8.10.04

2005 ætlar að verða ár barneigna.

Allavega ætlar einhver haugur barna, í nánasta gengi, að koma í heiminn þá.
Ég stenst ekki svona tískusveiflur.
Held ég nái ekki að þjálfa upp mann í tæka tíð ef ég ætla að vera með.

Farin í sæðisbankann.
Uppskrift að Hinum Eina Rétta.

Opinn og skemmtilegur... án þess þó að vera síblaðrandi fábjáni.
Orðvar... án þess þó að vera þumbaralegur leiðindapúki.
Með góða stjórn á peningamálum... án þess þó að vera nískur.
Ekki latur... ekki ofvirkur.
Ekki þunglyndur... ekki hórkarl.
Ekki hræddur við skuldbindingar, sérstaklega ekki með mér.

Svo verður hann náttúrulega að vera til í að hlæja með mér, hugga mig þegar ég grenja, bera fyrir mig þunga hluti, eignast öll börnin með mér á meðan ég er ung og ferðast með mér þegar ég verð gömul.

Að hugsa sér. Ég er nokkuð viss um að fyrir ekkert svo svakalega löngu síðan þótti ekkert af þessu til of mikils ætlast. Það hefði ekki þurft að taka neitt af þessu sérstaklega fram. Hvenær tóku karlmenn heimsins sig saman og ákváðu, langflestir sem einn, að verða dysfúnksjónal ólíkindatól?

7.10.04

Nú er vinnugeðstrop.
Eins gott að íbúðakaupaþróunarmál eru ekki í mínum höndum í augnablikinu. Pappírar verða að ferðast fram og til baka á milli Egilsstaða og Reykjavíkur næstu daga og jafnvel vikur í því skyni að mér lánist einhverjar millur til að geta borgað út og skrifað undir. Það gerist væntanlega ekki fyrr en í sömu viku og afhending á að fara fram en í dag eru tvær vikur, nánast sléttar, þangað til það á að gerast.

Um helgina er haustfundur Bandalaxins míns á Akureyri og þar mun verða komið einhverju skikki á skipulag leiklistarhátíðar sem við höldum þar í bæ næsta sumar.

Upp er einnig runnin skriftörn í M&M. Einhvers staðar inn á milli vinnanna og fundanna þarf ég að finna einhverja klukkutíma til að liggja í því. Hlakka reyndar ógurlega til, yfirleitt gaman þegar við setjumst niður saman, tölvan og ég.

Vinnugeðstropi heldur reyndar áfram út þennan ágæta mánuð, eftir því sem ég best fæ séð, og eitthvað verður lítið um svigrúm til neins. Geðbólgur sökum annarra hluta verða að bíða.

En öll vitleysan endar svo væntanlega á hamslausri gleði og hamingju í nýju íbúðinni og ferð til Færeyja.

6.10.04

Well, there aint no use to sit and wonder why, babe
even if you don't know by now

Tölfræði getur komið manni skemmtilega á óvart.

There aint no use to sit and wonder why, babe
it'll never do somehow


Svona ef maður fer að reikna.

When the rooster crows at the brake of dawn...

Þetta er þriðja árið í röð sem ég fæ minnst eitt dömp á ári.

...look out your window and I'll be gone...

Fékk reyndar 2 árið 2002.

...you're the reason I'm travelling on...

Þar áður dömpaði ég nokkur ár í röð. Sleppti því reyndar 1998 og 2000, enda var 1999 óvenju afdrifaríkt.

Það skyldi því kannski engan undra þó maður sé búinn að þróa með sér ákveðna fælni og vonleysi og þar að auki komin með sálartötrið í rassgatið.

Skyldi dálæti mitt á þessu lagi með Bob Dylan hafa einhver kosmísk áhrif þannig að það eigi ævinlega vel við minnst einu sinni á ári?

...don't think twice it's all right

Eigi skal nú samt gráta Björn bónda eða drepast ofan í klofið á sér, heldur safna liði og kanna leiðir til úrbóta.

