að segja bara "iss" og nenna ekki að vera í kringum leiðindi. Augljóst? Kannski. Þess vegna geng ég til sálfræðings. Var að hitta hana í síðasta sinn fyrir jól í gær. Frábært eins og venjulega. HAM rúlar.

Við Freigáta erum að fara í sund á eftir. Þar eru allavega ekki leiðindin!

12.12.06

Bloggdofin

Það er óvenjumikið um fréttahlé. Það er svakalega óvenjulegt. Hef bara óvenjulitla þörf fyrir að tjá mig um nokkurn skapaðan hlut. Veit ekki hvort sálfræðingurinn minn segði að það væri fram- eða afturför. Spyr hana kannski á eftir.

Það er helst í fréttum að Freigátan kann að segja "datt". Þetta segir hún þó ekkert sérstaklega þegar hlutir detta. Eftir nokkra rannsóknarvinnu komst ég að því að þetta þýðir "takk". Um nokkurt skeið hafa líka allir hlutir verið "búdda". Eftir nokkra rannsóknarvinnu held ég hún sé kannski að reyna að komast upp með að blóta með því að gera það á frönsku. (Putain)

Fór í nýja IKEAÐ í gær. Það er STÓRT. Maður sér varla nokkra hræðu. Svo hefur verið fundið upp á þeirri nýbreytni að hafa hrausta menn fyrir utan sem hjálpa litlum konum að koma stórum hillum í bílana sína. Er það ljómandi.

Í morgun fórum við hjónin í blóðtökur vegna líftryggingar. Í kvöld ætla ég að gefa stjórn Hugleix súkkulaði. Svo vil ég að "geri" fari að aflétta svo ég geti farið að stytta gluggatjöld. Ýmislegt hefur þó hreyfst á heimilinu. Nú er búið að ganga frá næstum öllu sem var í stórum kassahaug inni í aukaherberginu (sem á að verða skrifstofa/gestaherbergi) og allar bækur að verða fluttar í hillur.

10.12.06

Umhreiðrun

Lítið um blogg eða tíðindi. Hér liggur allt í hreiðurgerð og jólaundirbúningi. Mig er farið að verkja af gluggatjaldaþrá og ætla að reyna að komast í IKEA. Er líka búin að vera að garfa í myndum heimilisins og var kannski að senda einar 204 í framköllun hjá honum Hansi Peterssen. Fer eftir því hvort það tóxt... tölvunni minni ber ekki saman við sjálfa sig. Ef það hefur gerst verða myndaalbúma og -rammamál heimilissins nú aldeilis tekin í gegn.

En heimilið okkar er ægifagurt og okkur líður alveg hrikalega vel hér. Og bara öllum sem rekið hafa inn nefið líka, hefur mér sýnst. Enda langar mig ekki baun út úr húsi. (Nema kannski pínu í Ikea.) Heldur vil ég bara vera heima og negla í veggina mína og raða.

Smábátur var í norðrinu um helgina og ég svaf heil ósköp og Rannsóknarskip þýddi og kvefaðist en Freigátan reyndi hins vegar að láta sér batna horfossinn.

Og enn tvær vinnuvikur til jóla.

*andvarp*

7.12.06

Horfoss

Hrædd um að ég hafi aðeins unnið mér til óbóta og sótthita. Enda núna komið að því í fyrsta skipti síðan einhvern tíma í október að ég er ekki að þýða á nóttunni og eitthvað. Enda er ég komin með kvef báðumegin og Freigátan Horfoss hefur aftur hafið áætlunarferðir um heimilið. Hinir flensusprautuðu feðgar sleppa vonandi. Enda Smábátur, og þeir hugsanlega báðir, að fara norður á vit feðra sinna um helgina.

Og plögg.

Jóladagskrá Hugleix var framin í fyrra skiptið á þriðjudagskvöld. Mikið djöfull var hún nú góð, þó ég segi sjálf frá. Alveg hryllilega skemmtilegt stöff á prógramminu og ég mæli með að menn fjölmenni í kvöld. Húsið opnar kl. 20.30 og skemmtan hefst kl. 21.00.

Sjálf hrundi ég hressilega íða eftir sýninguna á þriðjudagskvöldið, og held að það hafi hjálpað mikið til við að halda hori í skefjum. Ég er allavega í vinnunni og held alveg nokkurn vegin hausi. Þökk sé gammeldansk. (Sem er að alla jafna viðbjóður.)

5.12.06

hmmm...

Annríkið gekk eitthvað aðeins í endurnýjun lífdaga og ég er með kvef öðrumegin.

En:

Jóladagskrá Hugleiks verður í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld og fimmtudagskvöld.
Veri menn þar eða kallist ferkantar ella.
Ýmissa grasa mun kenna. Spánnýr jólasöngleikur eftir dr. Tótu, kynverulegir jólasveinar á brókinni, testósterónríkir jólaþættir, jötustuð og margt fleira.

Húsið opnar kl. 21.00
Kostar þúsundkall inn.

Allir velkomnir.

Nefndin.

1.12.06

Nóvemberlok

Við hjón erum búin að vera gjörsamlega að bilast. Vorum farin að tala um að hætta rúmlega öllu. Höfðum ekki sofið hálfan svefn síðan við mundum eftir okkur, að okkur fannst, og alltaf allt eftir. Svo kom fyrsti desember og eins og bylur dytti af húsinu. Og ég var að fatta hvað við vorum að reyna að gera, allt í einu, í nóvember.

En nú erum við búin að flytja, hætt að þurfa að þýða á nóttunni, alveg að verða búin að leika og leikstýra, gubbupestin búin, Ransóknarskip að verða kominn í jólafrí í skólanum og stjórn Hugleiks næstum komin í jólafrí líka. Og skollin á desemberrólegheit í vinnunni minni.

Enda skal öllusaman nú slegið upp í kæruleysi, ég ætla í leikhús í kvöld.

Og svo nokkrar myndir:


Sæt systkin


Hænuvíkursvipur


Fyrsta snjóþotuferðin

30.11.06

í fyrirjólinu

er soldið skemmtilegt að hafa verið í bókmenntafræði. Maður sér gamla skólafélaga, og jafnvel kennara, allsstaðar laumast fram á sjónarsviðið og segja mönnum hvaða bækur þeir eiga að gefa hver öðrum í jólagjafir. (Og fáir sem fá nenna síðan að lesa þær til að vera í aðstöðu til að rengja viðkomandi eða samsinna.) Heyrði einmitt lesið úr nýútkominni bók þegar ég var á leið í vinnuna í morgun. Hún er eftir bókmenntafræðing. Sem kemur ekki málinu við.

(Ja, nema maður vilji hætta sér út í ormagryfju áhuga- atvinnu umræðunnar sem rekur annað slagið upp ljótan hausinn í leiklistargeiranum. Samkvæmt þeim skilgreiningum ætti mér að finnast alveg fáránlegt að einhverjir óbókmenntafræðimenntaðir amatörar séu fá laun fyrir bækurnar sínar!)

Allavega. Mér gengur eitthvað illa að komast að efninu.

Í bókarbrotinu var semsé kastað fram skilgreiningu á landslagi í skemmtanalífi miðbæjarins sem ég hafði ekki áttað mig á. Nefnilega, að það skiptist um Lækjargötu. Fyrir neðan eru ríkir plebbar og ljóskar heimskur, og fyrir ofan séu artfartarnir.
Þetta fannst mér sniðugt. Og kannski ekki rétt, en örugglega ekki alveg rangt.

En hvað segir það þá um mann ef maður, þá sjaldan maður rekst út á galeiðuna, sækir eingöngu staði sem er Í Lækjargötu? Býr þar kannske landsbyggðarlýðurinn?

Njósn

Þegar maður er að reyna að hætta að nöldra við sjálfan sig á göngunni þá verður manni stundum á (eða gerir það algjörlega viljandi) að heyra hvað aðrir eru að nöldra við sjálfa sig og aðra. Í gær varð ég áheyrandi að hálfu samtali þar sem ung kona talandi í gsm-síma labbaði fyrir aftan mig þar til samtalið fyllti mig svo miklum hrolli að ég spítti í og stakk hana af. Samtalið var svo sem ekki um neitt sérstakt. Það var bara ákveðinn tónn í því sem gerði það að verkum að fyrir hugskotssjónum mér svifu ótrúlega mörg ömurleg og niðurlægjandi samtöl úr mínu eigin lífi.

Flaug mér þá í hug setningin:

Að reyna að eiga í sambandi við mann sem er haldinn skuldbindingafælni er álíka gáfulegt og að ætla að heilsa handalausum manni með handabandi.

29.11.06

Allir gubba

Líka gestir og gangandi. Bára systir kom í heimsókn, gangandi frá Noregi sem gestur, og gubbaði líka. Síðan er hún bara búin að lufsast um heima hjá mér, græn í framan. Í staðinn gabbaði ég hana til að vera fram yfir helgi og hjálpa mér að þrífa og allskyns.

Til stendur að hækka svefnleysismörkin á heimilinu. Ég er fyrir mína parta og Rannsóknarskips orðin hundleið á að þýða fram á nætur og vera svo með augnlokin á hælunum alla daga. Annars náði ég alveg góðum klukkutíma í röðun heima hjá mér í gær, og nú er alveg næstum farið að líta þar út eins og hjá fólki. Píanóið er á leiðinni í dag eða á morgun eða eitthvað. Og ég held við reynum að drífa síðustu ruslatægjurnar út úr Tryggvagötunni fyrir eða um helgi.

Annars er helgin að verða útúrskipulögð. Freigátan komst óvænt inn í ungbarnasund. Við förum þangað á laugardaginn og hlökkumum ógurlega til. Sama laugardag eru píanótónleikar hjá Smábáti, þrítuxafmæli og hvur veit hvað. Helst vildi ég klára að þrífa íbúðina fyrrverandi áður en allt þetta samkvæmis- og menningarlíf aðventunnar hefst... Mar sér til hvað maður nennir.

Hitti Bergindi og Guðmund Stein í gær. Hann var aldrei slíku vant vakandi og er að verða myndarkarlmaður, þriggja og hálfs mánaðar og næstum jafnstór og Freigátan. (Sem varð bæðevei 10 mánaða í gær. Myndir verða settar inn um leið og magapínum og annríki sleppir.)

