19.11.05

ogviðhöndumtökumsamanöllsemeitt!

Frumsýningardagar eru alltaf skrítnir. Manni finnst maður ætti að vera að gera eitthvað, en það er kannski ekkert eftir sem mar getur verið að gera. Tja, allavega ekkert sem ég get verið að gera, í tilfelli þessarar sýningar á þessum tímapunkti.

Ég verð að vera soldið sammála því sem æðsti leikstjóri sagði á sínu bloggi í gær. Þrátt fyrir fínar viðtökur í gær og að allt plögg lofi góðu, og að mér finnist þetta frekar ljómandi sýning, þá er ég mjööög tortryggin. Þetta var of auðvelt.

Það var gaman í höfundaklíkunni sem skrifaði. Alltaf stuð á fundum, og svo skrifaði þetta sig nú eiginlega bara sjálft, finnst mér. Tónlistin mokaðist út úr höfðum Snæbjarnar og Þorgeirs eins og þeir fengju borgað fyrir það. (Sem þeir fengu að sjálfsögðu ekki, frekar en neinn annar sem kom að gerð þessarar sýningar.) Og var harla góð.

Svo gat ég komið miklu minna að æfingatímabilinu heldur en ég ætlaði, sökum ýmiss krankleiks, en, svei mér þá, ég held það hafi nú bara ekki komið baun að sök. Svona er maður nú innilega ekki ómissandi, svei mér þá! Svo fær mar bara að mæta á frumsýningu, eins og fín frú, í síðasta kjólnum sem mar kemst í, og hirðir svo sneið af heiðrinum fyrir alltsaman.

En hvað við Toggi höfum nú verið framsýn og snjöll þegar við fengum þessa fáránlegu hugmynd, hérna einhverntíma árið 1999.

18.11.05

Sagan á enda núna er...

...eða næstum... eða kannski er hún bara rétt að byrja, svona það sem almenningur sér.

Akkurru ætli það heiti annars generalprufa? Þetta er bjánalegt. Og þýðir ekkert vitrænt.

Allavega, generalprufan á Jólaævintýrinu var áðan og allir skildu sáttir, held ég bara. Menn allaveg klöppuðu voða mikið, blístruðu og öskruðu, að henni lokinni, og það hlýtur að vera ágæts viti. Og sýningin virðist vera alveg rétt að verða tilbúin, verður það alveg á morgun, og bara... ljómi og sómi.

Held allavega að það sé alveg ástæða til að vera ánægð með okkur núna.

Annað, fyndnar umræður í grindhvalasundi í morgun. Vorum að velta fyrir því á hvaða vikudegi væri heppilegast að stunda fæðingadeildina. Ein sem á að eiga á fimmtudag í næstu viku segist ætla að vera á þriðjudegi, af því að þá er ekkert í sjónvarpinu. Ég er sjálf sett á föstudag, sem er alveg ljómandi. Missi ekki af neinu.

17.11.05

Siiiiríuslí...

Var að lesa einstaklega væmna blaðsíðu í Blaðinu, meira og minna upphátt fyrir Rannsóknarskipið, í hádeginu. Fjallaði hún öll um dásamlega rómantískar staðreyndir og heilræði til þess að láta hjónabönd ganga og þar fram eftir götunum. Þetta þótti okkur nú aldeilis fallegt, og andvörpuðum oft í kór, héldumst í hendur og horfðumst í augu. (Í alvöru, sko!)

Það var því ekki að undra að drykkjarjógúrtin kæmi næstum út um nefið á mér þegar ég sá að systir mín, hin kjaftforri og pipraðri, var skrifuð fyrir ósköpunum. Mar veit nú bara ekki hvað mar á að halda!
Hvað eru Blaðsmenn eiginlega að gera við hana?
Setja mýkingarefni í kaffið hennar?
Ætli hún sé kannski farin að reykja maríjúana að staðaldri?

