21.9.07

Fjúff

Þá er þessi blessaði dagur lox alveg að verða kominn að háttatíma. Afmælisveislan fór óskaplega pent fram. Ekki mætti nema um helmingur þeirra sem boðið var. Svona á föstudögum er líklega alveg óhætt að bjóða öllum 30 manna bekknum. Heimturnar verða aldrei nema sæmilegar. Freigátan situr nú við að tryggja að ekki verði hægt að nýta pappadiskana sem eftir urðu síðar, Raðar þeim á gólfið, sleikir þá alla og makar í hori, samviskusamlega, og labbar svo á þeim.

Annars var hápunktur daxins auðvitað sónarinn. Þetta barn er nú bara alveg eins og fólk í laginu, veifaði og gretti sig og var með öll líffæri, innri og ytri, á réttum stöðum. Tíu putta og tíu tær og að minnsta kosti eitt auga. Formlega ásettur fæðingardagur er nú 8. febrúar. Mér fannst nú svipurinn á Duggunni eitthvað strákalegur, en við báðum ekki um að fá að vita neitt um þau mál.

Það verður nú að segjast. Þó allt sem ég er að brasa þessa dagana sé hvert öðru skemmtilegra og meira spennandi, þá er nú ekkert sem slær barnalánið út í skemmtun, spenningi og almennri lífsfylling. (Skrifaði hin verandi og verðandi móðir, sæl á svip, og hélt áfram að telja mínúturnar þar til væri sniðugt að setja horfossinn í bælið.)

Föstudagur til... fjárans?

Áður en ég gleymi því, Sigurvin bróðir minn er farinn að blogga frá Lundúnaborg. (Bjarkey, konan hans, bloggar reyndar líka en hennar blogg er læst svo ég nenni ekki að setja link á hana. Ég reikna með að allir viti um hana sem eiga að gera það.)
Allavega, þar með er fjölskyldan mín, þ.e.a.s. börn og tengdabörn foreldra minna, öll með reglulega skýrslugerð í netheimum. Það er ljómandi. Án hennar myndi ég t.d. ekki vita að Hugga syss var að selja íbúðina sína í dag og að Bára syss er komin í norska lúðrasveit. Heldur manni í sambandi.

Annars.

Þetta er nú búin að vera ljóta stressvikan. Og hún stefndi allan tímann á alstressaðasta daginn, í dag. Ég held það sé nú bara alveg ljóst að ég þurfi að fara að sætta mig við að 133,33 % nám, plús heimilið og óléttan og allt það, verður bara að duga á þessu misseri. Ég þarf til dæmis að hætta að þýða mér til viðurværis. (Ég þarf bara einhvern veginn að reikna fjárhaginn út þannig að ég þurfi þess ekki.) Ekki þar fyrir að eftir síðasta verkefni er ég margs vísari. Ég veit núna hvað allir í The Who hétu, og heita og að þeir hafa gert fullt af fleiri lögum en Pinball Wizard, til dæmis öll lögin úr byrjununum á CSI. Fróðlegt.
En gengur eiginlega ekki. Þegar maður hefur ekki tíma til að þrífa sig í tæpa viku, ja þá er bara of langt gengið. (Komst með harðfylgi í örskamma sturtu í morgun. Svo menn fari nú ekki að ímynda sér einhvern fnyk.)

Freigátan sló persónulegt met í vikunni og gat mætt í leikskólann í fjóra daga í röð! Í dag var hún hins vegar orðin horfoss og komin með smá hita, svo hún fékk að vera heima. Hún fékk m.a. að hjálpa til við sinn fyrsta baxtur og sleikti sleifar og skálar af mikill innlifun með öllu andlitinu. Hún er annars öll að hressast í leikskólanum og aðskilnaðurinn verður minna dramatískur með hverjum morgninum sem líður.

Núna er sumsé búið að sulla í ammlistertur fyrir bekkjarammli Smábáts sem haldið verður síðdegis. Í þetta sinn var nú samt tekin harðlínustefna varðandi allan umbúnað, aðeins var veitt leyfi fyrir að bjóða strákunum í bekknum og einhverjum örfáum fleiri félögum. Síðustu tölur herma að tveir komist ekki, svo það verða 10 manns sem koma til með að gúlla í sig pizzum og köku fyrir DVD-inu. Þar sem veðrið er bilað gott, reikna ég með að henda þeim síðan öllum út á trampolín að áti loknu.