Er á kaffiflippi og búin að afkasta á við hálfan mánuð á undanförnum klukkutíma.
Og bara get ekki hætt.
Það hressir, Bandalaxkaffið.

28.11.06

Jákvætt hugarfar

Ég nöldra. Þegar ég er að labba einhversstaðar, sem ég geri oft, fæ ég gjarnan útrás í því að nöldra stanslaust, að mestu í hljóði, við sjálfa mig. Yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Oft einhverju sem ég hreinlega bý mér til eða gef mér. Og ég er að reyna að hætta.

Um daginn ákvað ég að reyna að labba alla leiðina heim úr vinnunni án þess að nöldra. Entist ekki nema niður á miðjan Laugaveg. Næsta dag var ógurlega gott veður, svo ég greip til þess ráðs að fara alltaf að glápa á efri hæðir vinstra megin við Laugaveginn þar sem sólin skein og allt var svo ógnarfagurt. En allt kom fyrir ekki, alltaf var ég búin að nöldra mig bláa án þess að taka eftir því.

Þangað til ég samdi Jákvæða Hugarfarssönginn. Hann syngist við lagið Nú er Gunna á nýju skónum (ja, eða einn var að smíða ausutetur, ef það eru kannski ekki að koma jól) og hljóðar svo:

Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar
Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar
Jákvætt hugarfar
Jákvætt hugarfar
Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar

Þetta söng ég, að mestu í hljóði, alla leið heim, og nöldraði ekki baun.
Verður iðkað framvegis.

26.11.06

Gat gubbað

Og það ekkert smá. Við hjónin notuðum helgina í aldeilis hreint magnaða gubbupest. Og Freigátan er enn í maganum og notaði daginn til að kúka í öll fötin sín.

Aldeilis eins gott að það var til lykteyðandi sprey á heimilinu... Já, var.

24.11.06

Gæti gubbað

ætla samt ekki að gera það.

Freigátan fékk fyrstu "alvöru" gubbupestina sína í gærkvöldi. Í dag þarf að þvo mikið. Og það er gubbulykt af öllu sem við eigum. Svo er ég sybbin. Þess vegna ætla ég bara að skrifa eina illa orta hækju sem mér flaug í hug undir fögrum flautu- og gítartónum á tónleikum í gærkveldi:

Meðvirkni

Stundum
Heyri ég ekki í sjálfri mér
Fyrir hugsunum annarra


Hann Hjörvar skrifar nebblega stundum ljóð á bloggið sitt.
Mér þykja ljóð kúl, nú orðið.
Svo ég ætla líka að gera það.

23.11.06

Ástandið

á heimilinu er þannig, að það er alveg sama hvað maður pakkar mikið í gamla húsinu, það er alltaf jafnmikið eftir. Þannig að það er eins gott að nýja húsið er þeim töfrum gætt að það virðist endalaust komast meira í það. Það er allt einhvern veginn stærra en ég hélt.

Svo er Hugleikur að fara að klára að brasa í Hullhúsinu á sunnudag. Ef mönnum leiðist...

Svo er ég að brúka gamlahús til að æfa leikritið "Jólasveinar eru líka kynverur." Vilji menn skoða það nánar, þá verður það sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum, með öðru jólastöffi hjá Hugleik, þá 5. og 7. desember. Skemmtan sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Í nýjahúsi búa haugarnir. Ég hef ekki mikið mátt vera að því að skipuleggja í skápa og bókahillur. En það verður nú örugglega komið fyrir jól. Og aðventan byrjar seint í ár þannig að það er ekki orðið of seint að byggja aðventukransinn! Jeij!

Og nú langar mig ekki að gera neitt að viti, heldur bara skoða gluggatjöld á internetinu.

22.11.06

Vika hugleixrar tungu

Þar sem ég er með ritstíflu sökum annríkis vil ég benda mönnum eindregið á Viku hugleixkrar tungu sem nú er í gangi á Varríusi. Gott stöff.

Sjitt, hvað

er mikið að gera.
Oj.

20.11.06

Grettistök

Aldeilis dandalaskemmtileg helgi.

Byrjaði á stjórnarfundi hér í vinnunni í gærkvöldi. Alltaf stuð. (Sem þýðir að nú liggur fyrir að hreinvinna eina fundargerð. Kannski ekki alveg jafnmikið stuð...) Eftir fundinn fór ég við fimmta stjórnarmann aðeina út á... ja, ég veit ekki alveg hvort hægt er að kalla það pöbb... sem heitir Kaffisetrið. Svakalega spes staður þar sem veit ekki alveg hvað hann er. Algjörlega dásamlega vírd.
Svo var námskeið í stjórnun leikfélaga í frosthörkunum á laugardag. Fór það nú alltsaman vel og skikkanlega fram og ég held það hafi skilað mér alveg talsverðu í vinnunni sem við erum núna, samning handbókar sem á að gera það að verkum að algjörlega hver sem er eigi að gera stjórnað leikfélagi hvert sem er, ef hann bara hefur þetta uppflettirit í höndunum.

Á sunnudag fengum við síðan hraustlegt lið manna og kvenna til að flytja okkur í hin nýju híbýli vor á Ránargötu. Þar vöknuðu allir hamingjusamir í morgun og enginn þurfti að fara niður neinn stiga. Hins vegar fundu kannski ekki alveg allir föt á sig svo auðveldlega. Stóra Freigátan ætlar að vera hjá okkur þessa viku, og segja mér hvernig ég eigi nú að hafa allt heima hjá mér. Ég ætla samt að reyna að ráða því sjálf. Sálfræðingurinn minn segir sjálfsagt að það sé hollt.

Í gærkvöldi, eftir flutninga, reif ég mig úr skítagallanum, vígði nýja baðið, gróf upp skárri leppana og skrapp mér í tungupartí út í Hugleikhús. (Smá freyðivín til að fagna því að við fengum viðurkenningu á degi íslenskrar tungu.) Það var nú aldeilis ekkert smá ljómandi gaman. Skemmtilegt að sjá hvernig mönnum hefði unnist í tiltektinni um daginn og svona. Að því loknu var haldið á Rósenberg og horft á Ljótu hálfvitana og Ripp, Rapp og Garfunkel. (Já, þessar hljómsveitir heita þetta í alvöru.) Það var hrrrroðalega skemmtilegt. Rannsóknarskipið bættist í hópinn þar og var það mikil gleði, enda ár og öld síðan við hjónin höfum eitthvað lyft okkur upp... (Skrifaði hún og mundi síðan að við vorum bara tvö í frumsýningarpartíi um síðustu helgi... Ókei. Við erum ALLTAF á djamminu!)
Allavega. Þetta voru hreint æðislegir tónleikar. Obbslega skemmtilegar hljómsveitir.

Og í seinnipartinn ætla ég að freista þess að ná saman æfingu á hinum þrrrælskemmtilega einþáttungi Jólasveinar eru líka fólk, eftir Nínu Björk Jónsdóttur, sem frumsýndur verður á jólaprógramminu í Þjollanum þann 5. desember. Held ég.
Jólasveinarnir mínir virðast reyndar ekkert kunna á tölvupóst, sem er kannski eðlilegt, svo ég veit eiginlega ekkert hvort þeir mæta, en einhverntíma í dag ætla ég að gá hvort þeir kunna að svara í gsm-síma.

Og verkefni dagsins er að kryfja þynnkuþunglynduna niður í ekkert, láti hún á sér kræla. Jibbúl.

16.11.06

Leikfélagið Hugleikur

Fékk í dag viðurkenningu menntamálaráðherra í tilefni af degi íslenskrar tungu. Er hann vel að því komin, því útúrsnúningar, orðaleppaásláttur og reglulegt hopp á menningararfinum er jú alveg bráðnauðsynlegt til að halda menningararfinum lifandi. Hér er oggulítil frétt um málið, en vissulega mun farið mikinn á Leiklistarvefnum um leið og ég kem í vinnuna í fyrramálið. Þeir létu alveg hjá líða að minnast á þetta í kvöldfréttum sjónvarps. Fannst merkilegra að menntamálaráðherra hefði tekið vélritunarpróf. Hommar og plebbar.

En mikið hrrroðalega erum við nú montin af okkur í dag öllsömul. Til hamingju öll við.

Ég fengi hins vegar engin verðlaun sem móðir, kona, meyja né neins konar starfsmaður byggt á frammistöðu í dag. Mestan hluta dagsins var ég að reyna að þýða, pakka, láta yngra barnið þegja, eldra barnið læra og bóndann sofa úr sér næturvökur undanfarinna þýðingamikilla nátta. Var að lokum orðin bandúrill og skítkalt. Lét þá bóndann og börnin sjá um sig sjálf á meðan ég fór í heitasta bað í heimi og öll fötin mín. Og nú blogga ég í stað þess að reyna að halda áfram með þýðingaverkefnin sem fyrirséð er að koma til með að ná langt fram á nótt. Gáfulegt.

Og hvað er eiginlega að þessu fokkíng veðri?

Flass

Er að vinna geðveikt með Pixies-tónleika í sjónvarpinu. Erfitt að kunna almennilega íslensku með svona alvarlegt menntaskólaflassbakk. Siiiríuslí.

Og dagur íslenskrar tungu var að renna upp rétt í þessu. Ekki fallegt afspurnar.

15.11.06

Öll veröldin er leiksvið!

Stekkjastaur fundinn. Og kemur úr áður óhugleixku leikfélagi, held ég. Jibbíkóla!

Nú er ég nú aldeilis roggin með mig. Þá er bara að reyna að leikstýra þessu öllusaman og vonandi án tilheyrandi kvíðaraskana. Það var ljómandi í atferlismeðferðinni í gær. Við sáli komumst að því að ég var heilmikið byrjuð að "vinna í mér" (sem er reyndar orðalag sem ég þoholi ekki.) Og hún er bjartsýn á að ég þurfi ekki lyf í bili, ef ég held áfram að vera svona dugleg. Og ég fékk heimavinnu, þarf að halda dagbók um geðsveiflur. Lítið mál, það. Og gaman. Er búin að skrifa líðanir tæps sólahrhings og held þegar að þetta geti orðið grunnur í einhvers konar einþáttung. Kannski meiraðsegja þennan sem ég var alltaf að huxa um að gera með "undirtexta" í power point?

