25.4.09

GAMAN!

Ég fyllist alltaf ógurlegri nostalgíu á kjördag. Þetta var ógurlegur hátíðisdagur heima hjá mér. Enda Alþýðubandalagið í kjallaranum. Allir voru einhvern veginn á þönum allan daginn. Enginn matur (bara tertur í kjallaranum), menn stóðu og grúfðu sig yfir lista yfir þá sem voru búnir að kjósa, reyndu að reikna út hvaða kommar gætu átt eftir að kjósa og væru kannski fastir einhversstaðar annarsstaðar. Maður gat lent í óvænta bíltúra niður á firði eða út í sveit, og nokkrar ferðir út á flugvöll. Um leið og maður var orðinn sæmilega skrifandi gat maður lent í að vera "fulltrúi" á kjörstað (Jón dýralæknir henti manni alltaf út meðan hann kaus. Svo maður passaði sig alltaf vandlega á að skrifa hann niður.) Öllum var sama um hvort maður fór einhverntíma að sofa.

Þetta var alltaf gríðarlega skemmtilegt.

En síðan ég komst til vits og ára hefur verið gríðarleg hægrisveifla í þjóðfélaginu. Það hefur því bara ekkert verið sérstaklega glatt á hjalla hjá mér í gegnum kosninganætur gróðærisins.

Og nú er allt í kaldakoli, á hausnum, og ekkert framundan nema djöfullinn og dauðinn hvernig sem þessar kosningar veltast og fara. Allavega ef maður er með efnahaginn á heilanum og hjartað í buddunni, eins og tískan er víst.

En ég get ekki að því gert. Komminn í mér hlær og orgar: NÚ FINNST MÉR GAMAN!

24.4.09

Ha? Kosningar?

Eins gríðarlega afdrifaríkar og þessar kosningar verða get ég bara ekki neitt fest hugann við þær. Bara vonandi að ég muni að kjósa. Ritgerðarskil gnæfa yfir öllu eins og risastórt óveðursský og til að bæta gráu ofan á svart er nemendamálþing um lokaritgerðir í dag. Viku fyrir lokaskil. Á því ætlar enginn að taka nema ég og örfáar hræður sem ég meira og minna þekki, og ætli við verðum ekki ferlega ein á staðnum, bara?
Ég ætla að vera síðust og er ekki farin að ákveða hvað ég ætla að segja. Sennilega reyni ég bara að vera fyndin.
Best að gá hvort open office inniheldur powerpoint.

22.4.09

Kanadakjördæmið?

Mikið ógurlega var ég nú glöð að heyra skoðanakannanir norðaustanað í kvöldfréttum í gær. Samkvæmt þeim ætla norðaustlendingar meira að segja að neita Tryggva Herbertssyni um þægilegu innivinnuna sem hann hélt hann væri að fá á ríkisspenanum. Við skítmoxtur.

Ég var farin að sjá fyrir mér flutninga til Kanada þar sem ígildi Sjálfstæðisflokksins ku hafa lagt sig niður vegna pólitísks afhroðs, en FLokkslaust kjördæmi hljómar líka afskaplega vel.

Nú skora ég á kjördæmi Steingríms að láta þessa spádóma rætast á kjördag. Jafnvel ganga enn lengra og koma Kristjáni útaf líka (þó mér finnist hann reyndar einn af þeim skrárri) þá er bara aldrei að vita nema fjölskyldan geri eitthvað afdrifaríkt í búsetumálum á næsta kjörtímabili!

Ég er annars ennþá óstaðsett í pólitíkinni. Ég sé fegurðina í núverandi ríkisstjórn, Borgarahreyfingunni (sem mér finnst frábært að skuli vera að ná fólki inn, hugsanlega) eins skil ég málstað þeirra sem ætla að skila auðu sem og hinna sem ætla að sitja heima. Því það er engan veginn hægt að skilja þá sem ekki mæta þannig að þeim sé alveg sama, í þessu árferði. Ég kem til með að líta svo á að þeir séu að senda skilaboð.