En áður en þetta brestur á, þarf nú að erinda dáldið. Smábátsamma kemur um þrjúleytið og passar krúttin á meðan við Rannsóknarskip skreppum upp á Landspítala að láta athuga Ofurlitlu Dugguna. Já, nú er víst meðgangan hálfnuð og kominn tími á hina bráðskemmtilegu geimsýningu sem kallast sónar. Síðast sátum við nú bara, frekar álfaleg á svip, og sáum nú ekki mikla mannsmynd á þessu. En þá er bara að trúa konunni þegar hún segir að þarna sé handleggur og hitt sé haus og að allt sé í þessu líka glimmrandi lagi. Einhvern veginn text þeim nú líka oft að smella af sæmilega greinilegum myndum, og svo fær maður nottla viðmiðunardagsetninguna. Spennó.

Í bakaleiðinni þarf að versla gos og rjóma og eitt og annaðm sækja svo dót Freigátu á leikskólann og vera svo komin heim og búin með restina af undirbúningnum áður en strákastóðið brestur á, um fimmleytið. Öllu þarf síðan að vera búið að fleygja út klukkan 19:30 þegar Smábáturinn þarf að mæta í flug.

Svona einhvern veginn er skipulagið búið að vera hjá okkur. Allt brjálað hverja mínútu og ekkert má klikka neittm þá fer skipulagið, og þar með heimurinn, í vaskinn. Og nú er ég búin að þurfa að þýða og þýða svo heimavinnan mín í skólanum er komin lengst á eftir áætlun. Er til dæmis lítið búin að geta skoðað það sem ég ætla að þýða í maraþonþýðingadæminu á morgun. Því síður búin að setja saman ritaskrá um Molier, klassisima og Frakkland á 17. öld. Eða einu sinni gá hvaða kjánaskap hann Höskuldur er búinn að ætla okkur í Fræðilegu skrifunum fyrir miðvikudag.

Það liggur nú bara við að maður fari að hlakka til fæðingarorlofsins...

19.9.07

Miðvikudagur!

Upp er runninn enn einn maraþonskóladagurinn, undursamlega fagur eins og þeir eru jafnan. Hjólaði með Freigátuna í leikskólann. Eins og stóð til að gera alltaf á þriðjudögum og miðvikudögum þar til grindverkurinn næði endanlegri yfirhönd, en þetta er nú bara í fyrsta sinn sem hún er alveg óveik og leixkólafær á miðvikudegi.

Ýmis áður óþekkt rannsóknarverkefni eru óumflýjanleg í þessari skólagöngu, sem ég hef aldrei þurft að fást við fyrr. Allt í einu þarf ég að vita hvað klósettin eru. Hér áður fyrr held ég að ég hafi sjaldan eða aldrei pissað í skólanum. En var þá líka allsendis ó-ólétt of jafnan með vökvatap eftir síðasta fyllerí. (Ójá, minningarnar sem mæta manni hér á göngunum eru óneitanlega gjarnan þynnkukenndar.)
En núna veit ég um klósett í Aðalbyggingunni (meiraðsegja tvö!) Odda og Árnagarði. Mikill persónulegur sigur.

Ýmislegt hefur líka breyst í undarlegar áttir. Þó mér hafi ekki tekist að tengjast alnetinu í gegnum hið loftræna, sem mig grunar þó að liggi hér yfir öllu, þá virðast flestir geta það og hanga í netheimum á sínum eigin tölvum hérna úti um allt. Þetta hefur hins vegar í för með sér allsendis galtóm tölvuver á hverju strái. Og ég sit einmitt í einu svoleiðis og þarf að kála einum klukkutíma áður en ég þarf að mæta næst.

(Fundir í hinu Hagnýta rannsóknarnámskeiði taka nefnilega hreint ekki þann tíma sem stendur í stundartöflunni. En við eigum að nota tímann í verkefnistengt. Enda er ég að huxa um Baudelaire. Þ.e.a.s., ég er að huxa hvað ég veit hroðalega lítið um hann og hvað ég þarf mikið að fara í bókhlöðuna í næstu viku. Og halda mér vakandi þar. Yfir rannsóknum á frönsku ljóðskáldi. Hmmmm... ef það gerir ekki útaf við áhugakastið gerir það sennilega bara ekki neitt.)

