5.7.08

Blíðan heldur ótrauð áfram

og það reitist inn efni í blaðið, þó maður geri ekkert til þess. Ég sé að rétta leiðin er að þvælast um bæinn með blaðsíðufjöldann og efnið sem mann vantar svona óljóst í bakhöfðinu og einhverjar hugmyndir um hvaða fólk væri gaman að ræða við um það, en láta þetta annars alltsaman ráðast af því hverja maður hittir, svona á götunni, í pottinum og héroghvar.

Er allavega alveg steinhætt að vera neitt rosalega stressuð yfir þessu. Og nú er ég farin út í blíðuna að spila Petanque við Rannsóknarskip og Smábát og kannski einhverja fleiri.

Sipp og hoj.

3.7.08

Fimm mánaða tönnin...

Þessi ungi piltur í fimm mánaða í dag og í tilefni daxins fékk hann sína fyrstu tönn. Hann er orðinn jafnvel enn rólegri en venjulega, svo þessi tönn hefur greinilega eitthvað verið að "angra" hann.

Freigátan er annars hin sprækasta, búin að kynnast hundi í næsta húsi og strák í því þarnæsta. Smábátur er kominn til okkar og verður fram á sunnudag. Eitthvað þykja honum tæknimál heimilisins bágborinn og ekki laust við að honum leiðist. Áðan ráðlagði ég honum þá bara að hjálpa mér við heimilisstörfin sem ég virðist aldrei sjá frammúr. 
Hann hvarf.

Og ég er búin að komast að því að á Egilsstöðum gerist minnst af ritstjórninni á skrifstofunni. Ég er búin að vinna ritstjórnarvinnu í Húsasmiðjunni, yfir limgerðið heima hjá mér, og er að fara að ritstýra svolítið í morgunverðarboði í fyrramálið. Þarf síðan að skreppa í kaffi á nokkra staði í viðbót og þá er blaðið komið. (Fékk reyndar svoldið tilfelli í gær þegar ég fattaði að mig vantar um 14 blaðsíður af efni... pabbi sagði reyndar: Isss, það er nú ekkert... svo ég varð minna stressuð.)

Nú þarf ég bara að reyna að láta heimilið verða nokkurn veginn sjálfbært og svo ég geti farið að vera þessi útivinnandi kona sem ég ætlaði mér að vera, allavega hálfan daginn, í júlí. Þegar ég er ekki að ritstýra í bæjarlífinu vil ég síðan geta verið úti með mitt fólk. Það var nefnilega að bresta á með blíðu, bara rétt í þessu.

2.7.08

Páll Ólafsson

Las í Mogganum í gær að ástarljóðin hans Páls Ólafssonar hafi selst upp. Fólki finnast þau nefnilega svo sæt og rómantísk...

Ég er að lesa þessa bók núna, og er líklega að fara að skrifa um hana ritfregn í Gletting. Enda er hún vel saman sett, forvitnilegir kaflar í henni um ævi og störf Páls og samband hans við konurnar sínar og flott vinna í þessari bók. Sosum.

Og Páll svosem fornvinur minn, hafandi búið á Hallfreðarstöðum, hvar móðir mín ólst upp og ég var seinna heilmikið í sveit hjá Móðursystur minni. Maðurinn hennar, hann Gísli, var svona krónískur kennari sem eyddi heilmiklum tíma í að kenna mér að yrkja og Páls sögu Ólafssonar.

En ég get ekki að því gert að þegar ég les þessi ljóð, vitandi við hvaða aðstæður þau voru ort, finnst mér höfundurinn hafa verið fábjáni og reglulegt andstyggðartól. Hann á sumsé í framhjáhaldi við barnunga dóttur besta vinar síns, heitins. Og þykist eiga með það að yrkja henni ógurleg saknaðarljóð, sem flest eru full af ásökun og sjálfsvorkunn, þegar hún vogar sér að fara til Reykjavíkur í einn eða tvo vetur. Frá honum. Harðgiftum manninum sem hefur ekkert huxað sér að fara frá konunni sinni, sem þó var síður en svo óþekkt á þeim tíma, sama hvað menn halda um hina siðsamlegu gömludaga. Hann hikar ekki við að kenna stúlkugreyinu um alla sína óhamingju og dregur minningu föður hennar samviskulaust inn í hóraríið. Sveiattan bara.

