9.7.10

Kvæmt fram!

Mikið ógurlega erum við nú dugleg í húslegunum í sumar.

Þetta hófst eiginlega allt á því að sjónvarpið gaf upp öndina. Það var svona stórt og gamalt klumpusjónvarp, sem þurfti stóran og gamaldags sjónvarpsskáp undir sig. Sem náði náttúrulega lengst út á gólf. Og við nenntum einhvernveginn aldrei að skipuleggja stofuna almennilega í kringum þetta flykki, af því að við grunuðum þetta sjónvarp um að vera deyjandi.

Jæja, hálfum mánuði fyrir HM gaf það upp öndina. Fjárfest var í flötu. Og þá var hægt að endurskipuleggja.

Samt var ákveðið að byrja á allt öðru, nefnilega að mála eitt lítið herbergi (ljósbleikt) og skella hjónarúminu þar inn, skilja litlu börnin eftir í stóra herberginu með allt dótið. Það er búið og gert og kemur reglulega vel út.

Aukinheldur er gólfið í eldhús-stofunni orðið algjörlega olíu/lakk (hvort sem það hefur nú einhverntíma verið) -laust. Ég hringdi í mann sem kom og kvað upp þann úrskurð að það væri vel hægt að slípa það og lakka. Og það yrði alveg eins og nýtt. Það verður gert þegar við verðum farin. Bára syss ætlar ennfremur að hirða mest af stofuhillunum og píanóið sitt, í framhaldinu ætlum við að fjárfesta í hillum í IKEA sem nýta plássið betur, bæði á hæð og breidd. Og nettari sjónvarpshirslu. Og áður en við gerum það ætlum við að mála stofuna. Pastelgræna. Það verður gert um Verslunarmannahelgina, en einmitt þá sný ég aftur frá ráðstefnu í útlöndum og Rannsóknarskip flýgur í bæinn til aðgerðanna og börnin verða eftir hjá ömmu og afa á Egilsstöðum á meðan, við mikinn fögnuð allra viðstaddra.

Gaman væri nú líka að láta taka gólfið á herbergjunum í gegn, og spasla í og mála innihurðirnar, en það bíður örlítið betri tíma.

Ég hugsa að þetta skili sér nú líka alltsaman í seljan/leigjanleika íbúðar, en við stefnum á að yfirgefa hana sumar 2012. Og líklega fyrir fullt og allt þar sem hún verður líklegast sprungin utan af fjölskyldunni þá. Hins vegar spurning hversu hátt lánin munu hafa vaxið henni yfir höfuð... En þau vandamál eru nú alveg seinni tíma.

Enda verður peningakerfið örugglega hrunið þá.

En mikið ógurlega verður nú orðið drullufínt hjá okkur í haust. Liggur við að maður setji inn myndir.
Þá.

7.7.10

Eða... næstum öll

En sagan var víst ekki búin.

Á mánudagsmorgun ætlaði ég nú aldeilis að hrista af mér slenið, eftir svona frekar slappa helgi, og fara og hlaupa óværuna úr mér. Gerði mjög heiðarlega tilraun. Varð reyndar fljótlega asnaleg af hlaupunum, fann eitthvað ekki taktinn og varð andstutt og... já, bara asnaleg. Hætti að hlaupa en labbaði slatta. Kom heim... var áfram skrítin. Fór í vinnuna, en lét Rannsókanrskip keyra mig þangað. Sem er ekki líkt mér. Var ekki mjög lengi í vinnunni. Enda enn asnaleg. Lét Rannsóknarskip sækja mig aftur. Var enn með andþynglsi og einhverja vitleysu þegar heim var komið svo það endaði með því að ég hringdi uppá Hjartagátt. Og fór þangað.

Þar var tekið hjartalínurit, settur hjartamónitor og tekið blóð til að rannsaka einhver hjartaensím. Í byrjun sáust aukaslög, en þau löguðust þegar ég var búin að liggja slatta. Enda leið mér þá betur. Ensímin reyndust alveg eðlileg.

Læknir kom og spjallaði viðmig (honum þótti meðal annars fyndið að ég skyldi vera að lesa Önnu í Grænuhlíð) og sagði mér að allt væri eðlilegt, þannig, þessi aukaslög væru ekki hættuleg, en þau ákváðu að taka sólarhringsmælingu á hjartslættinum áður en ég færi í fríið, samt. Og svo fékk ég að fara heim.

Lá alveg eins og klessa í rúminu í allan gærdag, og er mun hressari eftir. Finn samt aðeins fyrir asnalegheitum. Og í dag var hengd á mig græja sem á að taka upp hjartsláttinn þar til klukkan 11 í fyrramálið. Svo nú reyni ég að framkalla einkennin sem ég hef fundið fyrir.

Í fyrramálið ætla ég út að hlaupa og reyna að framkalla asnalegheit, og svo ætla ég út í skóla og fá mér sígó og kjaftatörn við manninn sem ég var að tala við þegar leið yfir mig.

Það ætti að geraða.

Annars eru börnin komin í leikskólafrí og ég búin að finna Önnu í Grænuhlíð eins og hún leggur sig, á Internetinu. Miklu fleiri bækur heldur en hafa verið þýddar á íslensku.
Og fjölskyldan heldur í árlega sumarútlegð á laugardaginn. Sem er alveg mánuði síðar en vant er, aðallega vegna gegnumtekninga á heimilinu og unglingavinnu unglingsins.