Síðast en ekki síst; ég þakka snöfurmannleg viðbrögð ráðleggjenda í svari við fyrirspurn síðasta pistils. Endilega ekki hætta, detti fleirum fleira í hug, þó ég hafi ekki getað stillt mig um miðvikudaxrantið. Ég þarf nefnilega að skoða þetta örsnöggt og velja mér verkefni fyrir laugardag. Hvenær það á að þykjast gerast er hins vegar á nokkuð huldu. Skóli til 18 í dag, leikstjórnarnámskeið í kvöld, martraðarlega mikið eftir af þýðingu sem ég á að skila á föstudaxmorgun, og þá tekur við undirbúningur afmælis Smábáts í formi skynditiltektar og baxturs. (Já, það verður Bettí Krokker og ekki orð um það meir.)

En, manni býst nú alltaf einhvern veginn til tími, ef mann vantar.

Síðar:

Síðasti tími daxins er ævinlega hjá manninum sem vill helst tala um málvísindi. Þetta hefur hentað mér ágætlega. Þar sem ég skil álíka mikið í málvísindum og kínversku og gef þess vegna heilanum á mér frí um leið og einhver nefhljóða og u-hljóðvörpunarþvæla fer í gang. (Enda er maðurinn ekkert að kenna okkur málvísindi. En honum finnst bara skemmtilegt að taka dæmi um allskyns úr því fagi.) En ég er gjarnan, klukkan 15:00 til 17:20, á ofurskóladegi, alveg tilbúin í smá heilasvefn.

Í dag gerðist hið hroðalega. Ég gleymdi að loka heilanum, og skildi það sem hann var að segja. Mig langaði mest að stinga puttunum í eyrun og syngja.

Það er bara ekki pláss fyrir eitthvað alveg nýtt og ótengt öllu hinu sem ég er að gera, í hausnum á mér. Ef ég heyri eitt málsvísind í viðbót sem ég skil, þá snýst hausinn á mér í hringi, úr hálsliðnum og springur. Ofvaxnar heilaslettur út um allt.

Til að reyna að forðast þetta, or forðast að sofna, er ég þess vegna bara að skrifa blogg. Best að reyna að huxa um eitthhvað spennandi. Er til dæmis, á námskeiðinu í dag, að láta einhvern óþekktan gestaleikara beita mig heljarinnar heimilisofbeldi, undir stjórn Júlíu Hannam, eftir að ég tjái viðkomandi að mig langi til að sofa hjá honum/henni. Gaman hjá þeim sem fær að berja óléttu konuna...

Enn síðar:
Klukkan meira en ellefu. Loxins komin heim. Blerrrrghsyfj...

18.9.07

Hvaða leikrit á eftir að þýða?

Fékk óvæntar, en ánægjulegar, fréttir í þýðingafræði í dag. Á að þýða bókmenntatexta. Finna hann fyrir laugardag. Svari nú allir spekingar með skoðanir spurningunni í fyrirsögninni. Annars hringi ég í ykkur!
(Veit sko vel hver þið eruð.)

Annars ætla ég líka að reyna að sambanda nokkur ungleikskáld sem ég þekki í Ammríkunni síðan á Írlandinu um árið. Kannski eiga þær eitthvað stöff.

Allvega alveg svo hrrroðalega spennandi. Enginn endir á því hvað getur verið gaman.
Má nottla ekkert vera að fjalla um hvað ég er að þýða, vinnulega séð, en fyrstu ár The Who hafa nú ekkert verið óspennandi...

Jæja, þetta þýðir víst ekki...

Ég vissi alltaf

að einhvern tíma myndi koma sér vel að búa á svona nördlegu bókasafni. Þegar maður þarf að finna sér hluta úr einhverri fræðilegri grein til að greina í hverri viku (eins og í Ristjórn og fræðileg skrif) þá er nú skemmtilegt að eiga fleiri hillumetra af allskonar fræðum um allan andsk. til að velja úr. Ég hef ekki enn þurft að grípa til bókmenntafræði. Verst að svo dettur maður niður í þessar greinar og eyðir allt of löngum tíma í að lesa eitthvað allskonar annað en það sem maður á að vera að lesa. (Menn spyrja sig e.t.v. hví ég noti þá ekki bara það sem ég á að vera að lesa? Er búin að því einu sinni... en hitt er bara eitthvað svo freistandi, þegar maður rekur augun í eitthvað meira spennandi í hillunum og hrúgunum. Og svo má líka alveg kannski segja að ég sé nú alveg í aðstöðu til að geta alveg teygt mig í mjög góða ástæðu til að lesa um, til dæmis, þroskasálfræði.)

