9.9.09

Kennitöludagur

Það verður að blogga þegar er svona flott dagsetning. Skora á alla sem eru óléttir og innan skekkjumarka með fæðingardag að drífa sig nú. Enginn ætti að láta svona kennitölu framhjá sér fara!

Annars er ekkert sérstakt í fréttum. Er búin að fá tímasetningu á gítartímana mína. Þá er að fara að æfa sig. Bara eftir að borga. (Áts.) En þar sem Bjarni Ármanns er að fá 800 milljónirnar sínar niðurfelldar, þá hlýtur nú bara að vera tímaspursmál um hvenær kemur að mér og öllum hinum plebbunum sem eyddi peningunum sínum bara í eitthvað skynsamlegt eins og þak yfir höfuðið.

Er það ekki? Jóhanna?

Annars á ég bæði pott og pönnu og er ekki feimin við að notaða!
Eins oft og þarf áður en einhverju skikki verður komið á málin og einhver af öllum þessum bráðsnjöllu leiðum, sem alveg rignir þessa dagana, verður beitt til að ég þurfi ekki að borga bruðlið í Bjöggunum, Björnunum og öllum bévítans bjálfunum.
Skiljiðiða?

Af heimavígstöðvunum er það annars helst að frétta að Hraðbátur borðar alltaf gríðarlega vel í leikskólanum. Ég óttast að fá aukareikning fyrir fæðinu hans. Systir hans borðar hins vegar ekki neitt, svo það væri þá vonandi hægt að draga af hennar. Nú verður farið í umræðuátak heima fyrir og athugað hvort eitthvað lagast með hana.

Móðurskip hamast við að borða lítið og finnst árangurinn eitthvað lengi að láta sjá sig. Ætlar að hlaupa reglulega langt þegar Rannsóknarskip kemur úr golfi. Er annars farin að eiga eitt og eitt einstaklega úldið kvöld. Líklega haustið og svona. Lagast vonandi bara með fækkandi kílóum og meira hörbi, jóga og gítarnámi sem hvurutveggja hefst í næstu viku.

Já, einmitt. Ég ætlaði að æfa mig...

8.9.09

Vort daglegt...

Ég hélt að bloggið myndi græða feitt á öllu hanginu hér yfir skræðunum og huxinu í doktrinu. En öðru er nær. Verkefnin svoleiðis hlaðast upp og láta ekki bíða eftir sér og vinnudagarnir eru svo fljótir að líða að það er hreint engin hemja. Í allan dag er ég til dæmis búin að sitja yfir yfirlesnum drögum að doktorsverkefni, aðallega heimildaskránni. Hvernig í rassgatinu stendur á því að maður getur verið á fjórðu háskólagráðu (farinn að stefna hraðbyri í að fá vinnu á bensínstöð) og er ekki enn búinn að temja sér einhverja samræmda heimildaskráagerð? Ég held ég geri þetta aldrei eins. Og þarf alltaf að fletta uppá hvernig þetta má og á að vera.

Djull.

Allavega, var heima í gær með augnsýktan Hraðbát. Einstaklega þægilegt að vera bara með eitt barn. Enda tókum við til höndum, tókum til og þrifum ógurlega og þvoðum örugglega fjórar þvottavélar. Í dag er síðan stuttur hlaupadagur. Það þýðir að ég hleyp svona kannski 3 - 4 km. Á morgun er langur hlaupadagur og þá hleyp ég eitthvað hátt í 10. Þriðja hvern dag hleyp ég síðan ekki neitt en hjóla þá eða syndi eða geri eitthvað annað í staðinn. Þannig er hið rúllandi á þremur dögum prógramm. Þyngd og lögun stendur samt enn í stað eftir langlegu ágústmánaðar. Planið er samt að minnka um fimm kíló í viðbót og fjölmarga sentímetra fyrir jól. Hörbalæf og önnur fæðubótarefni eru étin í akkorði, en fátt eitt annað. Svo Átak Ofurheilsunnar er enn í gangi.

Svo held ég að gítarnámið hefjist í næstu viku. Enn er á huldu hvernig stundaskráin í því lítur út. En ég er fjarskalega spennt. Svo á að sækja um styrk fyrir spánnýtt leikrit sem enn er ekki nema frekar óljós hugmynd. Af því að það eru nú allsstaðar péningar.

6.9.09

Öll veröldin er...


Doktorsverkefnið mitt er um leikhús og leiklist.
Svo sit ég í stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga.
Í vetur ætla ég svo að vera einn leiklistargagnrýnenda Leiklistarvefjarins.
Í frístundum ætla ég svo að vera dugleg að skrifa leikrit og vera í leikfélagi.

Veröldin mín er ferlega leiksvið þessa dagana.
Skyldi kona einhvern tíma fá nóg af þessu?