Allavega, bara eitt í einu.
Eða... allavega ekkert mjög margt.

Og það er komin umfjöllun um sýninguna á leikritinu mínu fyrir eystan á leiklist.is.

Við erum farin að mjaka einu og einu bílhlassi á nýja heimilið okkar. Sennilega reynum við að hala rúmin okkar og tannburstana yfirum á seinniparti sunnudax. (Eru einhverjir lesendur sem bráðlangar að hjálpa til, halda á ísskáp o.þ.h., eina dagstund? Í staðinn get ég alveg lánað Rannsóknarskipið í sambærilega aðstoð í óskilgreindri framtíð...) En þetta verður nú aðalflutningurinn, og við ætlum að reyna að koma sem mestu af öðru lauslegu yfirum á undan.

Freigátan sló persónulegt met í morgun og svaf alveg til átta. Þar með sváfu allir hálfa leið yfir sig, en allt slapp þetta nú til. Það rignir svoleiðis þýðingaverkefnum yfir okkur Rannsóknarskip sem aldrei fyrr. Og heyrir til undantekninga ef allavega hann þarf ekki að vinna hálfa nóttina. Og við erum enn í sjokki yfir að vera búin að eyða töttögogtveimur milljónum, að við þorum ekki að hafna verkefnum. Þó greiðslumötin segi að þetta eigi nú allt að sleppa.

Lallallah.
Geðbil.

14.11.06

Hausaveiðar

Komin með 50% leikara í þáttinn minn. Þeir eru nýir í Hugleik. Hin 50% eru í athugun og þar af eru 50% líka nýtt fólk, og ekki einu sinni úr leikfélögum mínu eða Rannsóknarskips! Færast nú kvíar út.

Ég er að fara í atferlismeðferð á eftir. Hlakka til. Text vonandi að losna eitthvað við þunglynduna.

Svo ætla ég að segja upp tryggingunni minni. Við Rannsóknarskip erum búin að láta samtryggja okkur í bak og fyrir. Á næsta ári samsköttum við svo og þá verður nú engin leið að segja til um hvar annað okkar endar og hitt byrjar. Það er nú fínt. Skuldbindingar rokka feitt og eru æði.

Er að skrifa handbók með öllu í sem leikfélög þurfa að vita. Hún verður nú þykk.

13.11.06

Komin heim

Eftir alveg hreint örskamma ferð á Austurlandið. Gaman að sjá frumsýninguna hjá LF, enda eru þau nottla með svo ofboðslega gott leikrit. Nei, í alvöru, ég er svakalega ánægð með þau. Finnst bara verst að geta ekki fylgst meira með þeim.

Svo lagðist ég í símann áðan og ákvað að veiða mér snöggvast fjóra jólasveina. Náði að landa Hurðaskelli og kannski-Stúf áður en dóttir mín sagði stopp, ekki meira símakjaftæði á mínum tíma. En nú er eins og hún sé eitthvað aðeins að róast í bili svo það er vissara að reyna að halda aðeins áfram. Árangurinn mun sjást í jóladagskrá Hugleiks sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum 5. og 7. desember, vonandi að viðstöddu þvílíku fjölmenni. (Aldrei of snemmt að plögga.)

Best að reyna við Giljagaur.

10.11.06

Mont

Fjölskyldan er fræg um þessar mundir. Vorum tvisvar í Mogganum í gær. Annars vegar var viðtal við formann Hugleiks um sagnadagskrá sem seinni flutningur var á í gær. Meiri umfjöllun um hana skrifaði Silja Aðalsteinsdóttir á vef TMM.

Svo var líka minnst á leikritið mitt, Listina að lifa, sem er einmitt verið að fara að frumsýna annað kvöld á Iðavöllum, og þar ætlum við hjónin og Smábáturinn að vera, ef flugveðurguðinn leyfir.

Smábáturinn er síðan að fara að sýna litla einleikinn sinn frá því á Þessu mánaðarlega í október á ráðstefnu í dag. Hann og "undirleikarar" hans eru reyndar eins og Bítlarnir, hafa ekki getað verið allir á æfingu í einu. En þetta gengur nú vonandi samt bara vel hjá þeim.

Freigátan er með frægðaröfund og tók því upp á því nýnæmi að halda fyrir okkur vöku í nótt. Frægu foreldrarnir eru því með augnlokin á hælunum í dag.

9.11.06

Brjál

Það er alltaf allt í haugum. Sérstaklega annríkið. Og húsnæðin.
Núna standa yfir flutningar á heimilinu og það er eins og við mannin mælt, tóm geðbilun á öllum vígstöðvum hellist yfir um leið. Þýðingar sturtast yfir, vinnan mín er að fara að halda úrslitalestra á skrifstofunni á föstudaxeftirmiðdag. (Fer þaðan beint í flugvélina og austur í Egilsstaði með famlíuna á frumsýningu hjá sjálfri mér sem er hjá LF á morgun.) Tryggingamálin okkar eru einmitt núna líka í endurskoðun, með tilheyrandi pappírsflóði og þvagprufum, og eins og þetta væri nú ekki bara slatti þá fékk Rannsóknarskip í bakið í fyrradag og er rétt að byrja að skríða uppúr því að hreyfa sig eins og hálfnírætt gamalmenni. Já, og svo var hjólinu mínu stolið í fyrrinótt. Reyndar var annað skilið eftir í staðin... undarlegt... en löggan ætlar að taka það og ráðlagði mér að skoða tapað-fundið hjá þeim í næstu viku til að gá hvort mitt hefur skotið upp kollinum.

Er annars búin að olíubera gólfið á nýja heimilinu. Og Smábáturinn ræður sér varla fyrir hamingju yfir trampólíninu sem húsfélagið á nýja staðnum á. Heldur ekki yfir því hvað verður miklu styttra í skólann fyrir hann. Freigátan ræður sér ekki yfir hamingju yfir að geta skriðið um allt eftir eigin hentugleikum, í staðinn fyrir að vera römmuð af innan stigamarka. Ég er jafnhamingjusöm yfir sama fyrirhugaða stigaleysi... þó ég hafi örlitlar áhyggjur af spiksöfnun af hreyfingarleysi. Og Rannsóknarskip er hamingjusamur yfir heildarhamingju fjölskyldunnar.
Tóm hamingja, bara.

8.11.06

Ras

Mér finnst við eiga að vera GÓÐ við útlendinga sem vilja búa á Íslandi. Gefa þeim vinnur og allt sem þeir vilja. Við þurfum nefnilega að horfa til framtíðar. Nú benda allar heimsendaspár nefnilega til þess að skerið okkar verði algjörlega óbyggilegt innan fárra alda, annað hvort verði það sokkið í lekann úr heimskautaísnum eða orðið ísilagt af Golfstraumsleysi, og þá kemur sér nú vel að eiga inni hjá ættingjum íslenskra Pólverja og Kínverja.

Heimurinn er að minnka og blandast. Þannig er þetta bara. Eftir fáhundruð ár verður enginn lengur af einu þjóðerni eða kynþætti. Og hvað sem mönnum finnst um það, og hversu mikið sem menn ætla að grisja hver annan í prósessnum, þá er þróunin þannig. Mannkyninu er líka að fjölga og við þurfum að læra að búa þröngt eins og Japanir. Eða fara bara að grisja á milljón. Eins og Ísraelar og arabar. Þannig er það bara.

Mér finnst líka kjánalegt þegar menn ætla að fara að slá um sig með einhverju "þetta er OKKAR land" og "VIÐ erum nú búin að vera hér í einhver 1200 ár" -kjaftæði. Ég veit ekki með restina af þjóðinni, en ég er búin að búa hér í rúmlega 32 og hálft ár. Margir útlendingar hafa búið hér lengur. Og ég bjó ekki einu sinni hérna allan tímann. Bjó í næstum tvö ár Í ÚTLÖNDUM! Misnotaði þar allskonar menntun og þjónustu og ýmis hlunnindi, sjálfsagt á kostnað heimamanna, eins og allir Íslendingar sem læra erlendis gera, og færa svo varninginn heim. Eigum við ekki bara að skammast okkar?

Mér blöskraði svo rasisiminn í "Íslendingnum á götunni" í fréttunum í gær. (Eða var það í fyrradag?) Allavega, ef glæpalýðurinn sem á verktakafyrirtækin er að ráða hæft fólk með reynslu, hvers lenskt sem það er, á skítakaupi, og ef lágmarkstaxtar eru ekki þannig að hægt sé að lifa á þeim, er hvorugt við útlendinga að sakast. Það eru okkar eigin glæpamenn í samningagerð og atvinnurekstri sem standa fyrir því.

Við förum í nám erlendis. Og vinnum þar líka. Þvælumst örugglega helling fyrir þarlendum. En við megum það alveg þannig að þarlendir verða bara að bíta í sig með það. Og við verðum að gera slíkt hið sama. Ef við viljum ekki hafa útlendinga heima hjá okkur, þá verðum við líka að hætta að fara heim til þeirra. Kalla alla á danska og sænska sósíalnum heim! Og það er alveg sama hvað menn "ræða viðbrögð" á Alþingi Íslendinga, það er enginn að fara að snúa þróun mannkyns í þá átt að menn fari bara að vera heima hjá sér og hætti að skoða heiminn og prófa að búa um hann allan.

