23.4.11

Er internetið bóla?

Ég man þegar ég frétti fyrst að tilvist þessa sem ég man ekki hvort þekktist þá undir nafninu "internet" eða bara sem eitthvað allt annað. Eini netvafrinn sem ég þekkti fyrst um sinn minnir mig að hafi heitið gofer. Gulir stafir á svörtum skjá og engar myndir. Það sem þessi stjarnfræðilega uppfinning gerði fyrst og fremst fyrir mig var að geta talað við eitthvað af vinum mínum í Reykjavík á ircinu, frá Háskólanum á Akureyri. Frá tölvuveri til tölvuvers, vitaskuld. Næstum enginn var ennþá með tölvu heima hjá sér, og alls enginn með internet. Þetta var líka fyrir tíma gsm, í húsinu sem ég bjó var bara tíkallasími niðri í kjallara sem enginn svaraði nokkurn tíma í. Það var ekki búið að finna upp tölvupóstinn.

Þetta var veturinn 1993-1994 og ég minnist þess ekki að hafa fundist ég neitt sambandslaus við umheiminn, eða neitt.

Smám saman hefur síðan tæknin undið uppá sig. Bloggið kom (og fór?) og maður gat farið að fylgjast með sumum vinum sínum. Svo ekki sé nú minnst á Snjáldurskinnubyltinguna. Og svo náttúrulega Google og Wiki. Núna er hægt að komast að öllu sem maður vill. Sem er ágætt, í sjálfu sér. Facebook getur alveg skemmt manni, ef manni leiðist. Og stundum skrifar einhver eitthvað gott í netmiðlana.

Það er þó ekki frá því að mér sé farið að leiðast aðeins á internetinu. Oft hangi ég þar án þess að vita svo sem hvað er ég að gera. Fréttafíknin sem heltók mig í kringum hrun og byltingu hefur snúist upp í andhverfu sína. Engar fréttir eru góðar fréttir og allar fréttir eru kjaftæði. Sjaldnar og sjaldnar nenni ég á fésbókina. Örsjaldan fær maður áhugaverða tölvupóst... það er ekki nema maður sé alveg brjálað að skipuleggja eitthvað skemmtilegt í kjötheimum. (Eða einhver segist ætla að borga manni péning fyrir eitthvað... sem er sjaldnar en ekki.) Fáir skrifa lengur blogg. Svo ekki sé nú minnst á hallærið þegar manni dettur ekkert í hug til að gúggla eða wikipedia...

Kannski er ég búin að komast að öllu.

Kannski er internetið bara bóla.

21.4.11

Er sumarið kom yfir... Tímon?!

Ég veit ekki betur en að 10 stiga hiti og rigning með köflum sé einmitt sumarveður í Reykjavík og nágrenni. Jafnvel bara á Íslandi.

Heimilið í Koppavoginum er alveg farið að líta einhvernveginn út. Enda er Unglingurinn í Danmörku og þau yngri með krónískt kvef sem líklega næst ekki úr nema með endalausum inniverum þannig að það er ágætt að hanga bara inni, þennan skír-sumardaginn fyrsta.

Komst þó að þeirri tragísku staðreynd að líklega hef ég ofnæmi fyrir dásamlega Lazyboy-sófanum hans Ella frænda. Ætlaði ekki að vilja horfast í augu við þetta, en stoðgrindin er öll að drepast og er snöggtum skárri eftir dags sófabindindi. Bót í máli að ég get þá haft okkar alveg útaf fyrir mig, og nú snýr hann rétt fyrir ligg.

Það er búið að ganga frá eiginlega öllu. Eftir að fara eina smá ferð í hjálpræðisherinn og Foreldrarnir Verðandi eftir að fá í hausinn haug af barnafötum. Samt er enn pláss í geymslunni! Þetta er svakalegt.

Borðtölvan er komin upp. Bara eftir að yfirfara, öppreida, vírusverja, og svona. Þá er hún tilbúin til heimaverkefna.

Úthverfadoðinn hefur lagst yfir. Allur saman. Ég skrópaði á öll Færeyingafyllerí um helgina og það hvarflar ekki einu sinni að mér að fara nokkurn skapaðan hlut nálægt hundraðogeinum um páskana. Langar hins vegar svakalega að prófa að hlaupa um eyðilendur kópvogskra útivistarsvæða.

(Enda er Bandalagsþing í Öðru Úthverfi (Mosó) helgina eftir páska. Það verður sjálfsagt eitthvað. Og skóli í júní. Svo það er víst best að hvíla sig bara.)

Allt er stærra í Kópavogi. Íbúðin okkar er öll stærri en virðist í fyrstu. Allt dótið manns hverfur hérna. Og bílastæðið okkar, sem ég þorði ekki að leggja í í fyrstu af því að mér sýndist það vera svo þröngt, reyndist vera á stærð við fótboltavöll. Svo fór ég í kópvogsku Krónuna. Jemundur minn. Það fæst nú allt, og mikið af því. Hroðalega held ég að maður geti orðið feitur af að búa í Kópavogi, ef maður passar sig ekki. (Dettur mér nú í hug mjög gott dæmi, opinbera fígúru, jafnvel táknmynd, bæjarins, en ætla ekki að nefna nein nöfn.)

Eins gott að fara að koma sér á eitt þessara fjölmörgu hjólaverkstæða í grenndinni og láta lappa upp á hjóltíkina. Hún er eitthvað vond í gírunum. (Á ekki péning til að endurnýja bykkjuna alveg fyrr en í haust.) Fara svo að myndast við að hjóla í vinnuna. Mér skilst að það taki ekki nema eitthvað kortér, ef almennilega er hamast á pedölunum. Líka gaman að vera alltaf einn af þessum ferlega fersku sem mæta alltaf með mjó læri og magavöðvana grjótharða og vindbarðir í framan, alveg ljónhressir, án þess að hafa fengið sér kaffi.
Óþolandi fólk.
Ég ætla að verða svona. Bráðum.