Og þessari "rómantísku ástarsögu" lyktar þannig að unga stúlkan bíður eftir honum í 17 ár, alveg þangað til fyrri konan hans deyr, giftist honum það sama ár, en þá er hann orðinn gamall kall og ekkert nema geðvonskan það sem eftir er ævi hans. 

Éld henni hefði verið nær að segja honum að fara með sitt væl lóðbeint til helvítis. Ná sér svo í einhvern alminilegan í Reykjavík. Því eigulegur maður hefur hann Páll Ólafsson ekki verið. Og mér er alveg sama þó hann gæti vísað.

Nú vildi ég óska þess að hann fóstri minn væri enn á lífi svo ég gæti rifist soldið við hann um mannkostaleysi og Páls Ólafssonar.

1.7.08

Og það rignir og rignir og rignir...

Sjaldan er ein báran stök. (Nema Bára syss, sem er nottla einstök.) Þegar Rannsóknarskip byrjaði að skríða saman eftir hálsskurðinn fékk hann í bakið og er því enn í lamasessi. Mikið djöfull svakalega er ég orðin þreytt á þessu endalausa "ástandi" sem virðist alltaf vera á einhverjum í fjölskyldunni. Og ég er hætt að ímynda mér að linni. Nú er bara að sjá hvað tekur við þegar húsbóndinn rís upp af bakbeðnum. Grrrr.

Allavega, nú eru dagar umskiptanna. Bára fór í gær, barnapían fer á eftir, en í kvöld koma Hugga syss og Smábáturinn. (Ný systir og nýr barnapír.) Svo það koma menn í manna stað. Svo á ég von á Siffa bróður fljótlega með sína frú og hennar fjölskylda kemur líka bráðum og verður í sumarbústað á Einarsstöðum. Svo veðrið bara verður að fara að skána eitthvað, annars fær Siglufjörður leiðinlega mynd af Héraðinu. (Ekkert ranga, en leiðinlega.)

Annars er að komast á vanagangur hér. Ég reyni að vinna á morgnana og kem til með að gera meira af því ef húsbóndinn hættir einhverntíma í örkumlinu. Og hann verður nú að gera það áður en kemur golfveður. Eitthvað erum við líka búin að þvælast um Austurlandið og reynum að gera meira af því á meðan Smábáturinn stoppar. En það verður víst eitthvað skemur en til stóð þar sem drengurinn ætlar að skella sér á reiðnámskeið í Eyjafirðinum uppúr 7. þessa mánaðar. Sem hljómar svo spennandi að við tímum alveg að sjá af honum í það. Svo skreppum við kannske eitthvað norðurum í kringum miðjan mánuðinn.

Já, það er víst kominn júlí! Mánuðurinn sem virðist alltaf vera styttri en aðrir mánuðir og veldur mér undantekningalaust veðurfarslegum vonbrigðum! Og í honum ætla ég að ritstýra einu tölublaði af áður margnefndum Glettingi. 
Sosum ágætt að vera bara oní kjallara á meðan slyddan hamast úti...

Og bezt að minna sjálfa mig á að tjá mig um Pál Ólafsson á morgun.

30.6.08

Óþelló á færeysku!

Var búin að gleyma að um daginn barst mér daxkráin af leiklistarhátíðinn sem ég er að fara á í Lettlandi í ágúst. Þar er ýmislegt sem vekur tilhlökkun... og annað ugg. 

Það sem verður sennilega ferðarinnar virði eitt og sér er færeysk sýning á Óþelló hinum sjeikspírska. Ójá. Skakspjót á færeysku. Það er einhvern veginn ekki hægt að klúðra því. 

Við fáum líka að sjá Fröken Júlíu hans Strindbergs á sænsku... Veit ekki alveg... Sjens á flottri sýningu þar, eða alveg rosalega góðum blundi. 

Danir og Norðmenn eiga til að mæta með einstaklega vondar og leiðinlegar sýningar á svona hátíðir. Í þetta sinn sýnast mér þeir ætla að toppa sjálfa sig, báðir með sýningar sem eru óljósar að uppruna og byggja á einhverjum óskilgreindum "spunum". Ég er ekkert yfirfull af bjartsýni.

Finnar eru með verk eftir Mark Ravenhill. Nokkuð spennandi... en nokkrar horfur á ógeði. Sem getur verið gaman ef almennilega er farið með það.