Mér finnst margir Íslendingar ekki vera að átta sig á breyttum áherslum í "hver er bestur" keppninni. Það hefur verið þannig, í örugglega þúsund ár, að það ljótasta sem hægt er að segja um Íslending er að það sé ekkert hægt að NOTA hann í vinnu. Þeir sem eru að mennta sig um of hafa löngum verið, og eru jafnvel enn, litnir hálfgerðu hornauga. ("Þetta heldur víst að það sé eitthvað.") En nú er svo komið að það mikilvægasta sem menn búa yfir, nokkurs staðar í heiminum, er góð tungumálakunnátta. Og það getur þvælst fyrir mönnum, meira að segja heima hjá sér, að búa ekki yfir svoleiðis. Kannski er eitthvað aðeins hægt að stemma stigu við þessu "vandamáli" með því að hleypa engum inn í landið nema hann hafi fyrst komið við í tungumálaskólanum á Keflavíkurflugvelli og lært íslensku reiprennandi, en ég held það verði bara ekki mjög lengi. Hvort sem mönnum líkar það betur eða ver, þá er enskan orðin esperantó nútímans. Tvennt er í boði. Að læra hana, eða ekki. Velji menn að læra hana ekki (af því að í sínu HEIMA landi á bara að tala EITT tungumál, eins og það sé eitthvað regla), þá þýðir ekkert að sitja og nöldra ofan í kaffibollann sinn við hina tvo sem ekki var heldur boðið í skemmtilega Kínapartíið hjá nýbúanum í næsta húsi.

Heimurinn er að minnka.
Menn þurfa bara að vera til friðs með það.
Eða hætta á að vera bara sjálfir grisjaðir.
Þetta var nú meiri langhundurinn.

7.11.06

Það kemur þegar maður hættir að leita að því

Á bæði við um peninga, karlmenn og hugræna atferlismeðferðarfræðinga.

Auðvitað er það ekki þannig að þetta öðlist maður "fyrr" ef maður er ekki að leita, en maður tekur minna eftir tímanum sem líður á meðan maður er án þess. Og þá finnst manni það vera fyrr.

Er að fara í hugræna atferlismeðferð í næstu viku.
En klippingu á eftir.
Jibbíkei.

Hratthratt!

Ég held að hún Hulda hafi verið að minnast á það í kommenti um daginn hvað allt virðist gerast hratt í lífi mínu. Og ekki bara þessa dagana, heldur almennt. Það er alveg rétt. Um daginn sat ég t.d. með fjölskylduna á Pizza Hut og fékk svona óraunveruleikatilfinningu. Ef einhver hefði sagt mér, fyrir svona tveimur árum og tveimur mánuðum síðan, að 2006 myndi ég eiga fjögurra manna fjölskyldu, hefði ég nú bara sagt viðkomandi að fara heim og taka pillurnar sínar.

Mér fannst þetta reyndar mjög fínt þegar ég var yngri. Svona upp að, eða upp fyrir, 25 ára aldur fannst mér ævinlega hraði í lífinu vera af því góða. Núna er ég hins vegar aðeins farin að furða mig. Sennilega hélt ég alltaf að þegar maður væri kominn í þessa aðstöðu, með mann og börn og svona, að þá færi nú eitthvað að hægjast á þessu. Lífið að komast í fastar skorður og lognmolla að færast yfir. En það er nú eitthvað annað. Ég er að fara að flytja í 19. skiptið á ævinni, aukinheldur sem börn stækka með gífurlegum hraða og sjá til þess að hver dagur er nýrri og meira spennandi og hver öðrum ólíkari en allir þeir sem á undan fóru. Núna koma ný verkefni á hverjum degi og tíminn virðist líða hraðar en nokkru sinni fyrr. Freigátan mín verður mannalegri með hverjum deginum, og Smábáturinn er að verða unglingur. Hann hefur þroskast alveg fáránlega mikið á þessu ári sem ég er búin að eiga hann. Þar fyrir utan koma svo leikhúsmálin, en leikfélagið mitt (sem ég hef ekki þurft að hætta í vegna barneigna, því ég á svo góðan mann) er gjörsamlega að tjúllast í brjálaðri starfsemi svo maður veit ekki hvernig maður á að snúa. Og svo er verið að setja mig upp annars staðar.
Það lítur allavega ekki út fyrir að það ætli neitt að hægjast á þessu í bili.

Hins vegar eignaðist ég einn klukkutíma í sólarhringinn í gær. Allavega virka daga. Nú er hann Doktor minn Phil horfinn af öldum ljósvakans og í staðinn komið... "eitthvað"... sem ég nenni alls ekki að horfa á. Allt í einu er tíminn á milli 5 og 6 á daginn bara galopinn fyrir hvað sem er. (Eins og að pakka niður í kassa.) Enda vissi ég ekkert hvað ég átti að gera af mér á þessum tíma í gær.

6.11.06

Ammli og sögur

Elsku Rannsóknarskipið mitt varð 34 ára í gær. Ég hélt upp á afmælið hans með því að troða í hann mat í hvert sinn sem ég sá hann. Eldaði meiraðsegja hrygg í gærkvöldi. (Sem var búinn að vera í frystinum í ár, og ég þverneitaði að flytja upp á Ránargötu.)

Annars voru annir um helgina og því lítið gert í flutningsmálum. Rannsóknarskip var að æfa fyrir Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum, en það var frumflutt í gærkveldi. Í þetta sinn segja Hullarar sögur af forfeðrum sínum og bresta annað slagið í fallegan söng. Úr þessu varð óskaplega falleg sýning. Ég mæli algjörlega með þessu. Þetta verður aftur sýnt á fimmtudagskvöldið.

Næst á daxkrá er síðan að reyna að koma einhverri hreyfingu á eitthvað af dóti til flutnings, flytja jafnvel geymsludót og bækur og eitthvað í vikunni, en síðan er ferð heitið til Egilsstaða um næstu helgi hvar öll fjölskyldan ætlar að vera viðstödd frumsýningu á höfundarverki voru sem heitir núna Listin að lifa. Verður mikið um dýrðir og ég ætla að klæðast kínverskum kjól sem Hugga syss ætlar að lána mér. Svo er ég búin að panta klippingu og litun. (Það skemmtilegasta við að skrifa leikrit er að mæta íðilfagur á frumsýningu.)

En það verður ekki mikið skrið á flutningum um helgar á meðan annríkið er svona. Móðir mín er búin að boða komu sína til aðstoðar eftir þarnæstu helgi. Opinber Flutningsdagur hefur verið settur svona umþaðbil 20. nóv. Þá verður allt þetta þunga flutningabílað yfir og tannburstar fluttir. Huxanlega eitthvað keyrt í sorpu í leiðinni.

Svo ætla ég að gera aðventukrans. Allt dauðskipulagt.

3.11.06

Nýjahús

Skruppum aðeins í gær upp í nýjahús. Ætluðum nú aðallega bara að skoða og spekúlera. En maðurinn hafði skilið eftir ýmsar hreinlætisgræjur, og áður en við vissum af vorum við nú eiginlega bara búin að þrífa hana. Meiraðsegja skúra gólf og veggi. (Segir nú kannski sitt um stærð nýja heimilisins okkar...)

Freigátan var með og skemmti sér hið besta við að skríða um allt óhindrað og pota í allar innstungur sem hún fann.

Svo eldaði ég hval í kvöldmatinn. (Kval í hvöldmatinn?) Hann var fínn. Veiðum þá bara.

2.11.06

Faglegar forsendur til að pissa á fólk?

Margir hafa skemmt sér yfir þessu orðalagi, sem kom fram í tengslum við verkefni leiklistarskólanema á dögunum. (En fyrsta árs nemar í leiklistardleild Listaháskólans ku ekki hafa faglegar forsendur til þess.)

Ég er búin að velta fyrir mér hverjir hafi þá þessar forsendur. Mér detta helst í hug þjálfaðar vændiskonur og klámstjörnur sem hafa gert gullnar sturtur að sérgrein sinni.

Fyrir kemur að dóttir mín gerir sig seka um þennan ófaglega ósóma. Næst ætla ég að segja henni að hún hafi hreint engar faglegar forsendur til þess arna.

Tvíbýli

Komin í vinnuna. Enn hálfhorug og veit fátt.
Veit þó það að íbúðin, hin nýja, ku eiga að vera orðin hin tómasta og langar mig mikið að druslast allavega eitthvað þangað uppeftir í dag, jafnvel með tusku.

Nú á maður víst alltaf að byrja að að flytja með brauð og eitthvað, svo alltaf verði nóg að bíta og brenna, (ætli hitt eigi þá að vera eldspítur) en þar sem ég nenni ekki að byrja á að láta mat mygla í nýju íbúðinni, (og á aldrei eld lengur) þá er ég að huxa um að byrja á að flytja með skúringagræjur og ákveða að það sé fyrir því að í híbýlum þessum verði ævinlega hreint og fínt. Algjörlega fyrirhafnarlaust. (Sem getur vel verið að verði vegna þess að til þess að komast fyrir þarna þurfum við að henda næstum öllu sem við eigum.)

Er líka búin að sjá notagildi þess að eiga í tvenn hús að venda í nóvember, undir lok mánaðarins huxa ég mér t.d. gott til glóðarinnar að æfa leikrit í stofunni sem þá verður búið að tæma. Leikritið sem ég er ekki enn farin að kasta í. Verð að fara að komast í það. (Ekki samt fyrr en horið hefur hopað frekar. Verð bara ringluð og örvæntingarfull af að huxa um það núna.)

Allavega, allir aðrir á heimilinu eru orðnir horlausir svo nú hlýtur bara að fara að koma að mér.
Snýt og snörl.

1.11.06

Eigendur

Jæjah. Búin að fara á sölufundinn og skrifa undir alltsaman og borga allan heiminn. Fundir síðasta sólarhrings virðast ekki hafa haft sérlega jákvæð áhrif á heilsuna mína, nú fyrst veit ég ekkert í minn haus. Rannsóknarskip er að fara að senda Smábát norður yfir heiðar seinnipartinn, fer svo í skólann og verður ekki hjá okkur fyrr en einhverntíma þvílíkt seint. Á meðan ætlum við mæðgur að láta okkur batna.

Annars skilst mér að fyrri eigandi ætli nú bara að klára að tæma núna einhverntíma á eftir eða morgun eða eitthvað þannig að við ættum að geta þrifið og metið stöðuna um helgina. Ljómandi fínt að ætla sér mánuð í að flytja.

Í nótt var ég með hálfgerðu óráði. Mig dreymdi að ég var með slatta af fólki, einhverjum ú stjórn Hugleix og fleirum, á annaðhvort kafbát eða geimskipi (það er ekki alveg skýrt í minningunni). Svo kom eitthvað uppá og það þurfti að draga okkur til bara svo hratt að við þurftum að fara í afþrýstingsklefa þegar við komum til baka. Að því loknu var partý.

