29.10.05

Upphöf

Í dag var ýmislegt fyrst. Það var fyrsta yfirferð á Bara innihaldið, sem mitt fólk ætlar að endurflytja í Þjóðleikhúskjallaranum eftir hálfan mánuð, og svo var fyrsta rennsli á Jólaævintýrinu áðan. Í nótt dreymdi mig að rennsli tæki yfir 8 klukkutíma og uppgötvaðist að inni í leikritinu þyrfti að leika allan Hamlet. Sem betur fór var það ekki neitt fyrir daglátum.

Rennsli tók alveg hárréttan tíma (og ekki nærri því átta) og var harla gott, held ég bara. Reyndar ýmislegt ólagt, ósmíðað, ósaumað og lítið eitt ósamið, en það kemur nú allt, örugglega, einhverntíma. Í kvöld á svo að éta baunasúpu, og það verður nú gaman og skemmtilegt.

Í dag fékk ég allt í einu svona "undarlega" tilfinningu. Einstöku sinnum stendur maður sig nefnilega að því að sitja á laugardegi í iðnaðarhúsnæði úti í bæ, við tuttugasta mann, og vera að leika og syngja og láta öllum illum látum og fatta að þetta séu kannski ekki alveg "eðlilegar" aðstæður. Það sé kannski soldið skrítið að tuttugu manns skuli bara nenna þessu, fullt af kvöldum og helgum. Fyrir ekkert nema fíflaganginn.

En mikið ógurlega er það nú gaman.

Eða eins og blogger leggur til málanna: htagzdrw. (Hitagazdræw?)

28.10.05

Skemmtun skrattans?

Í tilefni markaðssetningarverðlaunaveitingardax:

Í dag var ég í strætó. (Grandivogar) Og þar var líka staddur einn bekkur af börnum á frumstigum grunnskóla. Þetta voru ljóslega söngelsk börn og brustu í einn slíkan í takmarkalausri gleði og hamingju yfir lífinu og tilverunni. Að sjálfsögðu sungu þau auglýsingalag, af því að það er sú tónlist sem börn kunna best í dag.

Eitthvað hafði nú innihald auglýsingarinnar skolast til, allavega heyrði ég þarna bæði af Essó-pulsum og SOS-pulsum.

Ríki Anns

Er alveg að fara að taka nokkur geðstropsköst af annríki. Af hverju segist maður alltaf ætla að gera eitthvað? Helgin er svo þéttbókuð af leikæfingum að annað eins hefur ekki sést. Held ég hafi aldrei... eða allavega ekki oft, lent í að hafa 2 leikstjórnarverkefni í einu. Þetta er auðvitað fávitaháttur.

En væri samt allt í ljómandi lagi ef ekki væri allt í einu kominn bylur, og einhverjir menn héngju ekki utan á skrifstofunni minni og gerðu geðveikan borhávaða, núna bara alveg vikum saman. Heyri ekki sjálfa mig huxa í vinnunni og er þess vegna alltaf að klúðra einhverju geðveikt illa.

Eníhú. Það verður samt gaman að allri geðveikinni um helgina. Fyrsta upprifjunaræfing á Bara innihaldið í fyrramálið (svo framarlega sem einhvern tíma verður hlé á hávaðanum svo ég geti hringt í annan leikarann minn) og fyrsta rennsli á Jólaævintýri eftir hádegi. Það verður nú forvitnilegt. Það hefur enginn í heiminum hugmynd um hvernig þetta leikrit er í laginu, eða hversu langt það er. Huxa að höfundar/leikstjórar verði ruglaðastir allra. Baunasúpa verður svo étin um kvöldið.

Nú kom frú Ringsted í kaffi, svo best er að hætta að barma sér.

26.10.05

Link daxins

fær Maggi Teits fyrir að nenna að lesa og kommenta á langhundinn minn um kvennafrídaginn. Líka fyrir að ætla að eignast barn sama dag og ég. (Föstudaginn 13. jan. 2006. Mikill happadagur.) Svo er hann líka í metrógenginu sem var með Rannsóknarskipi í menntaskóla. Ég kalla þá metrógengið af því að þeir gera gjarnan hittingar eins og matarboð hver hjá öðrum eða hittast í hádeginu niðri í bæ. Þetta langsiðmenntaðasta strákagengi sem ég veit um. Enda hafa þeir endurvakið trú mína á að meirihluti karlkyns vilji kannski ekki endilega verða Hómer Simpson þegar hann verður stór.