Litháar mæta vopnaðir Tjekoffi, Lettar eru með tvær sýningar, opnunarsýninguna og svo eina byggða á þjóðsögum, og Eistar eru með innlent. Til þessara sýninga geri ég himinháar kröfur og tek það sem persónulegri móðgun ef þær verða ekki allar frábærar.

Og svo er alltaf ein utansambands gestasýning. Í þetta sinn frá Þýskalandi. Vona bara að hún verði betri en belgíski hroðinn sem ég sá helminginn af á hátíðinni í Eistlandi 2004.

Og svo verða tveir morgnar af námskeiðum, skoðunarferð um Riga og einn gagnrýnimorgun. 

Þetta verður gríðarlega skemmtilegt og ég fer alveg að telja dagana. Á von á að koma til baka yfirkomin af andlegri og leiklistarlegri fullnægju og hella mér í leikritaskrif... sem minnir mig á það... ég þar að ganga frá nokkrum umsóknum.

Kaffi

Nú þarf ég eitthvað að endurskipuleggja. Er með toppgræju sem mamma á í "nýja húsinu" þar sem við búum. En það er alveg hroðalegt að vera búinn að drekka ilmandi bolla af cappuchino heima og koma svo í vinnukjallarann og komast að því að hér er ekkert til nema eitthvað ævafornt nes. Þetta er bara með því verra sem ég hef smakkað. Og ekki bara kaffi.

Svo endurskipulagningar er þörf.

Er annars að koma Rannsóknarskipi inn í húsföðurstörfin, hægt og bítandi. Í morgun fór fram kennslustund í ungbarnagraut og í kjölfarið átti að vera pelaæfing en þá sagði Hraðbáturinn hingað og ekki lengra. Hann fékk þess vegna bara venjulegt og ég þorði ekki að heiman fyrr en hann var sofnaður og feðginin komin í gott stuð inni í dótaherbergi.

Annars er Rannsóknarskip nú óttalega druslulegur ennþá. Bryður verkjalyf og er gulur í framan. Það tekur sem sagt lengri tíma að jafna sig eftir hálskirtlatökur heldur en barnsfæðingar... allavega sumar. Ég var allavega alveg steinhætt að taka verkjalyf eða vera gul 10 dögum eftir að hraðbáturinn fæddist. (Var reyndar sífellt eitthvað að klúðra mjólkinni af því að ég gleymdi að hvíla mig.)

Jæja. Mér er víst ekki til hangs á bloggum boðið. Eins og þau eru nú freistandi. 8 síðna grein um Papey bíður lestrar og svo þarf ég að hringja í hundrað manns. Sssstuð.

29.6.08

Út rekin

Undanfarið hefði ég bæði getað dáið og drepið fyrir að fá að vera alfriðuð í þó ekki væri nema klukkutíma, eða svo. Samt fór mér nú svo að þegar Rannsóknarskip byrjaði að reyna að reka mig í vinnuna uppúr fótaferð í morgun að ég ætlaði aldrei að drattast í kjallarann. Fann mér þess í stað ýmislegt til dundurs, er búin að vaska upp í leka vaskinum í húsinu okkar, fara í bleyjumó og ýmislegt smálegt. En er lox komin niður í vinnufriðinn og er að anda að mér þögninni.

Í gær ákvað stórfjölskyldan nefnilega að í dag skyldi haldinn fimmtudagur. Það er nefnilega bara spáð einhverjum rigningarhroða hér, en von er á einhverri smáglætu á fimmtudaginn. Og þar sem ég hef huxað mér að vera byrjuð að vinna fyrir hádegi á fimmtudag, þá er ég mætt í kjallarann með uppbrettar ermar og þarf nú að lesa einhverjar greinar og hringja í mikinn fjölda manns... en þykir reyndar ekkert sérlega líklegt til árangurs eður bóngæsku að gera það fyrir hádegi á sunnudegi... svo ég læt mér nægja að undirbúa erindin og grafa upp símanúmer í dag.

Datt annars í þanka um enn eitt framtíðarskipulag í morgungjöfinni sem hafði í för með sér búsetu á Hallormsstað... Framtíðarskipulögin mín eru annars orðin svo mörg að ég þarf að fara að skrifa þau niður. Svo á Rannsóknarskip að velja. Og öll eru þau komin undir ýmsu í þróun mála á næstu árum. Engar skipulaxbreytingar eru fyrirhugaðar á allra næstunni.

Bezt að hummast til að fara að vinna.