Og nú held ég þurfi að leggja Freigátunni.

31.10.06

Kör

Ástandið á heimilinu enn heldur báborið. Freigátan sefur í vagninum sínum í eldhúsinu, en hún er með Horfoss í dag. Við Rannsóknarskip skiptumst á að sofa og huxa um hana. Enginn hefur orku í að láta sig hlakka til húsnæðisskipta nema Smábátur sem er hinn sprækasti. Ég hlakka reyndar soldið til í hvert skipti sem ég rogast með Freigátuna upp stigann... Bráðum búum við á einum janffleti! Jeij!

30.10.06

Ránargatan

er nú aldeilis fín gata. Þar hafa ýmis stórmenni búið. Hjónin Ringsted og Sigrún Valbergsdóttir, svo örfáir séu nefndir. Einhversstaðar við hana vestalega, huxanlega í húsinu sem rutt var burt til þess að húsið sem við vorum að kaupa kæmist fyrir, fæddist víst hann Sigurbjörn langafi minn. Þannig að ég er Reykvíkingur að einum áttunda, meiraðsegja Vestbæjingur.

Já, ég segi húsið sem við erum að kaupa. Lánir ku alveg vera komið alla leið í gegn, og sölufundur er á miðvikudaginn. Mér skilst að við fáum afhent um helgina. Og munum þá búa á tveimur stöðum í kannski svona eitthvað um mánuð. Þá er það bara að hringja í eigengur Imbu-Skjálfar og byrja að pakka.

Freigátan hafði nú greinilega eitthvað veður af því hvað var í aðsigi. Strax í morgun tæmdi hún fleiri hillur og reif svo Fasteignablaðið í tætlur.

Annars erum við öll þvílíkir horfossar í dag. Nema Smábátur, sem er batnaður. Enda eins gott, fyrir dyrum stendur haustfrí hjá honum sem hann mun eyða á norðurslóðum, þar sem honum verður skipt milli föðurfjölskyldu sinnar og Rannsóknarskips.

Þá er ekki eftir neinu að bíða. Bara reyna að ná sér upp úr horinu og byrja svo að flokka og henda. Alltaf hollt að minnka við sig um töttögogfemm fermetra.

28.10.06

Og meira

Blogger ræður ekki við neitt sérstaklega margar myndir í einu. En við höldum áfram.


Um daginn kom síðan tækifæri til að montast í öðrum frænkukjól þegar öll fjölskyldan brá sér á bekkjarkvöld hjá Smábáti. (Ath. að hún situr á cajuni. Það er svona trommusett sem lítur út eins og kassi)

Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt, m.a. nokkur hroðalega fyndin leikrit um ábyrgð. Ég held minn bekkur hafi hreint ekki verið svona hugmyndaríkur og fyndinn þegar við vorum 10 ára. (Hér átti að koma líka mynd af Smábátnum að spila á trommu. En þá sagði nú blogger bara aldeilis hingað og ekki lengra þannig að hún verður að bíða aðeins betri tíma.

Annars er horið búið að ná mér. Enda var það nú bara tímaspursmál. Smábátur er batnaður, Freigátan er orðin hitalaus en er enn eins og lítill horköggull. Horið náði mér í gær, og ég er að huxa um að fara að kalla Rannsóknarskipið Herra Horfoss. (Alltaf jafnsætur og fallegur og sexí, samt.)

Ég var í náttbuxunum í allan dag.

Á morgun verður lánið okkar vonandi afgreitt formlega án frekara múðurs. Þá er nú líklega óhætt að fara að huxa til þess að pakka. (Tók reyndar pólitíska ákvörðun um að raða ekki aftur í bókahilluna sem Freigátan hreinsaði niður úr í gær...)

Til lukku

Það er komin laugardagur. Og sól, meiraðsegja. Fyrir akkúrat 9 mánuðum síðan hef ég ekki hugmynd um hvernig veðrið var. En þá öskraði ég stanslaust í heilan dag. Í dag, þegar klukkuna vantar tvær mínútur í 6, síðdegis, verður Freigátan 9 mánaða.
Í tilefni af því skulum við hafa myndir:



Freigátu finnst ógurlega gaman að vera úti. Ég er að vonast til að það endist henni eitthvað fram á aðeins efri ár þannig að ekki þurfi að draga hana með valdi frá tölvunni, dax daglega, eins og suma ónefnda Smábáta. ;-)


Og talandi um Smábáta, svona voru þeir nú smáfríðir, hann og Eiríkur vinur hans, þegar þeir voru á leið í "Draugaafmæli" á föstudaginn 13. október.

27.10.06

Ókei...

Þetta fer nú að verða svolítið ruglandi.

Bankinn er búinn að hringja. Hann vill ekki lána okkur pening nema hann fái að lána okkur meira en við báðum um. Það er alveg sjálfsagt af okkar hálfu. Bankinn segist vera byrjaður að "undirbúa lánið" en að það verði ekki "samþykkt formlega" fyrr en á mánudag.

Hvað þýðir það?

Fáum við lán eða ekki?

Ég er ekkert miklu nær... þori allavega ekkert að fara að fagna strax.

En nú er allavega staðar nem í þessu öllu fram á mánudag. Pfff.

Hjartað í buxunum

Erum ekki enn búin að heyra frá Rannsóknarskipsbankanum um hvort hann ætlar að lána okkur péning. Veit ekki hvort það er góðs eða slæms viti. Fasteignasalan er farin að hringja og njósna hvernig gengur. Það er stressandi.

Krakkaormarnir eru báðir heima með hor.

Og svo er bara rigning.

Þetta er að verða eins og í upphafinu á Dickens-sögu.

Sem væri nú aldeilis ágætt, þar sem þær enda alltaf vel. Reyndar aldrei fyrr en eftir miklar hremmingar.

26.10.06

Glæta...

Viðskiptabanki Rannsóknarskips virðist öllu liðlegri en minn. Virðist allavega vera til í að lána okkur þennan péning ef við stöndumst greiðslumat. Og það ætlum við að reyna að gera í dag. Búin að vera að finna hvern einasta bleðil sem getur litið út eins og tekjur. Og grafa upp allar vel földu milljónirnar. Þetta er soldið eins og fjársjóðsleit.

Annars tókst mér nú að nurla mínum viðskiptabanka aðeins upp í gær, en ekki nógu hátt. Svo rölti Rannsóknarskip sér nú bara niðrí bæ og talaði við aðstoðarútibústjórann. Og hann var nú bara ekkert nema elskulegheitin. En til öryggis erum við nú samt komin með plan b.

Í öðrum óspurðum fréttum er það helst að í gær var gert mikið átak hér á skrifstofunni minni og um tonni af drasli úr geymslunni hent á haugana. Í áframhaldandi hreingerningaræði er ég að taka útstillingargluggann okkar í gegn í dag.

Er að fara að sjá Purpura eftir Fosse í Verinu í kvöld, í hlutverki gagnrýnanda Leiklistarvefjarins. (Það er hvortsemer ekkert í sjónvarpinu og Rannsóknarskip þarf að þýða eins og vindurinn.) Langt síðan ég hef rýnt eitthvað. Ætti nú að gera meira af því. Það er nefnilega svo gaman.

Og, leitin að dularfullu atferlismeðferðarkonunum heldur áfram. Læknirinn minn reyndist hafa hringt í þær. En þegar ég ætlaði að hringja í hann í gærmorgun var hann nú kominn í frí fram að jólum eða þar um bil. Í staðinn fékk ég að tala við annan lækni sem er frændi minn. Það gekk að sjálfsögðu betur. Hann gat leitt mig í allan sannleikann um stöðu mála. Atferliskonurnar eiga semsagt að hringja í mig. Og ég gat hringt í þær, sagði hann, en hvar eða í hvaða númer virtist vera hernaðarleyndarmál. Tóxt lox að grafa upp númerið eftir afar flókið hlerunar- og njósnaferli. Það svarar ekki þar. Fékk líka netfang. Það virkar ekki.

Að ætla að afla sér meðferðar gegn þunglyndi, utan pilla, er sem sagt ekki aldeilis heiglum hent. Ef minn sjúkdómur væri á alvarlegra stigi væri ég líklega búin að kála mér svona tíu sinnum, bara undanfarna daga.

Svona er nú skilvirkni heilbrigðiskerfisins okkar.

25.10.06

Morgunfýla

Ég er ennþá alveg hreint arfafúl út í bankann minn. Var búin að skoða upplýsingar um öll íbúða- og fasteignalán einstaklega gaumgæfilega, einmitt með þetta atriði í huga. Og hvergi á öllum vef KB-Banka er minnst einu orði á brunabótamat. Svo slengir ævilangur viðskiptabanki mann, sem hefur haft út úr manni milljónatugi undanfarin 32 og hálft ár, í alls konar skítagreiðslur, þessari skítugu gólftusku bara framan í mann eins og ekkert sé. Rannsóknarskip ætlar að athuga með sinn banka í dag og gá hvort hann er liðlegri.
Vonandi er það allavega einhver, því annars erum við bara í djúpum skít. Maður á náttlega aldrei að hlusta á neitt sem manni er sagt. Fasteignasalinn okkar sagði að "sumir" væru svegjanlegri og færu ekki eftir brunabótamatinu þegar um svo góða staðsetningu væri að ræða. (Enda gamli vesturbærinn huxanlega eina landsvæðið í landinu sem verðfellur líklegast aldrei að neinu gagni.) En hvað er hann var bara að ljúga, svosem eins og sölumenn gera?
Ég er algjörlega að huxa mig niður í hyldýpið með þetta.

Að auki komu skilaboð frá truntulega ungbarnasundkennaranum sem Habbý mælti með í gærkvöldi. Hún bauð Freigátunni að vera með á námskeiði sem er eftir kvöldmat þegar hún er venjulega sofnuð. Ég er kannski klikk, en ég ætla ekki að fara að halda krakkanum vakandi fram undir miðnætti, þvælast með hana úti í kulda og myrkri með blautt hárið, til þess að hún komist í sund. Konan tjáði mér (truntulega) að annar tími kæmi ekki til greina. Við vorum búnar að vera á biðlista frá í september.