Annað er það helst í fréttum að syni mínum blóðsugunni, hinum ófædda, finnst skemmtilegt á leikæfingum. (Væri enda illa í ætt skotið ella. Báðumegin.) Hann er yfirleitt alltaf sofandi, nema þegar ég reyni að sofa, nema Hullarar séu allt um kring að æfa og hlæja. Þá vakir hann og potar í magann á mér innanfrá þegar ég hlæ. Og þegar kemur tónlist, þá get ég sko svarið að hann heddbangar. Er greinilega mikill aðdáandi tónsmíðanna hans Bibba, en sá ber einmitt ábyrgðina á því að afkomandinn hefur verið karlkenndur. Hann dreymdi nefnilega fyrir því.

Vona bara að Afkomandinn fái metrógenið frekar en hellisbúaheilkennið.

25.10.05

Kvennafrídagurinn

fór framhjá mér vegna annríkis. Barnið mitt blóðsugan sá reyndar til þess að ég fór ekkert í vinnuna sökum blóðrannsókna og yfirliðu og svo missti ég af baráttufundinum útaf grindverk. Var þar þó mikið með í anda.

Og hefði að sjálfsögðu átt að skrifa magnað rant um kvenréttindabaráttu í gær. En mátti ekki neitt vera að því (og datt ekkert í hug vegna blóðsogs) þannig að ég geri það bara í dag í staðinn. Vona bara að ég komi einhverri reglu á það sem ég er að hugsa.

Er jafnréttisbarátta fásinna og óþarfi í dag?

Nei, það er hún ekki, á meðan það er kynbundinn launamunur í landinu. Hins vegar er líka annað mál sem mér finnst þurfa að skoða. Það er margt sem er bara á bandvitlausum stað í launastiganum. Mér þykja kennsla og umönnunarstörf hverskonar vera hryllilega mikilvæg störf. Ég vil að krakkarnir mínir (og annarra) fái almennilega menntun svo þau verði ekki öjlar. Og þegar ég verð gömul, vil ég að sjúkraliðarnir sem skeina mig verði á góðum launum. Ég nefnilega efast um að það verði gott eða skemmtilegt starf. Einhver þarf nú samt að gera það, ekki ætla ég að geta það sjálf.

Ég held við séum komin á þann stað (eða ég vona það) að konur, og allir, geri sér grein fyrir því að þeir geta menntað sig og starfað við hvað sem þeir hafa áhuga á. Óháð stétt, kyni, uppvexti, eða hvort pabbi viðkomandi er góður í stærðfræði. Samt sem áður virðast konur frekar sjá um menntun og umönnun en karlar. Ég veit ekki hvort það er endilega slæmt. Það fer kannski ekkert hjá því að alltaf verði einhver kynbundinn munur á fjölda fólks eftir áhugasviði. Hins vegar eru þessi störf með allra mikilvægustu störfum þjóðfélaxins og ættu auðvitað að vera mikkkklu hærra launuð en FULLT af sjórnunarstöðum.

En, já, jafnréttisbaráttan. Ég held það sé fullt eftir af henni. Mér finnst ég allavega alltaf vera að heyra eitthvað nýtt og kvenfyrirlitlegt. Fyrir ekki mörgum árum stóð ég á strætóstoppistöð og heyrði á tal nokkurra unglingspilta. Þeir voru að reyna að vera svalir, hver fyrir öðrum. Þar heyrði ég m.a. setninguna: "Sko, kellingar, bara ríða þeim og berja þær." Í kasúal samtali, og þetta var ekki einu sinni grín.

