18.12.10

Gott. Gottgott.

Eftir að hafa garfað í gegnum ónýtu bloggfærslurnar frá 2007-08 fatta ég mögulegan hluta ástæðunnar fyrir því að allt er betra í kreppunni. Síðasti vetur gróðærisins virðist hafa verið mesta gróðrarstía einhverra endalausra ógeðsbaktería hér á heimilinu. Við vorum veik ALLAN veturinn. Í febrúar fæddist síðan Hraðbátur og fékk sitt fyrsta kvef þriggja vikna.

Þetta var fyrsti vetur Rannsóknarskips í kennslu og fyrsti vetur Freigátunnar á leikskóla. Ég var að byrja í ritstjórnarnáminu átti að vera í tímum einn dag í viku fyrri hluta vetrar og komst ekki nærri alltaf. Því síður í bumbusund og -jóga. Upprifjun á þessum hryllingsvetri draga fram minningar um ÓTAL daga í horkenndu stofufangelsi með geðvondri Freigátu. Um vorið voru síðan kirtlar rifnir úr hálfri fjölskyldunni og allt hefur verið fáránlega mikið auðveldara síðan.

Svo mjög að hrun og samdráttur í peningamálum hefur ekki haft teljandi áhrif á geðfegurð fjölskyldunnar. Enn sem komið er.

Ferlega hefur maður það nú gott. Þrátt fyrir alltsaman.

17.12.10

Bévuð 2007 vandamál.

Þau eru ekki einhöm, ruglin frá 2007. Til dæmis er það nú svo, í arkævinu á þessari ágætu vefdagbók, að frá og með 28. janúar 2007 og til mánaðamóta júní/júlí 2008 eru allar myndskreyttar færslur með spurningamerkjum í stað íslenskra stafa. Og ekkert mismunandi, neitt. Allir íslenskir stafir rípleisuðust með EINS spurningamerkjum. Ekkert sem hægt er að gera til að stytta sér leið í lagfæringum á þessu. Og þær þarf að gera.

Þetta tímabil nær frá eins árs afmæli Freigátunnar, fram yfir fæðingu Hraðbáts og þar til hann er um 5 mánaða. Eins og gefur að skilja er þarna varðveitt, einum staða, ógnarmikið af myndskreyttum skýrslum sem ég vil síst brjóta eður týna. (Og allt plöggið fyrir hið stórgóða stykki Epli og eikur, sem ég var að berjast við að lagfæra áðan, mér til upphitunar.)

Ég hef vitað af þessu næstum allan tímann. Fattaði eitthvað stillingarfokköpp og lagaði þarna 2008. En skaðinn var alveg ferlega skeður. Enda fór ég í fýlu í alveg ár og nennti ekki að gá hvað þetta næði langt aftur. Var eiginlega bara að því núna. Svo er ég búin að vera að laga eina og eina færslu, í gegnum árin... en hroðalega skrifar maður mikið af íslenskum stöfum alltaf, eitthvað.

Svo er fárviðri um allt land. Ógeðslega kalt úti. Og ég vildi að ég væri ennþá undir sæng.
Brrrrrr.

16.12.10

Framvinda með ágætum og jólum

Sveimér ef pensillínkúr 3 er ekki bara að virka. Þrátt fyrir skítakulda og allskonar geðbólgur. Ljómandi gott. Langaði ekkert að láta bora gat á hausinn á mér fyrir jólin.

Á síðustu dögum hverrar annar geri ég framvinduskýrslu. Þá skýrsla ég um framvinduna. Það er alltaf mjög upplífgandi. Allskonar verkefni sem tók kannski ekki nema dagstund að framkvæma verða að „lið“ með fylgiskjali og allir dagarni sem manni finnst hafa farið í hang og vitleysu verða að óskaplegum dugnaði. Þetta heitir að endurskrifa söguna. Ég er komin uppí fylgiskjal 2e og er ekki einu sinni byrjuð að tíunda sjálfa rannsóknarvinnuna. Þaraðauki búin að búta hana talsvert niður þannig að þar undir verða ótal lítil skjöl. Sem virkar alltaf flottara en eitt stórt.

Samt alltaf pínu próblematískt að halda sig að verki og svona. Jólaskapið hleypur með mann í allskonar gönur.

Mikið ógurlega er diskurinn með Sigurði og Memfismafíunni að spila sig vel inn. (Hann er í bílnum, sko.) Bara virkilega falleg lög og dásamlegir textar. Líklega mesta jólasnilld í íslenskri jólaplötuútgáfu síðan Þrjú á palli gáfu út Hátíð fer að höndum ein.

Ég hef einmitt verið að pæla í skorti á íslenskum jólalögum sem eru ekki:
a) sálmar
b) ömurlegar poppfroður
c) ömurlegar poppfroðujólaþýðingar á lögum sem gjarnan eru ekki einu sinni jólalög.

Baggalútarnir hafa reyndar staðið sig einstaklega vel á vettvangnum að jóla ójólalög. Svo vel reyndar að mér finnst að aðrir ættu að leggja af þeim ósið.
Ég þarf endilega að fjárfesta í jóladiskunum þeirra, báðum tveim.
(Og þar með er Gamláspartý komið á rípít í ípotti huga míns.)