En nóg um fræðið. (Nema það er alltaf jafnskemmtilegt og ég er næstum búin að læra fyrir morgundaginn. Ætla reyndar að gera aðeins meira...)

Við Freigáta löbbuðum á leikskólann í dag, þar sem Rannsóknarskip fékk að vera á bílnum. Og fær að sækja hana af því að ég er að fara í skólann seinnipartinn. Ég hef huxað mér að hjóla í skólann. Ljóti grindverkurinn sem kom í heimsókn virðist ætla að láta undan síga eftir árangursríkar ferðir í rækt og sund í gær. Svo það borgar sig að halda áfram í allrahanda þjálfuninni, þá helst ég kannski nokkurn veginn á löppunum bara jafnvel fram undir jól.

Nú myndi ég reyna að grynnka eitthvað á heimilisstarfahrúgunni og skoða kannski eitthvað leikrit... ef ég væri ekki með algjörlega klikkaða og lahahanga þýðingu sem ég hef ekki hugljómun um hvernig ég á að klára fyrir föstudag.
Svo líklega er best að byrja á því eitthvað.

Mæli með bloggi Huggu syss í dag, ef menn vilja lesa eitthvað skemmtilegra. Mjög skemmtileg umfjöllun um blóðþrýsing.

Og faðir vor átti afmæli í gær. Ég gleymdi því ekki, nema rétt á meðan ég bloggaði.
Hann varð sextíuogeins. Og hann er í mastersnámi. Gott að vita að maður verður aldrei of gamall í svoleiðis.

17.9.07

Aðkenning að Zúpervúman

Fyrir næstum tíu árum varð ég of geðveik fyrir nokkra tilburði til Zúpervúmunar. Reyndi að vinna eins og "eðlileg" manneskja. (Eða eðlilegur íslendingur, tvöfalt.) Flippaði yfir á geðlyf. Síðan hef ég verið að nokkru leyti, eins og einhver Montpellieringurinn orðaði það, í veikindaleyfi frá lífinu. Smám saman hafa önnur svið lífsins síðan verið að mjakast í átt til þátttöku, en það eina sem er eftir er starfsframinn. Segi ekki að atvinnuþátttaka hafi ekki verið alveg sæmileg. Og stundum alveg hreint miklu meira en það. En ábyrgðarstörf hef ég forðast meira en eldinn.

Í dag, nánar tiltekið í Krónunni, fékk ég síðan aðkenning að Zúpervúmani. Það gerðist þegar ég var að versla inn fyrir vikuna, ákveða hvað ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn, meta hreinlætisvöruþörf heimilisins og versla afmælisbúnað, eftir að hafa farið með Freigátuna í leixkólann, svo í ræktina, að því loknu heim að læra fullt og þýða, og var á leiðinni í bumbusund áður en ég sækti Freigátuna aftur og færi heim og lærði meira með annarri hendi, með hina hendina á píanóæfingu Smábátsins og Freigátuna prílandi upp á hausinn á mér, eldaði að því loknu kvöldmatinn áður en ég færi á námskeið. Þá fattaði ég það allt í einu. Ég var að zúpevúmana. Það var ekki baun skerí, stressandi eða hættulegt. Eða kvíðaraskandi. Bara hreinasta skemmtun. Segi kannski ekki að ég sé alveg reddí í stjórnun Eddu útgáfu, en það styttist íða.

Auðvitað veit ég svosem að ég klikkaði á mikilvægu grundvallaratriði í gamla daga. Ég hélt að starfsferillinn ætti að ganga þannig fyrir sig að maður fyndi það sem væri best borgað af því sem maður kynni sæmilega, og settist að í svoleiðis starfi. Ég gleymdi að gera ráð fyrir að maður ætti að hafa einhvers konar gaman af því sem maður gerði, minnst 8 tíma á sólarhring. En, eins og ég var að játa um daginn, ég var talsverður fáviti þegar ég var yngri. Svo vítlaus, reyndar, að það gerði mig geðveika.