Fyrir ekki mörgum árum "reið" yfir skriða hópnauðgana, nokkrar verslunarmannahelgar. Þá kom berlega í ljós að heilum haug af karlmönnum þóttu nauðganir ekki bara sport, heldur fínast hópíþrótt!!! Þegar ég sat á Bautanum á Akureyri á sunnudegi, einhvern tíma í fyrra, heyrði ég á tal nokkurra karlkyns háskólanema. Þeir voru að tala um skemmtan kvöldsins áður. Hafði þar komið við sögu eitthvað af kvenfólki. Það sem stakk mig var að engin þeirra var nefnd á nafn, allt samtalið. Þær voru flestar "Gellan sem [þessi eða hinn] reið."

Mér finnst gífurlega jákvætt að mér finnst ég sjá karlmenn vera farna að blanda sér í jafnréttisbaráttuna meira en áður. Þeir sem haldnir eru kvenfyrirlitningu eru nefnilega ekkert að fara að hlusta á kellingar, yfirhöfuð.

Versta bakslag sem komið hefur fyrir jafnréttið undanfarin ár er það sem ég vil kalla Simpson-heilkennið. Mér þykja þættirnir um Simpsons-fjölskylduna gargandi snilld. En fyrir einhverja fávita var greinilega ótímabært að fara að gera grín að vanhæfa fjölskylduföðurnum, þar sem upp reis einhver undarlegur þjóðflokkur Hómer-wannabees sem taldi sig, í krafti karlmennsku sinnar, ekki þurfa að viðhafa lágmarksmannasiði í mannlegum samskiptum. Sérstaklega ekki við sína nánustu. Eins og þeir hafi ekki alveg náð því að ÞETTA VAR GRÍN! Þetta fólk er fullkomlega óþolandi. Og þetta eru alltsaman karlmenn. Og ég þekki fáránlega marga svona.

Þetta hafði þau ömurlegu áhrif að upp spratt aragrúi gamanþátta í hverjum húsbóndinn á heimilinu er undantekningalítið feitur og undantekningalaust heimskur og faltaður í mannlegum samskiptum og hagar sér eins og ofvaxinn smákrakki.

Það sem pirrar mig við þessa þætti er hins vegar fyrst og fremst sú mynd sem dregin er upp af kvenfólki. Það er þessi altumfyrirgefandi rödd skynseminnar sem umber Hómerinn. Óspennandi, leiðinleg, undirokuð og skoðanalaus gólftuska sem sættir sig bara við það, nokkurn veginn þegjandi og hljóðalaust, að makinn sé erfiðasta barnið á heimilinu. Huxar sem svo að betra sé að veifa röngu tré en öngu, þegar mér finnst dagljóst að betra sé autt en illa skipað rúm.

Þetta finnst mér vera óhugnalega nálægt steríótýpunni af konu. Steríótýpan af Konu er ekki beint skemmtileg. Hún vill alltaf ryksuga þegar það er fótbolti í sjónvarpinu. Hún er þröngsýn og dómhörð og að mörgu leyti viktoríönsk. Hefur t.d. ekki kynhvöt.

Ég hef aldrei hitt steríótýpíska konu.

Og þarna liggur kannski rót vandans. Steríótýpur karla og kvennna þvælast fyrir og lítt greindar manneskjur taka þær sér til fyrirmyndar. Strákar skulu vera sterkir og tilfinningalega fatlaðir og stelpur sætar og meðfærilegar. Það eru kannski þessar bábiljur sem fyrst alls þarf að ráðast á?

Þetta var nú aldeilis óskipulegt rant, í tilefni kvennafrídax.
Reyni að gera betur eftir 30 ár.

23.10.05

Thats it!

Nú er eitthvað alvarlegt á seyði. Er að fara að þvo rúmföt. Ekki svosem í frásögur færandi, nema ég er allt í einu gripin óstjórnlegri löngun til að strauja þau. Sem og öll önnur rúmföt sem til eru á heimilinu. Bara vegna þess að þau yrðu flottari í skápnum. Er viss um að húsfrúin Ringsted hefur ekki einu sinni upplifað annað eins. Held ég sé endanlega að breytast í mömmu mína.

Eins gott að það er leikæfing í allan dag, annars veit ég ekki hvar þetta hefði endað...