Er búin að taka ákvörðun um að Freigátan sleppi formlegu ungbarnasundi. Enda stóðum við okkur mjög vel í því í sumar, á eigin spýtum. Og höfum ekkert efni á því.

Og ég er bara að drepa tímann, svona snemma morguns, af því að ég er að bíða eftir að viðtalstíminn hjá lækninum mínum byrji. Það myndi jú laga ástandið talsvert ef ég vissi eitthvað um hvernig mál stæðu með þessa þunglyndismeðferð sem ég er ekki byrjuð í, en heimilislæknirinn minn hefur ekki enn séð ástæðu til að gera það sem hann lofaði fyrir hálfum mánuði síðan.

Það er sennilega bara ég, en það eru óvenjumargar truntur í lífi mínu í dag. Vona bara að Karma sjái til þess að allir fái makleg málagjöld.

24.10.06

Zzzzzzz

Hleranir í gamla daga. Beinar útsendingar frá hvalveiðum.... Siiiiríuslí. Er gúrka eða hvað?

Enging gúrka á þessum bæ, samt. Er að bíða eftir Rannsóknarskipinu heim úr skólanum til að ég komist á lestur tveggja flunkunýrra leikrita hjá Hugleiki. Bankinn minn er með múður. Þykist ekki veita íbúðalán yfir brunabótamati. Ég hótaði að fara burt úr bankanum með allt mitt hafurtask. Og reikna með að þurfa að standa við það. Þá er bara að gá hvaða banki vill eiga allar milljónirnar sem ég á eftir að borga í vexti næstu 40 árin.

Er sybbin. Eins gott að leikrit kvöldsins séu skemmtileg. ;-)

Og, gaman hvað margir kvittuðu! Greinilega eins gott að standa sig.

23.10.06

1001 blogg

Gerðum tilboð á föstudaginn. Gagntilboð var gert og við tókum því núna rétt áðan. Erum á góðri leið að verða íbúðareigendur. Slotið er vestarlega við Ránargötuna, nýlegra en títt er um húsnæði í þessum bæjarhluta, og ekki líklegt til að setja okkur alveg alla leið á höfuðin. Þá er bara að vona að bankinn verði góður við okkur. Verði hann það verður gerður kaupsamningur og afhending mun fara fram jafnframt. Það lítur sumsé ut fyrir flutninga í nóvember.

Austurferð var annars hin ljómandasta. Leikritið mitt virðist ætla að líta ljómandi vel út í meðförum Odds Bjarna og Leikfélax Fljótsdalshéraðs. Leikritið reyndist tilbúnara en ég hélt, þannig að þessi helgi varð nú bara hin frílistugasta. Út að borða með leikhópnum og svona. Frumsýning er einhverntíma um helgina eftir þrjár vikur, þannig að einhversstaðar í flutningunum fer ég bara austur á frumsýningu eins og fín frú. Verra mál að búið var að setja framkvæmdadag á húsnæði Hugleix þessa sömu helgi (frumsýning átti sko upphaflega að vera viku fyrr) þannig að það lítur út fyrir að ég þurfi að skrópa í tiltektardag í annað skiptið í röð. Síðast var ég á fæðingardeildinni. Fólk fer að fatta að ég skipulegg þetta allt svona viljandi...

Og þar sem þetta er nú færsla númer 1001, stórfréttir og svona, er ég að huxa um að vera með forvitni. Ég er nefnilegaalltaf að hitta fólk sem les bloggið mitt. Bara svona einhversstaðar. Á ættarmótum og úti á götu. Og mig langar til að spurja hvort menn nenna nú kannski að svala forvitni minni oggulítið, og skrifa komment við þessa færslu, allir sem mögulega lesa þetta og nenna. Svo ætla ég nefnilega að telja þau...

Við Freigáta ötlum út að labba, og leiðin liggur að sjálfsögðu vestur Ránargötuna.

20.10.06

1000!

Þetta er þúsundasta færslan á þessu bloggi! Það hlýtur að þýða eitthvað.

Ef ég myndi púlla Varríus núna og eyða blogginu mínu með manni og mús, þá færu 1000 færslur í gúanóið. Kannski maður ætti að fara að huxa til þess að seifa þetta einhversstaðar?

Erum á leiðinni að gera tilboð, brunum síðan heim og þrusum okkur Gyðu austur. (Við fljúgum klukkan 4.) Alltaf skal manni nú detta í hug að gera allt sama daginn.

Allavega, góða helgi, ég kem til með að eyða henni að mestu leyti inni á Iðavöllum og verð sennilega óverendát fram á mánudag.

19.10.06

Annað kvöld

Var að klára að pakka. Við Freigátan fljúgum austur á morgun. Hún ætlar að eyða helginni í að skemmta ömmu sinni á meðan ég vinn í leikritinu mínum með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Hvernig ég ætla að fara að því að koma sjálfri mér henni og tölvunni í heilu lagi um borð í flugvél og pína síðan Freigátuna til að vera kjura í klukkutíma, er... tja, best að brenna þann kross þegar ég kem að honum.

Fasteignadagbókin
Eftir miklu umhugsun um ónýtu íbúðina var eiginlega of margt að henni til að huxa meira um hana. Hún var:
- Ónýt
- Ekki nógu skemmtileg til að mig langaði að "gera hana að minni"
- Eiginlega of langt frá skólanum hans Róberts
- Og svo fóru að berast fregnir af allskonar glæpónum sem ku vera búsettir í grenndinni

Semsagt, hún er úti í kuldanum.

En núna áðan fengum við skyndihugdettu um að skoða eina í nágrenni okkar sjálfra. Sú íbúð er reyndar örlítið minni, en betur staðsett á alla kanta, ekkert sérstaklega ótnýt, nema hvað það er dáldið búið að ganga parketið til, og eiginlega bara... með öllu sem okkur langar í, held ég. Sennilega gerum við tilboð á morgun. Sennilega bara nokkuð gott, meiraðsegja. Við erum bara nokkuð skotin í henni þessari.

Þunglyndisdagbókin
Í morgun gerðist hið ótrúlega ómögulega. Ég vaknaði og var ekki vitundarögn syfjuð. Dagurinn var eins og aðrir bara, en heimurinn fórst aldrei. Ekki þegar ég fattaði að ég hafði klúðrað geðveikt illa eða neitt. Og ekki þó það væri mikið að gera og það fór merkilega lítið í stressurnar á mér að ég er að fara að ferðast á morgun með Freigátuna. En það hefði nú verið aldeilis líkt mér að gera allavega smá heimsenda úr því. En innra með mér var ég alveg pollróleg og ekki baun ómöguleg.

Merkilegt. Þetta er ég búin að vera að gera:

Ég er ekkert búin að vera að taka mark á því þegar ég held að ég sé sybbin. Bara sofa um 8 tíma á nóttunni og ekkert rugl.
Ég er búin að vera að nördast svolítið um þunglyndi og meðferðir við því. Bara svona lesa mér til um einkenni og yfirborðslegt um meðferðir. Ekkert heví, en ég er ekki frá því að það hafi virkað aðeins að lesa aftur og aftur hver einkennin eru... Ekki það að maður viti það svosem ekki en... einhvernveginn finnst mér það hafa síast betur inn.
Og svo er ég búin að vera að (og nú kemur klisjan) huxa jákvætt. Eiginlega bara leiðrétta sjálfa mig þegar mér finnst allt ómögulegt og sérstaklega ég. Þá hef ég vandað mig að hugsa um að það sé til dæmis órökrétt að mér finnist heimurinn vera að farast af því að ég gleymdi að kaupa lýsisperlur eða allt sé ómögulegt, og sérstaklega ég, af því að það sé ekki gjörsamlega allt á hreinu í lífi mínu.

Um daginn, reyndar fyrir akkúrat viku síðan, var ég ógurlega þreytt eitthvað eitt kvöldið. Mikið að gera daginn eftir og mér fannst þetta allt eitthvað svo ógurlega erfitt. Þá ákvað ég að reyna að hlakka til alls sem ég þyrfti að gera daginn eftir. Gerði þá stórmerkilegu uppgötvun að allt sem ég var að fara að gera daginn eftir fannst mér skemmtilegt. Ég hékk í þessari hálfuppgerðu tilhlökkun alla nóttina og daginn eftir og skemmst frá því að segja að dagurinn varð hinn skemmtilegast í langan tíma. Síðan er ég búin að vera að minna sjálfa mig á, þegar mér ætlar að fara að finnast eitthvað erfitt, að mér finnst þetta venjulega stórgaman. (Vill til að mestallt sem ég þarf að gera í lífinu þessa dagana er stórgaman og ég hef ekki einu sinni tíma til að sinna öllu sem mér þætti gaman að gera.) En þarna held ég að ég hafi snúið svolítið við. En ég átti alls ekki von á svona mikilli breytingu með einhverju svona... huxi. Hef miklu meiri trú en áður á hugrænu atferlismeðferðinni. Ætla að bögga lækninn minn í viðtalstímanum hans fyrramálið.

18.10.06

Kvöld

Ég þakka fegurðina í kommentunum við síðustu færslu. Mér finnast lesendur mínir líka allir fallegir og skemmtilegir að nenna að lesa mig. :-)

Var að horfa á Americas Next Top Model. Jade pirrar mig. Alltaf þegar ég er alveg að fara að halda með henni þá gerir hún eitthvað svo forkastanlega heimskulegt að ég get það ekki. Í kvöld ætlaði hún að þykjast fara að grenja fyrir framan dómarana. Hálfviti.

Við skoðuðum annars alveg viðbjóðslega íbúð í dag. Hún er vel staðsett, með háu brunabótamati, á lágu verði, flott sameign, barnvænt umhverfi, en, ómægod. Ég er alls ekki kreðsin á hvernig ég bý, en þarna inni þyrfti að skipta um ALLT. Gólfefni, hurðir, innréttingar, það er bara alveg svakalega fátt sem ég myndi láta í friði. Spurning daxins er, ættum við að bjóða hroðalega lágt í hana, láta svo slag standa, ef því yrði tekið, og búa í henni ógeðslegri þangað til við sjáum hvernig greiðslurnar fara með okkur og eyða síðan peningum annað slagið næstu árin í að "gera hana okkar" eins og konan sagði? (Takið eftir að ég segi peningum, ekki tíma. Það er alveg á hreinu að við erum ekki að fara að nenna að gera eitt einasta handarvik sjálf. Við erum ekki svo nennin eða smíðin. Helst myndi ég vilja láta bjóða í allt draslið í einu og gera það síðan á meðan við værum í sumarfríi fyrir norð-austan)

Hvað ættum við að gera?
Kostar svosem ekkert að gera tilboð...