En ég held að mikilvægt sé fyrir geðheilsu þjóðarinnar að Sjallar og Framsókn séu í kuldanum í þetta sinn. (Og jafnmikilvægt fyrir geðheilsu Ástþórs að hann sé það líka.)

Annars held ég að mikilvægt sé að menn muni, í þessum kosningum eins og öðrum, að verið er að kjósa til fjögurra ára. Í mesta lagi. Þó síðustu dagana fyrir kosninga sé ævinlega allt látið hljóma eins og heimurinn sé á síðustu heljarþröminni eru þetta ekki síðustu kosningar í heimi. Og margt á vafalaust eftir að breytast á næstu árum og ekki ólíklegt að á bresti með öðrum kosningum tiltölulega fljótt og allir kjósi þá eitthvað allt annað. Kannski verður það sama ekki einu sinni til!

Svo spari menn sér hjartaáföllin í pólitísku umræðunum um allan bæ.

En mikið ógurlega er gaman að maður sjái ástæðu til að vara menn við því eftir offitusjúklingslega doðann sem ríkt hefur í pólitískri umræðu undanfarinna ára.

21.4.09

Fjárfest í sálarró

Eiginmaðurinn hefur fengið að fjárfesta í Stöð 2 sport 2, eða eitthvað svoleiðis, til vors.
Þá steinhætti ég að hafa samviskubit yfir að vera sískiljandi hann einan eftir heima meðan ég trontast úti um allan bæ við aðstoðarleikstjórn, útvarpsþáttagerð og lokaverkefnaskrif.

Já, talandi um það... 10 blaðsíður og kántíng!

19.4.09

Forréttindi

Í dag sat ég málþing. Frummælendur voru þrír. Kaffið var gott. Umræður frjóar.
Ég var í essinu mínu.

Þvínæst var leikið svolítið. Stuttum leikritum skal sýna sömu virðingu og stuttu fólki. Svo voru þau líka skemmtileg.
Árni Hjartarson sagði að Davíð myndi redda þessu.

Svo var étinn plokkfiskur og hlýtt á ljúfa Hrauntóna yfir súkkulaðiköku.

Því næst stigu á svið nokkrir menn.
Tveir þeirra hafa leikstýrt leikritum eftir mig.
Tveimur þeirra hef ég skrifað leikrit með.
Einn þeirra er bróðir annars þeirra.
Þrír þeirra hafa leikið kærastana mína, í leikritum Hugleixkum eða lífsins.
Einn þeirra á barn með systur eins þeirra.
Einum þeirra er ég krónískur varamaður hjá.
Einum þeirra er ég aðstoðarleikstjóri hjá, núna.
Einn þeirra hringi ég alltaf í og býð hlutverk þegar mig vantar leikara. (Hann segir alltaf nei.)
Einn þeirra er í gamla starfinu mínu.
Þeir eru níu.
Þeir eru, samanlagt og í sitthverju lagi, fyndnustu Hálfvitar sem ég veit um.

Komi kreppur
Komi þunglyndi
Fari efnahagurinn til fjandans og tilbaka.
Það ferst ef það ferst (og kannski er það best).

Bjargið hinum fyrst,
ég verð bara í Hugleiknum.

Væmna færslan um Ljótu hálfvitana...

verður ekki til í dag. Ég byrja ævinlega á henni, í huganum, á Hálfvitatónleikum, svona uppúr öðrum bjór, en í hausverknum morguninn eftir er andagiftin sjaldan sú sama. En hún kemur.

Klukkan er 2. Ég er enn á sloppnum. Er að fara að hljóðrita málþing Hugleix eftir... úbbs... tvo tíma. Vona að ég hafi ekki drepið einmitt heilafrumurnar sem innihéldu sýnikennsluna á RÚV græjunum með vítleysunni í gær.

Sjitt. Best að fara að leita að málþingslegu átfitti... skella í sig kaffi og fara í bað.
Dem hvað maður er eitthvað bissí and important.