13.4.07

Föstudagurinn 13...

og leiksýning og generalprufa hjá leikfélaginu og Bára syss að fljúga til útlanda og mamma að fljúga í bæinn.

Þetta er gáfulegt skipulag. Sízt.

Seinni tíma viðbót: Í ljós hefur komið að fjölskylda mín veldur þeirri ógæfu sem það er að ferðast á þessum degi. Mamma ruglaði mætingar- og brottfarartíma og flugvélin þurfti að bíða eftir henni á Egilsstöðum. Bára syss gerði þetta.

En sýningarnar gengu báðar vel.
Fyrir utan smámisskilning í Eplum og eikum varðandi svartar ólífur og græna ketti.
Eftir á að hyggja er eitthvað við það að hindurvitnaræðan hafi ruglast á föstudeginum 13.

12.4.07

MAMA

Vonda stóra hurðin á aðalbyggingunni í háskólanum er farin að opnast sjálfkrafa þegar maður kemur að henni. En það er alltaf sama lyktin inni á nemendaskrá. Og alltaf sama röðin út úr dyrum. Það er búið að troða nýjum húsum allt í kringum Lögberg. Svo núna eru endanlega engin bílastæði, nema einhvers staðar lengst úti í Vatnsmýri. Og Nýi Garður er morandi í fólki sem skrifar undir hvað sem ég bið það um.

Og hvað var konan að þvælast úti í háskóla? Spyrja menn sig ef til vill.

Hún var að sækja um framhaldsnám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Sennilega með Menningarmiðlunarívafi. Raxt á umsjónarann minn úr síðasta master, sem sagði að þetta væri sniðugt og var svoleiðis aldeilis til í að mæla með mér. Og fullyrti að ég kæmist þokkalega pottþétt inn. (Og hann ræður því.)

Með þessari frétt er mynd af prinsessunni, að ósk ofurfrænkunnar í austrinu. Freigátan átti að vera ánægð með nýju gráðuna, en ég frétti hjá skorarformanni áðan að þegar maður er kominn með tvöfaldan master heitir það að vera MAMA.

Bjór, meiri bjór!

Það hefur verið hálfgerður hundur í mér síðan ég kom aftur úr sveitinni. Ég er með kvíðaröskun yfir því að hafa margt að gera, sem er svosem ekkert slæmt í sjálfu sér. En flest verkefnanna sem fyrir liggja þykja mér frekar leiðinleg.

En brúnin hefur nú smá verið að léttast, eftir því sem leiðindunum lýkur einu af öðrum. Og hún flaug alla leið upp, eins og rúllugardína, rétt í þessu þegar ég fann uppáhalds Ljótuhálfvitalagið mitt á veraldarvefnum.

Nú ætla ég að hlusta á það nógu oft til að ég geti farið að hafa það á heilanum af einhverju viti.

11.4.07

Bingó!

Það er svo asnalegt, að þegar maður liggur í öllum fjölmiðlum að reyna að grenja út einhvers konar kynningu á leikritinu sem félagið manns er að setja upp, þá gleymir maður iðulega að maður á sinn eigin fjölmiðil. Nefnilega bloggið sitt, sem fær heimsóknir frá yfir 100 ip-tölum á dag. Hundrað eru einmitt tvær fullar sýningar í Hjáleigunni í Kópavoginum þar sem Hugleikur og Leikfélag Kópavogs frumsýna leikritið Bingó á laugardaginn næstkomandi.

Þetta er alveg hrrrroðalega kúl sýning.
Höfundur Hrefna Friðriksdóttir.
Leikstjóri Ágústa Skúladóttir.
Það, eitt og sér á erfitt með að klikka.

Snillingurinn Ásta bjó líka til þetta glæsilega kynningarmyndband.

Miðapantanir eru hér.
Og það borgar sig að panta fljótlega þar sem sætafjöldi í sal er takmarkaður.

Einnig,
Nú eru aðeins örfáar sýningar eftir af stórvirkinu Epli og eikur sem Hugleikur sýnir í Möguleikhúsinu. Og þær eru óðum að fyllast. Miðapantanir eru hér.

Ætli þetta sé ekki nóg í bili?

10.4.07

Nei, djók...

Auðvitað er leikfélagið mitt fallegt og skemmtilegt.

Ég er hins vegar einhverf. (Las Undarlegt háttarlag hunds um nótt og komst að því.) Ef ekki er allt ákveðið og skipulagt fyrirfram, upp á mínútu, og fullkomlega fyrirsjáanlegt, þarf ég bara að gubba.

Og nú er ég búin að fara á fund og skipuleggja margt. (Reyndar alveg gífurlega margt. En þetta er allt komið inn í tímaplan.) Svo mér líður aðeins betur. Svo er frumsýning á laugardaxkvöld. Alltaf gaman á frumsýningum. Er það ekki?

Og þessari stjórnarsetu í Hugleik ætla ég ljúka með því að skipuleggja yfir mig og sjá um miðasölur á þremur verkefnum í einu. Sem sum eru á sömu kvöldunum. Vill einhver vera memm?

9.4.07

Ujjjj

Þetta er búið að vera mjööög gott frí.

En á morgun komum við til borgar Höfuðsins. Það er búið að boða mig á einn fund klukkan 18.00. Verð í miðasölu á einu leikriti á fimmtudag, föstudag og sunnudag. Og miðvikudag og fimmtudag. Veit ekki hvort ég fæ einhverja til að vera þar með mér. Frumsýning á öðru leikriti á laugardag. Veit ekki neitt um það. Ef ég kemst á fund um það á morgun kemst ég sennilega að því að það er bullandi óánægja með eitthvað sem ég þarf örugglega að galdra mér tíma til að gera eitthvað í. Einþáttungaprógramm eftir næstum tvær vikur. Veit ekki hvort fleiri en tveir einþáttungar verða í því, samt.

Hef persónulega mikið að gera í ýmsu sem mig langar mikkklu meira að vera að sinna í vikunni. Og skiptir talsverðu máli fyrir framtíð mína.

Mig langar síst aftur í bæinn. Er meira að huxa um að fara að grenja og fela mig og fjölskylduna bara í fjárhúsunum fram yfir aðalfund.

Minnið mig á að hætta í leikfélaginu.

8.4.07

Páskadag!

Á páskadag fæ ég alltaf eina línu úr Sálum Jónanna á heilann. Svolítið pirrandi, þar sem þetta er eiginlega hvorki né laglína og aðallega brandari.

Í dag á ég líka brúðkaupsafmæli. Í eitt ár höfum við Rannsóknarskip nú verið í hnappheldunni og það hefur nú verið bæði gaman og yndislegt á hverjum degi. Það er auðvitað hreint frábært að vera giftur svona æðislega góðum og skemmtilegum manni. Það verður nú ekki af því skafið.

Enda held ég að ég sé að hafa gott af því. Og ýmislegt er að brjótast um í hausnum á mér á öllum vettvöngum lífs míns sem ég er að hamast við að skrifa niður og leggja drög að.
Eitthvað af því kemur kannski í ljós síðar.

Í gærkvöldi sátum við síðan hjá foreldrum mínum með rauðvín, eftir að hafa horft á Mótorhjóladagbókina hans Che. Kannski voru það áhrif frá henni, en allt í einu vorum við farin að spekúlera í að fara í gasalegt ferðalag í sumar. Með börn og buru og huxanlega mömmu mína líka. Veit annars einhver hvað kostar að leigja húsbíl í Skotlandi?
Það kostar allavega ekkert að láta sig dreyma.