5.3.04

Var veik í dag og fór ekki í vinnuna.
En, allt kom fyrir ekki, verkefni elti mig, er búin að sitja yfir þýðingaverkefni dauðans í allan dag með hor og slef. (Græddi reyndar á því nokkra tugþúsund kalla.) Nú er semsagt bara að láta sér batna fyrir sunnudag, en þá er æfing og sýning á Sirkus en það ágæta verk fær misjafnar viðtökur. Það vekur vonandi bara forvitni, Hugleikur er jú blankur sökum húsakaupa.

Var að fatta að ég hef ekki talað við forfeður mína í laaaangan tíma, ætla að nota einangrunina í Hafnarfirði í kvöld til að hringja í mömmu. Unnustinn er að elda handamér hamborgara með ÖLLU. Nammnamm og fitandi.

4.3.04

Jæja.
Þá er ég búin að upplifa hátind lífs míns og get þess vegna dáið hamingjusöm. Aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að upplifa nýjar víddir af hamingju við að hlýða á tvo miðaldra kennara að norðan fremja eitthvað millistig á milli uppistands og tónleika. Það eru greinilega engin takmörk á því hvað er hægt að gera. í tvo klukkutíma var mér komið skemmtilega á óvart ca. þrisvar á mínútu. Ég vissi t.d. ekki að hægt væri að:
- spila sóló með þremur blokkflautum, uppþvottahanska og hárþurrku.
- gera stál og hníf að skemmtilegu lagi með aðstoð Hallbjörn Hjartarsonar
- spila fjórhent á gítar á meðan annar er fyndinn og hinn hræddur
- syngja Guttavísur við lagið af Whiter Shade of Pale

...svo fátt eitt sé nefnt. Dúettinn Hundur í óskilum er eitt það skemmtilegasta sem nokkurn tíma hefur fyrirfundist í heiminum.

Óstöðvandi gleði og hamingja.

Í þessari viku hefði ég þurft að vera gífurlega dugleg að skrifa ritgerð.
En, úps, upp dúkkuðu á mínu heimili fyrstu seríurnar af sjónvarpþáttunum Angel sem ég hef ALDREI horft á. Forgangsröðun fór þess vegna í hundana. En í dag skal gerð heiðarleg tilraun til að koma sér í gáfugírinn.

2.3.04

Jahá. Og það lítur út fyrir að í næstu forsetakosningum fáum við að velja á milli Ástþórs Magnússonar og Snorra Ásmundssonar. Athygliverðir kandídatar til að sitja drottningaveislur fyrir hönd lands og þjóðar. Ég vil helst ekki gera upp á milli. Er ekki hægt að hafa annan sem forseta og hinn sem varaforseta? Ég vildi til dæmis gjarnan vera fluga á vegg þegar Ástþór mætir útataður í svínsblóði í partý í hvíta húsinu til að mótmæla hernaðarstefnu Bandaríkjanna og þegar Snorri biður Betu Englandsdrottningu að gera sig að heiðursfélaga í bresku konungsfjölskyldunni.

Þá fyrst yrði nú stuð að vera Íslendingur!
Og gleðilegan bjór-gær. Gleymdi því.
Nú bíðum við með endurnar í hálsunum eftir dómum á nýjasta Hugleixafrek. Hóf annars óformlega störf með leikfélagi Hafnarfjarðar í gær. Það var öðruvísi, fyrir utan fyrirbæri sem heitir "bolti" og virðist vera að tröllríða öllum leikfélögum suðvestan lands þessi árin. En bara, dædur hópur og verður sjálfsagt gaman að leika við hann.

Nú held ég að lokasprettur sé á því að skipuleggja skólann í dalnum Svarfaðar í sumar. Enn verið að mjatla málin um hver getur kennt höfundasmiðju. Held ég verði eiginlega að fara, hvur svosem það verður, annars fæ ég aldrei spark í rassinn til að klára "Villidýrin" mín. Svo förum við bara að auglýsa og skrá, ef einhverjir áhugasamir um það mál eru lesendur hér.

Yfirstandandi er lokasprettur í fyrsta uppkasti af MA ritgerð, því skal skilast til leiðbeinanda annan mánudag. Að því afloknu fer að glitta í langþráða útskrift, sem breytir reyndar svosem engu nema því að þá hangir þessi ritgerð ekki lengur yfir hausnum á mér eins og óveðurský og að ég get lifað í þeirri sælu vissu að geta hafið doktorsnám hvenær sem mér sýnist.

Annars langar mig gífurlega að fara að leggjast í einþáttungaskrif eða fara að byrja á einhverju af þeim fjölmörgu öðrum leikritasmíðum sem ég var víst einhvern tíma búin að segjast ætla að gera. Ég held að fyrirliggjandi verkefnalisti núna sé að verða ca. 10 ára langur. (Lengri á mínum vinnuhraða þar sem ég er óforbetranlegur letipúki.)

Svo eru bara fríkvöld í hrönnum í þessari viku. Jahérnahér!

1.3.04

Séð og ekki
Rakst á lista sem ég var einhvern tíma búin að búa mér til yfir það sem mig langar að sjá í leikhúsum í vetur. Ekki er nú margt sem hefur komist í verk að sjá. Þó, búin að fara á Meistarann og Margarítu í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Pabbastrák og Vegurinn brennur í Þjóðleikhúsinu og Góðverkin kalla hjá Biskupstungnungum. Langar að sjá Gaukshreiðrið á Selfossi, og Fílamanninn hjá Halanum, en veit ekki hvort það næst, Selfoss er alveg að hætta í bili og sýningarplan Halans er alveg eins og Hugleiks, allavega á næstunni. Hins vegar er ég með stór plön um að mæta á frumsýningu á Smúrtsinum í Kópavogi um aðra helgi. Í atvinnuleikhúsum langar mig mikið að sjá Chicago og Sporvagninn Girnd í Borgarleikhúsinu og svo var ég að frétta af leikriti sem heitir þrjár Maríur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sem mig langar líka að sjá þar.

Það eru hins vegar bara alls ekki nógu mörg kvöld í heiminum. Á miðvikudagskvöld langar mig samt gífurlega að fara á Næstabar og sjá tónleika með hinni óborganlegu skopsveit Hundi í óskilum, sem ég hef enn ekki afrekað að sjá "læf" (nema ef vera skyldi á leiklistarhátíð á Akureyri 2000, en þar sem þeirri hátíð var eytt í hálfgerðu taugaáfalli af minni hálfu þá man ég ekki neitt hvað ég sá þar).

Semsagt, allt vítlaust að gera í menningunni á næstunni og kemst örugglega ekki yfir helminginn. Gaman að því.
Jah, nú skal segja.
Hugleikur búinn að frumsýna og heill djöfuldómur enn eftir af vetrinum. Þá eru góð ráð dýr, vertíðin ekki næstum búin og kominn tími á annað skip. Ekki er þó öll nótt úti, Leikfélag Hafnarfjarðar fer af stað í kvöld.
Ætla að gera þriðju tilraun til að starfa með þeim ágæta flokki, hef byrjað með þeim áður dæmið einhvern veginn ekki gengið upp vegna annarra anna, undarlegra plana um frumsýningar á milli jóla og nýjárs, og ekki síst krípi gaursins þar sem ég var hrædd við.
Nú eru hinsvegar jól og aðrar annir að baki og ég er óðum að vinna bug á ótta mínum við Halldór hinn krípí þannig að, kominn tími á að gefa LH allterþegarþrennter sénsinn.

Ef ég verð reglulega dugleg er sumsé séns að ég nái að vinna með fjórum leikfélögum á þessu leikári! Það er persónulegt met.