Úrbót 1 Ég er greinilega ekki góð í að hafa stjórn á þessum málum. Ein keeelling í klíkunni hefur náð þeim árangri að verða "eiginkona". Henni hefur verið falin stjórn forvals. Þegar síðan kemur að endanlegri kosningu verður málið sett í Nefnd Útvaldra.

Úrbót 2 Um næstu áramót ætla ég að stela áramótaheiti Ross frá því einhverntíma og segja "Engir Skilnaðir 2005". Reyna svo að fylgja því eftir. Þó það þýði Engir Menn 2005. (Gæti reyndar verið álíka raunsæislegt og Reyklaust Ísland árið 2000, þar sem hórdómsafköst vor ná jafnan út yfir allan þjófabálk, en það má reyna.)

Næsta lag á Dylan disknum mínum er Times are changing. Legg mikinn og djúpan skilning í það.

Á sama tíma skal Feng Shui heimilisins haldið í stöðugu jafnvægi, grænbláir þörungar étnir í akkorði og andlegum afturbata náð í gegnum innhverfa íhugun við prjón.

5.10.04

Er búin að vera í alvarlega innanhúsarkítektúrlegum spekúleringum í morgun og er farin að horfa mjög alvarlegum augum á standlampa og matarstell, hvað þá annað. Næsta mál á dagskrá er að þræða antíkbúðir og sollis í miðbænum. Hef augastað á tveimur.

Er allt í einu hryllilega fegin að eiga ekkert og geta tekið allskyns "mikilvægar" ákvarðanir. Íbúðamál standa þannig að ég skrifa undir um leið og ógrynni af ímynduðum peningum hafa streymt í minn vasa. Afhending eftir tvær og hálfa viku. Kem til með að skemmta mér við innanhúshönnun hvers konar fram að jólum.

Jiminn hvað þetta er gaman! Þarf að fara að lesa Feng Shui... og leiðarvísi í ástarmálum eftir maddömmu Tobbu og Ingimund gamla.

Örlitlu síðar:
Snilld! Raxt á þetta:

How Feng Shui Can Help Your Love Life

* Have you been looking for love without success, for what feels like forever?
* Do you wonder why you can't seem to meet someone who is right for you, or why you can't hold on to that person when you eventually do connect?

Feng Shui rúlar!
Og það er kominn vetur. Ekkert smá. Var næstum orðin úti á leiðinni í vinnuna.

Í tilefni þess er rétt að taka púlsinn á ruslpósti. Þar hefur nefnilega verið að gerast örlítil áherslubreyting. Mér hefur ekki verið boðið að láta stækka á mér tippið mánuðum saman, en hins vegar er núna verið að bjóða allt milli himins og jarðar sem mögulega getur fengist í pilluformi. Sem sagt, læknadóparar heimsins eru greinilega góður markhópur þessa dagana.

Svo fékk ég einn póst áðan sem hét: Look and feel 20 years younger!

10 ára? Gæti svo sem verið nógu gaman...

Annars, veit ekki hvernig DV náði í stefnuræðu forsætisráðherra og er líka alveg sama. Nennti ekki að lesa hana. Sá hálfa setningu úr þessari ágætu ræðu í sjónvarpinu í gær og það var nóg til að svæfa mig.

Gerði enn og aftur heiðarlega tilraun til að láta reka mig úr nýju vinnunni, með jafn litlum árangri og síðast. Þar með ætla ég að sætta mig við örlög mín og tala við launadeildina í dag, svo ég fái útborgað. Október verður reyndar martraðarkenndur mánuður, en ég er líka að fara að eignast heilan haug af peningum sem ég hef aldrei tíma til að eyða. Sé svo sem alveg fegurðina í því. Þarf líka að fara að reyna að læra hvað samstarfsfólk mitt heitir.

Get ekki ímyndað mér hvenær ég hef tíma til að setjast niður og skrifa eitthvað í Memento Mori. En... það bara... reddast... eða eitthvað.

Mér er eitthvað undarlega sama um allt í dag.