Jæja, ókei.
Efnisyfirlit.

14.12.10

Vitleysan er allskonar

Stundum er maður alveg hylgengilega stjúpid. Til dæmis þegar maður leyfir einhverjum að taka viðtal við sig um HÁ vetur. Þegar maður er síðan löngu búinn að gleyma því, og biksvartasta skammdegið skollið á, þá þarf að taka MYNDIR! Fyrir það fyrsta er aldrei góð hugmynd að taka mynd af mér. Ég er undantekningalítið með lokuð augu OG að segja eitthvað. En fékk þó góða pointera úr heimildaþættinum sem var á RÚV í gær. Með muninn á því hvernig konur og kallar eru myndaðar í auglýsingum. Of Boðs Lega merkilegt. Konur halla undir flatt, liggja og eru í einhverjum jafnvægisæfingum þar sem þær virðast vera valdalausar og viðkvæmar, kallar horfa beint framan í myndavélina eins og sá sem valdið hefur. Kallar hafa stjórn á umhverfi sínu, konur eru komnar upp á náð og miskunn þess.

Djöfull hroðalega ætla ég ekki að halla undir flatt heldur hafa algjöra stjórn á umhverfi mínu í þessari myndatöku. (Og kannski rétt að taka aðeins til að skrifborðinu, ef það skyldi vera með á mynd?) (Eða kannski... einmitt ekki svo það líti út eins og ég sé að gera eitthvað?)

Annars er ég líka að fara að hitta leiðbeinandann minn. Ég er kannski svona hæggeng, en núna, eftir eitt og hálft ár, finnst mér ég fyrst vera að komast að því um hvað rannsóknin mín fjallar ekki. Hún fjallar nefnilega ekki um málefnin. Ekki þjóðfélagið, ekki söguna... ekki kommúnismann eða kapítalið. Hún fjallar um leikhús, nefnilega.

Ég er að pakka niður fullt af bókum sem ég er búin að vera að vesenast með frá byrjun. Nú þarf ég að fara að tala við fólkið í leikhúsinu. Með diktafón og læti. Ekki til að láta það gefa mér endilega neitt sérstakt sem ég býst við. Nú veit ég ekkert hvert ég fer. Ég er nokkurn veginn með fræðilega grunninn. Held ég. Ég bý í þessu þjóðfélagi. Rannsóknaraðferðin og inngangurinn er kominn. (Á samt alveg örugglega eftir að breytast þegar ég sé hvað ég er með.)

Þetta var eitt og hálft ár í undirbúningsvinnu.
Nú byrja ég.

(Þegar búið er að taka af mér nokkrar fokkíng forljótar myndir.)

13.12.10

Staðan...

Unglingsbátur þarf að mæta til læknis klukkan 10 á aðfangadagsmorgun!
Móðurskip er að bíða eftir upphringingu frá mínum lækni þar sem tveir pensillínkúrar hafa ekkert mikið sljákkað í horinu í hausnum. Rannsóknarskip er í vinnunni, með hálsbólgu og sleppu. Ungarnir tveir fóru í leikskólann eftir 12 tíma svefn. Freigáta búin að hafa hor í hálfan mánuð og Hraðbátur rétt að skríða upp úr hita sem hann var með alla síðustu viku.

Liggur við að fjölskyldan hefði þurft einhverja c-vítamín ferð um jólin. Ég held við séum öll að finna mikið fyrir myrkrinu þennan veturinn. En nú er hálfur mánuður í jólin og ekkert obboðslega mikið hefur gerst í undirbúningi. (Ég er reyndar búin að komast að því að aðventuljósaperur eru uppseldar víðast hvar.)

En prófið mitt hefur verið framið. Útvarpsþáttur er upptekinn. Helgi dauðans er komin í jólafrí. Nú ætti að vera nokkuð gott næði til að skrifa doktorsritgerðarinngang og leggja drög að nokkrum viðtölum í hana.

Kannski rétt að reyna að hræra aðeins í draslinu á skrifborðinu og skjáborðinu fyrst? Með jólatónlist í eyrunum?

Ég ætla allavega ekkert að vera stúrin yfir þessum veikindum. Það þýðir ekkert. Svo þarf ég líka að ná í halann á kvíðaröskuninni og hætta að hafa áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum. Það hefur sjálfsagt ekkert verið að hjálpa heilsufarinu undanfarið. Innilokunarkenndina yfir því að vera innikrumpuð í fjölbýli með íbóðir á alla kanta og hús í hrúgum í allar áttir þarf líka bara að umbera í þessi 2 og 1/2 ár sem eftir eru á þessum stað. Vissulega hefur sína kosti að búa í 101. En ég er víðáttubrjálæðingur. (Í öfugum skilningi þess sjúkdómsheitis.) Vil helst geta komist ÚT með lítilli fyrirhöfn. Hafa fáa bíla, litla umferð, ekki mörghundruð manns sem búa í kallfæri. Jafnvel bara engan.

En þetta getur maður leyst með því að fara reglulega útúr bænum, út á land og flytja jafnvel búferlum í nokkra mánuði yfir sumartímann. (Þessa dagana dreymir mig mjög um annað Egilsstaðasumar, ef ég finn á því flöt.)

Jæjah... Upphitun lokið.