15.7.06

Líbanon

hefur ekki verið í fréttum síðan síðast var verið að drepa fólk þar og var búin að gleyma að það væri til. Ætli það gerist ekkert í kringum Beirút nema þegar svoleiðs gengur á? Nú er ég orðin illa forvitin um þetta land og ætla að fara þangað næst þegar ekki verður stríð. Nema, þá verð ég sennilega búin að gleyma tilvist þess aftur... sennilega ætti maður að skrifa þetta einhversstaðar.

Annars, gargandi blíða og Bára syss og Sigurvin bró og frú eru komin austur og við erum öll að fara að vera á ættarmóti úti í sveit í allan dag. Þannig að, Nanna og co, sjáumst vonandi á morgun. (Þetta er náttlega til skammar. Hitti hana Úlfhildi Stefaníu næstum á hverjum degi meðan verið var að baka hana, en nú hef ég ekki séð barnið síðan hún var vikugömul. Fyrir tveimur mánuðum síðan eða svo. Sussu.)

Allavega, best að fara að dæla í sig ofnæmislyfjum og allskyns.

13.7.06

Sumarfrí?

Rannsóknarskip vann í alla nótt svo ég vaknaði með Freigátunni, aldrei slíku vant. Og þar sem mig hefur tilfinnanlega vantað tíma til að leika mér við internetið skelltum við okkur bara í kjallarann og erum að skemmta okkur yfir annarra manna bloggum. Sem eru reyndar ekki ógurlega lifandi, mörg hver, svona yfir hásumarið. Klukkan er níu og ekki hafa okkur enn borist nein verkefni, svo nú er bara að krossa putta og vona að við fáum kannski að sofa bæði næstu nótt.

Mér sýnist vera að bresta á með brakandi blíðu, allavega leit veðrið mjööög vel út klukkan átta. Hvergi ský og orðið nokkuð hlýtt. Okkur er að verða nokkuð batnað af þessari ömurlegu júlíflenst, nema við Freygáta erum enn með slatta af hor. (Og núna er hún komin úr sokknum sínum og er að borða hann. Kannski ekki skrítið að menn séu með hor þegar menn stunda svona sýklahernað á sjálfa sig.)

Sá útundan mér á einhverju bloggi að það er verið að æfa leikrit uppi í skógi og ég þarf þvílíkt að fara að gera skurk í leikritinu sem ég er að þykjast vera að skrifa fyrir Leikfélag Hérastubba. Og svo langar mig á tvo klassíska tónleika í vikunni. Ég fæ alltaf menningarsjokk þegar ég kem hingað. Þ.e.a.s., sjokk yfir hversu marga menningarviðburði sem auglýstir eru í daxkránni mig langar að sækja.)

12.7.06

Frh.

Sídan segir að Matteratsjí hafi sagt eitthvað niðrandi um móður sína og systur. Matti segist hreint ekki hafa sagt neitt slíkt. Væri nú ekki aldeilis fyndið ef þetta væri alltsaman út af misheyrn?

Annars er ég ennþá hundveik, aðallega vinstra megin, og við erum að drukkna í viðbjóðslega leiðinlegum þýðingum á bílamáli sem við vitum ekki haus eða sporð í. Vonandi batnar allt á morgun.

Erum að fara á ættarmót á laugardaginn. Skilningur minn á tilgangi ættarmóta fer minnkandi. Sérstaklega þar sem ég væri alveg til í að vera á Eistnaflugi á Neskaupstað, þar sem m.a. spilar hin ofurhúsvíska paunksveit Innvortis. (Og mér finnst kúl að skrifa paunk með auji.) Og Rannsóknarskip langar að vera á golfmót.

Eftir þessa helgi ætla ég síðan að taka upp þá stefnu að vera sama um hverjir eru þremenningar við mig. Enda er það náttlega hálf þjóðin, að minnsta kosti.

10.7.06

Hvað sagðann?

Spurningin sem liggur eins og mara á alþjóðasafélaginu: Hvað sagði Matteratsjí við Sídan sem varð til þess að sá síðarnefndi stangaði þann fyrrnefnda eins og óður hrútur?

Nokkrar tillögur:

1. Mamma þín er ljót. (Þar sem móðganir um mæður eru jú það ljótasta sem hægt er að segja í Suður-Evrópu.)
2. Hommi!
3. Alsýringur!
4. Hí á þig! Þetta er síðasti leikurinn þinn í HEIMINUM!
5. Ég svaf hjá konunni þinni í gær. Og áðan!

Gæti eflaust fattað uppá fleiru ef ég væri ekki með svona mikið hor í hausnum. Freigátan smitaði mig af flensu dauðans og við erum í sameiningu að smita Rannsóknarskip. Alveg gaman í sumarfríinu hjá okkur!