En núna er alltsaman að horfa til betri vegar. Fyrir næstum réttum þremur árum hrökk einkalífið í fúnksjónal úr dys-. Áður hafði akademíski ferillinn jafnað sig og klárað hina langþráðu meistaragráðu í fræðum bókmenntanna. Og nú er allt að verða hreint fullkomið. Reyndar fannst mér allt verða um það bil svoleiðis fyrir þessum tæpu þremur árum síðan, en síðan hefur allt lífið bara haldið áfram að bestna og bestna. Og alltaf þegar ég held að allt sé orðið fullkomið, þá bestnar það meira.

Og áfram í góðu fréttunum. Í dag vorum við Freigáta einstaklega aðlagaðar. Þegar hún grenjaði yfir brottför minni í dag vissum við báðar að það va hreinasta formsatriði. Ég var ekki komin út úr forstofunni þegar hún var hætt. Og ég fór heim með algjörlega hnútlausan maga og gat einbeitt mér að zúperi daxins með afbragðsárangri. Og það sem betra var, hún var ekki einu sinni hissa að sjá mig þegar ég kom að sækja hana, og það leyfði ekkert af því að hún vildi koma með mér. Mér fannst nefnilega eiginlega verst þegar hún grét þegar hún sá mig aftur, af örvæntingarfullum fögnuði, eins og hún hefði hreint ekki búist við því að sjá mig aftur. Núna er hún sem sagt búin að átta sig á því að ég kem alltaf aftur. Og okkur líður báðum betur.

Og nú er Zúpervúman búin að skrifa allt þetta blogg í hjáverkum, með því að klæða Smábátinn í pollagallann og senda hann í píanótímann, hafa ofan af fyrir Freigátunni á meðan hann æfði sig og parkera henni svo með seríós fyrir framan Píngú. Og ætlar að reyna að læra smá.

Zúper.

16.9.07

Padda!


Í morgun fann ég einhvern ógeðsmaur á eldhúsgólfinu. Var það haft til marks um að það væri talsvert löngu tímabært að gera almenn gólfþrif á heimilinu. Og var að gjört í dag. Eftir það átak vorum við Rannsóknarskip svo ánægð með sjálf okkur að við fórum með Freigátuna í lannnga gönguferð í kringum tjörnina og í kirkjugarðinn við Suðugurgötu. Þar fór fram mikil barátta við Freigátuna sem vildi meina að reyniberin sem lágu úti um allt væri rifsber og vildi fá að éta þau. Annars var óstjórnlega fagurt í kirkjugarðinum og við vorum auðvitað ekki með myndavélina. Hins vegar voru nýjar myndir trixaðar inn í tölvuna, og hér eru nokkur sýnishorn.


Lox hefur verið komist að niðurstöðu um afmælishátíð Smábáts sem hefur frestast úr hófi sökum sumars og veikinda. (Hann á sko afmæli á Jónsmessu.) Þannig að, á föstudag verður 18 11 ára piltum boðið til pítsuáts í húsnæði voru. (Í bekknum eru nú þrjátíu manns, svo stúlkur verða af veislunni í þetta sinn.) Hvernig það nú rúmast hefi ég ekki einn grun. En ljósi punkturinn við alltsaman er að þessum yfirvofandi viðburði verður lokið á föstudaxkvöld og munu allir heimilismenn anda léttar.

Á morgun þarf ég hins vegar að grípa réttum höndum ó öll rassgötin á mér, koma mér í ræktina, læra fullt og fara í bumbusund. Herra grindverkur er kominn í heimsókn, en ég vil helst að hann fari aftur, allavega einu sinni enn. Þannig að, eftir að við Freigáta eigum okkar dramatísku stund í leixkólanum í fyrramálið, mun ég leggja leið mína í þrekhúsið, lyfta, sprikla og teygja alveg fullt. Svo þarf ég að gera tvö verkefni. Eitt gáfulegt og annað bjánalegt. En miðvikudagurinn nálgast óðfluga, svo það er betra að fara að drífa í heimavinnu vikunnar. Já, og svo er leikstjórnarnámskeið annað kvöld! það er rosa gaman á því.

Það er að byrja frönsk mynd í sjónvarpinu. Ég verð að fara að klára þetta og forða mér í rúmið. Hrjót.