Og, fyrst hún veit þetta alltsaman, því situr hún þá endalaust ein og bitur og kveinar yfir því að ég hafi trúlofast og óléttast á undan sér í staðinn fyrir að hreinlega gera eitthvað í málinu og veiða sér tarf, fyrst hana segist langa í...? Ætti ekki að vera skotaskuld úr því verkefni, miðað við þá bakgrunnsþekkingu sem hún ljóslega hefur.

Er farin alvarlega að halda að systir mín sé skápalessa.

Fari það í hlandbrunnið hurðalaust...

Nú er allt á barmi taugaáfalls. Gerði svo mikið í gær að ég var næstum búin að missa legvatnið og þurfti að sitja af mér æfingu. Sem mér þótti hið slæmsta mál. (Svona fyrir utan hvað það er alltaf gott að hafa meiri tíma til að knúsa Rannsóknarskip og Smábát.)

Gat samt sem áður ekki á mér setið þegar ég fékk tækifæri til að láta í mér heyra á opinberum vettvangi. (Öðrum en þessum hér, þ.e.a.s.) Og verð, að ég held, ásamt með Önnu Beggu á Talstöðinni klukkan hálffimm. Held við verðum í beinni, er samt ekki alveg milljón prósent viss.

Hvað fleira? Jú, hér er frétt.

16.11.05

Planið er gó!

Mér voru að berast þær einstaklega skemmtilegu fréttir til eyrna að þegar væri orðið uppselt á einhverjar sýningar í desember á Jólaævintýri Hugleix. Það er því ljóst að það borgar sig fyrir þá sem sjá ætla að drífa sig hingað og panta miða sem allra fyrst.

Ójá, nú hafa Hullarar markaðsmógúlast sem aldrei fyrr. Kannski spillir ekki fyrir að vera með svona jóla-fjölskyldu-isj eitthvað?
Og svo erum við auðvitað bara svo fyndin og góð.
Og hógvær.

15.11.05

Heldurðu að ég skíti flatkökum?

Það sem eftir er þessarar viku verða allar fyrirsagnir hér úr Jólaævintýri Hugleix, sem nú er komið í Tjarnarbíó og á endasprettinn sem lítur út fyrir að ætla að verða jafn dáindisskemmtilegur og allt annað sem á undan hefur gengið við tilbúnað þessarar sýningar. Heimilislegt sem aldrei fyrr í Tjarnó. Í búningsherberginu má finna svitalykt undanfarinna 10 ára og allt úir og grúir í draugum marrrrgra liðinna sýninga.

Og ég er enn mikið hamingjusöm yfir að hafa komið því til leiðar að Hugleikur uppgötvaði tilvist Guðmundar Steingrímssonar ljósamanns að austan og lokkaði hann til fylgilax. Þegar hann er farinn að hanga einhvers staðar uppi í stiga eða ljónast á ljósaborðinu, þá er mar nú fyrst kominn heim til sín.

En nú tekur við vika langra og strangra æfinga og einhverra stjórnarstarfa á milli. Hef reyndar svo sem alveg séð það svartara, bara kannski ekki alveg í þessu ástandi. Það er óneitanlega farið að fatla mann talsvert. Hraði yfirferðar er ekki alveg sá sami og venjulega og svefnþarfir eru miklar og ófrávíkjanlegar. Og svo eru ótrúlegustu hreyfingar farnar að þvælast fyrir manni. Var einmitt að pota mér í fötin, með nokkrum erfiðismunum, eftir sund ásamt nokkrum grindhvelum í gær og við vorum að spekúlera íðí hvort það væri ekki einmitt svona að vera gamall. U.þ.b. 90 ára.

En sem betur fer nýt ég fyrsta flokks þjónustu heima fyrir. Rannsóknarskipið mitt er afbragð annarra manna, stjanar í hvívetna og vandar um ef ég gleymi að borða eða sofa. Ynnnndislegt.

14.11.05

Húmbúkk!

Hvaða djöfuls fábjána datt í hug að það gæti verið sniðugt að láta unglinga keppa í leiklist? Hefði alveg getað lifað án milljónþúsund hópa af ofvirkum unglingi í búðinni í dag að kaupa "smink".