Hmmmmm... huxhuxhux... bræð-úr-heila...

Held ég nenni ekki að pæla í þessu í kvöld. En gaman væri að heyra að fólk myndi ráðleggja í stöðunni?

Rannsóknarskip á leiklistarnámskeiði. Við Harry Potter ætlum snemma í rúmið.

Virkni

Ýmislegt að ske. Minni á tónleik Lúðrasveitar Reykjavíkur í kvöld þar sem meðal annars verður flutt verkið "Spaugelsi" eftir hina norskmenntuðu systur mína, Báru Sigurjónsdóttur.

Ég fór á fund í gær og ætla að leikstýra einhverju jólalegu fyrir jóladaxkrá Hugleix sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun desember. Mér finnst óskaplega gaman að vera farin að undirbúa jólin...

Erum sennilega að fara að skoða íbúð á eftir, þar sem mér virðist ég ætla að fá einu þjónustufrekjunni minni sinnt. Ég vil nefnilega að fasteignasalar sýni mér íbúðir. Ég nenni ómögulega að eiga að standa í því sjálf að hafa samband við eigendur eða leigjendur og heimta að fá að vaða inn á heimili þeirra. Ég vil að fasteignasalar komi allavega tímasetningu á viðburðinn, helst komi sjálfir og sýni þegar eigandinn er ekki heima. Þetta fannst mér líka langbesta tilhögunin þegar ég var sjálf seljandi. Fasteignasalar eiga að vera með allar upplýsingar, hafa góða þjálfun í þessu, og svo erum við líka að borga þeim alveg hreint morðfjár, gangi salan í gegn.

Mér er meinilla við að hringja á fasteignasölu út af íbúð og fá bara símanúmer hjá einhverjum "Guðmundi" úti í bæ. Hvað ef "Guðmundur" er einn af þeim sem virkar alltaf fúll í síma? Hvað ef hann er akkúrat að kúka þegar ég hringi í hann? Nei, þetta finnst mér að fasteignasalinn eigi að gera fyrir mig.

Og nú hringdi ég á fasteignasölu í morgun, konan tók niður nafnið mitt og númerið og hvenær mér myndi henta að skoða, og sagðist síðan ætla að hafa samband við mig. Ég er þegar orðin hrifin af viðkomandi fasteignasölu. (Um leið og ég lagði á mundi ég reyndar að ég hafði gleymt símanum mínum heim... en það er nú önnur saga.)

Þessa dagana er ég að reyna að glíma við þann hluta þunglyndisins sem segir manni að maður sé ómögulegur. Sem og allt sem maður gerir og er. Allt neikvætt um sjálfan mann er tekið mjööög alvarlega á meðan maður álítur hrós vera annað hvort óekta eða tilkomið af fáfræði viðkomandi. Ég huxa að þetta sé það skaðlegasta af kvillanum. Að finnast maður alltaf vera að gera allt illa. Þó maður sé kannski að gera fullt af hlutum hrrrroðalega vel, þá getur maður huxað til þess að maður gleymdi nú reyndar að taka úr þvottavélinni í morgun... og þar með er maður orðinn mislukkaðasti einstaklingur heims. Hreint ekki neitt rökrétt við þessa röksemdafærslu. Meiri geðveikin.

Í dag langar mig að prjóna eitthvað.

17.10.06

Braskið

Gerðum tilboð í íbúð í gær, en gömlu og gráðugu hjónin sem áttu hana vildu víst fá meiri péning. Issss.
Annars finnst mér ekkert verra að hafa afsökun til að stunda fasteignaklámið aðeins lengur. Það er samt ýmislegt fyndið við hann. Eins og til dæmis allar hálflygarnar sem menn setja á fasteignavefinn.

Því er til dæmis gjarnan haldið vandlega leyndu ef íbúðin er í kjallara eða á jarðhæð. Sem er svolítið erfitt þegar maður er einmitt að leita að. Svo er það einhver undarleg árátta að setja bílastæði í bílastæðahúsi inn í fermetrafjölda íbúðar. Sem er auðvitað bara kjánalegt. Við getum ekki neitt búið í 65 fermetrum, þó bílastæðið sé 30 fermetrar. Ættum við kannski að hafa hjónaherbergið á bílastæðinu? Eða kannski bara stofuna? Hmmm.... efni í einþáttung? Kannski meira svona Spauxtofuskets.

Í gær var brjálað rok og kalt og ég var sjóbarin þegar ég kom hjólandi heim. Í dag þorði ég ekki að hjóla í vinnuna af því að það var hálka. Af því tilefni labbaði ég og gekk því niður Laugaveginn eftir hádegi. Það var nú aldeilis hættulegt. Það eru komnar geðveikt margar nýjar búðir. Og þegar maður er ekki einu sinni með barnavagn til að halda sér í þá getur maður sko alveg eytt útborgun í íbúð í vesturbænum á einni ferð. (Ég gerði það ekki, samt.)

Tókum okkur pásu í dag frá íbúðaskoðunum til að komast yfir höfnunartilfinninguna. Tékkum kannski á einhverju á morgun.

16.10.06

Það er svo margt...

Búin að eiga aðgerðaríkan morgun. Við erum að fara að skoða íbúð í dag sem við ágirnumst nokkuð. Skoðuðum eina um helgina sem við héldum að við ágirntumst, þangað til við skoðuðum hana. Sjáum til hvað kemur í ljós.

Er líka búin að tala við leikstjórann minn fyrir austan. Er að fara að höfundavinna þar í leikritinu, sem mér heyrist eiga að heita sínu upprunalega nafni, Listin að lifa. (Sem er það sama og tímarit eldri borgara heitir, tjáði amma mín mér í gær.) En, semsagt, er að fara austur á föstudag og verð við strangar æfingar þar fram á sunnudag. Tek Freigátuna með mér, svo amma-Freigáta getur farið að hlakka til.

Svo er viðtal við okkur Varríus í sunnudaxmogganum. Þar er einn fyndinn og rangur misskilningur. Þeir sem geta spottað hann fá grundvallar-krasj-gráðu í Hugleiksfræði.

Svo er systir mín tónskáldið komin til mín og ætlar að vera alla vikuna. Hún er að huxa um að reyna að týna saman húsbúnaðinn sem hún á hjá mér, auk þess að tónskálda úti um allan bæ. Það er verið að fara að spila eitthvað eftir hana á tónleikum í Neskirkju á miðvikudagskvöldið klukkan hálfátta.

Og svo birtist víst eitthvað eftir systurina blaðamanninn í fréttablaðinu á hverjum degi... Það er sumsé alltaf eitthvað "eftir" okkur allsstaðar. Ætli pabbi sé ekki hættur að reyna að safna í fjölmiðlaumfjöllunarmöppu afkomendanna?

15.10.06

Dobbúl fítjör

Ég er alveg hrroðalega léleg við að horfa á bíómyndir. Sem er náttlega til skammar þar sem ég er gift kvikmyndanörra og heimilið er nánast veggfóðrað í myndum á vídjó og DVD-formi. Þess vegna kom ég sjálfri mér og alheiminum mikið á óvart þegar ég horfði alveg á næstum tvær myndir í gærkvöldi.

Sú fyrri var Bride and Prejudice. Þurftum reyndar að geyma síðasta hálftímann af henni til seinni tíma þar sem börnin þurftu að komast í rúmið einhverntíma. Þetta var fyndin mynd. Bollywood lítur út fyrir að vera skrítinn staður. Þetta minnti talsvert á mörg Hugleixverk. Nema ég er ekki alveg viss um að þessi hafi verið að grínast.

Þegar barnarotanir höfðu verið framdar horfðum við á Stepford Wifes. Þvílík snilld. Og þvílíkur fábjáni sem datt í hug að það væri sniðugt að endurgera hana. Sé alls ekki þörfina á því.

En ég varð fyrir svo miklum áhrifum að ég bakaði í dag.

12.10.06

Þunn-Glindi

Eins öfugsnúið og það nú er, þá held ég að ástæðan fyrir því að þunglyndissjúklingar ættu ekki að neyta áfengis, og að þeim finnst óstjórnlega gott og gaman að neyta áfengis, sé ein og hin sama. Systir mín blaðamaðurinn, sem einnig er sálfræðingur, útskýrði þetta fyrir mér í einni setningu einhverntíma. Það er vegna þess að þá hreinsar maður upp allar birgðirnar.

Serótónínbúskapur hefur kannski verið í einhverju hakki. Þá er óstjórnlega gaman, svona rétt á meðan maður er að kjamsa á birgðunum af því. Því minna skemmtilegt eftir á. Næstu daga eftir fylleríið er maður nefnilega að vinna sig upp úr engu.

Einkenni næstu daga geta farið frá einhverri lítilli nagandi tilfinningu um að eitthvað sé að, upp í að vera hamslaust og stanslaust dramakast yfir öllum heiminum. Og ef maður er þegar á hægri leið niðurávið, getur þetta sett mann í smá rennibraut.

Mínum fylliríum hefur fækkað með árunum. Meðal annars vegna þessarar andlegu þynnku sem ég nenni ekki. Á tímabili reyndi ég að undirbúa þynnkur svakalega vel. Hafði íbúðina mína algjörlega fullkomlega fína, engan reikning óborgaðan eða mál í heiminum óleyst, reyndi að eiga fullan ísskáp af þynnkumat, var jafnvel búin að ákveða fyrirfram í hvaða inniföt ég ætlaði að fara þegar ég kæmi úr baðinu (sem líka var búið að þaulskipuleggja) og setja viðeigandi efni í vídjóið/DVD-spilarann.

Það virkaði aldrei. Þessi mislitla nagandi rödd er nefnilega ekki til staðar út af neinu sérstöku. Það þarf hreinlega ekkert að vera að í heiminum til að maður lendi alveg niður í kjallara.

