19.8.06

Hefðir og Hamingjur!

Það bara hrynja úr þeim drengirnir. Svandís og Jónatan, til hamingju með Þór Sebastían Jónatansson Wilkins. (Þetta hljómar nú eins og hann sé konungborinn.)

Og það hefur myndast hefð á þessu heimili. Á menningarnótt er veikt barn á heimilinu. Í fyrra var Smábáturinn með hita og ég með grindargliðnun. Við lágum þess vegna bara í sitthvorum sófanum og leyfðum Rannsóknarskipi að menningarnótta. Nú er Freigátan reyndar að jafna sig, en hún er nú samt enn með nokkrar kommur svo ég huxa að draumsýnir mínar um að stunda menningarlegt uppeldi hennar á listasöfnum miðbæjarins í dag verði að engu. Ætla nú samt að senda Rannsóknarskip og Smábát út af örkinni eftir upphafsleik ensku deildarinnar. Mér finnst nú samt líklegast að þeir planti sér bara fyrir framan svið með popptónlist eða annarri lágmenningu. ;-)

Sjálf fæ ég kannski að kíkja út í kvöld! Fæ mér kannski meiraðsegja bjór ef ég finn einhversstaðar einhverja skemmtilega tónlist og fólk. Mæla menn með einhverju? Vill einhver kannski koma með? Þekki ég einhvern sem ekki er nýborinn?

17.8.06

Nýr!

Til hamingju Berglind og Markús. (Barn er þeim fætt, sonur er þeim gefinn, 17 merkur og 56 sentímetrar, fyrir þá sem til þekkja og áhuga hafa.) Ekki tók þetta nú langan tíma hjá henni, blessaðri. Og ég sem ætlaði að setja inn einhverja startkaplabrandara um hana í dag. Á þessum tíma sólarhringsins (sem er núna, um ellefu um kvöld) sem ég var gangsett var ég nú bara rétt að byrja að reyna að eiga barn. Og átti sko eftir að verða lennnngi. En, ég bara bíð eftir fréttunum af því að barn tvö sé sko mikkklu auðveldara. (Vona nú samt að Svandísar fæðing verði ekki mikkklu auðveldari en hin, þá gæti barnið nú bara dottið allt í einu á þvottahúsgólfið.) En nóg um barneignir.

Tölum frekar um ungabörn. Freigáta er búin að vera með mikinn hita í tvo daga. Hún er búin að vera voða lasin og hefur ekkert getað sofið. Ég hélt hún væri bara að taka tennur. Fór nú samt með hana á læknavaktina þegar hún var komin með 40 stiga hita. Það fannst ekki nokkur skapaður hlutur að barninu. Nema hiti. Enda er hún nú bara kát, þó hún sé lasin, og borðar eins og hestur og allt það.

Þannig að við Rannsóknarskip erum frekar úldin akkúrat þessa dagana. En nú erum við búin að fá Ömmu-Freigátu í heimsókn og ætlum aldeilis að þræla henni út áður en við skilum henni í Borgarfjörðinn á morgun.

16.8.06

Gróa og Sigþrúður!

Er búin að reyna að ná í ykkur svona annað slagið í sumar, samt ekkert mjög mikið af því að ég held alltaf að þið hafið svo mikið að gera á gistiheimilinu. Allavega, takk kærlega fyrir sendinguna í vor. Hún er mjög mikið notuð. Og hér er sýnishorn:

Myndir

Var eitthvað ferlega vakandi frameftir og setti inn haug af myndum frá því örskömmu eftir fæðingu Freigátunnar. (Engar voru teknar á meðan á athöfninni stóð.) En þarna er nú samt ýmislegt krassandi, m.a. alljótustu myndir sem teknar hafa veirð af sjálfri mér.

15.8.06

Rotta!