Og hvaða hálfvitagangur er það líka að halda að senda þessa tegund út af örkinni í 4-5 manna háværum hópum, sem undantekningalaust veit EKKERT hvað hann er að gera, en hefur allur gífurlega miklar skoðanir á ÖLLU.

Mér finnst unglingur best geymdur í einangrun, slík tegund ætti aldrei að ganga laus og það er hreinlega mannvonska við heiðarlegt vinnandi fólk að senda þetta í reddingar.

Hólí fokkíng krapp og sjitt...

Góðu fréttirnar eru þær að maður þarf ekki að sækja um fæðingarorlof fyrr en 6 vikum fyrir áætlaða frumsýningu nýs afkomanda. (En ekki 8, eins og ég hélt, sem hefði verið á föstudaginn, sem hefði hreinlega ekki verið hægt...) Þær slæmu eru að listinn af pappír sem fylgja þarf umsókn er lengri en það sem þarf til að fá greiðslumat. Og er þá nóg sagt. Er ekki hægt að ráða fólk til að sjá um svona fyrir sig? Ég bara má ekki vera að þessu...

Og svo gerir kerfið alls ekki ráð fyrir afbrigðilegu fólki. Jújú, fæðingarORLOF er fyrir fólk sem er í vinnu, og fæðingarSTYRKIR eru fyrir þá sem eru í yfir 75% námi. EÐA atvinnulausir... það er ekki gert ráð fyrir fólki eins og Rannsóknarskipinu sem er í tveimur hálfum námum. Hvorugu sérstaklega námslánshæfu. Samt hreint ekki atvinnulaus. Ekki víst að hann fái neitt fæðingarorlof. Enda finnst honum kannski bara ágætt að fá að loka sig inni í skáp og skrifa ritgerðir í vor þegar barnuglan öskrar svo undir tekur í húsinu, skítur upp á bak og fær í eyrun, magann, og allt þetta sem börn eru alltaf að fá í. Hins vegar er skápurinn illa hljóðeinangraður þannig að ekki er víst að hann gefi neitt bliss.

En vegir Tryggingastofnunar eru sem endranær illransakanlegir, og ef ég mögulega hefði efni á því myndi ég ekki nenna þessu kjaftæði. Verð að muna að verða orðin fáránlega rík fyrir næsta barn.

13.11.05

Ætem!

Eitt af því fyrsta sem við Varríus bárum ábyrgð á í sameiningu var fyrirbæri sem hlaut hið skemmtilega heiti "ætemið". Var það mikið teygjubelti með frönskum rennilás sem við brúkuðum til að binda upp um okkur aðra löppina, en svo bar við í þessu fyrsta leikriti sem við stunduðum saman, að við vorum bæði einfætt, á sitthvorum tímapunkti í verkinu samt. Apparat þetta var fengið einhvers staðar í heilbriðgðistkerfinu, og eflaust ætlað til einhverra annarra nota, enda spáði hún Hulda ekki vel fyrir þessari misnotkun. Vildi meina að um fimmtu sýningu myndum við bæði missa lappirnar, þ.e.a.s. þær uppbundnu, um hné.

Tilvist þessarar græju var ég síðan búin að gleyma.

Þangað til ég eignaðist ekki ósvipað tæki í dag. Nema hvað nú brúkast það til að halda upp um mig ístrunni, og mjöðmunum saman til þess að ég detti nú ekki niður um klofið á mér. Enda væri það nottlega frekar agalegt, svona í vikunni fyrir frumsýningu. Sem sagt, hef eignast mitt eigið Ætemildi, og er trúlega að brúka það á réttari hátt en síðast!

Annars er heilsan að skríða saman, en við tekin mikið geðsýkisvika. Hin hefðbundna síðasta vika fyrir frumsýningu. Áðan var ég viðstödd gegnumrennsli í Tjarnarbíó. Það var hreint ekki leiðinlegt, þó svo að nokkur fengi maður kvíðaköstin yfir því sem er eftir, eins og gengur. En þetta lofar bara góðu... held ég.