Aftur sný ég ekki í borg höfuðsins nema rétt til að fara eitthvert annað fyrr en að aflokinni leiklistarhátíð NEATA á Akureyri, 15. ágúst.
Og séu menn forvitnir um þá hátíð er ekki úr vegi að fjárfesta í eintaki af nýútkomna menningartímaritinu Spássíunni, sem inniheldur m.a. dagskrá og sögulega úttekt ásamt greinarkorni eftir undirritaða. Já, ég skrifaði fleira í það blað en greinina um The Wire, sem hefur þó orðið umræddari. Spássían er annars hið efnilegasta rit og ætti að fást í næstu bókabúð, hvar sem menn eru staddir.

Verð í netbandi og ætla að reyna að vera duglegri að skrifa það markverðasta. Og myndir af blessuðum börnunum þurfa líka að fara að birtast.

4.7.10

Sagan öll.

Jæja, þetta er orðið flóknara en svo að hægt sé að gera því skil í fésbókarstatusum. Og til þess að ég þurfi ekki að segja söguna mikið oftar þá ætla ég bara að setja hana hér.

Það bar við á fimmtudaginn síðasta að ég hlunkaðist í yfirlið í vitna viðurvist fyrir utan Háskóla Íslands. Þetta hefur reyndar gerst áður, en ég er með lágan blóðþrýsting og veit alveg af því. Svo ég var svo sem ekkert að gera mér rellu út af því. En þarna á fimmtudaginn sá þetta alveg fólk og þetta varð full-hallærislegt. Svo var ég hálf drusluleg það sem eftir var dax og lufsaðist á læknavaktina í Kópavoginum seinnipartinn. Þar varð fyrir mér læknir sem tók blóðþrýsting, sem var einhversstaðar á lífsmörkum, og mældi líka púls. Og spurði svo hvort ég væri örugglega ekki á róandi. Hann sagðist svosem ekki hafa neinar akút áhyggjur, en skrifaði fyrir mig einhverja beiðni og sagði mér að fara á slysó daginn eftir, með hana. Sem ég gerði, mætti í bítið á föstudagsmorguninn uppá Borgó.

(Þetta HEITIR Borgarspítalinn. Mér er alveg sama hvað hver segir.)

Allavega. Þar er tekið hjartalínurit og hellingur af blóði og settur hjartamónitor. Eftir ekkert mjög langa mæðu kemur hjartalæknir og segist ætla að senda mig upp á "Hjartagátt" (Siríuslí. Deildin heitir þetta. Læknahúmor?) á Landspítalanum (við Hringbraut) til nánari athugana. Þar er tekið meira línurit, ég er tengd við mónitor, látin halda áfram að hafa nál í handleggnum og einhverju sulli dælt í hana seinnipartinn. Með reglulegu millibili komu síðan hjúkkur og aðstoðarlæknar og spurðu meira og minna sömu spurninganna, tóku blóðþrýsting (sem var náttúrulega bara... alltaf eins) og rannsóknarskip skemmti sér við að láta mér bregða, slá mig í andlitið með blaðinu sínu, og gá hvað það gerði nú fyrir hjartsláttinn. Þetta varð nú samt alveg arfaleiðinlegur dagur og þegar ekki sá fyrir endann á þessu klukkan 14 (og það var að byrja leikur) þá sendi ég hann heim.

Uppúr fimm hitti ég loksins sérfræðing sem sagði mér hvað þau hefðu verið að pæla allan daginn. Þannig var að við fyrra línuritið vaknaði grunur um "of langt bil" einhversstaðar. Það sást síðan ekkert aftur, en til að fylgja þessu eftir þar ég að hafa holter-tæki, græju sem hangir á manni og fylgist með hjartslættinum, í einn sólarhring einhverntíma í haust og hitta svo lækninn í framhaldinu. (Í haust, vegna þess að ég má ekkert vera að þessu fyrr en eftir 15. ágúst.)

Að öðru leyti er einstaklega íþróttamannslegt að vera með svona lágan blóðþrýsting og púls. Þetta ku vera eins og fólk í Gríðarlega Góðu Formi er með. (Fólk í gríðarlega góðu formi er hins vegar ekkert sérstaklega hrynjandi í yfirlið, út um allar trissur.)

En í öðru aðspurðu sagði hann mér að halda bara áfram að éta Herbalife og hreyfa mig, það hefði bara góð áhrif, en ég þyrfti að passa að drekka svakalega mikið vatn, til að halda þrýstingnum uppi.

Svo þetta er nú svona. Skemmtilegt að þetta getur verið skýringin á ýmsum höfuðringlum, jafnvægistruflunum og stundum staðbundnu máttleysi sem hefur tekið sig upp annað slagið hjá mér í gegnum ævina, og fundist upp ýmsar skýringar á, sem síðan hafa meira og minna fallið um sjálfar sig. Kannski er það alltsaman vegna þess að ég hef hvorki blóðþrýsing né púls.

Ég held þeir ætli mest að athuga hvort ég sé vampíra.