Það sem mér hefur þótt virka skár er að fara í lanngan göngutúr, eða gera jafnvel eitthvað ennþá erfiðara. Vera úti og gera eitthvað erfitt virðist kannski kikkstarta einhverju í smá stund.

Ég kemst yfirleitt upp með að drekka í hófi. Eftir tvo bjóra er ég að taka áhættuna að eftirköst verði. En auðvitað er best að sleppa þessu bara. Mér leið til dæmis alveg ljómandi þessa mánuði sem ég var ólétt. (Á geðinu. Fékk reyndar grindverk í staðinn. En hann olli mér merkilega litlu ógeði.)

En, sem sagt, stutt og leiðinleg lausn. Ekki drekka vín. :-(

11.10.06

Hamingjan

Fyrir fimm árum síðan, í gær, var opnuð typpislaga verslanamiðstöð í Kópavoginum.
Þremur árum síðar felldum við Rannsóknarskip hugi saman, á Ákureyrinni.
Ári eftir það, fyrir ári og degi síðan, trúlofuðum við okkur, alveg óvænt, í miðjum Buffy-þætti (Buffy vs. Dracula, nánar tiltekið).
Tilviljun?

Í gær áttum við sumsé tveggja ára kærustuparsafmæli og einsárs trúlofunarafmæli. (Falla trúlofunarafmæli annars nokkuð út gildi þegar maður giftir sig?) Heldur varð nú samt lítið um dýrðir af því tilefni. Rannsóknarskip að drukkna í verkefnum, Freigátan í stanslitlu "uhu-uhu" kasti (tóxt meiraðsegja að láta Huggu uppáhaldsfrænku fá alveg nóg af sér, þá stuttu stund sem hún stoppaði hjá okkur) og allt var einhvernveginn á haus. Við réttsvo meikuðum að gúlla í okkur smá súkkulaði áður en ég fór að sofa og hann hélt áfram að vinna.

En, for ðe rekkord, þá erum við alltaf jafn hamingjusöm og finnst skemmtilegt að vera gift hvoru öðru. Og Freigátan er líka alltaf jafn fullkomin. Er bara að fá þrjár tennur í einu akkúrat þessa dagana.

Einar fréttir fékk í gær, alveg einstaklega góðar. Greiðslumatskjaftæðið hefur verið afnumið. Nú setur maður bara upplýsingar um hvaða tekjur maður þykist hafa, hvað maður þykist eiga, og svo framvegis, inn á þartilgerðan vef-útreikni hjá Íbúðalánasjóði, og þeir sjá um að tékka á því hvort maður er nokkuð mikið að ljúga. Í stað þess að maður þurfi að fara á allar skrifstofur í heimi og fá eitt blað á hverri. Og ef maður er svo vitlaus að vera að taka hærra lán en maður hefur efni á, nú þá verður íbúðarholan bara hirt af manni, seinna. Þetta er algjör snilld. Styttir ferlið að því að við nennum að fara að skoða íbúðir til muna.

Hefði nú verið kúl ef við hefðum keypt okkur fyrstu íbúðina okkar á saman-trúlofunar-afmælinu? Kannski of rúðustrikað?

Allavega, nú held ég að vinnufárinu fari alveg að létta af Rannsóknarskipi og þá förum við að skoða tvo svakalega rúmgóða kjallara sem okkur langar í.
Jeij!

9.10.06

Lallallallallallalla...

Eru engir aðrir en ég með nýja titillagið úr Stundinni okkar á heilanum langt fram á mánudag?

Við Freigáta fórum í dag og fjárfestum í þessum fínu pollabuxum handa henni fórum svo með hana til skriðæfinga við Kristkirkju, sem er orðinn hápunktur daxins hjá okkur báðum. Svo fór hún í rennibraut og við róluðum. Þetta gerði alltsaman geðveika lukku.

Leikritið mitt fyrir austan er víst farið að heita eitthvað og ég fer líklega til þeirra til að vinna meððeim íðí um næstu helgi eða þarnæstu. Reyndar misstu þau aðalleikkonuna um daginn, en það er allt í lagi, frænka hennar tók bara við hlutverkinu. Hefur einhver séð einþáttungirnn einræktun er hreinræktun? Þetta er allt hvað undan öðru.
En ég veit ekki ennþá hvenær á að frumsýna... gleymi alltaf að spurja að því.

Annars er eitthvað þunglyndi, sennilega skammdegis-, eitthvað voða mikið að bögga mig. Sem lýsir sér þannig að suma daga finnst mér allt vera vesen. Líka það sem mér finnst venjulega skemmtilegt. Og það er algjör synd af því að þessa dagana er ég bóxtaflega ekki að gera neitt sem mér finnst leiðinlegt. (Eða allavega fátt ;-) Börnin eru sæt. Rannsóknarskipið alltaf sama æðið. Vinnan skemmtileg. Og... það þarf ekkert að skúra stofuna. Ég er meiraðsegja búin að skrifa Ríkisskattstjóra vegna leiðréttinga sem ég þarf að láta gera á skattaskýrslum síðustu tveggja ára. (Fyndið bréf sem byrjar á: Kæri herra Ríkisskattstjóri.)
Ég fór að hitta heimilislækninn minn í dag, og hann ætlar að reyna að koma mér að í "hugræna atferlismeðferð" sem ku vera mjög í tísku. Hann sagðist hafa verið sendur á námskeið til að kynna sér þetta og sagði að þetta virkaði alveg fyrir suma. Mig langar allavega að prufa. Ætti kannski að láta systur mína sálfræðinginn setja mig í svoleiðis í staðinn fyrir að ég tek alltaf upp fyrir hana Beverly Hills 90210? Sem bendir reyndar til þess að hún þurfi einhverskonar atferlismeðferð...

Við erum að byrja að mjaka pappírum á rétta staði til að þokast í áttina að því að geta sótt um greiðslumat. Ég hlakka bara til að fara í aðra íbúð. Þó hún verði minni.
Já, ég er nýjungagjörn.

Óska annars Nönnu og Jóni Geiri til hamingju með nýju íbúðina sína, sem ku vera raðhús í Mosfellsbænum. Já, við erum öll að ferkantast.

6.10.06

Pöbblissití

Stundum er maður einhvern veginn úti um allt. Þá verða bloggfærslur símskeytakenndar.

- Fyrsta Mánaðarleg Hugleix í Þjóðleikhúskjallaranum heppnaðist með afbrigðum vel. Stop. Er, kannski ekki beint í tilefni af því, heldur bara, að fara í Moggaviðtal ásamt fyrrverandi formanni, í næstu viku. Við ætlum að monta Hugleik.

- Á öðrum, en samt svolítið sama, vettvangi, skrauf ég þessa grein í dag. Enda er þetta náttlega hneisa. Það er voðalega auðvelt að þykjast ætla að skila tekjuafgangi í ríkissljóð með því að klippa hundraðþúsundkalla og hálfarmilljónir af fjárframlögum, hér og hvar, og ímynda sér að enginn taki eftir því. En hinn fjársvelti heimur áhugaleiklistarinnar finnur mjög gjörla fyrir hverjum þúsundkalli. Fussumsvei.

- Bærinn er skrítinn, hann er fullur af húsum. Þó er hann enn fyllri af grasflötum sem enginn er nokkurn tíma á. Nema kannski á nóttunni þegar unglingar borgarinnar ku koma þar saman til að míga, skíta, gubba og sprauta sig, eftir því sem þeir ferkantaðri af eldri kynslóðinni vilja halda fram. Við Freigáta erum í löngum gönguferðum að skoða húsin í Vesturbænum þessa dagana. Í dag ákváðum við að taka eina svona grasflöt, þar sem pissulykt og sígarettustubbar voru í lágmarki, og brúka til skriðæfinga utandyra. Það er ekki von að vel fari, fyrir fyrstu kynslóð á mölinni. Skömm frá því að segja að þetta var í fyrsta sinn sem barnunginn fékk að hreyfa sig um úti í "náttúrunni" eftir að hún lærði að skríða. Tilraun þessi mæltist vel fyrir. Freigátan fór um á fleygiskriði og smakkaði á ýmsu gróðurkyns og einu tyggjóbréfi. Paradísarheimt.
Fljótlega kom þá að því að halda þurfti heim á leið þar sem móðurskipið hafði hreint ekki haft huxun á því að klæða barnið til útiskriðæfinga í garranum. Paradísarmissir. Einsöngstónleikar voru haldnir alla leiðina heim. Og annað slagið síðan. Kannski er að koma tönn...

- Og svo er líklega best að fara að eigin ráðum. Eftir að hafa skrifað þessa fínu og meðvituðu þunglyndisgrein er ég loxins búin að panta tíma hjá lækninum mínum til að ræða meðferðarúrræði. Einkenni undanfarið hafa svosem ekki verið mikil, og örugglega ekki mjög sýnileg. Enda er það sjálfsagt mörgum eðlilegt að vera lengi á lappir á morgnana, leikstýra ekki í októberprógramminu og finnast heimurinn farast pínulítið í hvert sinn sem maður þarf að gera eitthvað. En Minn Rétti Karakter er einfaldlega ekki þannig. Og mig langar ekki að enda með sófafílíu og veraldarfælni í þetta skiptið. Svo það er um að gera að taka í hornið á geitinni og snúa hana niður strax. Enda langar mig að sleppa við að þurfa lyf, nú hef ég huxað mér að kanna "möguleika á öðrum meðferðarúrræðum" eins og það hét í Kastljósinu í gær. Á Degi Geðheilsunnar finnst mér það bara passa.

- Stórleikarinn Smábátur brunaði norður yfir heiðar með föðurfólkinu sínu, sem upplifði sitt fyrsta Mánaðarlega hjá Hugleik í gærkveldi og var enn uppnumið af hamingju áðan. Bátinn endurheimtum við á sunnudaginn.

- Ég ætlaði alveg örugglega að tjá mig eitthvað fleira, en litla Freigátan er alltaf að vakna og gráta þannig að samning þessa pistils er búin að taka hálft kvöldið. Og ég man ekki neitt lengur. Já, ég held það sé örugglega að koma tönn.