Í dag var fjörtíogátta stiga hiti á pallinum mínum. Að því tilefni var gestum og gangandi boðið upp á te. Í tilefni daxins ákvað litla fjölskyldan ennfremur að bregða sér í hópferð á bókasafnið. Í framhaldi af því skilgreindist ég allt í einu. Það gerðist þegar ég ákvað að skreppa í búð í bakaleiðinni og var allt í einu komin niður í 10-11 í Austurstræti án þess að átta mig á því hvernig ég leit út. Var sumsé á stuttbuxum og sveittum bol með hárið út í loftið, bæði á hausnum og löppunum. Og á inniskónum. Áttaði mig á því að svona myndi bara koma fyrir miðbæjarrottu. Fór að horfa í kringum mig. Það var einn svipað útlítandi, og svo nokkrir rónar. Hinir voru í túristafötum eða temmilega fínir. Allavega klæddir. Alveg er ég viss um að þessi eini úfni býr í grenndinni. Það var bjánalegt að líta svona út svo ég flýtti mér heim.

Smábátur og Rannsóknarskip eru á landsleik. Freigátan er að fá tönn og ég er búin að svæfa hana þrisvar. Nú ætla ég að fara að gera soldið við það sem ég tók á bókasafninu í dag... Hefur að gera með þriggjaþáttaskrifin fyrir helgina.

Að lokum: Freigáta í Hoppirólu.

14.8.06

Skrif

Sagðist á stjórnarfundi í dag ætla að skrifa þrjá einþáttunga fyrir sunnudag. Er búin að gera einn, laga annan, og laga tvö eintöl. Og það er ennþá mánudagur. Þetta var mont. (En ekki skal fjölyrt neitt um gæðin...)

Hjólhesturinn fór í endurupphalningu í dag, og nú virka allir gírarnir. Það er nú gott. Eins er heilsuátak í mataræði fjölskyldunnar komið í fullan gang. Af svo svakalegum áhuga að þegar ég kom af stjórnarfundi voru Smábátur og Rannsóknarskip búnir að skanna heilsuréttamatreiðslubækur heimilisins. Hér verður sumsé tómt grænmeti á borðum í vetur og við ætlum öll að vera orðin þvílíkt hoj og slank, bara helst strax um jól.

Og, ein Freigátusaga í lokin. Hún varð í fyrsta skipti hrædd við eitthvað um daginn. Það var þegar Smábátur kom heim, en honum áskotnaðist í Tívolíinu í Kaupmannahöfn forláta gíraffi. Hann er alveg rúmur metri á hæð og einkar sauðslegur á svip. Þetta þótti Freigátu nú vera hið mesta skaðræðiskvikindi, þannig að fyrirbærið þurfti að fela uppi í Smábátsherbergi hið snarasta. En mér þykir daman hafa undarlegan smekk fyrir hræð-efnum. Gíraffar? Meinleysislegustu dýr sem maður sér.

13.8.06

Gei Præd og tiltektir

Þetta var nú aldeilis gagnleg helgi í okkar bekk. Tiltektir, endurskipulagning á eldhúsinu, og allskonar skipulagning á framtíðinni. Svo fórum við með Freigátu á sitt fyrsta Gei Præd. Það fannst henni mjög gaman og hún var sérlega hrifin af Páli Óskari. Og eins og það væri ekki búið að taka nóg til, þá fór ég í dag að skipuleggja myndirnar í tölvunum okkar og er búin að henda smáslatta í viðbót inn í myndaalbúmið okkar á netinu. Og nú er að koma vinnuvika 2!

Mér leiddist reyndar ekkert í fæðingarorlofinu, en því átti ég nú eiginlega von á, samt er nú ógurlega gaman að vera komin í vinnuna aftur. Þarf meira að segja að fara í burtu heila helgi á haustfund í lok september. En Rannsóknarskip er nú svo mikill ofurfaðir að ég er viss um að ég get haustfundað algjörlega áhyggjulaus.

Og nú er húsið ógurlega hreint, slatti af myndunum komið í þvílíka röð og reglu, Freigátan sofnuð geðveikt snemma og nú er ég að huxa um að leika mér pínu í tölvuleik!